Álit Fjölmiðlanefndar nr. 1/2023 vegna viðskiptaboða fyrir nikótínvörur á RÚV og bann við viðskiptaboðum fyrir nikótínvörur

Fjölmiðlanefnd hefur komist að þeirri niðurstöðu að Ríkisútvarpið ohf. hafi brotið gegn 4. mgr. 37. gr. laga um fjölmiðla nr. 38/2011 með miðlun viðskiptaboða fyrir nikótínvörur á RÚV.


Málið var tekið til efnislegrar meðferðar á grundvelli áframsendra ábendinga frá Neytendastofu í mars 2023. Í ábendingunum var vakin athygli á því að á RÚV hefðu birst auglýsingar (viðskiptaboð) fyrir nikótínpúða frá versluninni Svens, sem er í eigu Svens ehf. Í kjölfar ábendinganna tók Fjölmiðlanefnd til skoðunar viðskiptaboð sem höfðu birst á miðlum Ríkisútvarpsins ohf.

Í áliti Fjölmiðlanefndar kemur fram að viðskiptaboð frá Svens á RÚV, sem voru vísun til annars vegar gamallar auglýsingar fyrir iPod/iTunes frá Apple og hins vegar vörukynningar Apple (lengri og styttri útgáfa), teljist til viðskiptaboða fyrir nikótínvörur og að með miðlun þeirra hafi Ríkisútvarpið ohf. þar með gerst brotlegt við þann hluta 4. mgr. 37. gr. laga um fjölmiðla sem bannar viðskiptaboð fyrir nikótínvörur.

Fjölmiðlanefnd ákvað að falla frá sektarákvörðun í málinu með vísan til 1. málsl. 5. mgr. 54. gr. laga um fjölmiðla. Við þá ákvörðun var tekið mið af því að Ríkisútvarpið ohf. hefur ekki áður brotið gegn lögum um fjölmiðla með miðlun viðskiptaboða fyrir nikótínvörur. Jafnframt var til þess litið að ekki hefur áður reynt á bann við viðskiptaboðum fyrir nikótínvörur, enda um nýlegar reglur að ræða, og atvika máls að öðru leyti.

Álit Fjölmiðlanefndar nr. 1/2023

Bann við viðskiptaboðum fyrir nikótínvörur


Í júlí 2022 tók gildi almennt auglýsingabann á nikótínvörum, þar á meðal í fjölmiðlum. Þetta kemur fram í lögum um nikótínvörur, rafrettur og áfyllingar fyrir rafrettur nr. 87/2018 en einnig í breytingum sem gerðar voru á 4. mgr. 37. gr. laga um fjölmiðla nr. 38/2011. Nikótínvörur eru vörur sem innihalda nikótín, hvort sem nikótínið er unnið úr tóbaki eða ekki, og varan inniheldur að öðru leyti ekki efni sem unnin eru úr tóbaki en er ekki til innöndunar. Dæmi um slíkar vörur eru nikótínpúðar en mikil aukning hefur orðið í innflutningi þeirra og notkun á síðustu árum. Meðal markmiða framangreindra lagabreytinga er að „tryggja með tiltækum ráðstöfunum að börn hvorki kaupi né noti nikótínvörur“.

Fjölmiðlanefnd hefur eftirlit með banni við auglýsingum á nikótínvörum í fjölmiðlum, ásamt banni við öðrum ólögmætum viðskiptaboðum í fjölmiðlum. Neytendastofa fer með almennt eftirlit með auglýsingabanni á nikótínvörum, þar með talið auglýsingum á samfélagsmiðlum.

Í samræmi við fyrrgreind breytingalög var orðinu „nikótínvörur“ bætt við upptalningu 4. mgr. 37. gr. laga um fjölmiðla þar sem fram kemur hvaða vörur er óheimilt að auglýsa með viðskiptaboðum í fjölmiðlum. Með viðskiptaboðum er átt við texta, myndir og/eða hljóð sem er ætlað að vekja, beint eða óbeint, athygli á vörum, þjónustu eða ímynd lögaðila eða einstaklings sem stundar atvinnustarfsemi og er miðlað gegn greiðslu eða öðru endurgjaldi eða til kynningar í eigin þágu. Til viðskiptaboða teljast m.a. auglýsingar, kostun og vöruinnsetning. Auglýsingar fyrir nikótínvörur eru því óheimilar, líkt og á við um t.d. tóbak og áfengi. Bannið á við um vörur og vörumerki en leyfilegt er að auglýsa sölustaði fyrir nikótínvörur, eins og Fjölmiðlanefnd benti á í umsögn sinni um frumvarp til áðurnefndra breytingalaga.[1]

Í tilviki laga um fjölmiðla er það Fjölmiðlanefndar að meta hvort auglýsing telst innan marka laganna eða ekki. Á framangreint reynir varðandi viðskiptaboð fyrir nikótínvörur í fyrrgreindu áliti Fjölmiðlanefndar nr. 1/2023. Þar kemur fram að Fjölmiðlanefnd fallist ekki á að umrædd viðskiptaboð vísi eingöngu til sölustaða nikótínvara, heldur vísi þau til nikótínvara og/eða vörumerkja með því að sýna meðferð þeirra eða neyslu, með beinum eða óbeinum hætti, eða gefa í skyn með öðrum hætti að átt sé við nikótínvörur. Af því leiði að umrædd viðskiptaboð geti ekki talist innan þeirra marka sem lög um fjölmiðla heimila.

Af álitinu leiðir jafnframt það mat Fjölmiðlanefndar að hið sama geti átt við um önnur sambærileg viðskiptaboð. Viðskiptaboð þar sem vísað er til nikótínvara og/eða vörumerkja, sýnd meðferð þeirra eða neysla, eða gefið í skyn með öðrum hætti að átt sé við nikótínvörur, hvort sem það er gert beint eða óbeint, teljast til viðskiptaboða fyrir nikótínvörur að mati nefndarinnar og eru þar með óheimil. Að öðrum kosti myndi bann við viðskiptaboðum fyrir nikótínvörur ekki þjóna tilgangi sínum.

Að baki banni við viðskiptaboðum fyrir nikótínvörur liggja m.a. lýðheilsusjónarmið. Nikótín er ávanabindandi efni og hefur ýmis örvandi áhrif á líkamann.[2] Í umsögn embættis landlæknis um frumvarp til breytinga á lögum um rafrettur og áfyllingar fyrir rafrettur nr. 87/2018 kemur fram að notkun nikótíns geti haft neikvæð áhrif á þroska heilans hjá börnum og ungmennum, einkum á þau svæði heilans sem stýra einbeitingu, skapi, hvatastjórnun o.fl.[3]

Notkun nikótínpúða, sem oft eru kallaðir „púðar“ eða „koddar“ í daglegu tali, er orðin nokkuð útbreidd, sérstaklega meðal ungs fólks. Virðist sem viðskiptaboðum (auglýsingum) fyrir nikótínpúða sé sérstaklega ætlað að höfða til ungs fólks sem endurspeglast í vinsældum þeirra meðal þess aldurshóps. Samkvæmt tölum frá embætti landlæknis fyrir árið 2022 var dagleg notkun nikótínpúða mest hjá körlum á aldrinum 18-34 ára, eða tæplega 28%. Hjá konum á sama aldri var hlutfallið tæplega 19%.[4]

Notkunin er jafnframt nokkuð útbreidd meðal barna og ungs fólks í grunnskólum og framhaldsskólum sem verður að teljast áhyggjuefni. Samkvæmt niðurstöðum rannsóknar sem Rannsóknir og greining framkvæmdi meðal framhaldsskólanema í nóvember 2021, höfðu 18% stelpna yngri en 18 ára notað nikótínpúða einu sinni eða oftar síðastliðna 30 daga en 16% stráka í sama aldurshópi. Hlutfallið var hærra hjá 18 ára og eldri framhaldsskólanemum eða 31% hjá stelpum og 32% hjá strákum.[5] Samkvæmt niðurstöðum Íslensku æskulýðsrannsóknarinnar, sem framkvæmd var vorið 2022 af Menntavísindastofnun Háskóla Íslands, höfðu 17% stelpna og 14% stráka í 10. bekk grunnskóla notað nikótínpúða einhvern tímann á ævinni.[6]

Eitt af meginverkefnum Fjölmiðlanefndar er vernd barna og skal nefndin stuðla að því að vernd barna sé virt samkvæmt fyrirmælum laga um fjölmiðla, sbr. 1. mgr. 10. gr. laganna. Gildir þetta m.a. um vernd þeirra gegn viðskiptaboðum og öðru efni sem getur haft skaðvænleg áhrif á líkamlegan, andlegan eða siðferðilegan þroska barna, sbr. 1. mgr. 28. gr. og 38. gr. laga um fjölmiðla. Vernd barna og ungmenna gegn óheimilum viðskiptaboðum fyrir nikótínvörur í fjölmiðlum er mikilvægur þáttur í því að sporna gegn aukinni notkun.

[1] Umsögn Fjölmiðlanefndar um frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 87/2018, um rafrettur og áfyllingar fyrir rafrettur (nikótínvörur), 450. mál.

[2] https://www.visindavefur.is/svar.php?id=2309, og https://www.althingi.is/altext/152/s/0649.html, um 9. gr.

[3] Umsögn embættis landlæknis um frumvarp til laga um rafrettur og áfyllingar fyrir rafrettur (nikótínvörur), mál 450.

[4] Talnabrunnur – Fréttabréf landlæknis um heilbrigðisupplýsingar. Áfengis- og tóbaksnotkun 2022 – Vöktun áhrifaþátta. Embætti landlæknis febrúar 2023, bls. 5.

[5] Lýðheilsa framhaldsskólanema. Niðurstöður rannsókna meðal framhaldsskólanema á Íslandi í nóvember 2021. Heildarniðurstöður. Rannsóknir og greining 2022, bls. 12.

[6] Íslenska æskulýðsrannsóknin. Niðurstöður fyrir 6., 8. og 10 bekk. Landstölur – Vor 2022. 2. hluti – Netsamskipti & tölvuleikir, kynheilsa og áfengi & fíkniefni. Menntavísindastofnun Háskóla Íslands 2022, bls. 28.