Fjölmiðlanefnd hefur komist að þeirri niðurstöðu að Sýn hf. hafi brotið gegn 2. mgr. 37. gr. laga um fjölmiðla nr. 38/2011 um bann við duldum viðskiptaboðum, sbr. 1. mgr. sömu greinar, með miðlun tiltekinna innslaga í sjónvarpsþáttunum LXS á Stöð 2 og Stöð 2+.
Málið var tekið til efnislegrar meðferðar á grundvelli ábendingar sem barst Neytendastofu í nóvember 2022 og var áframsend Fjölmiðlanefnd. Í ábendingunni var athygli vakin á því að finna mætti duldar auglýsingar í sjónvarpsþáttunum LXS á Stöð 2 og Stöð 2+. Í kjölfar ábendingarinnar tók Fjölmiðlanefnd þættina til frekari skoðunar.
Í ákvörðun Fjölmiðlanefndar kemur fram að innslögin, sem nánar er gerð grein fyrir í ákvörðun nefndarinnar, teljist til dulinna viðskiptaboða og með miðlun þeirra hafi Sýn hf. þar með brotið gegn 2. mgr. 37. gr. laga um fjölmiðla.
Fjölmiðlanefnd taldi ekki ástæðu til að falla frá sektarákvörðun í málinu. Við þá ákvörðun var tekið mið af því að Sýn hf. hefur áður brotið gegn 2. mgr. 37. gr. laga um fjölmiðla. Jafnframt var litið til eðli brots Sýnar hf. og atvika máls að öðru leyti. Taldi Fjölmiðlanefnd hæfilegt að sektin næmi 500.000 kr.
Ákvörðun 1/2023: Dulin viðskiptaboð í sjónvarpsþáttunum LXS á Stöð 2 og Stöð 2+ – 5. júlí 2023