Ákvörðun 2/2023: Beiðni trúfélagsins Votta Jehóva um andsvar á grundvelli 36. gr. laga um fjölmiðla vegna umfjöllunar um félagið í miðlum Ríkisútvarpsins í janúar 2023 – 24. ágúst 2023

Fjölmiðlanefnd hefur komist að þeirri niðurstöðu að Ríkisútvarpinu ohf. hafi verið heimilt að synja beiðni Votta Jehóva um andsvör vegna umfjöllunar um félagið í miðlum Ríkisútvarpsins í janúar 2023, á grundvelli a- og b-liðar 2. mgr. 36. gr. laga um fjölmiðla.

Fjölmiðlanefnd barst kvörtun trúfélagsins Votta Jehóva þann 25. júlí 2023, vegna ætlaðra brota Ríkisútvarpsins á m.a. 36. gr. laga um fjölmiðla um rétt til andsvara. Nánar tiltekið var kvartað yfir umfjöllun Ríkisútvarpsins um trúfélagið í útvarpsþættinum Þetta helst, 12. og 13. janúar 2023, umfjöllun á vefsvæði RÚV 12. janúar 2023 og í sjónvarpsþættinum Kastljósi, 18. janúar 2023. Fram kom í kvörtun að í fyrrgreindum þáttum og á vef hafi verið fjallað með óvægnum hætti um trúfélagið Votta Jehóva þar sem settar hafi verið fram alvarlegar og rangar ásakanir á hendur Vottum Jehóva.

Í kvörtuninni eru gerðar athugasemdir við að ekki hafi verið haft samband við kvartanda til að veita honum færi á að koma sjónarmiðum á framfæri. Einnig eru gerðar athugasemdir við sinnuleysi um hagsmuni trúfélagsins með því að láta hjá líða að bregðast við kröfum þess um birtingu andsvara sem settar voru fram með bréfi 3. mars 2023 og ítrekaðar voru með tölvubréfi 14. mars 2023.

Um lagarök var vísað til 36. gr. laga um fjölmiðla nr. 38/2011 um rétt til andsvara og 26. gr. sömu laga um lýðræðislegar grundvallarreglur og hlutlægni og nákvæmni í fréttum og fréttatengdu efni. Óskaði kvartandi eftir því að Fjölmiðlanefnd hlutaðist til í málinu og tryggði rétt kvartanda til andsvara í samræmi við 4. mgr. 36. gr. laga um fjölmiðla. Var sú krafa gerð að RÚV yrði gert að birta andsvör félagsins, sem fram hefðu komið í bréfi kvartanda til Ríkisútvarpsins 3. mars 2023.

Í ákvörðun Fjölmiðlanefndar kemur fram að andsvör Votta Jehóva, sem sett voru fram í bréfi félagsins til Ríkisútvarpsins þann 3. mars 2023, hafi farið yfir þau mörk í tíma og lengd sem nauðsynleg geti talist til að leiðrétta staðreyndir málsins, sbr. a-lið 2. mgr. 36. gr. laga um fjölmiðla. Þá telur Fjölmiðlanefnd að tilgreind andsvör hafi falið í sér annað og meira en að leiðrétta þær staðreyndir sem fram höfðu komið, sbr. b-lið 2. mgr. 36. gr. sömu laga.

Var það því niðurstaða nefndarinnar að kvartandi ætti ekki rétt til þeirra andsvara sem óskað hafði verið eftir á grundvelli 36. gr. laga um fjölmiðla, vegna umfjöllunar Ríkisútvarpsins um trúfélagið Votta Jehóva í janúar 2023.

Ákvörðun nr. 2/2023: Beiðni trúfélagsins Votta Jehóva um andsvar á grundvelli 36. gr. laga um fjölmiðla vegna umfjöllunar um félagið í miðlum Ríkisútvarpsins í janúar 2023 – 24. ágúst 2023