Tæknirisar þurfa að fara að nýjum reglum

Skömmu fyrir helgi hóf framkvæmdastjórn ESB að framfylgja reglugerð um stafrænar þjónustur (Digital Services Act, DSA) gagnvart stærstu tæknifyrirtækjum heims, eins og Meta og Google. Reglurnar eiga að auka öryggi notenda á netinu og gilda m.a. um 19 stærstu netþjónustur samtímans, þar á meðal samfélagsmiðla, eins og Facebook og Tik Tok, og leitarvélarnar Google og Bing.  

Reglur DSA eiga m.a. að tryggja:

-Bann við markaðssetningu  sem beinist að börnum

Óheimilt verður að beina auglýsingum, sem byggjast á persónusniði, að börnum undir 18 ára aldri.  

-Bann við markaðssetningu sem byggir á viðkvæmum persónuupplýsingum

Óheimilt verður að beina sérsniðnum auglýsingum, sem byggjast á persónusniði, að fólki á grundvelli svokallaðra viðkvæmra persónuupplýsinga, t.d. um trú, kynhneigð, heilsufar og pólitískar skoðanir.

Að tæknirisar fjarlægi ólögmætt efni.

Útnefndir verða „viðurkenndir tilkynnendur“ í hverju landi, t.d. lögregla, og fá tilkynningar um ólögmætt efni frá slíkum aðilum flýtimeðferð.

Að tæknirisar bjóði upp á kvörtunarfarveg fyrir notendur hafi efni þeirra verið fjarlægt.

-Meira gagnsæi um notkun meðmælakerfa og algóritma og möguleiki á að hafa áhrif á það hvernig efni birtist notendum, t.d. í fréttaveitum samfélagsmiðla.

Sem dæmi hafa stjórnendur Facebook gefið út yfirlýsingu um að Instagram notendur muni geta valið að sjá einungis Stories og Reels frá þeim sem þeir fylgja og í réttri tímaröð. Einnig verður í boði að leitarniðurstöður byggist eingöngu á leitarorðum en ekki á notkun persónusniðs.

-Að tæknirisarnir axli meiri ábyrgð á innihaldi á eigin miðlum og framkvæmi áhættumat með reglubundnum hætti, til að m.a. draga úr líkum á því að hönnun og notkun algóritma stofni grundvallarréttindum notenda í hættu, sér í lagi barna. Einnig á slíkt áhættumat að miða að því að sporna við m.a. netofbeldi gegn konum, vinna gegn misnotkun miðlanna, t.d. upplýsingaóreiðuherferðum í tengslum við kosningar eða stríð, og standa vörð um frelsi fjölmiðla.

Að fræðimenn og eftirlitsstofnanir fái aðgang að gögnum tæknirisanna og upplýsingar um notkun algóritma og meðmælakerfa.

-Meira gagnsæi um auglýsingar og auglýsendur
Skylt verður að veita meiri upplýsingar um auglýsingar, auglýsendur og af hverju notendur sjá tilteknar auglýsingar á miðlum sínum.

Samkvæmt tilkynningu frá stjórnendum Facebook mun DSA t.d. hafa þau áhrif að svipaðar upplýsingar verða nú veittar um allar auglýsingar á Facebook og hingað til hafa eingöngu verið veittar um pólitískar auglýsingar og auglýsingar um samfélagsleg málefni.  Upplýsingarnar verða sem fyrr aðgengilegar í Auglýsingasafni Facebook, „Facebook Ad Library“ sem var opnað fyrir evrópskan markað 2018 en það nær til allra auglýsinga sem birtast notendum á Facebook og Instagram. Auglýsingasafn Facebook hefur innihaldið upplýsingar um auglýsingar á Íslandi frá 2021.

Hverjir hafa eftirlit með framkvæmdinni?

Eftirlit með stærstu tæknirisunum verður í höndum framkvæmdastjórnar ESB en eftirlit með öðrum og minni þjónustuaðilum verður í höndum innlendra aðila í hverju aðildarríki EES.

Þann 17. febrúar 2024 hefja innlendir aðilar innan ESB eftirlit með framfylgd DSA gagnvart öðrum netþjónustum, þ.e. öðrum en þeim allra stærstu. Á Íslandi verður DSA ekki framfylgt fyrr en DSA-reglugerðin hefur verið tekin upp í EES-samninginn og í kjölfarið innleidd í íslensk lög. Mikilvægur hluti af verkefnum innlendra eftirlitsaðila verður að fylgja eftir formlegum kvörtunum notenda yfir brotum tæknirisa á reglum DSA og tryggja að slík brot komi til skoðunar hjá framkvæmdastjórn ESB. Ekki hefur verið ákveðið hver eða hverjir fái það hlutverk að framfylgja reglum DSA hér á landi.

Þess má geta að flestir stærstu samfélagsmiðlar, mynddeiliþjónustur og leitarvélar heims eru staðsettir í írskri lögsögu. Má þar nefna Meta, sem starfrækir Facebook og Instagram, og Alphabet, eiganda YouTube og Google. Í Írlandi hefur ný og öflug fjölmiðla- og netöryggisstofnun tekið til starfa og mun hún meðal annars sinna eftirliti með ákvæðum DSA á grundvelli nýrra, írskra laga um netöryggi og fjölmiðla.

Yfirlit yfir þá tæknirisa sem framkvæmdastjórn Evrópusambandsins hefur eftirlit með.

Viðtal Reykjavík síðdegis á Bylgjunni við Skúla Braga Geirdal um Digital Services Act 26. ágúst sl.

Umfjöllun stjórnanda alþjóðamála hjá Meta um helstu breytingar sem DSA hefur í  för með sér fyrir notendur Facebook og Instagram.

Reglugerð um stafræna þjónustu (Digital Services Act).