Rúmlega 1.400 börn hafa nú tekið þátt í Netumferðarskólanum

Netumferðarskólinn hefur síðustu vikur heimsótt 14 skóla í 14 bæjarfélög á hringferð sinni um landið sem er nú rétt rúmlega hálfnuð.Verkefnið er samstarfsverkefni Persónuverndar og Fjölmiðlanefndar og miðar að því að efla fræðslu um persónuvernd og miðlalæsi sem hluta af netöryggi barna í stafrænni tilveru. Netumferðarskólinn er ætlaður börnum í 4.-7. bekk grunnskóla og hafa nú þegar um 1.400 börn tekið þátt. Fræðsluerindin eru blanda af fyrirlestri, hópverkefni og samtali við börnin þar sem áherslan er á vitundarvakningu, hugtakaskilning og valdeflingu.

Í lok fræðslunnar fá börnin sjálf að segja sína skoðun og þar hefur margt athyglisvert komið í ljós. Öll börnin hafa tekið undir það að lokinni fræðslu að mikilvægt sé að gæta að persónuupplýsingum, að nauðsynlegt sé að vera gagnrýninn á upplýsingar á netinu og að reglur um símnotkun ættu líka að gilda um foreldra. Stór hluti tekur undir að það sé rétt að virða 13 ára aldurstakmarkið á samfélagsmiðlum þrátt fyrir að þau sjálf séu nú þegar farin að nota miðlana án þess að hafa náð tilskildum aldri.

Skúli Bragi Geirdal verkefnastjóri miðlalæsis hjá Fjölmiðlanefnd með erindi í Egilsstaðaskóla

50 fræðsluerindi í 14 sveitarfélögum fyrir börn, foreldra og kennara

Í heildina hefur starfsfólk stofnananna haldið hátt í 50 fræðsluerindi fyrir börn, foreldra og kennara og hafa viðtökurnar farið fram úr væntingum. Í foreldrafræðslunni er farið í miðlanotkun barna og ungmenna og rætt um gagnleg úrræði fyrir foreldra til að styðja við börnin í netumferðinni. Kennurum er boðin fræðsla um grunnatriði persónuverndar í skólastarfi ásamt því að kynna þeim verkefni Netumferðarskólans. Þau bæjarfélög og þeir skólar sem ekki fá heimsókn munu fá fræðsluefni á aðgengilegu formi á nýrri heimasíðu sem opnuð verður á næsta ári í nafni Netumferðarskólans.

Átakið var tilkynnt á alþjóðlega netöryggisdeginum í ár og er hluti af aðgerðaáætlun stjórnvalda í netöryggi 2022-2027. Þessa vikuna er skólinn á ferð um Vesturland og í næstu viku verður hann á Norðurlandi.

Steinunn Birna Magnúsdóttir frá Persónuvernd með erindi í Nesskóla.