Fjölmiðlanefnd hefur komist að þeirri niðurstöðu að Steig ehf., fjölmiðlaveita Bæjarins besta, skuli birta andsvör Ívars Arnar Haukssonar vegna umfjöllunar á vef Bæjarins besta um veiðar í Sunndalsá. Voru andsvörin birt á vef Bæjarins besta þann 18. nóvember sl.
Málið var tekið til efnislegrar meðferðar á grundvelli kvörtunar frá Ívari Erni Haukssyni vegna umfjöllunar á vef Bæjarins besta, bb.is. Í kvörtuninni var vísað til 36. gr. laga um fjölmiðla nr. 38/2011 (lög um fjölmiðla) um rétt til andsvara. Að mati kvartanda hafði Bæjarins besta ekki orðið við beiðni hans um að koma á framfæri andsvörum vegna umfjöllunar miðilsins.
Í ákvörðun Fjölmiðlanefndar kemur fram að kvartandi hafi að mati nefndarinnar leitt að því líkur að lögmætir hagsmunir hans hafi beðið tjón af því að rangt hafi verið farið með staðreyndir í umfjöllun á vef Bæjarins besta, sbr. 1. mgr. 36. gr. laga um fjölmiðla, og að hann ætti rétt á að koma andsvörum á framfæri. Steig ehf. hafi ekki brugðist með fullnægjandi hætti við beiðni kvartanda um andsvör þegar fyrir lá að hann vildi koma þeim á framfæri, sbr. 4. mgr. 36. gr. laga um fjölmiðla. Var Steig ehf. gert að birta andsvör Ívars Arnar Haukssonar á vef Bæjarins besta, bb.is. Voru eftirfarandi andsvör birt á vefnum þann 18. nóvember sl.:
„Í fyrsta lagi er rangt að ég hafi stundað veiðar í Sunndalsá þótt framsetning og myndbirting frétta BB gefi slíkt sterklega í skyn. Ég tók einungis upp myndefni af hópi við veiðar en er málaður upp sem einhverskonar forsprakki hópsins, sem er rangt. Í öðru lagi var ekki veitt í óþökk eða óleyfi landeigenda. Friðleifur Guðmundsson fékk leyfi fyrir hópinn hjá landeigendum. Fram kom að einungis 2/3 landeigenda hafi heimilað veiðar, en BB spurði veiðiréttarhafa ekkert út í þá lögbundnu skyldu þeirra að stofna veiðifélag skv. 37. gr. laga um lax- og silungsveiði. Í þriðja lagi er talað um í fréttum BB af málinu að hópurinn hafi veitt 16 laxa í net. Það er rangt, raunin er sú að enginn eldislax veiddist í net í Sunndalsá en heildartala eldislaxa sem veiddust í þessari ferð var yfir 20 eldislaxar úr þremur mismunandi ám á sunnanverðum Vestfjörðum.
Þá fjallar BB hvergi um þá staðreynd að Hafrannsóknarstofnun hefur í fréttum sínum áréttað að árvekni veiðimanna sé mikilvæg ásamt því að koma sérstaklega á framfæri þökkum til veiðimanna sem hafa veitt og skilað inn eldislaxi. Þrátt fyrir það vitnar BB beint í starfsmann Hafrannsóknastofnunar í sinni umfjöllun. Að lokum minnist BB hvergi á aðgerðaráætlun Fiskistofu frá 12. september. Í henni framlengdi Fiskistofa veiðitímabilið til og með 15. nóvember 2023 í þeim tilgangi eingöngu að leita uppi og fjarlægja eldislax úr ám til varnar vistfræðilegu tjóni. BB fullyrðir í tveimur fréttum sínum af málinu að veiðitímabilinu hafi verið lokið þegar veiðarnar sem voru myndaðar fóru fram, sem er rangt.“