Ákvörðun Fjölmiðlanefndar nr. 4/2023 – Miðlun viðskiptaboða fyrir áfengi á Vísi

Fjölmiðlanefnd hefur komist að þeirri niðurstöðu að Sýn hf. hafi brotið gegn 4. mgr. 37. gr. laga um fjölmiðla nr. 38/2011 um bann við viðskiptaboðum fyrir áfengi með miðlun viðskiptaboða fyrir vörutegundirnar Víking Gylltur, Víking Lite og Víking Lager á Vísi.

Málið var tekið til efnislegrar meðferðar á grundvelli kvörtunar frá Kristleifi Skarphéðni Brandssyni yfir viðskiptaboðum fyrir áfengi á Vísi. Í kvörtuninni kom fram að á Vísi hafi birst auglýsing frá Víking Brugghúsi fyrir vörutegundina Víking Gylltur. Fjölmiðlanefnd veitti því athygli að á sama tíma voru í birtingu á Vísi viðskiptaboð fyrir vörutegundirnar Víking Lite og Víking Lager.

Í ákvörðun Fjölmiðlanefndar kemur fram að viðskiptaboðin teljist til viðskiptaboða fyrir áfengi og að með miðlun þeirra á Vísi hafi Sýn hf., sem fjölmiðlaveita vefmiðilsins, brotið gegn þeim hluta 4. mgr. 37. gr. laga um fjölmiðla sem bannar slík viðskiptaboð.

Fjölmiðlanefnd taldi ekki ástæðu til að falla frá sektarákvörðun í málinu. Við þá ákvörðun var tekið mið af því að Sýn hf. hafi margítrekað brotið gegn 4. mgr. 37. gr. laga um fjölmiðla um bann við viðskiptaboðum fyrir áfengi. Jafnframt var litið til eðli brots Sýnar hf. og atvika máls að öðru leyti. Taldi Fjölmiðlanefnd hæfilegt að sektin næmi 1.500.000 kr.

Ákvörðun Fjölmiðlanefndar nr. 4/2023