Upplýsinga- og miðlalæsisvika í annað sinn á Íslandi 12.-16. febrúar
Sérstök fræðsluvika tileinkuð upplýsinga- og miðlalæsi verður haldin í annað sinn á Íslandi vikuna 12.-16. febrúar. Fordæmi eru fyrir slíkum vikum í öðrum löndum og var vinnuhópurinn sem stendur að verkefninu t.a.m. í góðu samstarfi við KAVI í Finnlandi og Medietilsynet í Noregi við undirbúning fræðsluvikunnar í fyrra en þá fengu allir skólar sendan fræðslupakka með sex fræðslumyndböndum ásamt kennslustuðningi. Fræðsluefnið er ætlað fyrir börn á miðstigi um samskipti og líðan á netinu, áhorf á klám, fréttir og falsfréttir og ábyrga notkun samfélagsmiðla. Um er að ræða árlegan viðburð þar sem lögð er áhersla á vitundarvakningu um mikilvægi upplýsinga- og miðlalæsis ásamt því að bjóða upp á nýtt fræðsluefni með mismunandi þema milli ára.
Fyrir fræðsluvikuna í ár voru ný skjátímaviðmið fyrir börn og ungmenni unnin af Fjölmiðlanefnd og Geðheilsumiðstöð barna. Viðmiðin má finna hér.
Hápunktur fræðsluvikunnar verður svo málþing um velferð barna í stafrænum heimi sem haldið verður í Grósku fimmtudaginn 15. febrúar nk. Skráning á málþingið fer fram hér.
Tengslanet um upplýsinga- og miðlalæsi (TUMI) stendur að vikunni með styrk frá Fjölmiðlanefnd.
Eftirfarandi stofnanir, ráðuneyti, fyrirtæki og samtök eiga fulltrúa í tengslanetinu:
Fjölmiðlanefnd, SAFT & Heimili og skóli, Menntasvið Kópavogsbæjar, Skóla- og frístundasvið Reykjavíkurborgar, Mixtúra, Kvikmyndamiðstöð, Landsbókasafn Íslands, Menningar- og viðskiptaráðuneytið, Háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðuneytið, RÚV – Ríkisútvarpið, Menntavísindastofnun Háskóla Íslands, Menntamálastofnun, Menntavísindasvið, Listaháskóli Íslands, Háskóli þriðja æviskeiðsins, Háskóli Íslands, Háskólinn á Akureyri, Háskólinn í Reykjavík, Endurmenntun HÍ, Símenntun HA, RANNUM – Rannsóknarstofa í upplýsingatækni og miðlun, Barnaheill, Landsnefnd UNESCO, Persónuvernd, Þjónustumiðstöð Breiðholts, Samstarfshópur um stafræna borgaravitund, Upplýsing – félag bókasafns- og upplýsingafræða, Félag framhaldsskólabókasafna, Samtök forstöðumanna almenningsbókasafna, AwareGO, Embætti Landlæknis og RIFF- Reykjavík International Film Festival.