Fjölmiðlanefnd hefur afhent menningar- og viðskiptaráðherra og stjórn Ríkisútvarpsins mat sitt á almannaþjónustuhlutverki Ríkisútvarpsins fyrir árið 2022.
Samkvæmt lögum um Ríkisútvarpið nr. 23/2013 er Fjölmiðlanefnd ætlað að leggja sjálfstætt mat á það árlega hvort Ríkisútvarpið hafi uppfyllt almannaþjónustuhlutverk sitt.
Niðurstaða nefndarinnar er sú að Ríkisútvarpið hafi sinnt menningarlegu, lýðræðislegu og samfélagslegu hlutverki sínu í samræmi við þær kröfur sem gerðar eru í lögum um Ríkisútvarpið og þar með uppfyllt almannaþjónustuhlutverk sitt árið 2022.
Mat Fjölmiðlanefndar fór fram með hliðsjón af 3. gr. laga um Ríkisútvarpið og þágildandi samningi ráðherra menningarmála og Ríkisútvarpsins, sem hafði gildistímann 1. janúar 2020 – 31. desember 2023.
Matið byggir auk þess á greinargerð Ríkisútvarpsins um fjölmiðlun í almannaþágu fyrir árið 2022, og á ársskýrslu og ársreikningi Ríkisútvarpsins fyrir árið 2022. Vinna við greinargerð Ríkisútvarpsins til Fjölmiðlanefndar tafðist og var hún afhent nefndinni 16. ágúst 2022. Jafnframt varð töf á vinnslu matsins hjá Fjölmiðlanefnd vegna breytinga á skrifstofu nefndarinnar en vinnan fór fram í lok árs 2023 og í byrjun árs 2024.
Hér má nálgast mat Fjölmiðlanefndar á almannaþjónustuhlutverki Ríkisútvarpsins árið 2022.