Ákvörðun 2/2024: Dulin viðskiptaboð á mbl.is – 7. maí 2024

Fjölmiðlanefnd hefur komist að þeirri niðurstöðu að Árvakur hf. hafi brotið gegn 2. mgr. 37. gr. laga um fjölmiðla nr. 38/2011 um bann við duldum viðskiptaboðum, sbr. 1. mgr. sömu greinar, með miðlun dulinna viðskiptaboða á mbl.is.

Fjölmiðlanefnd hefur á undanförnum árum borist nokkur fjöldi ábendinga vegna ætlaðra dulinna viðskiptaboða á mbl.is. Hefur hluti þeirra ábendinga borist nefndinni með beinum hætti en einnig berast nefndinni reglulega áframsendar ábendingar frá Neytendastofu vegna ætlaðra dulinna viðskiptaboða á mbl.is. Af þeirri ástæðu og með vísan til eftirlitshlutverks Fjölmiðlanefndar á grundvelli laga um fjölmiðla taldi nefndin tilefni til að taka umfjallanir á mbl.is yfir ákveðið tímabil til nánari athugunar.

Í ákvörðun Fjölmiðlanefndar kemur fram að umfjallanir á mbl.is, sem vísað er til í ákvörðuninni, teljist til dulinna viðskiptaboða. Með miðlun efnisins hafi Árvakur hf. þar með brotið gegn 2. mgr. 37. gr. laga um fjölmiðla um bann við duldum viðskiptaboðum, sbr. 1. mgr. sömu greinar.

Fjölmiðlanefnd taldi ekki ástæðu til að falla frá sektarákvörðun í málinu og ákvað að leggja stjórnvaldssekt á Árvakur hf. Við þá ákvörðun var litið til eðlis brota Árvakurs hf. og umfangs þeirra. Jafnframt var tekið mið af því að Árvakur hf. hefur ekki áður brotið gegn 2. mgr. 37. gr. laga um fjölmiðla og atvika máls að öðru leyti. Taldi Fjölmiðlanefnd hæfilegt að sektin næmi 1.500.000 kr.

Ákvörðun 2/2024: Dulin viðskiptaboð á mbl.is – 7. maí 2024