Ný skýrsla um netöryggi barna og ungmenna á aldrinum 9-18 ára

Þriðjungur barna í 4.-7. bekk segir foreldra sína athuga virkni þeirra á samfélagsmiðlum með því t.d. að skoða nýja vini, skilaboð, aðganginn þeirra og hvað þau höfðu skoðað. Með hækkandi aldri dregur úr eftirliti. Foreldrar stelpna eru líklegri en stráka til að athuga aðgang þeirra að samfélagsmiðlunum. Fjórðungur barna í 6. – 10. bekk og tæpur helmingur í framhaldsskóla segist vera með eða hafa verið með nafnlausan eða falskan reikning á samfélagsmiðlum. Þetta kemur fram í nýrri skýrslu um netöryggi grunn- og framhaldsskólanema á aldrinum 9-18 ára á netinu. 

Skýrslan er þriðji hluti af sex og byggir á niðurstöðum könnunarinnar „Börn og netmiðlar“ sem Menntavísindastofnun framkvæmdi fyrir Fjölmiðlanefnd í 53 grunnskólum og 25 framhaldsskólum. Er þetta í annað sinn sem Fjölmiðlanefnd, í samstarfi við Menntavísindastofnun, birtir niðurstöður slíkrar umfangsmikillar könnunar. Fyrirhugað er að að gera sambærilega könnun á tveggja til þriggja ára fresti til að kanna miðlanotkun og færni barna og ungmenna þannig að hægt verði að bera saman niðurstöðurnar og hvernig notkun þróast.

Stelpur líklegri en strákar til að hafa deilt lykilorði sínu á samfélagsmiðlum með vini

Þátttakendur fengu spurningar um deilingu lykilorða og þekkingu á lykilorðum annarra, þ.á.m. lykilorðum vina sinna á samfélagsmiðlum. Með hækkandi aldri eykst hlutfall þátttakenda sem vita lykilorð vina sinna að samfélagsmiðlum. Í framhaldsskóla veit fjórðungur þátttakenda lykilorð einhverra vina sinna en 16% nemenda í 4.-7. bekk. Það er nokkuð algengara að stelpur þekki lykilorð vina sinna en strákar á unglinga- og framhaldsskólastigi. Aðeins þeir sem sögðust vera með reikning á samfélagsmiðlum voru spurðir hvort þeir hafi sagt vinum sínum lykilorð sín á samfélagsmiðlum. Með hækkandi aldri eykst hlutfall þátttakenda sem hafa sagt vinum sínum lykilorð sitt að samfélagsmiðlum úr 13% í 4.-7. bekk í 25% meðal framhaldsskólanema. Þá fjölgar stelpum sem deila lykilorði sínu til vina með hækkandi aldri. Í framhaldsskóla hefur næstum þriðjungur þeirra einhvern tímann sagt vinum sínum lykilorð sitt. Hlutfall stráka helst nokkurn veginn lítið breytt milli skólastiga.

Margir treysta vinum og vinkonum til að nota aðganginn sinn að samfélagsmiðlum

Tveir algengustu svarkostirnir sem valdir voru af þátttakendum sem skýringu á hvers vegna þau gáfu upp lykilorð sín eru annars vegar til öryggis ef þau skyldu gleyma eigin lykilorði og hins vegar þegar þau þurftu hjálp við eitthvað. Í 4.-7. bekk er tæpur helmingur stráka sem nota samfélagsmiðla sem segjast hafa gefið upp lykilorð sín á miðlunum til öryggis en hlutfall stelpna er aðeins lægra. Á unglingastigi er hlutfall stráka og stelpna nokkuð jafnt sem segir það vera til öryggis. Hlutfall stelpna (36%) er hins vegar mun hærra en stráka (19%) sem segir það hafa verið til að fá hjálp við eitthvað. Í framhaldsskóla er hlutfall stelpna (44%) sem segir það hafa verið til öryggis mun hærra en stráka (17%). 

Tæpur þriðjungur þátttakenda sem fengu spurninguna svöruðu að aðrir en uppgefnir valkostir væru ástæða þess að þeir deildu lykilorði sínu með vini eða vinkonu. Helstu ástæður sem þeir gefa er að þeir hafi þurft þess til að viðhalda „streak“-sendingum meðal vina á Snapchat þegar þeir fóru í ferðalag.

Aðrir segja ástæðuna vera til að leyfa vinum sínum að spila tölvuleiki sem þeir höfðu aðgang að. Margir nefndu að vinir og vinkonur væru svo traust að þau leyfðu þeim að nota aðgang sinn að samfélagsmiðlum. Næstum einn af hverjum fimm þátttakendum á unglinga- og framhaldsskólastigi veit lykilorð foreldra sinna að App Store eða Google Play. Í 4.-7. bekk er hlutfallið aðeins lægra. Þegar skoðaður er munur milli stráka og stelpna sést að á grunnskólastigi eru strákarnir aðeins líklegri til að vita lykilorð foreldranna. Í framhaldsskóla eru stelpurnar hins vegar hlutfallslega fleiri sem þekkja lykilorðin.

Flestir samfélagsmiðlanotendur hafa þurft að blokka einhvern á Snapchat og TikTok

Allir þátttakendur voru spurðir hverjir gætu séð færslur þeirra á samfélagsmiðlum. Meðal allra aldurshópa eru notendur Snapchat hlutfallslega flestir (65%) sem segjast birta færslur sem aðeins fylgjendur geta séð. Fleiri birta opnar færslur á TikTok og Instagram. Um þriðjungur TikTok notenda hafa færslur sínar opnar. Mun fleiri stelpur en strákar í öllum aldurshópum sem nota Snapchat, TikTok eða Instagram hafa færslur sínar lokaðar öðrum en fylgjendum. Snapchat-færslur eru mun líklegri til að vera lokaðar en TikTok og Instagram.

Með hækkandi aldri fjölgar stelpum sem hafa TikTok færslur sínar opnar öllum. Sama á við um færslur stelpna í framhaldsskóla á Instagram. Þátttakendur voru einnig spurðir hvort þeir hafi blokkað einhvern á ofangreindum samfélagsmiðlum. Tæpur helmingur allra notenda samfélagsmiðlanna Snapchat og TikTok í 4.-7. bekk hefur þurft að blokkera einhvern. Eins og við má búast eykst hlutfall þátttakenda sem hafa blokkerað einhvern á samfélagsmiðlunum með hækkandi aldri. Flestir hafa blokkað einhvern á Snapchat. Ekki er mikill munur á hlutfalli stráka og stelpna í 4.-7. bekk sem hafa þurft að blokkera einhvern á samfélagsmiðlunum þremur. Á unglinga- og framhaldsskólastigi var hlutfall stelpna nokkuð hærra en stráka sem hafa þurft að blokkera einhverja á Snapchat og TikTok. Meðal notenda Instagram er munurinn ekki verulegur fyrr en meðal stelpna í framhaldsskóla.

Á bilinu 9-11% sem samþykkja vinabeiðni frá hverjum sem er á samfélagsmiðlum

Spurðir hvernig þeir bregðast vanalega við vinabeiðnum á samfélagsmiðlum segjast flestir þátttakendur aðeins samþykkja vinabeiðni frá þeim sem þeir þekkja og fer hlutfall þeirra hækkandi með aldri. Einnig fjölgar þeim með aldri sem segjast samþykkja þá sem eiga sameiginlega vini. Þeir sem segjast samþykkja alla eru 9-11%. Þeim sem sem segjast samþykkja vinabeiðnir sem foreldrar þeirra telja óhætt að samþykkja fækkar með hækkandi aldri. Þegar niðurstöðurnar eru skoðaðar fyrir stráka og stelpur er hlutfall stelpna hærra en stráka sem samþykkja bara þá sem þær þekkja. Strákar í öllum aldurshópunum eru hins vegar líklegri en stelpur til að samþykkja vinabeiðni frá öllum, en hópurinn er ekki stór (9-10%). Þeim sem hafa einhvern tímann samþykkt vinabeiðni frá ókunnugum hækkar með aldri. Hlutfallsleg aukning er nokkuð svipuð hjá strákum og stelpum. Strákar á grunnskólastigi eru aðeins líklegri en stelpur til að hafa samþykkt vinabeiðni frá ókunnugum. Á framhaldsskólastigi er hlutfall stelpna hærra en stráka.

Sjö af hverjum tíu nemendum í 4.-7. bekk nota Youtube með leyfi foreldra

Aðspurðir segjast hlutfallslega flestir þátttakendur í 4.-10. bekk fá leyfi foreldra til að nota Youtube samanborið við hina samfélagsmiðlana sem spurt var um en það voru Snapchat, TikTok, Instagram og Facebook. Í 4.-7. bekk eru um sjö af hverjum tíu nemendum sem mega nota samfélagsmiðilinn Youtube. Í 8.-10. bekk eru nokkuð fleiri sem fá heimild frá foreldrum til að nota hina fjóra miðlana. Fæstir hafa leyfi til að nota Facebook en þar sem fáir grunnskólanemar nota Facebook getur verið að foreldrar hafi einfaldlega ekki verið spurðir um leyfi. Stelpur eru aðeins fleiri í 8.-10. bekk sem fá leyfi foreldra til að nota nefnda miðla alltaf eða stundum. Hvað mynddeilingar varðar eru þátttakendur í 4.-7. bekk ólíklegri til að hafa leyfi foreldra til að deila myndum eða myndskeiðum á samfélagsmiðlunum sem nefndir voru. Einnig eru nokkuð fleiri í þeim aldurshóp sem segjast aldrei fá leyfi til að deila myndum á miðlunum. Stelpur eru frekar með heimild til að deila myndum/myndskeiðum á flestum samfélagsmiðlum fyrir utan Youtube en þar eru strákar í þónokkrum meirihluta.

Foreldrar gjarnir á að birta myndir af börnunum sínum á netinu án þeirra leyfis

Þá voru allir þátttakendur einnig spurðir um myndeillingar foreldra sinna á samfélagsmiðlum og hvernig þeim líkaði þær. Hlutfall þeirra þátttakenda sem segja foreldra sína oft eða stundum deila myndum af þeim á Instagram, Facebook og Snapchat eykst með hækkandi aldri svarenda. Hærra hlutfall stelpna en stráka segja foreldra sína deila myndum af þeim oft eða stundum. Þeir þátttakendur sem segja foreldra sína birta myndir af þeim á samfélagsmiðlum oft eða stundum voru einnig spurðir: „Síðast þegar foreldrar þínir deildu mynd af þér, spurðu þau þig fyrst um leyfi?“. Tæpur helmingur þátttakenda í 4.-7. bekk segja foreldra þeirra hafa spurt þau um leyfi fyrst. Hlutfallið lækkar með hækkandi aldri. Tæpur helmingur svarenda segir að foreldra þeirra ekki hafa spurt um leyfi fyrir myndbirtingunum.

Óverulegur munur er á hlutfalli stráka og stelpna í öllum aldursflokkum varðandi það hvort foreldrar biðji þau um leyfi fyrir myndbirtingunum á samfélagsmiðlum. Langflestir aðspurðra segist hafa verið alveg sama eða verið sáttir við myndbirtingar foreldra sinna á samfélagsmiðlum. Með hækkandi aldri fjölgar þeim hlutfallslega sem finnst mynddeilingar eða líka þær ekki. Í framhaldsskóla er nærri fjórðungur (24%) svarenda sem segist ekki hafa verið sáttur með birtingarnar.

Þriðjungur 4.-7. bekkinga segir foreldra sína athuga virkni þeirra á samfélagsmiðlum

Þátttakendur í grunnskóla sem sögðust eiga eigin aðgang að samfélagsmiðlum eða deila honum með öðru heimilisfólki, voru spurðir um eftirlit foreldra með virkni þeirra á netinu. Um þriðjungur svarenda í 4.-7. bekk segja foreldra sína athuga virkni þeirra á samfélagsmiðlum, t.d. nýja vini, skilaboð, aðganginn og hvað þeir skoði þar. Í 8.-10. bekk er eftirlit foreldra aðeins minna. Aðeins fleiri stelpur en strákar í 4.-7. bekk segja að foreldrar þeirra skoði hvað þau geri á netinu. Meðal stráka og stelpna er algengast að foreldrar athugi alltaf eða oft vini sem þau gætu hafa bætt við. Tæpir fjórir af tíu nemendum í 4.-7. bekk segja foreldra sína skoða öppin sem þau hlaði niður. Þriðjungur nemenda í 4.-7. bekk og fjórðungur í 8.-10. bekk segjast ekki vita hvort foreldrar þeirra fylgist með því hverju hafa hlaðið niður og hversu lengi þau hafa verið á netinu. Tæpur helmingur segja foreldrana passa tímann sem þau hafa verið á netinu en í 8.-10. bekk er það u.þ.b. þriðjungur (34%). Fjórir af hverjum tíu þátttakendum sem nota samfélagsmiðla segja að foreldrar þeirra athugi alltaf eða oft hvaða myndum eða myndböndum þau hafi verið að deila. Stelpur eru aðeins líklegri til að segja foreldra sína fylgjast með öppunum sem þær hlaði niður og hversu lengi þær hafa verið á netinu. Stelpur eru sömuleiðis líklegri til að segja foreldra sína skoða hvaða myndum eða myndböndum þær hafa deilt.

Nota falskan aðgang til að gæta nafnleysis síns eða fylgjast með öðrum

Þátttakendur í 6.-10. bekk grunnskóla og á framhaldsskólastigi voru spurðir hvort þeir hefðu einhvern tíman haft falskan eða nafnlausan aðgang að samfélagsmiðlum. Hlutfall þáttakenda sem er með eða hefur verið með falskan aðgang að samfélagsmiðlum eykst með hækkandi aldri. Um 45% nemenda á framhaldsskólastigi er með eða hefur verið með slíkan aðgang.

Lítill munur er milli stráka og stelpna hvort þau séu með eða hafi stofnað falskan aðgang að samfélagsmiðlum. Þeir þátttakendur sem sögðust vera með eða hafa verið með falskan aðgang voru spurðir hvers vegna þeir hefðu stofnað slíkan aðgang. Algengasta svarið er til að gæta nafnleysis. Hlutfallslega flestir svara þannig í 6.-7. bekk (61%), en eru heldur færri á unglinga- og framhaldsskólastigi (45-46%). Í framhaldsskóla eru 36% sem segjast hafa stofnað aðganginn til að fylgjast með öðrum en aðeins 22% á unglingstigi og 15% í 6.-7. bekk. Næst algengast er að þátttakendur haki við að tilgangurinn hafi verið annar en upp var talinn í spurningunni. Beðið var um frekari útskýringu með opnum textareit. Þar kemur m.a. fram að þátttakendur hafi stofnað falskan reikning vegna þess að þeim væri illa við að hafa nöfn sín á netinu. Þónokkrir stofnuðu nafnlausan reikning þar sem þeir vildu birta teikningar sínar og myndbönd en vildu forðast stríðni. Þá nefna nokkrir að nafnleysið væri til að „trolla“ „stalka” og grínast í vinum og skólafélögum. Þá er einnig nefnt m.ö.o. að tilgangurinn væri að komast inn á miðla sem eru með aldurstakmark, nota nafnleysið til að safna fleiri fylgjendum eða eiga aukna möguleika á „giveaways”. Í grunnskóla eru stelpur litlu fleiri en strákar sem segjast hafa stofnað nafnlausan aðgang svo enginn þekkti þær. Í framhaldsskóla eru strákarnir hlutfallslega fleiri en stelpurnar sem velja þennan valkost. Á öllum skólastigum eru stelpur líklegri en strákar til að segja tilganginn vera til að geta fylgst með öðrum.