Alþjóðlegt samstarf
Fjölmiðlanefnd er í samstarfi við systurstofnanir/nefndir á Norðurlöndum og fundar einu sinni á ári með þeim. Einnig tekur Fjölmiðlanefnd þátt í samstarfi evrópskra stjórnsýslustofnana í fjölmiðlamálum á vettvangi EPRA og er auk þess hluti af samráðshópi evrópskra fjölmiðlaeftirlitsstofnana, ERGA, sem gegnir ráðgjafarhlutverki gagnvart framkvæmdastjórn Evrópusambandsins á sviði fjölmiðlamála.
Í fjölmiðlalögum/útvarpslögum aðildarríkja EES hefur hljóð- og myndmiðlunartilskipun ESB verið innleidd. Liður í því að tryggja að túlkun og eftirfylgni sé samræmd innan ríkja EES er samstarf þeirra stjórnvalda sem sinna eftirliti með lögunum.
Norrænt samstarf
Stjórnsýslustofnanir/nefndir á Norðurlöndum hafa átt í óformlegu samstarfi um árabil. Markmið slíks samstarfs er að skiptast á upplýsingum og byggja á ólíkri reynslu hvers stjórnvalds. Útvarpsréttarnefnd var aðili að þessu norræna samstarfi um nokkurra ára skeið, en Fjölmiðlanefnd tekur nú þátt í samstarfinu fyrir hönd Íslands.
Þar sem stjórnsýslueftirlit með fjölmiðlum á sér langa sögu á Norðurlöndunum og þar sem fjölmiðlalögunum íslensku svipar mjög til norrænna laga getur Fjölmiðlanefnd sótt dýrmæta reynslu og þekkingu til nágrannaríkjanna.
Hlekkir á stjórnsýslustofnanir/nefndir á Norðurlöndum:
Danmörk: Slots- og kulturstyrelsen
Noregur: Medietilsynet
Svíþjóð: Myndigheten för press, radio och tv
Finnland: Traficom
Evrópskt samstarf
Aukin alþjóðavæðing hefur leitt til þess að sjónvarpsstöðvar eru nú í auknum mæli staðsettar í einu landi en ætlað að ná til íbúa í öðrum ríkjum. Í slíku alþjóðlegu samstarfi er Fjölmiðlanefndum hvers ríkis skylt að hafa eftirlit með öllum þeim stöðvum sem senda út frá landinu óháð tungumáli stöðvarinnar og hvort efni hennar sé ætlað íbúum heimaríkisins eða annarra ríkja. Í Mavise gagnabankanum er að finna upplýsingar um lögsögu allra sjónvarpsstöðva og streymisveitna í Evrópu.
ERGA er sérfræðingahópur, sem samanstendur af fulltrúum fjölmiðlaeftirlitsstofnana á EES-svæðinu. Hópurinn gegnir ráðgjafarhlutverki gagnvart framkvæmdastjórn ESB á sviði fjölmiðlamála, meðal annars vegna innleiðingar hljóð- og myndmiðlunartilskipunar ESB.
EPRA er samstarfsvettvangur 53 fjölmiðlaeftirlitsstofnana í 47 Evrópuríkjum þar sem fram fara umræður, fræðsla og fyrirlestrar en samstarfið felst einnig í spurningalistum og fyrirspurnum sem sendar eru ríkja á milli.