Ársskýrsla
2021

Fjölmiðlanefnd er sjálfstæð stjórnsýslunefnd sem annast eftirlit með lögum um fjölmiðla nr. 38/2011 og daglega stjórnsýslu á því sviði sem lögin ná til. Nefndin annast einnig þau hlutverk sem henni eru falin í lögum um Ríkisútvarpið, fjölmiðil í almannaþágu nr. 23/2013, og lögum um eftirlit með aðgangi barna að kvikmyndum og tölvuleikjum nr. 62/2006. Ákvörðunum Fjölmiðlanefndar verður ekki skotið til annarra stjórnvalda.

 

Efnisyfirlit

0
fjölmiðlar nýskráðir hjá Fjölmiðlanefnd
0
skammtímaleyfi til hljóðmiðlunar
0
umsóknir um rekstrarstuðning
0
skráðir fjölmiðlar í árslok 2021

Ávarp framkvæmdastjóra

Elfa Ýr Gylfadóttir – framkvæmdastjóri 

 
Á árinu 2021 var lögð sérstök áhersla á miðlalæsi og að styrkja einkarekna fjölmiðla en fjölmiðlar flytja ekki aðeins fréttir af málefnum líðandi stundar, heldur eru þeir einnig mikilvægur vettvangur skoðanaskipta og þjóðfélagslegrar umræðu hverju sinni. Á tímum heimsfaraldurs skiptir traustur og reglubundinn fréttaflutningur verulegu máli fyrir allt samfélagið til að stuðla að aukinni þekkingu almennings á þjóðfélagslega mikilvægum málum. Sterkir og sjálfstæðir fjölmiðlar hafa þannig bein áhrif á það hvernig hægt er að viðhalda lýðræði og trausti í samfélaginu. 
 
Á síðustu árum hefur dreifing falsfrétta og upplýsingaóreiðu færst mjög í aukana á stafrænum miðlum og náði nýjum hæðum í heimsfaraldri kórónuveirunnar. Talað hefur verið um staðleysufaraldur (e. infodemic) sem herjaði á samfélög samhliða faraldrinum. Þetta gerðist einmitt þegar traust almennings gagnvart stjórnvöldum í hverju ríki þurfti að vera sem mest.
 
Tæknibreytingar hafa gert það að verkum að auðveldara er að dreifa upplýsingum og að sama skapi erfiðara að greina uppruna og sannleiksgildi hinna ýmsu upplýsinga. Upplýsingaóreiða getur haft neikvæð áhrif á upplýsta umræðu um samfélagsleg málefni. Afleiðingar þess að dreifa falsfréttum geta verið alvarlegar þar sem þær grafa undan trausti í samfélaginu. Þess vegna skiptir svo miklu máli að tryggja bæði gott aðgengi almennings að traustum og faglega unnum upplýsingum hjá sjálfstæðum fjölmiðlum og að auka þekkingu og færni almennings, bæði um falsfréttir og ólík form upplýsingaóreiðu, með það að markmiði að fólk geti tekist á við krefjandi áskoranir í hinum stafræna heimi.
Á árinu voru samþykkt lög með það að markmiði að tryggja rekstrarumhverfi fjölbreyttra fjölmiðla í ljósi mikilvægis þeirra fyrir lýðræði og menningu. Með því hefur Ísland færst nær þeirri stefnumótun um fjölmiðla sem verið hefur á Norðurlöndunum um áratuga skeið. Ástæðan er sú að ríkin hafa ekki farið varhluta af þeim breytingum sem átt hafa sér stað á undanförnum árum með aukinni alþjóðavæðingu og örri tækniþróun. Afleiðingin hefur verið sú að sífellt stærri hluti auglýsinga hefur runnið til erlendra stórfyrirtækja sem starfrækja leitarvélar og samfélagsmiðla. Stjórnvöld norrænu ríkjanna hafa brugðist við þessum breytingum með því að breyta stuðningskerfum sínum og auka stuðning til einkarekinna fjölmiðla.

 

Fjölmiðlanefnd er ætlað það mikilvæga hlutverk að lögum að efla miðlalæsi og auka skilning á hlutverki og notkun ólíkra miðla meðal almennings. Miðlalæsi hefur verið skilgreint sem geta almennings til að nota, greina og meta mátt mynda, hljóðs og skilaboða í samtímamenningunni. Einnig sem hæfnin til að eiga í samskiptum í gegnum ólíka miðla. Miðlalæsi tekur til allra fjölmiðla, netsins og annarra stafrænna boðskiptaleiða. Miðlalæsi er mikilvægt til að efla gagnrýna hugsun þannig að almenningur geti dregið skynsamar ályktanir af þeim upplýsingum sem verða á vegi hans. Með nýrri hljóð- og myndmiðlunartilskipun Evrópusambandsins (2018/1808/ESB), sem innleidd verður hér á landi með breytingum á lögum um fjölmiðla nr. 38/2011, er þetta hlutverk nefndarinnar áréttað enn frekar þar sem gert er ráð fyrir því að Fjölmiðlanefnd geri áætlun og ráðstafanir til að efla og þroska miðlalæsi almennings og sendi þriðja hvert ár skýrslu til Eftirlitsstofnunar EFTA um árangurinn. Þar er sérstaklega kveðið á um mikilvægi þess að áætlunin nái til alls almennings en áherslan lengst af hefur verið á börn og ungmenni. Til að hægt sé að móta heildstæða stefnu á sviði miðlalæsis og ákveða forgangsröðun verkefna er mikilvægt að fyrir liggi upplýsingar um færni og þekkingu ólíkra hópa í samfélaginu og að þeir aðilar sem vinna að auknu miðlalæsi samræmi aðgerðir og skiptist á upplýsingum.

 

Eitt af verkefnum fjölmiðlanefnda í Evrópu er að taka saman áreiðanlegar upplýsingar til að fylgjast með þróun á fjölmiðlamarkaðnum og hvernig fjölmiðlanotkun almennings breytist með tímanum. Með því að gera reglulegar kannanir og vinna úr tölfræðilegum gögnum er hægt að fylgjast með þróuninni og bera hana saman við þróunina í nágrannaríkjum. Til þess að safna upplýsingum á þessu sviði lét Fjölmiðlanefnd framkvæma tvær víðtækar spurningakannanir á fyrri hluta árs 2021.

 

Annars vegar var framkvæmd könnun á þekkingu og færni barna og ungmenna og hins vegar fullorðinna á hinum ýmsu þáttum er lúta að notkun samfélagsmiðla, leitarvéla og fjölmiðla. Fjölmiðlanefnd fékk annars vegar Maskínu til að framkvæma víðtæka spurningakönnun í febrúar og mars 2021, þar sem m.a. var spurt um notkun almennings á ólíkum miðlum, og hins vegar Menntavísindastofnun til að gera ítarlega könnun á notkun barna og ungmenna á aldrinum 9-18 ára á slíkum miðlum á fyrri hluta ársins. Báðar kannanirnar voru að norskri fyrirmynd og voru þýddar og staðfærðar fyrir Ísland.

 

Niðurstöður könnunar Maskínu voru kynntar í nokkrum hlutum. Fjallað var m.a. um
fjölmiðlanotkun og hversu algengt það er að almenningur sjái falsfréttir og upplýsingaóreiðu á
ólíkum miðlum og færni hans til að bera kennsl á slíkt efni. Þá lét nefndin jafnframt kanna sérstaklega falsfréttir og upplýsingaóreiðu í tengslum við kosningar til Alþingis. Einnig var sjónum beint að haturstali, neteinelti, hótunum og friðhelgi einkalífs á netinu, auk þess sem fjallað var um mörk ritstjórnarefnis og auglýsinga og hvort almenningur þekki muninn á þessu tvennu.

 

Niðurstöðum kannananna er ætlað að styrkja þekkingu og færni ólíkra hópa í samfélaginu, í samstarfi við hina ýmsu aðila sem hafa sömu markmið. Til að miðla þekkingu, niðurstöðum rannsókna og vinna sameiginlega að verkefnum tengdum miðlalæsi hafði Fjölmiðlanefnd frumkvæði að því að stofna tengslanet um upplýsinga- og miðlalæsi (TUMI) á árinu. Hlutverk netsins er að auðvelda upplýsingaskipti milli þeirra aðila sem vinna að miðlalæsi og greiða fyrir frekara samstarfi. Hinar ýmsu stofnanir, ráðuneyti, félagasamtök, menntastofnanir og fjölmiðlar eiga nú aðild að tengslanetinu. Er markmiðið að samræma aðgerðir og skapa ný tækifæri til samstarfs sem byggja á traustum rannsóknum.

 

Miðlalæsi, gagnrýnin hugsun og aðgangur að faglegum og vel unnum fréttum frá sjálfstæðum og faglegum fjölmiðlum hefur sjaldan verið mikilvægari en einmitt nú.

Árið í tölum

Samstarf við 52 evrópskar fjölmiðlaeftirlitsstofnanir

0
notendur heimsóttu vef Fjölmiðlanefndar 2021
0
fylgjendur á Facebook og Twitter
0
manns sáu árvekniátak Fjölmiðlanefndar á Facebook og Instagram
0
heimsóttu vef Fjölmiðlanefndar í tengslum við árvekniátakið

Hlutverk

Markmið laga um fjölmiðla nr. 38/2011 er að stuðla að tjáningarfrelsi, rétti til upplýsinga, fjölbreytni og fjölræði í fjölmiðlum og að efla vernd neytenda á þeim vettvangi. Markmið laganna er jafnframt að koma á samræmdri löggjöf á vettvangi
fjölmiðlunar óháð miðlunarformi.
 
Hlutverk Fjölmiðlanefndar er að stuðla að því að markmiðum og tilgangi laga um fjölmiðla verði náð. Nefndin á að vinna að því að efla fjölmiðlalæsi, fjölbreytni og fjölræði í fjölmiðlum, standa vörð um tjáningarfrelsi og rétt almennings til upplýsinga. Nefndin á sérstaklega að stuðla að því að vernd barna sé virt.
 
Fjölmiðlanefnd var stofnuð með lögum um fjölmiðla nr. 38/2011 og átti því tíu ára starfsafmæli árið 2021. Með lögunum var innleidd hljóð- og myndmiðlunartilskipun Evrópusambandsins og starfa sams konar eftirlitsstofnanir, ólíkar að stærð, í 47 ríkjum innan EES-svæðisins, þar á meðal á öllum Norðurlöndunum.
að fylgjast með því að fjölmiðlar fari að lögum um fjölmiðla og annast þau hlutverk sem nefndinni eru falin í lögum um Ríkisútvarpið og lögum um eftirlit með aðgangi barna að kvikmyndum og tölvuleikjum
að standa vörð um upplýsingarétt almennings með því að skrá og birta upplýsingar um eignarhald og ábyrgðarmenn fjölmiðla
að efla getu almennings til að nota, greina og meta mátt mynda, hljóðs og skilaboða í samtímamenningunni og taka upplýsta afstöðu til upplýsinga, hugmynda og skoðana sem birtast í fjölmiðlum og á samfélagsmiðlum
að afgreiða almennar og skammtíma leyfisumsóknir til hljóð- og myndmiðlunar
að birta ákvarðanir og álit í málum sem varða brot á lögum um fjölmiðla, lögum um Ríkisútvarpið eða lögum um aðgang barna að kvikmyndum og tölvuleikjum
að veita lögbundnar umsagnir og álit um lagafrumvörp og samrunamál á fjölmiðlamarkaði og vera stjórnvöldum og alþjóðastofnunum til ráðgjafar um málefni á starfssviði nefndarinnar
að gefa út leiðbeiningar fyrir fjölmiðla og miðla upplýsingum um málefni sem varða starfssvið nefndarinnar
að fylgjast með stöðu og þróun á fjölmiðlamarkaði og safna upplýsingum þar að lútandi
að taka þátt í starfi erlendra sérfræðihópa um málefni á starfssviði nefndarinnar og fylgjast með þróun löggjafar á málefnasviði hennar á EES-svæðinu
árið 2021 annaðist starfsfólk á skrifstofu Fjölmiðlanefndar umsýslu fyrir úthlutunarnefnd vegna umsókna um rekstrarstuðning til einkarekinna fjölmiðla

Skipan Fjölmiðlanefndar

Einar Hugi Bjarnason

hæstaréttarlögmaður, formaður, skipaður af mennta- og menningarmálaráðherra án tilnefningar.

Dr. María Rún Bjarnadóttir

doktor í internet- og mannréttindalögfræði frá lagadeild Sussex-háskóla í Englandi, varaformaður. Skipuð af mennta- og menningarmálaráðherra samkvæmt tilnefningu Hæstaréttar Íslands.

Finnur Beck

héraðsdómslögmaður, skipaður af mennta- og menningarmálaráðherra samkvæmt tilnefningu Hæstaréttar Íslands. Lét af störfum fyrir Fjölmiðlanefnd 30. september 2021.

Róbert H. Haraldsson

prófessor í heimspeki og sviðsstjóri kennslusviðs Háskóla Íslands. Skipaður af mennta- og menningarmálaráðherra samkvæmt tilnefningu samstarfsnefndar háskólastigsins.

Erla Skúladóttir

héraðsdómslögmaður, skipuð af mennta- og menningarmálaráðherra samkvæmt tilnefningu Hæstaréttar Íslands. Tók sæti Finns Beck í Fjölmiðlanefnd 1. október 2021.

Einar Hugi Bjarnason hæstaréttarlögmaður, formaður, skipaður af mennta- og menningarmálaráðherra án tilnefningar.
 
Dr. María Rún Bjarnadóttir, doktor í internet- og mannréttindalögfræði frá lagadeild Sussex-háskóla í Englandi, varaformaður. Skipuð af mennta- og menningarmálaráðherra samkvæmt tilnefningu Hæstaréttar Íslands.
 
Finnur Beck, héraðsdómslögmaður, skipaður af mennta- og menningarmálaráðherra samkvæmt tilnefningu Hæstaréttar Íslands. Lét af störfum fyrir Fjölmiðlanefnd 30. september 2021.
 
Erla Skúladóttir, héraðsdómslögmaður, skipuð af mennta- og menningarmálaráðherra samkvæmt tilnefningu Hæstaréttar Íslands. Tók sæti Finns Beck í Fjölmiðlanefnd 1. október 2021.
 
Róbert H. Haraldsson, prófessor í heimspeki og sviðsstjóri kennslusviðs Háskóla Íslands. Skipaður af mennta- og menningarmálaráðherra samkvæmt tilnefningu samstarfsnefndar háskólastigsins.
 
Varamenn:
 
Hulda Árnadóttir héraðsdómari. Skipuð af mennta- og menningarmálaráðherra.
Marteinn Másson hæstaréttarlögmaður. Skipaður samkvæmt tilnefningu Hæstaréttar Íslands.
Birgir Guðmundsson, dósent í fjölmiðlafræði við Háskólann á Akureyri. Skipaður samkvæmt tilnefningu samstarfsnefndar háskólastigsins.
 
Fjölmiðlanefnd er skipuð til 30. september 2023.

 

Úthlutunarnefnd

 
Starfsfólki á skrifstofu Fjölmiðlanefndar var á árinu 2021 falin umsýsla fyrir úthlutunarnefnd vegna úthlutunar rekstrarstuðnings til einkarekinna fjölmiðla. Úthlutunarnefnd starfar samkvæmt lögum um fjölmiðla nr. 38/2011, eins og þeim var breytt með lögum nr. 58/2021, og reglugerð nr. 770/2021. Úthlutunarnefnd skipa Árni Vilhjálmsson hæstaréttarlögmaður, Stefán Svavarsson endurskoðandi og Valgerður Anna Jóhannsdóttir, lektor við Háskóla Íslands.

Starfsfólk Fjölmiðlanefndar

Elfa Ýr Gylfadóttir

framkvæmdastjóri Fjölmiðlanefndar

Heiðdís Lilja Magnúsdóttir

yfirlögfræðingur/staðgengill framkvæmdastjóra

Anton Emil Ingimarsson

lögfræðingur

Skúli Bragi Geirdal

verkefnastjóri

Pétur Magnússon

sérfræðingur

Um áramótin 2021-2022 voru fimm starfsmenn á launaskrá hjá Fjölmiðlanefnd. Einn starfsmaður var tímabundið í leyfi á árinu. Framkvæmdastjóri Fjölmiðlanefndar var Elfa Ýr Gylfadóttir. Aðrir starfsmenn voru Anton Emil Ingimarsson lögfræðingur, Heiðdís Lilja Magnúsdóttir yfirlögfræðingur/staðgengill framkvæmdastjóra, Skúli Bragi Geirdal, verkefnastjóri og Pétur Magnússon sérfræðingur, sem er með tímabundna ráðningu.
 
Skrifstofa Fjölmiðlanefndar er að Borgartúni 21, 105 Reykjavík. Símanúmer nefndarinnar er 415-0415 og netfangið er postur@fjolmidlanefnd.is. Á vef Fjölmiðlanefndar, www.fjolmidlanefnd.is má finna allar helstu upplýsingar um starfsemi nefndarinnar, eyðublöð fyrir leyfisumsóknir og skráningu fjölmiðla, skýrslur og fróðleik um upplýsinga- og miðlalæsi, upplýsingar um eignarhald fjölmiðla og margt fleira.

Verkefni á sviði miðla- og upplýsingalæsis

Verkefni á sviði miðla- og upplýsingalæsis voru í forgangi hjá Fjölmiðlanefnd á árinu 2021 en áhrif upplýsingaóreiðu á samfélagsumræðu og lýðræði var ofarlega á baugi árið 2021 eins og fyrri ár. Á vormánuðum 2021 var ráðinn nýr verkefnastjóri, Skúli Bragi Geirdal fjölmiðlafræðingur, og í ágúst var sérfræðingur í stjórnmála- og fjölmiðlafræði, Pétur Magnússon, ráðinn tímabundið til að vinna að störfum á sviði miðlalæsis og einnig að söfnun upplýsinga um stöðu og þróun á fjölmiðlamarkaði.
Á meðal helstu verkefna Fjölmiðlanefndar á sviði miðlalæsis 2021 voru víðtækar spurningakannanir sem lagðar voru fyrir almenning, með það að markmiði að varpa ljósi á stafræna færni og þekkingu almennings. Í febrúar og mars 2021 kannaði Fjölmiðlanefnd fjölmiðla- og netnotkun og færni almennings, í samvinnu við Maskínu. Á vormánuðum var miðlanotkun barna og ungmenna könnuð í grunnskólum og menntaskólum um allt land í rannsókn Menntavísindastofnunar fyrir Fjölmiðlanefnd. Fyrirhugað er að gera fleiri sambærilegar kannanir í framtíðinni til að unnt verði að greina breytingar og þróun á fjölmiðla- og netnotkun og færni og þekkingu bæði barna og ungmenna og fullorðinna í tímans rás. Í lok september 2021 var ráðist í könnun á því hvort almenningur hefði orðið var við rangar upplýsingar eða falsfréttir í aðdraganda alþingiskosninga 25. september 2021. Könnuð var dreifing falsfrétta og upplýsingaóreiðu hér á landi og hvaða skilning almenningur leggur í þau hugtök.
Niðurstöður spurningakannana Fjölmiðlanefndar er að finna í fimm skýrslum sem allar eru aðgengilegar á vef nefndarinnar.
Árið 2019 var skrifað undir starfsreglur (e. Code of Practice on Disinformation) milli Evrópusambandsins og alþjóðlegu tæknifyrirtækjanna Facebook, Google, Twitter, Mozilla, Microsoft og TikTok þar sem fyrirtækin skuldbundu sig til að sporna gegn dreifingu rangra og villandi upplýsinga í ríkjum Evrópu. Samráðshópur evrópskra fjölmiðlanefnda, sem Fjölmiðlanefnd situr í fyrir hönd Íslands, fékk síðan það hlutverk að fylgjast með því hvort farið væri eftir reglunum. Þrátt fyrir að sérstaklega hafi verið tekið fram að reglurnar ættu við um öll ríki innan EES reyndist ekki unnt að fá stórfyrirtækin til að framfylgja þeim í öllum EFTA-ríkjum fyrst um sinn, þar á meðal á Íslandi. En með samstilltu átaki Fjölmiðlanefndar og samráðshóps evrópskra fjölmiðlanefnda, með dyggri aðstoð mennta- og menningarmálaráðuneytisins og utanríkisráðuneytisins, tókst að fá fyrirtækin til að framfylgja reglunum á Íslandi fyrir kosningar til Alþingis haustið 2021.
 
Varð það til þess að Facebook opnaði svokallað „Ad library“ fyrir íslenskan markað en um er að ræða auglýsingasafn sem nær til allra auglýsinga sem birtast notendum á Facebook og Instagram. Tilgangur þess er að auka gagnsæi um uppruna auglýsinga sem birtar eru í tengslum við stjórnmálabaráttu en þar er nú að finna upplýsingar um kaupendur, dreifingu og hversu miklu er eytt í auglýsingar um samfélagsleg málefni á Íslandi. Jafnframt er gerð sú krafa að þeir sem kaupa slíkar auglýsingar veiti tilteknar upplýsingar svo að hægt sé að sannreyna hverjir standi þar að baki. Með þessum aðgerðum tókst íslenskum stjórnvöldum að tryggja eins og kostur var að bann við nafnlausum áróðri í tengslum við stjórnamálabaráttu, sem nú er lögfest í 2. gr. d. laga um starfsemi stjórnmálasamtaka nr. 162/2006, væri virt hér á landi í aðdraganda kosninga til Alþingis haustið 2021.
Í aðdraganda alþingiskosninga haustið 2021 hóf Fjölmiðlanefnd árvekniátak á samfélagsmiðlum og miðlaði á vef sínum margs konar fróðleik sem tengdist kosningunum, þar á meðal um „Ad Library“ auglýsingasafnið og um bann við nafnlausum áróðri í tengslum við stjórnmálabaráttu.
 
Blásið var að nýju til árvekniátaksins Stoppa, hugsa, athuga en sams konar átak hafði farið fram árið 2020 í tengslum við upplýsingaóreiðu vegna heimsfaraldurs kórónaveiru. Að þessu sinni var átakinu ætlað að vekja almenning til vitundar um upplýsingaóreiðu í tengslum við lýðræðislegar kosningar.
 
Árvekniátakið Stoppa, hugsa, athuga hófst um miðjan september með birtingu fræðsluefnis á Facebook, Instagram og á vef Fjölmiðlanefndar, og stóð í fimm vikur. Verkefnið var að hluta unnið að norskri fyrirmynd og studdi Facebook (nú Meta) við átakið með því að birta auglýsingar Fjölmiðlanefndar endurgjaldslaust, líkt og gert var í Noregi. Grafísk hönnun auglýsinga var í höndum verkefnastjóra hjá Fjölmiðlanefnd en auglýsingastofan Sahara sá um að hreyfa efnið, setja upp auglýsingaherferð og stýra birtingum á samfélagsmiðlum. Auglýsingar á Facebook og Instagram vísuðu meðal annars á vef Fjölmiðlanefndar, þar sem nálgast mátti fróðleik um upplýsingaóreiðu og dreifingu hennar og nýjan, gagnvirkan spurningaleik um efnið.
Í desember var stofnað til tengslanets ýmissa aðila sem starfa að því að efla miðla- og upplýsingalæsi almennings. Fékk tengslanetið nafnið TUMI – Tengslanet um upplýsinga- og miðlalæsi. Ýmsar stofnanir, fyrirtæki og samtök, sem unnið hafa þýðingarmikið starf tengt miðlalæsi á ólíkum sviðum, eiga þar fulltrúa sem sóttu vel heppnaðan fyrsta fund tengslanetsins þann 9. desember 2021 í Þjóðarbókhlöðunni. Upptaka af fundinum var jafnframt gerð aðgengileg fulltrúum tengslanetsins á landsbyggðinni sem ekki áttu þess kost að sækja fundinn í eigin persónu.

 

Tildrög að stofnun tengslanets aðila sem starfa að miðlalæsi má rekja til þess lögbundna hlutverks Fjölmiðlanefndar að efla miðlalæsi almennings. Með nýrri hljóð- og myndmiðlunartilskipun Evrópusambandsins (2018/1808/ESB), sem vænta má að verði innleidd í íslensk lög á næstu mánuðum, fær það hlutverk nefndarinnar enn meira vægi en áður. Lagabreytingarnar fela það meðal annars í sér að Fjölmiðlanefnd verður falið að gera áætlun og ráðstafanir til að efla færni og miðlalæsi almennings, taka saman upplýsingar um fyrirhuguð verkefni og senda þriðja hvert ár skýrslu til Eftirlitsstofnunar EFTA um árangurinn.

 

TUMI – Tengslanet um upplýsinga- og miðlalæsi var sett upp að norrænni fyrirmynd. Hugmyndin er að tengslanetið geri ólíkum aðilum kleift að eiga samstarf og upplýsa um stefnu og fyrirhuguð verkefni á sviði miðlalæsis. Með þær upplýsingar í farteskinu verði unnt að fá yfirsýn um stöðu mála hér á landi, ná utan um þá þekkingu sem nú þegar er til staðar, móta heildstæða stefnu fyrir Ísland á sviði miðlalæsis, ákveða forgangsröðun verkefna í þeirri mikilvægu vinnu sem framundan er og vinna sameiginlega að mikilvægum verkefnum.
 
Á meðal þeirra sem eiga fulltrúa í tengslanetinu eru SAFT – samfélag, fjölskylda og tækni, Heimili og skóli, Kvikmyndamiðstöð, Landsbókasafn Íslands, Bókasafn Háskólans í Reykjavík, RÚV – Ríkisútvarpið, mennta- og menningarmálaráðuneytið, samgöngu-og sveitarstjórnarráðuneytið, Menntamálastofnun, Menntavísindasvið, Listaháskóli Íslands, Háskóli þriðja æviskeiðsins, aðilar frá Háskólasamfélaginu, Endurmenntun HÍ, Símenntun HA, RANNUM – Rannsóknarstofa í upplýsingatækni og miðlun, Barnaheill, Landsnefnd UNESCO, Persónuvernd, Menntasvið Kópavogsbæjar, Skóla- og frístundasvið Reykjavíkurborgar, Þjónustumiðstöð Breiðholts, AwareGO og RIFF- Reykjavík International Film Festival.
Fjölmiðlanefnd átti sæti í samráðshóp um vernd einstaklinga í aðdraganda kosninga, sem stofnaður var fyrir alþingiskosningar 25. september 2021. Auk Fjölmiðlanefndar áttu fulltrúar frá Fjarskiptastofu, Persónuvernd, netöryggissveitinni CERT-IS og landskjörstjórn sæti í samráðshópnum. Síðar bættist greiningardeild ríkislögreglustjóra í hópinn. Í fréttatilkynningu á vef Stjórnarráðs Íslands kom fram að stofnun hópsins megi rekja til bréfs Persónuverndar 18. janúar 2019 til forsætisráðuneytis og dómsmálaráðuneytis, þar sem óskað var eftir stofnun samráðsvettvangs um vernd einstaklinga í tengslum við kosningar. Hlutverk samráðshópsins var að auðvelda upplýsingaskipti milli viðeigandi stjórnvalda í aðdraganda kosninga en hópnum var ekki ætlað að taka ákvarðanir. Meginmarkmið hans var að tryggja að stjórnvöld, samkvæmt þeim lagaramma sem hvert um sig starfar eftir, fengju viðeigandi upplýsingar um atriði sem gerðu þeim kleift að bregðast við, eins fljótt og auðið væri, ef uppi væru aðstæður sem bregðast þyrfti við. Fram kom að hugsanlegar ógnir við framkvæmd kosninga gætu m.a. varðað persónuvernd, upplýsingaóreiðu, netöryggi eða þjóðaröryggi.
 
Þau stjórnvöld sem áttu fulltrúa í samráðshópnum sendu frá sér fræðsluefni og leiðbeiningar í
aðdraganda alþingiskosninganna. Persónuvernd gaf út álit á notkun stjórnmálasamtaka á samfélagsmiðlum fyrir kosningarnar til Alþingis. CERT-IS birti leiðbeiningar um öryggi á samfélagsmiðlum í aðdraganda kosninganna, m.a. um mikilvægi margþátta auðkenningar og öryggisstillingar. Þá birti Fjarskiptastofa leiðbeiningar vegna óumbeðinna fjarskipta í aðdraganda kosninganna. Fjölmiðlanefnd fór síðan af stað með árvekniátak í aðdraganda þingkosninganna með stuðningi frá Facebook (nú Meta). Þá tók Fjölmiðlanefnd saman upplýsingar á vef sínum um hvaða lagareglur gilda um fjölmiðla og pólitískar auglýsingar á samfélagsmiðlum í aðdraganda kosninga.
 
 Stofnanir skiptust einnig á upplýsingum í aðdraganda kosninganna. Engin alvarleg atvik komu upp sem bregðast þurfti við sérstaklega.
Samkvæmt 1. mgr. 10. gr. laga um fjölmiðla á Fjölmiðlanefnd að vinna að því að efla miðlalæsi, fjölbreytni og fjölræði í fjölmiðlum, standa vörð um tjáningarfrelsi og rétt almennings til upplýsinga. Það gerði nefndin m.a. á árinu 2021 með því að gefa út skýrslur, taka þátt í málþingum, ræða við fjölmiðla, skrifa greinar, búa til hlaðvarpsþætti, blása til árvekniátaks á samfélagsmiðlum og nota þannig ýmsar miðlunarleiðir sem eru vænlegar til að gera upplýsingar skiljanlegar og aðgengilegar almenningi. Nefndin notar samskonar miðlunarleiðir og systurstofnanir hennar í Evrópu, enda mikið samstarf á milli EES-ríkja á þessum vettvangi.
 
Í júní var nýtt hlaðvarp Fjölmiðlanefndar gert aðgengilegt á vef nefndarinnar, undir yfirskriftinni „Fjórða valdið“. Heiti hlaðvarpsins vísar til fjölmiðla, sem stundum eru kallaðir fjórða valdið í þjóðfélaginu, við hlið löggjafarvalds, framkvæmdavalds og dómsvalds. Hlaðvarpinu er ætlað að varpa ljósi á málefni á sviði miðlalæsis og fjölmiðlunar út frá ýmsum sjónarhornum, með viðtölum við fjölmiðlafólk, sérfræðinga og rannsakendur. Stjórnandi hlaðvarpsþáttanna var Skúli Bragi Geirdal, verkefnastjóri hjá Fjölmiðlanefnd.
 
Árið 2021 voru þrír hlaðvarpsþættir gerðir aðgengilegir almenningi en allir tengdust þeir útgáfu á skýrslum nefndarinnar um miðlalæsi og fjölmiðla- og netnotkun almennings. Í fyrsta þætti var rætt við Jón Gunnar Ólafsson, nýdoktor, um nýútkomna skýrslu nefndarinnar um falsfréttir og upplýsingaóreiðu. Í öðrum þætti var rætt við Halldóru Þorsteinsdóttur, héraðsdómara og sérfræðing í fjölmiðlarétti, um skýrslu sem fjallaði um haturstal og neikvæða upplifun á netinu, auk þess sem rætt var um hlaðvörp. Í þriðja og síðasta þætti ársins var svo rætt við Ara Brynjólfsson fréttastjóra á Fréttablaðinu um ritstjórnarefni og auglýsingar en Fjölmiðlanefnd hafði þá nýverið gefið út skýrslu um efnið.
 
Allir hlaðvarpsþættir, og skýrslur nefndarinnar, eru aðgengilegir hér á vef Fjölmiðlanefndar.
Í tengslum við skýrslu Fjölmiðlanefndar um falsfréttir og upplýsingaóreiðu voru birt viðtöl við Marianne Neraal, sérfræðing hjá Facebook, Jón Gunnar Ólafsson, nýdoktor við Háskóla Íslands, og Elfu Ýri Gylfadóttur, framkvæmdastjóra Fjölmiðlanefndar, á sérstöku málþingi sem gert var aðgengilegt á netinu. Skúli Bragi Geirdal, verkefnastjóri tók viðtölin og gerði málþingið aðgengilegt almenningi á bæði Facebook-síðu nefndarinnar þann 15. júní og síðan í kjölfarið hér á vef nefndarinnar og á YouTube.

Verkefni á sviði aðhalds og eftirlits

Fjölmiðlanefnd sinnti áfram lögbundu eftirliti með þeim lögum sem um fjölmiðla gilda, tók við kvörtunum og ábendingum, veitti umsagnir og svaraði fyrirspurnum um þann lagaramma sem hérlendir fjölmiðlar starfa eftir.
Eitt hlutverk Fjölmiðlanefndar er að hafa eftirlit með skráningu fjölmiðla og auðvelda almenningi aðgengi að upplýsingum um eignarhald og ábyrgðarmenn fjölmiðla í íslenskri lögsögu. Eftirlit með skráningu fjölmiðla miðar að því að styrkja upplýsingarétt almennings en gagnsæi eignarhalds er jafnframt forsenda þess að almenningur geti tekið upplýsta afstöðu til þeirra upplýsinga, hugmynda og skoðana sem birtast í fjölmiðlum og stuðlar þannig að því að efla miðlalæsi almennings. Fjölmiðlanefnd birtir upplýsingarnar á vef sínum www.fjolmidlanefnd.is.
 
Skráðir fjölmiðlar voru 216 í árslok 2021. Þar af voru fimmtán fjölmiðlar nýskráðir hjá Fjölmiðlanefnd 2021:
 1. Strandir.is – staðbundinn vefmiðill sem útgáfufélagið Sýslið verkstöð ehf. starfrækir.
 2. Krumminn – staðbundinn vefmiðill sem Klettagjá ehf. starfrækir.
 3. 24 – ÞÍNAR FRÉTTIR – vefmiðill sem 24 miðlar ehf. starfrækir.
 4. Fjármál og ávöxtun – tímarit sem Jón G. Hauksson starfrækir.
 5. Filmflex.is – streymisveita sem Íslenska sjónvarpsfélagið starfrækir.
 6. Land og saga – tímarit sem Nordic Times Media ehf. gefur út.
 7. Nordic Times – tímarit sem Nordic Times Media ehf. gefur út.
 8. Icelandic Times – tímarit sem Nordic Times Media ehf. gefur út.
 9. Dr. Football – hlaðvarp sem Doc Media slf. starfrækir.
 10. Steve Dagskrá – hlaðvarp sem Steve Dagskrá ehf. starfrækir.
 11. Draugasögur Podcast – hlaðvarp sem Ghost Network ehf. starfrækir.
 12. Arcticportal.org – vefmiðill sem Arcdata ehf. starfrækir.
 13. Vía – vefmiðill sem Flóra útgáfa ehf. starfrækir (Vía hét áður Flóra útgáfa).
 14. Aldur er bara tala – vefmiðill sem Aldur er bara tala ehf. starfrækir.
 15. Frettin.is – vefmiðill sem Fréttir ehf. starfrækir.
Enginn samruni á fjölmiðlamarkaði var tilkynntur á árinu. Tveir fjölmiðlar, Íslendingavaktin og Kvennablaðið, voru afskráðir hjá Fjölmiðlanefnd 2021 þar sem starfsemi þeirra hafði verið hætt.
 
Á meðal annars sem hæst bar á fjölmiðlamarkaði 2021 voru breytingar á yfirstjórn frétta á nokkrum stærstu fjölmiðlum landsins og breytingar á útgáfu eins elsta fjölmiðils landsins. Í febrúar var Erla Björg Gunnarsdóttir ráðin ritstjóri fréttastofu Stöðvar 2, Vísis og Bylgjunnar í stað Þóris Guðmundssonar og Kolbeinn Tumi Daðason tók við stöðu fréttastjóra sömu miðla. Í apríl var gert hlé á útgáfu DV á pappír og í maí settist Björn Þorfinnsson í ritstjórastól DV í stað Þorbjargar Marinósdóttur. Tilkynnt var í ágúst að Sigmundur Ernir Rúnarsson hefði verið ráðinn aðalritstjóri Torgs ehf. og ritstjóri Fréttablaðsins í stað Jóns Þórissonar. Þá lét Rakel Þorbergsdóttir af störfum sem fréttastjóri Ríkisútvarpsins í lok ársins.
Starfsemi hljóð- og myndmiðla sem þarfnast tíðniúthlutunar er leyfisskyld samkvæmt lögum um fjölmiðla. Fjölmiðlar með almennt leyfi til hljóð- eða myndmiðlunar voru 31 í árslok 2021 en auk þess var Alþingi með leyfi vegna sjónvarpsútsendinga frá störfum þingsins og Ríkisútvarpið ohf. með leyfi samkvæmt lögum um Ríkisútvarpið fjölmiðil í almannaþágu nr. 23/2013, vegna RÚV, RÚV2, Rásar 1, Rásar 2 og Rondó. Gildistími almennra leyfa til hljóð- eða myndmiðlunar er allt frá einu ári upp í sjö ár.
 
Sex leyfishafar endurnýjuðu almenn leyfi fyrir alls 22 hljóð- og myndmiðla árið 2021:
 
Sýn hf. endurnýjaði almenn myndmiðlunarleyfi til sjö ára fyrir tíu sjónvarpsstöðvar: Stöð 2, Stöð 2 Fjölskylda, Stöð 2 Bíó, Stöð 2 Vísir, Stöð 2 Sport, Stöð 2 Sport 2, Stöð 2 Sport 3, Stöð 2 Sport 4, Stöð 2 eSport og Stöð 2 Sport Golf. Þá endurnýjaði Sýn hf. almenn hljóðmiðlunarleyfi til sjö ára fyrir sex útvarpsstöðvar: Bylgjuna, Gull Bylgjuna, Létt Bylgjuna, FM 95,7, X977 og Íslensku Bylgjuna.
 
Torg ehf. endurnýjaði almennt myndmiðlunarleyfi fyrir sjónvarpsstöðina Hringbraut til eins árs.
 
Árvakur hf. endurnýjaði almennt hljóðmiðlunarleyfi fyrir útvarpsstöðvarnar K100 og Retró 89,5 til sjö ára. Hljóðsmárinn ehf. endurnýjaði almennt hljóðmiðlunarleyfi fyrir útvarpsstöðina Trölla FM til eins árs. Lindin kristið útvarp endurnýjaði almennt hljóðmiðlunarleyfi fyrir útvarpsstöðina Lindin útvarp til sjö ára og Saganet – Útvarp Saga ehf. endurnýjaði almennt hljóðmiðlunarleyfi fyrir útvarpsstöðina Útvarp Saga til tveggja ára.
 
Nánari upplýsingar um skráða fjölmiðla og leyfishafa er að finna neðst í skýrslu þessari.
Veitt voru tólf skammtímaleyfi til hljóðmiðlunar árið 2021 en nokkuð dró úr umsóknum um skammtímaleyfi eftir að heimsfaraldur kórónaveiru tók að breiðast út árið 2020. Umsækjendur um skammtímaleyfi árið 2021 voru grunnskólar, framhaldsskólar og sveitarfélög. Skammtímaleyfi gilda í allt að þrjá mánuði.
 
Gjald fyrir almennt leyfi til hljóðmiðlunar árið 2021 var 40.000 kr. fyrir hvert ár. Gjald fyrir almennt leyfi til myndmiðlunar var 60.000 kr. fyrir hvert ár. Gjald fyrir skammtímaleyfi til myndmiðlunar var 17.000 kr. og gjald fyrir skammtímaleyfi til hljóðmiðlunar var 10.000 kr. Öll gjöld sem Fjölmiðlanefnd innheimtir renna í ríkissjóð.
 
Veitt skammtímaleyfi 2021, í tímaröð
 
Leyfishafi                                                                               Gildistími leyfis
Nemendafélag Kvennaskólans                                               22.-16. febrúar 2021
Nemendafélag Menntaskólans við Hamrahlíð                       26.-30. apríl 2021
Nemendafélag Verzlunarskóla Íslands                                   26. apríl-1. maí 2021
Nemendafélag Fjölbrautaskólans í Garðabæ                          26.-30. apríl 2021
Vestmannaeyjabær                                                                 30. júní-30. september 2021
Akraneskaupstaður                                                                 25. nóvember-31. desember 2021
Nemendafélag Grunnskólans í Borgarnesi                             4.-10. desember 2021
Nemendafélag Menntaskólans í Hamrahlíð                           15.-19. nóvember 2021
Nemendafélag Verzlunarskóla Íslands                                   8.-13. nóvember 2021
Grunnskólinn á Hellu                                                             13.-15. desember 2021
Nemendaráð Grunnskóla Snæfellsbæjar                                13.-17. desember 2021
Vestmannaeyjabær                                                                 20. desember 2021-19. mars 2022
Vernd barna gegn efni sem ekki er við þeirra hæfi var nokkuð til umræðu á árinu í tengslum við fréttir af sýningum á Squid Games, vinsælli suður-kóreskri þáttaröð á Netflix. Þættirnir nutu mikilla vinsælda hjá börnum á árinu þrátt fyrir að innihalda mikið ofbeldi og vera bannaðir börnum yngri en 16 ára. Bárust Fjölmiðlanefnd fyrirspurnir vegna þeirra sem lutu aðallega að því hvernig aldursmati þessa efnis væri háttað og hvernig auka mætti vernd barna á streymisveitum. Fyrirspurnir um framkvæmd aldursmats bárust einnig vegna kvikmyndarinnar Leynilöggu en kvikmyndin var sýnd í kvikmyndahúsum, annars vegar í útgáfu sem var leyfð til sýninga fyrir 12 ára og eldri og  hins vegar í útgáfu sem var ætluð áhorfendum 16 ára og eldri.

 

Þá barst Fjölmiðlanefnd ábending þar sem fram komu áhyggjur af því að streymi frá tölvuleikjum með aldursmatið 16+, á rafíþróttastöðinni Stöð 2 eSport, væri skaðlegt börnum. Ábendingin var lögð fyrir nefndina en þótti ekki gefa tilefni til að taka málið til efnislegrar meðferðar á grundvelli reglna um vernd barna. Í svari nefndarinnar var á það bent að 16 ára aldursmat á tölvuleik jafngildi ekki því að sýning frá keppni í slíkum tölvuleik í sjónvarpi fái sjálfkrafa sama aldursmat. Aldursmat tölvuleikja miðist við gagnvirka þátttöku í tölvuleikjum og hugsanleg skaðleg áhrif slíkrar þátttöku á unga tölvuleikjaspilara. Beinar útsendingar og upptökur frá keppni í rafíþróttum þar sem aðrir spilarar spila leikinn væru síður taldar til þess fallnar að hafa skaðleg áhrif á unga áhorfendur. Þá geti aðrir þættir skipt máli, t.d. hvort leiknum fylgi leiklýsing þáttastjórnenda en slíkt geti verið til þess fallið að draga úr ótta og hugsanlegum skaðlegum áhrifum á unga áhorfendur.
Birtar voru tvær ákvarðanir sem vörðuðu auglýsingar sem sýndar voru í tengslum við barnadagskrá á RÚV. Samkvæmt lögum um fjölmiðla er hérlendum sjónvarpsstöðvum óheimilt að sýna auglýsingar í tengslum við barnadagskrá. Hefst bannið 5 mínútum áður en barnadagskrá hefst og stendur þar til 5 mínútum eftir að barnadagskrá lýkur. Í fyrri ákvörðuninni var fjallað um auglýsingar sem sýndar voru beint á undan Krakkafréttum á RÚV. Í þeirri seinni var fjallað um auglýsingar sem sýndar voru í tengslum við dagskrárliðinn Sögur – verðlaunahátíð barnanna. Bæði mál voru tekin til efnislegrar meðferðar á grundvelli kvörtunar frá hérlendri fjölmiðlaveitu og er efni beggja ákvarðana rakið hér fyrir neðan.
Nokkuð var um kvartanir og ábendingar til nefndarinnar vegna auglýsinga á áfengi, rafrettum, nikótínpúðum og erlendum veðmálasíðum í fjölmiðlum og á samfélagsmiðlum. Fjölmiðlanefnd hafði samráð við aðrar stofnanir og embætti sem koma að eftirliti með viðskiptaboðum, fyrst og fremst Neytendastofu og Lögreglustjórann á höfuðborgarsvæðinu. Á þeim sviðum þar sem eftirlitshlutverk þessara aðila getur skarast hefur á undanförnum árum verið unnið eftir ákveðinni verkaskiptingu sem leiða má af lögum. Þannig hefur Fjölmiðlanefnd eftirlit með banni við duldum viðskiptaboðum í fjölmiðlum en eftirlit Neytendastofu tekur til dulinna viðskiptaboða á samfélagsmiðlum. Eftirlit með ólögmætum veðmálaauglýsingum í fjölmiðlum fellur undir starfssvið Fjölmiðlanefndar en almennt eftirlit með veðmálaauglýsingum er hjá sýslumönnum á grundvelli laga um happdrætti nr. 38/2005. Þá er eftirlit með áfengisauglýsingum í fjölmiðlum í höndum Fjölmiðlanefndar en almennt eftirlit með áfengisauglýsingum, þar með talið á samfélagsmiðlum, í höndum lögreglu, á grundvelli 20. gr. áfengislaga nr. 75/1998. Samkvæmt upplýsingum frá embætti lögreglustjórans í Reykjavík var eftirlit með áfengisauglýsingum hérlendra auglýsenda á samfélagsmiðlum ekki í forgangi hjá lögreglunni árið 2021.
 
Gerður var samstarfssamningur við Neytendastofu um eftirlit með viðskiptaboðum, til að skýra starfssvið og hlutverk beggja stofnana, auk þess að kveða formlega á um þá verkaskiptingu sem unnið hefur verið eftir síðustu ár. Nálgast má afrit af samningnum á vef beggja stofnana.

 

Í frumvarpi til laga um um rafrettur og áfyllingar fyrir rafrettur (nikótínvörur) sem lagt var fyrir á Alþingi vorið 2021 en hlaut ekki afgreiðslu var m.a. lagt til að auglýsingar á tóbakslausum nikótínvörum (t.d. nikótínpúðum) yrðu bannaðar og að Neytendastofa færi með almennt eftirlit með auglýsingabanninu samkvæmt lögunum. Í umsögn Fjölmiðlanefndar um frumvarpið, dags. 20. apríl 2021, var tekið undir mikilvægi þess að Neytendastofa fari með almennt eftirlit með auglýsingabanni á nikótínvörum, rafrettum og áfyllingum fyrir þær. Fram kom að ástæðan væri sú að markaðssetning fyrir þessar vörur fari fyrst og fremst fram á samfélagsmiðlum en Neytendastofa fari nú þegar með eftirlit með auglýsingum á slíkum miðlum. Valdheimildir Fjölmiðlanefndar taki eingöngu til fjölmiðlaveitna, þ.e. einstaklinga og lögaðila sem starfrækja fjölmiðla, en ekki til samfélagsmiðla.

 

Fjölmiðlanefnd hafði áður beint athugasemdum sama efnis til heilbrigðisráðuneytisins með erindum 2017 og 2019 og aftur í janúar 2021, þar sem m.a. kom fram að þörf væri á lagabreytingum ef eftirlit með banni við auglýsingum á rafrettum ætti að ná til fleiri miðla en fjölmiðla. Við þeim athugasemdum var brugðist í áðurnefndu frumvarpi, sem lagt var fram á Alþingi vorið 2021 en hlaut ekki afgreiðslu. Árið 2021 var því eingöngu eftirlit með banni við auglýsingum á rafrettum í fjölmiðlum en ekki með auglýsingum á slíkum vörum á samfélagsmiðlum. Þá var ekkert eftirlit með auglýsingum á tóbakslausum nikótínvörum eða nikótínpúðum, þar sem slíkar auglýsingar voru heimilar lögum samkvæmt.
Árið 2021 var starfsemi hlaðvarpa sérstaklega til skoðunar hjá Fjölmiðlanefnd en ekkert lát varð á vinsældum innlendra og erlendra hlaðvarpa sem miðlunarforms á árinu. Segja má að sú þróun hafi meðal annars endurspeglast í því að nokkur fjöldi ábendinga og kvartana vegna ætlaðra áfengis- og veðmálaauglýsinga í vinsælum hlaðvörpum barst Fjölmiðlanefnd á árinu, aðallega frá aðilum á fjölmiðlamarkaði. Umræddir aðilar óskuðu flestir eftir nafnleynd en í slíkum tilfellum er litið svo á að um óformlegar ábendingar sé að ræða, samkvæmt málsmeðferðarreglum Fjölmiðlanefndar. Eru mál þá tekin til meðferðar á grundvelli 1. mgr. 11. gr. laga um fjölmiðla sem þýðir að nefndin tekur málið upp að eigin frumkvæði.

 

Í ljósi þeirra ábendinga og kvartana sem nefndinni bárust 2020 og 2021, og með tilliti til tækniþróunar og smæðar fjölmiðlamarkaðarins hér á landi, varð fljótlega ljóst að taka þyrfti til skoðunar hvort hluti þeirra hlaðvarpa sem starfrækt eru hér á landi gæti talist í beinni samkeppni við fjölmiðla um auglýsinga- og áskriftartekjur. Ef sú væri raunin, og að uppfylltum skilyrðum laga að öðru leyti, gætu slík hlaðvörp talist til fjölmiðla sem falla undir gildissvið laga um fjölmiðla. Talið var mikilvægt, með hliðsjón af jafnræðisreglu stjórnsýslulaga, að sömu leikreglur giltu um aðila á fjölmiðlamarkaði. Frá upphafi lá þó fyrir að ekki myndu öll hlaðvörp hér á landi falla undir gildissvið laga um fjölmiðla. Fara þyrfti fram mat á því hvort um væri að ræða fjölmiðlastarfsemi í skilningi laganna eða miðlun af öðrum toga. Meta þyrfti hvert tilvik fyrir sig með tilliti til þeirra viðmiða sem fram koma í lögum, með sama hætti og þegar vefmiðlar eiga í hlut en persónubundnar bloggsíður falla t.d. ekki undir lög um fjölmiðla.

 

Skoðun Fjölmiðlanefndar leiddi í ljós að efni og framsetning margra innlendra hlaðvarpa var að miklu eða öllu leyti sambærileg þeim efnistökum og framsetningu sem finna mátti í öðrum og hefðbundnari fjölmiðlum af ýmsu tagi. Að baki sumum þeirra stóð fjölmiðlafólk með víðtæka reynslu af fjölmiðlun, auk þess sem tíu vinsælustu hlaðvörpin mældust með vikulega hlustun 2,5-10% þjóðarinnar. Gaf það til kynna að efni þeirra hefði náð víðtækri útbreiðslu, væri miðlað að lágmarki einu sinni í viku og næði til nokkurs fjölda fólks með reglubundnum hætti. Fyrir lá að stjórnendur þeirra höfðu margir tekjur af sölu viðskiptaboða og/eða áskrifta, sem benti til að megintilgangur starfseminnar væri fjölmiðlun í atvinnuskyni og að staðganga* hefði myndast milli hlaðvarpa og skráðra fjölmiðla, fyrst og fremst hljóðmiðla.

 

*Hugtakið staðganga felur í sér að staðgengdarþjónustan geti að fullu eða verulegu leyti komið í stað annarrar á sama markaði.

 

Í lok mars 2021 gaf Fjölmiðlanefnd út leiðbeiningar um skráningu hlaðvarpa en auk þess voru stjórnendum nokkurra útbreiddustu hlaðvarpa landsins send bréf þar sem athygli var vakin á skráningarskyldu fjölmiðla og óskað eftir skráningu viðkomandi hlaðvarpa. Byggt var á svokölluðum topplistum helstu dreifiveitna en könnun Gallup á hlaðvarpshlustun í október 2021, sem nefndin fékk aðgang að, gaf sambærilegar niðurstöður.
Markmiðið með skráningarskyldu fjölmiðla er m.a. að auka yfirsýn stjórnvalda yfir fjölmiðlamarkaðinn á hverjum tíma og tryggja að fyrir liggi upplýsingar um þá sem eru eigendur og bera ritstjórnarlega ábyrgð á efni fjölmiðla. Skráningarskyldan er forsenda þess að hægt sé að halda utan um þessar upplýsingar. Annar tilgangur með skráningunni er neytendavernd; að stjórnendur hlaðvarpa séu meðvitaðir um þær reglur sem gilda um starfsemina, þar á meðal reglur um viðskiptaboð, vernd barna og bann við hatursáróðri og hvatningu til refsiverðrar háttsemi.
Í leiðbeiningum Fjölmiðlanefndar um skráningarskyldu hlaðvarpa kemur fram að við mat á því hvort hlaðvarp teljist skráningarskyldur fjölmiðill sé litið til skilyrða laga og eftirfarandi atriða:
 • Miðlar hlaðvarpið ritstýrðu efni með reglubundnum hætti til almennings? Með ritstýrðu efni er ekki átt við að fjölmenn ritstjórn starfi á miðlinum, heldur er átt við það hvort stjórnendur hafi stjórn á vali, röðun og skipan efnis, t.d. með vali á viðmælendum, tónlist og umfjöllunarefni að öðru leyti.
 • Hver miðlar efni hlaðvarpsins og er fjárhagslegur ávinningur af því, með sölu viðskiptaboða, áskrifta eða annars konar tekjuöflun? Ef fjölmiðlun í atvinnuskyni er ekki megintilgangurinn með starfseminni er ólíklegt að um fjölmiðil sé að ræða.
 • Hvers konar efni miðlar hlaðvarpið? Er um að ræða sambærilegt efni og finna mætti í öðrum fjölmiðlum?
 • Hefur hlaðvarpið náð mikilli útbreiðslu og hlustun? Hlaðvarp með fámennan hlustendahóp er síður líklegt til að falla undir gildissvið laga um fjölmiðla. Hlaðvarp sem 2,5-10% þjóðarinnar hlusta á í hverri viku getur t.d. ekki talist með fámennan hlustendahóp.
Af skilyrðunum hér að ofan má ráða að meta þarf hverju sinni hvort hlaðvarp falli undir gildissvið laga um fjölmiðla og að niðurstaða þess mats getur breyst með tímanum. Hlaðvarp sem hefur engar tekjur eða hlustun á fyrstu stigum starfsemi sinnar getur til dæmis orðið skráningarskyldur fjölmiðll síðar meir ef hlustun á hlaðvarpið eykst og stjórnandi þess fer að hafa tekjur og atvinnu af sölu viðskiptaboða og/eða áskrifta.

 

Leiðbeiningar Fjölmiðlanefndar um skráningu hlaðvarpa eru aðgengilegar hér á vef nefndarinnar.
Í október 2021 birti Fjölmiðlanefnd þrjár úrlausnir sem vörðuðu ólögmæt viðskiptaboð fyrir áfengi og veðmál í hlaðvörpum og brot á skráningarskyldu fjölmiðla en umrædd hlaðvörp höfðu ekki sinnt skráningarskyldu um margra mánaða skeið, þótt ítrekað hefði verið óskað eftir því af hálfu nefndarinnar. Samantekt á efni úrlausnanna má finna hér fyrir neðan.

 

Í kjölfarið bárust nefndinni nokkrar fyrirspurnir frá stjórnendum hlaðvarpa um skráningarskyldu hlaðvarpa á þeirra vegum. Í flestum tilfellum var niðurstaðan sú að ekki væri um skráningarskylda fjölmiðlun að ræða, ýmist vegna þess að starfsemi umræddra hlaðvarpa hefði ekki náð því umfangi og útbreiðslu að geta talist reglubundin fjölmiðlun til almennings, efni hlaðvarpanna væri ekki þess eðlis að fallið gæti undir gildissvið laga um fjölmiðla og/eða vegna þess að fjölmiðlun í atvinnuskyni væri ekki megintilgangurinn með starfseminni.
 
Hægt er að skrá fjölmiðla gjaldfrjálst með rafrænum skilríkjum hér inná heimasíðu nefndarinnar. Komi upp óvissa um það hvort hlaðvarp sé skráningarskylt má hafa samband við nefndina með því að senda tölvupóst á postur@fjolmidlanefnd.is eða hringja á skrifstofu nefndarinnar í síma 415-0415.

Kvartanir

 
Fjölmiðlanefnd tekur við kvörtunum, vegna meintra brota á lögum um fjölmiðla, lögum um Ríkisútvarpið og lögum um eftirlit með aðgangi barna að kvikmyndum og tölvuleikjum. Taki Fjölmiðlanefnd kvörtun til meðferðar gilda ákvæði stjórnsýslulaga nr. 37/1993 um málsmeðferðina.
Árið 2021 bárust Fjölmiðlanefnd 15 formlegar kvartanir vegna meintra brota á lögum um fjölmiðla, lögum um Ríkisútvarpið og lögum um eftirlit með aðgangi barna að kvikmyndum og tölvuleikjum, þar af þrjár nafnlausar. Auk þess bárust nefndinni 49 óformlegar ábendingar vegna meintra brota á lögum um fjölmiðla og öðrum lögum sem nefndin hefur eftirlit með.
 
Formlegar kvartanir til Fjölmiðlanefndar 2021 voru eftirfarandi:
  • Auglýsingar í kringum barnaefni á RÚV (2)
  • Ætlaðar áfengisauglýsingar á RÚV (1)
  • Umfjöllun um kvartanda í Íslandi í dag á Stöð 2 (1)
  • Ætlað brot gegn reglum um vernd barna gegn skaðlegu efni í Íslandi í dag á Stöð 2 (1)
  • Ætluð áfengisauglýsing á mbl.is (1)
  • Umfjöllun um kvartanda á mbl.is, Mannlífi og í Fréttablaðinu (1)
  • Umfjöllunar um kvartanda í Stundinni (1)
  • Myndbirting af kvartanda á 24.is – þínar fréttir (1)
  • Umfjöllun um kvartanda á Frettatiminn.is (1)
  • Óheimil hagnýting fjölmiðlaefnis á vefsíðunni Fjarkinn.is (1)
  • Auglýsingar á samfélagsmiðlum og vefsíðum sem ekki eru fjölmiðlar (2)
  • Umfjöllun um bólusetningar á Frettin.is (1)
  • Ætlaður hatursáróður gegn óbólusettum einstaklingum á DV.is, RÚV, MBL.is og í Fréttablaðinu (1)
Í árslok 2021 var málastaðan hjá Fjölmiðlanefnd sú að 10 af 15 formlegum kvörtunum hafði verið vísað frá. Eitt mál leystist með aðkomu starfsmanna áður en kvörtunin var lögð fyrir nefndina og tveimur kvörtunum lyktaði með því að Fjölmiðlanefnd gaf út ákvörðun vegna brota á reglum um auglýsingar í kringum barnaefni. Tvær kvartanir höfðu ekki verið lagðar fyrir á fundi nefndarinnar og hafði því ekki verið tekin ákvörðun um efnislega meðferð þeirra.
 

Ábendingar

 
Fjölmiðlanefnd bárust alls 49 ábendingar um ætluð brot fjölmiðla og annarra aðila á fjölmiðlalögum árið 2021, þar af sjö í formi kvartana sem lagðar voru fram undir nafnleynd. Kjósi kvartandi að njóta nafnleyndar er litið á erindi hans sem óformlega ábendingu samkvæmt málsmeðferðarreglum Fjölmiðlanefndar. Eru mál þá tekin til meðferðar á grundvelli 1. mgr. 11. gr. laga um fjölmiðla sem þýðir að nefndin tekur málið upp að eigin frumkvæði ef efni ábendinga þykir gefa tilefni til þess.
 
Ábendingarnar vörðuðu aðallega eftirfarandi málaflokka. Tekið skal fram að í einhverjum tilfellum varðaði hver ábending mörg ætluð brot í fleiri en einum fjölmiðli. Slíkar ábendingar voru þó skráðar sem ein ábending.
 
 • Umfjöllun/áróður/auglýsingar um málefni tengd COVID-19 (8)
 • Duldar auglýsingar (8)
 • Áfengis- og veðmálaauglýsingar (3)
 • Óheimil hagnýting fjölmiðlaefnis (4)
 • Umfjöllun um frambjóðendur til alþingiskosninga (2)
 • Vernd barna gegn skaðlegu efni (1)
 • Friðhelgi einkalífs/persónuvernd barna (1)
 • Tal og texti á íslensku/málfar (1)
 • Gæði sjónvarps- og útvarpsútsendinga (1)
 • Annað (20)

Úrlausnir 2021

 
Árið 2021 birti Fjölmiðlanefnd fimm ákvarðanir og tvö álit. Nefndin birti eina ákvörðun og tvö álit sem vörðuðu brot hlaðvarpa gegn reglum um viðskiptaboð og reglum um skráningarskyldu fjölmiðla. Birtar voru tvær ákvarðanir sem fjölluðu um auglýsingar í tengslum við barnadagskrá á RÚV, ein ákvörðun um dulin viðskiptaboð í sjónvarpsþáttum á Hringbraut og ein ákvörðun um dulin viðskiptaboð og viðskiptaboð fyrir áfengi í sjónvarpsþáttum á Stöð 2 eSport. Öll málin hófust með kvörtunum eða ábendingum til nefndarinnar. Sem fyrr segir er litið á kvartanir sem óformlegar ábendingar ef kvartandi kýs að njóta nafnleyndar.
 
Allar ákvarðanir og álit Fjölmiðlanefndar eru aðgengileg á vefsíðu nefndarinnar.
Í ákvörðun nr. 1/2021 var það niðurstaða Fjölmiðlanefndar að með birtingu auglýsinga í tengslum við Krakkafréttir, sjónvarpsþátt sem er ætlaður börnum yngri en 12 ára á RÚV, hafi Ríkisútvarpið brotið gegn 5. mgr. 41. gr. laga um fjölmiðla. Málið var tekið til efnislegrar meðferðar á grundvelli kvörtunar Sýnar hf. Samkvæmt 5. mgr. 41. gr. eru auglýsingar óheimilar í dagskrá sem er ætluð börnum yngri en 12 ára og hefst bannið 5 mínútum áður en barnadagskrá hefst og stendur þar til 5 mínútum eftir að útsendingu slíkrar dagskrár lýkur. Í niðurstöðu kemur fram það mat Fjölmiðlanefndar að Krakkafréttir teljist til efnis sem ætlað er börnum yngri en 12 ára. Hafi Ríkisútvarpið brotið gegn 5. mgr. 41. gr. laga um fjölmiðla með birtingu auglýsinga beint á eftir Krakkafréttum á tímabilinu nóvember 2015 til maí 2021 en Krakkafréttir voru síðasti dagskrárliður fyrir aðalfréttatíma sjónvarps á því tímabili. Var Ríkisútvarpinu ohf. gert að greiða 1.000.000 kr. í stjórnvaldssekt. Samkvæmt upplýsingum frá Ríkisútvarpinu hafa Krakkafréttir verið færðar framar í dagskrá RÚV og verða eftirleiðis ekki sýndar beint á undan eða beint á eftir auglýsingatímum.
Í ákvörðun nr. 2/2021 komst Fjölmiðlanefnd að þeirri niðurstöðu að Hringbraut-Fjölmiðlar ehf. hefðu brotið gegn reglum um dulin viðskiptaboð og hlutfall viðskiptaboða innan klukkustundar í þáttunum Einfalt að eldast og Allt annað líf, sem sýndir voru á Hringbraut í október 2019 og mars 2020. Málið var tekið til efnislegrar meðferðar á grundvelli nafnlausrar ábendingar til nefndarinnar. Samkvæmt 2. mgr. 37. gr. laga um fjölmiðla eru dulin viðskiptaboð óheimil. Þá er viðskiptaboðum markaður ákveðinn tímarammi, eða tólf mínútur á klukkustund, samkvæmt 2. mgr. 41. gr. laganna. Samkvæmt niðurstöðu Fjölmiðlanefndar brutu Hringbraut-Fjölmiðlar gegn banni við duldum viðskiptaboðum með umfjöllun um vörur og þjónustu erlendrar læknastöðvar og íslensks ferðaþjónustufyrirtækis í þáttunum Allt annað líf sem sýndir voru á Hringbraut 10. og 17. mars 2020. Jafnframt var það niðurstaða Fjölmiðlanefndar að hluti viðskiptaboða í þættinum Einfalt að eldast sem sýndur var á Hringbraut 22. október 2019 hafi ekki verið skýrlega auðkenndur og teldist til dulinna viðskiptaboða. Loks var það niðurstaða Fjölmiðlanefndar að Hringbraut-Fjölmiðlar hefðu brotið gegn reglum um hámarkshlutfall auglýsinga innan hverrar klukkustundar með miðlun þáttanna. Var Hringbraut-Fjölmiðlum ehf. gert að greiða 750.000 kr. í stjórnvaldssekt fyrir hvorn þátt/þáttaröð, alls 1.500.000 kr.
Í ákvörðun nr. 3/2021 var það niðurstaða Fjölmiðlanefndar að Doc Media slf. hefði brotið gegn reglum um skráningarskyldu fjölmiðla og bann við viðskiptaboðum fyrir áfengi í hlaðvarpinu Dr. Football. Málið var tekið til meðferðar á grundvelli 1. mgr. 11. gr. laga um fjölmiðla eftir ábendingu frá aðila sem óskaði eftir nafnleynd. Í áliti Fjölmiðlanefndar kom fram að nefndin teldi hlaðvarpið Dr. Football falla undir gildissvið laga um fjölmiðla. Jafnframt var það niðurstaða nefndarinnar að umfjöllun um gintegund í níu þáttum hlaðvarpsins í október 2020 hafi farið í bága við bannákvæði laga um viðskiptaboð fyrir áfengi. Taldi Fjölmiðlanefnd ekki ástæðu til að falla frá sektarákvörðun í málinu. Við ákvörðun sektarfjárhæðar var tekið mið af tekjum af broti, umfangi og alvarleika brots og því að fjölmiðillinn Dr. Football brást ekki við ítrekuðum tilmælum nefndarinnar um að skrá starfsemi sína fyrr en stefnuvottur var sendur að heimili fyrirsvarsmanns hlaðvarpsins. Jafnframt var við ákvörðun sektarfjárhæðar litið til þess að félagið uppfyllti að lokum kröfur um skráningu fjölmiðla. Taldi Fjölmiðlanefnd hæfilegt að sektin næmi 500.000 kr.
Í ákvörðun nr. 4/2021 komst Fjölmiðlanefnd að þeirri niðurstöðu að Sýn hf. hafi brotið gegn reglum um bann við viðskiptaboðum fyrir áfengi, duldar auglýsingar, vöruinnsetningar og kostun efnis í þáttunum Rauðvín og klakar sem sýndir voru á Stöð 2 eSport og á Vísi. Málið var tekið til efnislegrar meðferðar á grundvelli 1. mgr. 11. gr. laga um fjölmiðla eftir ábendingu sem varðaði efni á Stöð 2 eSport og meint brot gegn reglum um vernd barna gegn skaðlegu efni. Í ákvörðun Fjölmiðlanefndar kom fram að Sýn hf. hafi brotið gegn reglum um bann við viðskiptaboðum fyrir áfengi með framsetningu og umfjöllun um áfengi í þáttum Rauðvíns og klaka sem sýndir voru á Stöð 2 eSport og Vísi 5. nóvember 2020, 12. nóvember 2020, 19. nóvember 2020, 26. nóvember 2020 og 3. desember 2020. Jafnframt komst nefndin að þeirri niðurstöðu að með því að auðkenna ekki myndefni sem innihélt vöruinnsetningar á sælgæti hafi Sýn brotið gegn 2. mgr. 37. gr. laganna um bann við duldum viðskiptaboðum. Aukinheldur var það niðurstaða nefndarinnar að Sýn hf. hafi brotið gegn reglum um vöruinnsetningar, nánar tiltekið reglur um  að vöruinnsetning megi ekki snerta innihald hljóð- og myndmiðlunarefnisins að öðru leyti (þ.e. ekki megi kynna viðkomandi vöru eða þjónustu með öðrum hætti en þeim að hún sjáist eða að vísað sé til hennar), reglur um að ekki skuli beinlínis hvatt til kaupa eða leigu á þeim vörum sem um ræðir og reglur um að vörurnar séu ekki settar fram á óþarflega áberandi hátt. Loks var það niðurstaða Fjölmiðlanefndar að Sýn hafi brotið gegn reglum um kostun myndefnis, annars vegar þar sem kostendur þáttanna höfðu áhrif á efnistök kostaðra þátta og hins vegar þar sem hið kostaða efni innihélt hvatningu til kaupa á vörum er stöfuðu frá kostendum. Fjölmiðlanefnd taldi ekki ástæðu til að falla frá sektarákvörðun í málinu með vísan til fyrri brota Sýnar hf. gegn framangreindum reglum. Um leið var litið til atvika máls að öðru leyti. Taldi Fjölmiðlanefnd hæfilegt að sektin næmi 500.000 kr.
Í ákvörðun nr. 5/2021 komst Fjölmiðlanefnd að þeirri niðurstöðu að með birtingu auglýsinga  beint á undan dagskrárliðnum Sögur – verðlaunahátíð barnanna, 5. júní 2021 hafi Ríkisútvarpið brotið gegn 5. mgr. 41. gr. laga um fjölmiðla. Málið var tekið til efnislegrar meðferðar á grundvelli kvörtunar Sýnar hf. Samkvæmt ákvæði 5. mgr. 41. gr. laga um fjölmiðla eru auglýsingar og fjarkaupainnskot óheimil í dagskrá sem ætluð er börnum 12 ára og yngri. Bannið hefst 5 mínútum áður en dagskrá hefst og stendur þar til 5 mínútum eftir að útsendingu slíkrar dagskrár lýkur. Í niðurstöðu kemur fram það mat Fjölmiðlanefndar að Sögur – verðlaunahátíð barnanna teljis til efnis sem er ætlað börnum yngri en 12 ára og að óheimilt hafi verið að miðla auglýsingum beint á undan dagskrárliðnum á umræddum degi. Var Ríkisútvarpinu ohf. gert að greiða 500.000 kr. í stjórnvaldssekt.
Samkvæmt áliti Fjölmiðlanefndar nr. 1/2021 braut umfjöllun um erlent veðmálafyrirtæki í þætti hlaðvarpsins Steve Dagskrá 15. september 2020 gegn reglum um bann við viðskiptaboðum fyrir erlenda veðmálastarfsemi sem ekki hefur leyfi lögum samkvæmt hér á landi. Málið var tekið til meðferðar á grundvelli kvörtunar frá Íslenskum getraunum þar sem kvartað var undan viðskiptaboðum fyrir erlent veðmálafyrirtæki á tilteknum vefsíðum samfélagsmiðla og í hlaðvarpinu Steve Dagskrá. Fram kom að kvartandi teldi umfjöllun, m.a. í þætti hlaðvarpsins frá 15. september 2020, brjóta gegn 4. mgr. 37. gr. laga um fjölmiðla. Fjölmiðlanefnd ákvað að falla frá sektarákvörðun í málinu með vísan til þess að fjölmiðlaveitan brást við fyrsta erindi Fjölmiðlanefndar og lét af þeirri hegðun sem var tilefni kvörtunar Íslenskra getrauna. Jafnframt var til þess litið að tilkynning um skráningu hlaðvarpsins Steve Dagskrá barst degi eftir framlengdan lokafrest.
Í áliti nr. 2/2021 kom fram að þáttur hlaðvarpsins FantasyGandalf, síðar The Mike Show, sem gerður var aðgengilegur 19. nóvember 2020 hafi innihaldið umfjöllun um erlent veðmálafyrirtæki og áfenga bjórtegund sem farið hafi í bága við 4. mgr. 37. gr. laga um fjölmiðla. Málið var tekið til efnislegrar meðferðar á grundvelli 1. mgr. 11. gr. laga um fjölmiðla eftir ábendingu frá aðila sem óskaði eftir nafnleynd. Jafnframt hafi hlaðvarpsstjórnandi ekki sinnt skráningarskyldu hlaðvarpsins þrátt fyrir ítrekaðar beiðnir nefndarinnar. Var það niðurstaða Fjölmiðlanefndar að stjórnandi hlaðvarpsins FantasyGandalf, hefði brotið gegn 4. mgr. 37. gr. og reglum um skráningarskyldu fjölmiðla. Fjölmiðlanefnd ákvað að falla frá sektarákvörðun í málinu, með vísan til þess að stjórnandi hlaðvarpsins brást við fyrsta erindi Fjölmiðlanefndar og gerði í kjölfarið viðeigandi breytingar á framsetningu viðskiptaboða, auk þess sem hætt var miðlun ólögmætra viðskiptaboða fyrir erlenda veðmálastarfsemi. Þá lá fyrir að hlaðvarpið hafði hætt starfsemi, samkvæmt tilkynningu í síðasta þætti hlaðvarpsins 27. september 2021, og féll því ekki lengur undir gildissvið laga um fjölmiðla.

Umsagnir Fjölmiðlanefndar 2021

 
Fjölmiðlanefnd veitti fimm formlegar umsagnir um lagafrumvörp, fjórar að beiðni Alþingis og eina að beiðni heilbrigðisráðuneytis en enginn samruni var tilkynntur á fjölmiðlamarkaði árið 2021. Þá veitti Fjölmiðlanefnd eitt álit í máli sem var til meðferðar hjá Fjarskiptastofu.

 

Allar umsagnir Fjölmiðlanefndar eru aðgengilegar á vefsíðu nefndarinnar.

Eftirlit með Ríkisútvarpinu skv. 15. gr. laga um Ríkisútvarpið

 
Samkvæmt 15. gr. laga um Ríkisútvarpið nr. 23/2013 á Fjölmiðlanefnd að leggja sjálfstætt mat á það hvort Ríkisútvarpið hafi uppfyllt almannaþjónustuhlutverk sitt samkvæmt 3. gr. laga um Ríkisútvarpið. Matið á Fjölmiðlanefnd að afhenda stjórn Ríkisútvarpsins og mennta- og menningarmálaráðherra (nú viðskipta- og menningarmálaráðherra) eigi síðar en fjórum mánuðum eftir að ársskýrsla Ríkisútvarpsins hefur verið birt ár hvert. Í samningi mennta- og menningarmálaráðherra og Ríkisútvarpsins um fjölmiðlaþjónustu í almannaþágu 2020-2023 segir að Ríkisútvarpið skuli árlega útbúa greinargerð til Fjölmiðlanefndar um það hvernig Ríkisútvarpið stendur að fjölmiðlaþjónustu í almannaþágu.
 
Ekki var unnt að hefja vinnu við mat Fjölmiðlanefndar á almannaþjónustuhlutverki Ríkisútvarpsins fyrir árið 2020, þar sem tafir urðu á vinnu við greinargerð Ríkisútvarpsins um fjölmiðlun í almannaþágu fyrir það ár og barst hún ekki fyrr en í janúarlok 2022. Hefur Fjölmiðlanefnd beint þeim tilmælum til Ríkisútvarpsins að vinnu við greinargerð um fjölmiðlaþjónustu í almannaþágu verði hraðað framvegis, svo unnt verði að tryggja skilvirkara mat nefndarinnar á almannaþjónustuhlutverkinu hverju sinni.

Erlent samstarf

Starfsfólk Fjölmiðlanefndar fylgdist með þróun löggjafar á sviði fjölmiðla og stafrænna samskipta og tók þátt í norrænni samvinnu og alþjóðlegu samstarfi stofnana og vinnuhópa á vettvangi ERGA og EPRA. Allt erlent samstarf árið 2021 fór fram í gegnum netið vegna heimsfaraldurs kórónuveiru. Þá fundaði starfsfólk nefndarinnar með fulltrúum frá Netflix, Google og Facebook til að afla upplýsinga um aðgerðir gegn upplýsingaóreiðu, aldursmat, aldursmerkingar á myndefni o.fl.
Haldnir voru fjórir sameiginlegir fundir norrænna eftirlitsstofnana á sviði fjölmiðla á árinu, þann 20. janúar, 24. mars, 10. júní og 2. nóvember 2021. Hver stofnun greindi þar frá helstu málum og áherslum í starfi sínu, rætt var um aðgerðir gegn upplýsingaóreiðu, málefni tengd lögsögu fjölmiðla, fyrirhugaða Evrópulöggjöf í tengslum við stafræn samskipti og markaðssetningu o.fl.

ERGA

Fjölmiðlanefnd tók þátt í starfi ERGA, sem er samráðshópur eftirlitsaðila á sviði hljóð- og myndmiðlunar innan EES. Hópurinn gegnir ráðgjafarhlutverki gagnvart framkvæmdastjórn Evrópusambandsins og stuðlar að samvinnu eftirlitsaðila á sviði hljóð- og myndmiðlunar innan EES.
 
Aðalfundir ERGA voru haldnir í gegnum vef 1. júní 2021 og 2. desember 2021. Þá sátu starfsmenn veffræðslufund á vegum ERGA 2. febrúar 2021 um væntanlega löggjöf Evrópusambandsins um stafrænar þjónustur, Digital Services Act (DSA) annars vegar og samkomulag ERGA, ERGA Memorandum of Understanding hins vegar.
 
Stofnað var tengiliðanet ERGA á árinu en það starfar á grundvelli áðurnefnds „ERGA Memorandum of Understanding“, sem er formlegt samkomulag milli eftirlitsstofnana aðildarríkja að ERGA um samstarf og upplýsingaskipti. Tengiliðir sinntu ýmsum almennum og sértækum upplýsingabeiðnum sem sendar voru á milli eftirlitsstofnana á EES-svæðinu, á grundvelli samkomulags ERGA. Þá hélt tengiliðanetið tvo formlega fundi á árinu, 5. júní og 10. nóvember 2021, auk þess sem fundað var óformlega 19. maí 2021. Heiðdís Lilja Magnúsdóttir, yfirlögfræðingur nefndarinnar, tók þátt í starfi tengiliðanets ERGA en þar var m.a. farið yfir ýmis lagaleg álitaefni sem upp hafa komið vegna hljóð- og myndmiðlunar yfir landamæri ríkja á EES-svæðinu.
 
Eftirtalin eru helstu skjöl sem ERGA samþykkti á árinu:

EPRA

 
Fjölmiðlanefnd tók þátt í starfi EPRA, sem er samstarfsvettvangur 53 fjölmiðlanefnda frá 47 Evrópuríkjum en fræðslu- og samráðsfundir eru haldnir tvisvar á ári hverju. Dagana 20.-21. maí 2021 fór fyrri fundur EPRA fram en sá síðari var haldinn 14. október 2021.
 
Fjölmiðlanefnd átti fulltrúa í vinnuhópi um miðlalæsi á vegum EPRA sem nefnist EMIL – EPRA Media Literacy Taskforce. Haldnir voru þrír formlegir fundir á árinu; 21. maí, 19. júlí og 15. október 2021.
Fundir með Netflix, Facebook og Google
Starfsfólk Fjölmiðlanefndar fundaði með fulltrúa Netflix í janúar um aldursmat og aldursmerkingar á myndefni sem aðgengilegt er hér á landi o.fl. Í febrúar var fundað með fulltrúum Facebook um aðgerðir Facebook gegn heilsutengdri upplýsingaóreiðu og í mars var haldin sams konar fundur með fulltrúum Google. Allir fundirnir fóru fram í gegnum vef.
 
Stýrinefnd Evrópuráðsins um fjölmiðla- og upplýsingasamfélagið
Elfa Ýr Gylfadóttir, framkvæmdastjóri Fjölmiðlanefndar, hefur tekið þátt í starfi Stýrinefndar Evrópuráðsins um fjölmiðla- og upplýsingasamfélagið fyrir hönd Íslands síðustu ár. Sat hún 19. aðalfund stýrinefndarinnar sem var haldinn í gegnum vef dagana 19.-21. maí 2021.
 
ODIHR, Lýðræðis- og mannréttindastofnun ÖSE
Starfsfólk Fjölmiðlanefndar fundaði 18. maí 2021 með ODIHR, Lýðræðis- og mannréttindastofnun ÖSE, vegna alþingiskosninga 2021, í gegnum vef.
 
Auk framangreinds svaraði starfsfólk Fjölmiðlanefndar fyrirspurnum og upplýsingabeiðnum af ýmsum toga frá alþjóðlegum aðilum, m.a. frá European Audiovisual Observatory, sem er evrópskt rannsóknarsetur á sviði hljóð- og myndmiðla í Strassborg.

Önnur verkefni

Opinberum aðilum og öðrum skilaskyldum aðilum ber skylda til að skila gögnum sínum til Þjóðskjalasafns Íslands, bæði á pappír og með rafrænum hætti, skv. lögum um opinber skjalasöfn nr. 77/2014. Afhendingarskyldir aðilar eiga að afhenda pappírsskjöl þegar þau eru orðin 30 ára og rafræn gögn ekki eldri en 5 ára. Fjölmiðlanefnd er skilaskyldur aðili í skilningi laganna en skjal eru hvers konar gögn, jafnt rituð sem í öðru formi er hafa að geyma upplýsingar og hafa orðið til, borist eða verið viðhaldið við starfsemi á vegum stofnunar eða einstaklings.

 

Á árinu 2021 var ráðist í það verkefni að afhenda Þjóðskjalasafni öll skjöl úr málaskrá nefndarinnar fram til ársins 2021, bæði á pappír og rafræn, en rafræn gagnasöfn eru afhend Þjóðskjalasafni í svokallaðri vörsluútgáfu í samræmi við ákvæði laga nr. 77/2014. Fjölmiðlanefnd notar skjala- og verkefnastjórnunarkerfið CoreData sem er þróað og rekið af CoreData Solutions. Kristíanna Jessen og Helga Guðrún Lárusdóttir hjá CoreData Solutions stýrðu verkefninu sem var unnið í samstarfi við starfsfólk á skrifstofu Fjölmiðlanefndar.
Starfsfólki á skrifstofu Fjölmiðlanefndar var á árinu 2021 falin umsýsla fyrir úthlutunarnefnd svo og að veita nefndinni sérfræðiaðstoð, vegna úthlutunar rekstrarstuðnings til einkarekinna fjölmiðla. Fór sú vinna að mestu leyti fram í ágústmánuði.
Úthlutunarnefnd starfar samkvæmt lögum um fjölmiðla nr. 38/2011, eins og þeim var breytt með lögum nr. 58/2021, og reglugerð nr. 770/2021. Úthlutunarnefnd skipa Árni Vilhjálmsson hæstaréttarlögmaður, Stefán Svavarsson endurskoðandi og Valgerður Anna Jóhannsdóttir, lektor við Háskóla Íslands.
 
Úthlutunarnefnd auglýsti eftir umsóknum í Morgunblaðinu, Fréttablaðinu, Lögbirtingablaðinu og með tilkynningu á vef Fjölmiðlanefndar en í reglugerð um rekstrarstuðning til einkarekinna fjölmiðla nr. 770/2021 kemur fram að umsókn um rekstrarstuðning, ásamt fylgigögnum, skuli berast úthlutunarnefnd eigi síðar en 1. ágúst 2021 og 2022.
Alls bárust 23 umsóknir um sérstakan rekstrarstuðning til einkarekinna fjölmiðla, þar sem samtals var sótt um 880 milljónir kr. Til úthlutunar voru 392 millj. kr. að frádreginni þóknun fyrir störf úthlutunarnefndar, auk auglýsingakostnaðar og annars kostnaðar við umsýslu, sem nam alls 3.152.661 kr. Alls voru því 388.847.339 kr. til úthlutunar og skiptust þær á milli þeirra 19 fjölmiðlaveitna sem hlutu stuðning en tveimur umsóknum var hafnað og tveimur vísað frá.
 
Úthlutunarnefnd afhenti mennta- og menningarmálaráðherra úthlutunargerð með niðurstöðu sinni þann 2. september 2021.
Árið 2021 gátu íslenskir og aðrir norrænir fjölmiðlar sótt um stuðning frá Facebook (nú Meta) til að styrkja útgáfu sína með ýmsum hætti. Um var að ræða verkefni sem á ensku kallaðist „Nordic Reader Revenue Accelerator“ (norrænn viðskiptahraðall) og var ætlaður fréttamiðlum af öllu tagi. Voru staðbundir fjölmiðlar og fjölmiðlar á svæðum þar sem lítil fjölmiðlun er fyrir hendi sérstaklega hvattir til að sækja um en verkefnið gekk út á að styðja starfandi svæðisbundna fjölmiðla á Norðurlöndunum til að hagnýta nýstárlegar hugmyndir í fjölmiðlun og dreifingu frétta og laga sig betur að stafrænni fjölmiðlun.
 
Fjölmiðlanefnd vakti athygli á þessu framtaki Facebook með tölvupósti sem sendur var til allra skráðra fjölmiðla hér á landi. Að minnsta kosti einn íslenskur fjölmiðill nýtti sér tækifærið og var valinn úr hópi hundruða umsækjenda til að taka þátt í verkefninu: Skessuhorn, fréttaveita Vesturlands. Valið var í höndum Facebook ásamt International Center for Journalists (ICFJ) og þjálfurum Nordic Accelerator. Alls tóku sextán norræn fjölmiðlafyrirtæki þátt í verkefninu, auk Skessuhorns, en þar á meðal voru Avisa Lofoten í Noregi, Det Nordjyske Mediehus í Danmörku og Keskisuomalainen Oyj í Finnlandi.
Árið 2021 svöruðu starfsmenn Fjölmiðlanefndar rúmlega fimmtíu fyrirspurnum og upplýsingabeiðnum sem stöfuðu aðallega frá einstaklingum, fjölmiðlum, erlendum fjömiðlanefndum, alþjóðastofnunum, ráðuneytum, námsmönnum og lögmönnum.
 
Fyrirspurnirnar voru af ólíkum toga. Flestar vörðuðu skráningarskyldu hlaðvarpa og stöfuðu bæði frá stjórnendum hlaðvarpa og öðrum fjölmiðlum, vegna umfjöllunar um starfsemi hlaðvarpa í fjölmiðlum. Nokkuð var spurt um reglur um auglýsingar á nikótínpúðum og rafrettum og margar fyrirspurnir bárust vegna rekstrarstuðnings við einkarekna fjölmiðla, bæði frá umsækjendum og blaðamönnum sem fjölluðu um málið í fjölmiðlum. Stjórnendur fjölmiðla höfðu samband til að óska eftir leiðbeiningum varðandi gildandi lagareglur um starfsemi þeirra og ábyrgð á fjölmiðlaefni. Námsmenn og sérfræðingar óskuðu eftir ýmsum upplýsingum, t.d. yfirliti yfir úrskurði nefndarinnar vegna áfengisauglýsinga, tölur varðandi hlutfall kvenna á ritstjórnum, tölfræðiupplýsingar um fjölda fréttafólks á ritstjórnum og upplýsingar um þróun auglýsingamarkaðar. Nefndin veitti ráðuneytum upplýsingar og ráðgjöf, sem varðaði málefnasvið nefndarinnar, þegar leitað var eftir því. Þá óskuðu erlendar fjölmiðlanefndir og alþjóðastofnanir eftir ýmsum upplýsingum um íslensk lög, valdheimildir nefndarinnar og annað er varðar starfsemi hennar og fjölmiðla í íslenskri lögsögu.
Starfsmenn Fjölmiðlanefndar urðu við fjölda beiðna um að halda erindi hérlendis og erlendis á málþingum, fræðslufundum, vefráðstefnum, samráðsfundum, endurmenntunarnámskeiðum og í skólum á framhalds- og háskólastigi. Umfjöllunarefnin tengdust málefnasviði Fjölmiðlanefndar: fjölmiðlum, tjáningarfrelsi, upplýsinga- og miðlalæsi og skaðlegum áhrifum upplýsingaóreiðu á samfélagið.

 

1. febrúar 2021
Málþing Félags stjórnmálafræðinga, Alþjóðamálastofnunar Háskóla Íslands og Stofnunar stjórnsýslufræða og stjórnmála, haldið í gegnum vef. Elfa Ýr Gylfadóttir framkvæmdastjóri flutti erindið „Hversu langt nær málfrelsið? Vald samfélagsmiðla til ritskoðunar“. Sævar Finnbogason stjórnmálaheimspekingur stýrði umræðum.
 
24. febrúar 2021
Fræðslufundur Kappadeildar, deildar í samtökunum Delta-Kappa-Gamma, félagi kvenna í fræðslustörfum. Elfa Ýr Gylfadóttir framkvæmdastjóri flutti erindið „Miðlalæsi – ein mikilvægasta færni 21. aldar“.
 
18. mars 2021
Málþingið „The Covid pandemic against the backdrop of post-truth politics“ í Norræna húsinu í Reykjavík. Elfa Ýr Gylfadóttir framkvæmdastjóri tók þátt í pallborði en málþingið var haldið á vegum HÖFÐA, friðarseturs Reykjavíkurborgar og Háskóla Íslands.
 
25.-26. mars 2021
Alþjóðlega ráðstefnan Democracy in a Digital Future í Hörpu í Reykjavík. Elfa Ýr Gylfadóttir framkvæmdastjóri tók þátt í pallborðsumræðum en framsöguerindi á ráðstefnunni fluttu m.a. Shoshana Zuboff, David Runciman, Mireille Hildebrandt og Virginia Dignum. Forsætisráðuneytið stóð fyrir ráðstefnunni, í samvinnu við Rannsóknarsetrið Eddu við Háskóla Íslands, Alþingi og Fjölmiðlanefnd.
 
7. maí 2021
Vefráðstefna Evrópuráðsins um áhrif COVID-19 á fjölmiðlafrelsi. Elfa Ýr Gylfadóttir framkvæmdastjóri tók þátt í umræðum á ráðstefnunni sem haldin var í tilefni af formennsku Þýskalands í ráðherranefnd Evrópuráðsins.
 
7. maí 2021
Fjölmiðlar og landsbyggðir. Opinn fundur á vegum Samtaka sveitarfélaga á Vesturlandi í Hofi á Akureyri. Elfa Ýr Gylfadóttir framkvæmdastjóri fjallaði um hina svokölluðu „hvítu bletti fjölmiðlunar“ og þann lærdóm sem draga má af nágrönnum okkar á Norðurlöndunum um stöðu staðbundinna miðla og hlutverk ríkisfjölmiðla.
 
10. júní 2021
Fundur norrænna fjölmiðlanefnda, haldin í gegnum vef. Skúli Bragi Geirdal verkefnastjóri flutti erindi um falsfréttir og upplýsingaóreiðu. Anton Emil Ingimarsson lögfræðingur flutti erindi um hlaðvörp og lög um fjölmiðla.
 
16. júní 2021
Alþjóðadagurinn í Norræna húsinu í Reykjavík. Skúli Bragi Geirdal verkefnastjóri tók þátt í pallborðsumræðum undir yfirskriftinni „Falsfréttir og fjölmiðlar á Norðurlöndum – hvernig vinnum við best gegn upplýsingaóreiðu?“.
 
7. júlí 2021
Fundur sérfræðingahóps OECD um varnir og baráttu gegn upplýsingaóreiðu (OECD Expert Group Meeting on Preventing and Combating Mis- and Dis-Information), haldinn í gegnum vef. Skúli Bragi Geirdal verkefnastjóri flutti erindið „Iceland priorities going forward“.
 
30. ágúst 2021
Endurmenntunarnámskeið fyrir norræna blaðamenn, í húsakynnum Blaðamannafélags Íslands í Reykjavík. Elfa Ýr Gylfadóttir framkvæmdastjóri hélt kynningu á starfsemi Fjölmiðlanefndar, íslensku fjölmiðlaumhverfi og löggjöf í samanburði við Norðurlönd.
 
6. október 2021
Fræðslusetrið Starfsmennt. Elfa Ýr Gylfadóttir framkvæmdastjóri flutti veffyrirlestur um falsfréttir, samfélagsmiðla og gervigreind. Erindið var hluti af fyrirlestraröð um almenna stafræna hæfni, í tilefni af 20 ára afmæli Starfsmenntar.
 
20. október 2021
Kvennaskólinn í Reykjavík.  Skúli Bragi Geirdal verkefnastjóri flutti fyrirlesturinn „Völd í samfélaginu: Stjórnmálafræði, fjölmiðlar og upplýsingamengun“ um miðlanotkun ungmenna.
 
27. október 2021
Fundur samráðshóps um vernd einstaklinga í aðdraganda kosninga. Skúli Bragi Geirdal verkefnastjóri flutti erindi um falsfréttir og upplýsingaóreiðu í aðdraganda alþingiskosninga.
 
2. nóvember 2021
Fundur norrænna fjölmiðlanefnda, haldinn í gegnum vef. Skúli Bragi Geirdal verkefnastjóri flutti erindið „Hate speech and negative online experience. Fake news an information disorder in the Icelandic parliamentary elections 2021.“.
 
10. nóvember 2021
Námskeiðið „Inngangur að fjölmiðlafræði“ við Háskóla Íslands. Elfa Ýr Gylfadóttir framkvæmdastjóri fjallaði um upplýsingaóreiðu og falsfréttir.
 
18. nóvember 2021
Kvikmyndamiðstöð Íslands: Ráðstefna um kvikmyndalæsi og gerð barnaefnis. Skúli Bragi Geirdal verkefnastjóri flutti erindi um áhorfsvenjur og miðlanotkun aldurshópsins 9-12 ára.
 
 

Fjölmiðlaumfjöllun

 
Fulltrúar Fjölmiðlanefndar sinntu jafnframt viðtalsbeiðnum fjölmiðla um ýmis mál sem tengjast málefnasviði nefndarinnar og veittu auk þess almennar bakgrunnsupplýsingar vegna fréttaumfjöllunar af ýmsu tagi.
 

Viðtöl í ljósvakamiðlum:

 
1. febrúar 2021
Kastljós á RÚV: „Ákveðnir hópar líklegri til að lenda í hatursorðræðu.“ Viðtal við Elfu Ýri Gylfadóttur framkvæmdastjóra.
 
15. febrúar 2021
Ísland vaknar á K100: „Ef við erum meðvituð um hvernig samfélagsmiðlar ganga fyrir sig.“ Viðtal við Elfu Ýri Gylfadóttur framkvæmdastjóra. Í viðtalinu var fjallað um það hvaða upplýsingum er safnað um notendur samfélagsmiðla og hvernig þær eru notaðar.
 
29. apríl 2021
Morgunvaktin á Rás 1: „Tilefni til að skoða lagarammann vegna árása á fjölmiðlamenn.“ Elfa Ýr Gylfadóttir framkvæmdastjóri fjallaði um íslenska hlaðvarpsheiminn og fjölmiðlamarkaðinn.
 
6. maí 2021
Kastljós á RÚV: „Hver er rétturinn til andsvara á Instagram?“ Viðtal við Elfu Ýri Gylfadóttur framkvæmdastjóra um mörkin milli almannarýmis og einkarýmis.
 
22. maí 2021
Hádegisfréttir Ríkisútvarpsins og vefur RÚV: „Tveir af þremur nálgast fréttir á samfélagsmiðlum.“ Viðtal við Skúla Braga Geirdal, verkefnastjóra, um nýútkomna skýrslu Fjölmiðlanefndar um miðla og fréttanotkun á Íslandi
 
10. júní 2021
Reykjavík síðdegis á Bylgjunni: „Fjölmiðlanefnd hefur áhyggjur af falsfréttum í aðdraganda kosninga.“ Viðtal við Skúla Braga Geirdal, verkefnastjóra, um skýrslu Fjölmiðlanefndar um falsfréttir og upplýsingaóreiðu.
 
18. ágúst 2021
Morgunútvarpið á Rás 2: Rætt við Skúla Braga Geirdal, verkefnastjóra, um skýrslu um hatursorðræðu og friðhelgi einkalífs.
 
19. ágúst 2021
Reykjavík Síðdegis á Bylgjunni: „Yngra fólk lendir oftar í hatursfullri orðræðu á netinu en þeir eldri.“ Rætt við Skúla Braga Geirdal, verkefnastjóra, um skýrslu um hatursorðræðu og friðhelgi einkalífs.
 
19. ágúst 2021
Hádegisfréttir Bylgjunnar: Viðtal við Skúla Braga Geirdal, verkefnastjóra, um skýrslu um hatursorðræðu og friðhelgi einkalífs.
 
22. september 2021
Morgunvaktin á Rás 1: Elfa Ýr Gylfadóttir framkvæmdastjóri fjallaði um upplýsingaóreiðu, samráðshóp um vernd einstaklinga í aðdraganda kosninga og fleira.
 
25. september 2021
Vikulokin á Rás 1: Elfa Ýr Gylfadóttir framkvæmdastjóri fjallaði um kosningaauglýsingar, fjölmiðlaumfjöllun, samfélagsmiðla og fleira á kjördag.
 
26. október 2021
Ísland í bítið á Bylgjunni: „Er hlaðvarp fjölmiðill?“ Rætt við Skúla Braga Geirdal, verkefnastjóra.
 
16. nóvember 2021
Morgunútvarpið á Rás 2: „Íslenskan á undanhaldi.“ Viðtal við Skúla Braga Geirdal, verkefnastjóra, um niðurstöður könnunar Menntavísindastofnunar fyrir Fjölmiðlanefnd, á málnotkun barna og ungmenna á afþreyingarefni, sem birt var í tilefni af degi íslenskrar tungu.
 
15. desember 2021
Hádegið á Rás 1: „Vopnakaup, SAF, samfélagsmiðlar og fjölmiðlar.“ Elfa Ýr Gylfadóttir framkvæmdastjóri fjallaði um stöðu samfélagsmiðla og fjölmiðla, upplýsingaóreiðu og falsfréttamennsku.
 

Greinaskrif í fjölmiðlum

 
10. júní 2021
„Rétturinn til að láta ljúga að sér“ eftir Elfu Ýri Gylfadóttur framkvæmdastjóra. Greinin birtist á Vísi í tilefni af útgáfu skýrslu Fjölmiðlanefndar um falsfréttir og upplýsingaóreiðu.

Skráðir fjölmiðlar og leyfishafar í árslok 2021

Útvarpsstöðvar sem miðla efni á FM-tíðnisviði og sjónvarpsstöðvar sem miðla efni á UHF-tíðnisviði (í lofti) þurfa að sækja um sérstakt leyfi til Fjölmiðlanefndar og sækja um úthlutun á senditíðni til Fjarskiptastofu. Skammtímaleyfi eru veitt til allt að þriggja mánaða en almenn leyfi í allt að sjö ár í senn. Eftirfarandi aðilar höfðu almenn leyfi til hljóð- og myndmiðlunar í árslok 2021.

 

Leyfishafi

Miðill

Tegund miðils

Leyfi gildir til:

 
     

Sýn hf.

Stöð 2

Myndmiðill

30. apr. 2028

(Vodafone)

Stöð 2 Fjölskylda

Myndmiðill

30. apr. 2028

 

Stöð 2 Bíó

Myndmiðill

30. apr. 2028

 

Stöð 2 Sport

Myndmiðill

30. apr. 2028

 

Stöð 2 Sport 2

Myndmiðill

30. apr. 2028

 

Stöð 2 Sport 3

Myndmiðill

30. apr. 2028

 

Stöð 2 Sport 4

Myndmiðill

30. apr. 2028

 

Stöð 2 eSport

Myndmiðill

30. apr. 2028

 

Stöð 2 Vísir

Myndmiðill

30. apr. 2028

 

Stöð 2 Golf

Myndmiðill

30. apr. 2028

 

Bylgjan

Hljóðmiðill

30. apr. 2028

 

Gullbylgjan

Hljóðmiðill

30. apr. 2028

 

Léttbylgjan

Hljóðmiðill

30. apr. 2028

 

FM 957

Hljóðmiðill

30. apr. 2028

 

Íslenska Bylgjan

Hljóðmiðill

30. apr. 2028

 

X-977

Hljóðmiðill

30. apr. 2028

 

Útvarp 101

Hljóðmiðill

15. okt. 2021*

     

Alþingi

Alþingisrásin

Útsending frá Alþingi

30. apr. 2023**

 
     

Kristniboðskirkjan Omega

Omega

Myndmiðill

30. apr. 2021***

 
     

Árvakur hf.

K-100

Hljóðmiðill

30. apr. 2028

 
 

Retró 89,5

Hljóðmiðill

30. apr. 2028

 
     

Frequency ehf.

Flashback 91,9

Hljóðmiðill

30. apr. 2022

 
 

80’s Flashback 101,5

Hljóðmiðill

30. apr. 2022

 
 

Kiss FM 104,5

Hljóðmiðill

30. apr. 2022

 
     

Boðunarkirkjan

Útvarp Boðun

Hljóðmiðill

30. apr. 2027

 
     

Hans K. Kristjánsson

Útvarp Ás 98,3

Hljóðmiðill

30. apr. 2023

 
     

Hljóðsmárinn ehf.

FM Trölli 103,7

Hljóðmiðill

30. apr. 2022

 
     

Hringbraut Fjölmiðlar ehf. (dótturfélag Torgs ehf.)

Hringbraut

Myndmiðill

5. sep. 2022

 
    
     

Léttur ehf.

Suðurland FM

Hljóðmiðill

30. apr. 2022

 
     

Lindin fjölmiðlun

Lindin útvarp

Hljóðmiðill

30. apr. 2028

 
     

Saganet ehf.

Útvarp Saga

Hljóðmiðill

30. apr. 2023

 
     

XA Radíó áhugamannafélag

XA-Radíó

Hljóðmiðill

30. apr. 2024

 
     

Ríkisútvarpið ohf.

RÚV

Myndmiðill

****

 
 

RÚV2 (RÚV Íþróttir)

Myndmiðill

  
 

Rás 1

Hljóðmiðill

  
 

Rás 2

Hljóðmiðill

  
 

Rondó

Hljóðmiðill

  

* Leyfi Sýnar vegna Útvarps 101 rann út í októberlok 2021. Umsókn 101 Productions ehf. um almennt leyfi vegna sömu starfsemi var í ferli hjá Fjölmiðlanefnd í árslok.

** Alþingi hefur almennt leyfi til hljóð- og myndmiðlunar vegna beinna útsendinga frá störfum þingsins en Alþingi er ekki fjölmiðlaveita í skilningi laga.

*** Umsókn Kristniboðskirkjunnar Omega um áframhaldandi leyfi var í ferli hjá Fjölmiðlanefnd í árslok.

**** Ríkisútvarpið starfar skv. lögum um Ríkisútvarpið, fjölmiðil í almannaþágu, nr. 23/2013 og hefur leyfi samkvæmt þeim lögum.

Fjölmiðlaveita

Fjölmiðill

Tegund fjölmiðils

     

24 miðlar ehf.

24 -ÞÍNAR FRÉTTIR

Vefmiðill

   

Albert Guðmundsson

Eystrahorn

Prentmiðill

 

Eystrahorn.is

Vefmiðill

     

Aldur er bara tala ehf.

Aldur er bara tala

 

Vefmiðill

     

Arcdata ehf.

Arcticportal.org

 

Vefmiðill

   

Austurfrétt ehf.

Austurfrett.is

Vefmiðill

     

Árvakur hf.

Morgunblaðið

 

Prentmiðill

 

Mbl.is

Vefmiðill

     

Ásdís Haraldsdóttir

Hestamennska

 

Vefmiðill

     

Ásgrímur Sverrisson

Klapptré

Vefmiðill

   

Birtíngur útgáfufélag ehf.

Gestgjafinn

Prentmiðill

 

Vikan

Prentmiðill

 

Hús og híbýli

Prentmiðill

   

Björt útgáfa

Hafnfirðingur

Prentmiðill

 

Hafnfirðingur.is

Vefmiðill

   

Borgarblöð ehf.

Vesturbæjarblaðið

Prentmiðill

 

Breiðholtsblaðið

Prentmiðill

 

Nesfréttir

Prentmiðill

   

Bændasamtök Íslands

Bændablaðið

Prentmiðill

 

Bbl.is

Vefmiðill

    

Caty Capital ehf.

Heilsutorg.is

Vefmiðill

   

Davíð Eldur Baldursson

Karfan

Vefmiðill

     

Doc Media slf.

Dr. Football

 

Hlaðvarp

     

Eiðfaxi ehf.

Eiðfaxi

  

Prentmiðill

 

Eidfaxi.is

Vefmiðill

     

Eigin herra ehf.

Akureyri.net

 

Vefmiðill

     

Einar Guðmann

Fitnessfréttir

Prentmiðill

 

Fitness.is

Vefmiðill

     

Eiríkur Jónsson ehf.

Eirikurjonsson.is

Vefmiðill

   

Elísa Guðrún ehf.

Lifandi vísindi

Prentmiðill

 

Visindi.is

Vefmiðill

   

ET miðlar ehf.

Eyjar.net

Vefmiðill

   

Eyjasýn ehf.

Eyjafréttir

Prentmiðill

 

Eyjafrettir.is

Vefmiðill

   

Flóra útgáfa ehf.

Vía

  

Vefmiðill

   

Flugufréttir ehf.

Flugufréttir

Vefmiðill

   

Fótbolti ehf.

Fotbolti.net

Vefmiðill

   

Fótspor ehf.

Vestri

Prentmiðill

 

Vestfirðingur

Prentmiðill

 

Norðurland

Prentmiðill

 

Austri

Prentmiðill

 

Suður

Prentmiðill

 

Suðurnesjablaðið

Prentmiðill

 

Báran

Prentmiðill

 

Hamar

Prentmiðill

   

Frequency ehf.

60’s Flashback

Netútvarp

 

70’s Flashback

Netútvarp

 

80’s Flashback

Netútvarp

 

90’s Flashback

Netútvarp

 

Kiss FM-Xtra

Netútvarp

 

Kiss FM

Netútvarp

 

Flashback

  

Netútvarp

 

 

 

 

 

Fréttin ehf.

Fréttin.is

  

Vefmiðill

   

Fröken ehf.

Reykjavík Grapevine

Prentmiðill

 

Grapevine.is

Vefmiðill

     

G. Hermannsson ehf.

Fréttatíminn.is

Vefmiðill

     

Gebo ehf.

Menn.is

Vefmiðill

Nútíminn

Vefmiðill

SKE

Prentmiðill

 

Ske.is

Vefmiðill

     

Ghost Network ehf.

Draugasögur Podcast

Hlaðvarp

     

Golfsamband Íslands

Golf á Íslandi

Prent- og vefmiðill

   

Gospel Channel Evrópa ehf.

Gospel Ch. Scandinavia

Myndmiðill

 

Gospel Channel UK

Myndmiðill

   

Hafþór Hreiðarsson

640.is

Vefmiðill

     

Helgi Helgason

Skinna.is

  

Vefmiðill

     

Hestafréttir ehf.

Hestafréttir

 

Vefmiðill

     

Hringbraut-Fjölmiðlar ehf.

Hringbraut

 

Myndmiðill

 

Hringbraut.is

 

Vefmiðill

     

Hulda Margrét Óladóttir

Hvítir skuggar

 

Vefmiðill

   

Hönnunarhúsið ehf.

Fjarðarfréttir.is

Vefmiðill

   

Í boði náttúrunnar

Í boði náttúrunnar

Prentmiðill

 

Ibn.is

Vefmiðill

     

Íslenska sjónvarpsfélagið ehf.

Filmflex.is

 

Myndmiðill

     

Jón G. Hauksson

Fjármál og ávöxtun

 

Prentmiðill

   

Jón Guðbjörn Guðbjörnsson

Litlihjalli.is

Vefmiðill

     

Kaffið fjölmiðill ehf.

Kaffið.is

Vefmiðill

   

Kjarninn miðlar ehf.

Kjarninn

Vefmiðill

 

Vísbending

Prentmiðill

     

Klettagjá ehf.

Krumminn

 

Vefmiðill

     

Kópavogsblaðið slf.

Kópavogsblaðið

 

Prentmiðill

 

Kopavogsbladid.is

Vefmiðill

     

Kópavogspósturinn ehf.

Kópavogspósturinn

Prentmiðill

   

Kristján Sigurjónsson

Túristi

Vefmiðill

   

Krosseyri ehf.

Midjan.is

Vefmiðill

 

Heima er bezt

Prentmiðill

     

Leturstofan sf.

Tígull

Vefmiðill

   

Lifðu núna ehf.

Lifðu núna

Vefmiðill

   

Marteinssynir ehf.

641.is

Vefmiðill

   

MD Reykjavík ehf.                        

Iceland Review  

Prentmiðill

 

Icelandreview.com

Vefmiðill

 

What’s on

Prentmiðill

 

Whatson.is

Vefmiðill

   

Mosfellingur ehf.

Mosfellingur

Prentmiðill

 

Mosfellingur.is

Vefmiðill

   

Myllusetur ehf.

Viðskiptablaðið

Prentmiðill

 

Vb.is

Vefmiðill

 

Fiskifréttir

Prentmiðill

 

Fiskifrettir.is

Vefmiðill

 

Frjáls verslun

 

Prentmiðill

     

N4 ehf.

N4 Sjónvarp

 

Myndmiðill

 

N4 blaðið

Prentmiðill

   

Nordic Media ehf.

Local Suðurnes

Vefmiðill

     

Nordic Times Media ehf.

Land og saga

 

Prentmiðil

 

Nordic Times

 

Prentmiðill

 

Icelandic Times

 

Prentmiðill

   

Nova hf.

Nova TV

Myndmiðill

   

Nýprent ehf.

Feykir

Prentmiðill

 

Feykir.is

Vefmiðill

   

Nýtt land ehf.

Tímaritið Herðubreið

Vefmiðill

   

Okkar allra ehf.

Spegill.is

Vefmiðill

   

Olgeir Helgi Ragnarsson

Íbúinn

Prentmiðill

   

Prentmet Oddi ehf.

Dagskráin

Prentmiðiill

 

Dfs.is

Vefmiðill

 

Fréttablað Suðurlands

Prentmiðill

   

Prentmet Vesturlands

Pósturinn

Prentmiðill

   

Ragnar Z. Guðjónsson

Húnahornið

Vefmiðill

 

Huni.is

Vefmiðill

   

Reykjavík Media ehf.

Reykjavík Media

Vefmiðill

   

Ritsýn sf.

Kvótinn.is

Vefmiðill

   

Ríkisútvarpið ohf.

Ruv.is

Vefmiðill

   

Saganet ehf.

Utvarpsaga.is

Vefmiðill

   

Sigurður Ægisson

Siglfirdingur.is

Vefmiðill

   

Skagafréttir ehf.

Skagafréttir

Vefmiðill

   

Síminn hf.

Sjónvarp Símans

 

Myndmiðill

 

Síminn Sport

 

Myndmiðill

 

Síminn Sport

 

Myndmiðill

 

Síminn Sport 2

 

Myndmiðill

 

Síminn Sport 3

 

Myndmiðill

 

Síminn Sport 4

 

Myndmiðill

 

Sjónvarp Símans Premium

Myndmiðlun e. pöntun (VOD)

 

Síminn Bíó

Myndmiðlun e. pöntun (VOD)

   

Skessuhorn ehf.

Skessuhorn

Prentmiðill

 

Skessuhorn.is

Vefmiðill

     

Skrautás

Grafarvogsblaðið

Prentmiðill

 

Árbæjarblaðið

Prentmiðill

     

Snasabrún ehf.

Handbolti.is

Vefmiðill

     

Sólartún ehf.

Mannlíf

  

Prentmiðill

 

Mannlif.is

  

Vefmiðill

     

Steig ehf.

Bæjarins besta

Prentmiðill

 

Bb.is

Vefmiðill

   

Steinprent ehf.

Bæjarblaðið Jökull

Prentmiðill

     

Steve Dagskrá ehf.

Steve Dagskrá

 

Hlaðvarp

   

Sumarhúsið og garðurinn ehf.

Sumarhúsið og garðurinn

Prentmiðill

 

Rit.is

Vefmiðill

   

Sunnlenska fréttaveitan ehf.

Sunnlenska fréttablaðið

Prentmiðill

   

Sýn hf. (Vodafone)

80’s Bylgjan

Vefútvarp

 

Apparatið

Vefútvarp

 

FM Extra

Vefútvarp

 

Visir.is

Vefmiðill

 

Stöð 2+

Myndmiðlun e. pöntun (VOD)

   

Sýslið verkstöð ehf.

Strandir.is

 

Vefmiðill

   

Torg ehf.

Fréttablaðið

Prentmiðill

 

Frettabladid.is

Vefmiðill

 

Markaðurinn

Prentmiðill

 

Markadurinn.is

DV

Vefmiðill

Prentmiðill (í útgáfuhléi)

 

DV.is

Vefmiðill

 

Pressan.is

Vefmiðill

 

Eyjan.is

Vefmiðill

 

Bleikt.is

Vefmiðill

 

433.is

Vefmiðill

 

Icelandmag.is

Vefmiðill

   

Tunnan prentþjónusta ehf.

DB blaðið

Prentmiðill

 

Dbl.is

Vefmiðill

 

Tunnan

Prentmiðill

 

Tunnan.is

Vefmiðill

 

Hellan

Prentmiðill

     

Tvær stjörnur ehf.

Sunnlenska.is

Vefmiðill

     

Úr vör ehf.

Úr vör

  

Vefmiðill

     

Útgáfufélag Austurlands ehf.

Austurglugginn

 

Prentmiðill

     

Útgáfufélag Viljans ehf.

Viljinn

Vefmiðill

     

Útgáfufélagið ehf.

Vikublaðið

 

Prentmiðill

 

Vikubladid.is

Vefmiðill

     

Útgáfufélagið Stundin ehf.

Stundin

  

Prentmiðill

 

Stundin.is

Vefmiðill

   

Valdimar Tryggvi Kristófersson

Garðapósturinn

Prentmiðill

   

Vesturtindar ehf.

Víkari.is

Vefmiðill

   

Víkurblaðið ehf.

Víkurblaðið

Prentmiðill

   

Víkurfréttir ehf.

Víkurfréttir

Prentmiðill

 

Vf.is

Vefmiðill

   

Þjóðmál ehf.

Þjóðmál

Prentmiðill

 

Útgefandi: Fjölmiðlanefnd, Borgartúni 21, 105 Reykjavík
Umsjón: Heiðdís Lilja Magnúsdóttir
Grafísk hönnun: Skúli Bragi Geirdal
Prófarkalestur: Anton Emil Ingimarsson og Heiðdís Lilja Magnúsdóttir