Ársskýrsla
2022

Fjölmiðlanefnd er sjálfstæð stjórnsýslunefnd sem annast eftirlit með lögum um fjölmiðla nr. 38/2011 og daglega stjórnsýslu á því sviði sem lögin ná til. Nefndin annast einnig þau hlutverk sem henni eru falin í lögum um Ríkisútvarpið, fjölmiðil í almannaþágu nr. 23/2013, og lögum um eftirlit með aðgangi barna að kvikmyndum og tölvuleikjum nr. 62/2006. Ákvörðunum Fjölmiðlanefndar verður ekki skotið til annarra stjórnvalda.

 

Efnisyfirlit

0
skýrslur um miðlalæsi
0
umsóknir um rekstrarstuðning
0
fræðsluerindi á opinberum vettvangi
0
kvartanir og ábendingar

Ávarp framkvæmdastjóra

Elfa Ýr Gylfadóttir – framkvæmdastjóri 

 
Síðustu ár hafa einkennst af ákveðinni óvissu og ókyrrð í samfélaginu. Þegar þjóðin var rétt farin að sjá fyrir endann á veirufaraldrinum réðust Rússar inn í Úkraínu. Þegar óvissa ríkir reynir almenningur að leita sér upplýsinga sem hægt er að treysta. En á óvissutímum opnast jafnframt möguleiki fyrir ýmsa aðila á að fylla upp í tómarúmið með falsupplýsingum og upplýsingaóreiðu.
Fjölmiðlar hafa því sjaldan verið jafn mikilvægir og einmitt nú. Á síðustu árum hafa fréttir þó borist af mikilli fækkun blaða- og fréttamanna báðum megin Atlantsála. Útgefnum dagblöðum hefur fækkað vegna örra tæknibreytinga þar sem lestur þeirra fer minnkandi á sama tíma og gríðarlegur samdráttur hefur orðið í auglýsingatekjum sem renna í síauknum mæli til stóru tæknifyrirtækjanna, eins og Alphabet og Meta. Þrátt fyrir að blaðamönnum fjölgi á netinu þá hefur þeim fækkað þegar á heildina er litið. Það er því mikil áskorun að tryggja að fjölmiðlar geti sinnt mikilvægu lýðræðishlutverki sínu þegar áskriftar- og auglýsingatekjur dragast saman vegna örra tæknibreytinga og alþjóðavæðingar.
 
Færri sinna rannsóknarblaðamennsku
Sjálfstæðir og öflugir fjölmiðlar sem hafa grundvallargildi blaða- og fréttamennsku að leiðarljósi eru grundvöllur þess að almenningur geti mótað sér skoðanir með upplýstum og rökstuddum hætti. Það eru engir erlendir miðlar sem munu setja erlendar fréttir í íslenskt samhengi, miðla efni sínu á íslensku og segja frá sögu og menningu á Íslandi. Á tímum upplýsingaóreiðu eru fjölmiðlar jafnframt afar mikilvægir því þeir rýna sannleiksgildi heimilda og setja mikilvægar upplýsingar í samhengi fyrir almenning.
 
Þessi þróun gerir það að verkum að rannsóknarblaðamennska er í sérstaklega mikilli hættu. Sífellt færri miðlar hafa getu til miðla slíku efni því rannsóknarblaðamennska er bæði tímafrek og kostnaðarsöm. En mikilvægt er að íslenskir fjölmiðlar hafi getu til að veita stjórnvöldum og fyrirtækjum aðhald. Reynslan sýnir að það er mikilvægur hluti af opnu lýðræðissamfélagi að sterkir og sjálfstæðir fjölmiðlar geti veitt nauðsynlegt aðhald og gætt almannahagsmuna.
 
Það er ákveðin kaldhæðni fólgin í því að samfélagsmiðlarnir, sem eru að fá til sín sífellt stærri hluta af því fjármagni sem varið er í auglýsingar, eru einnig sá vettvangur þar sem upplýsingaóreiða og falsfréttir berast hvað hraðast. Framtíðin er því ekki björt fyrir fréttamiðla á Norðurlöndunum og sést það m.a. í því að Fréttablaðið og sjónvarpsstöðvarnar Hringbraut og N4 hættu allar starfsemi í byrjun árs 2023.
 
Neikvæðar hliðar samfélagsmiðla
Á sama tíma og örar breytingar eru á fjölmiðlamarkaði dreifist upplýsingaóreiða og falsfréttir við óvenjulegar og óvæntar aðstæður. Þetta kom berlega í ljós á árinu 2020 því samhliða kórónuveirufaraldrinum geisaði einnig staðleysufaraldur (e. infodemic) og gerir enn. Á sama hátt er nú áróðursstríð á sama tíma og vopnuð átök eru í Úkraínu. Í áróðursstríði neita stríðandi fylkingar oft ýmsum ásökunum, upplýsingar eru settar fram með það að markmiði að blekkja, trufla og ýkja, auk þess sem hálfsannleik er dreift. Jafnframt á ýmiskonar undirróður sér stað og með nútímatækni eru falskir notendareikningar og yrkjar (e. bots) gjarnan notaðir til að magna hann upp.
 
Miðlar eins og Facebook, YouTube, TikTok og Twitter eru orðnir óaðskiljanlegur hluti af lífi almennings og vettvangur samfélagslegrar umræðu. Tæknifyrirtækin gera fólki um allan heim kleift að tengjast, ný samfélög verða til á netinu og miðlarnir eru mikilvæg uppspretta ýmiskonar upplýsinga og skoðanaskipta. En þrátt fyrir alla kostina, eru vísbendingar um að tæknifyrirtækin séu farin að hafa margháttuð neikvæð áhrif á samfélagið, fjölmiðlamarkaðinn og lýðræðið. Birtingarmyndin er m.a. sú að börnum og ungmennum líður verr, stækkandi hópur segist verða fyrir haturstali á samfélagsmiðlum, upplýsingaóreiða grefur undan trausti, sjálfstæðir fjölmiðlar hætta starfsemi vegna minnkandi auglýsingatekna og vísbendingar eru um að skautun í samfélaginu geti verið að aukast.
 
Rannsóknir á netöryggi barna og ungmenna
Á árinu 2022 var lögð áhersla á annars vegar fjárhagslegan stuðning til einkarekinna fjölmiðla og hins vegar á miðlalæsi, einkum á netnotkun og netöryggi barna og ungmenna. Í þessu samhengi er mikilvægt að hafa í huga að samfélagsmiðlar umbreyta félagslegum samskiptum allra, hvort sem þeir nota miðlana eða ekki. Þeim sem ekki nota samfélagsmiðla getur fundist þeir vera útundan. Vinir og foreldrar þeirra sem ekki nota slíka miðla geta varið miklum tíma á netinu, tíma sem ella gæti verið varið í mikilvæg félagsleg samskipti. Fjölmiðlanefnd taldi því mikilvægt að kanna hvaða miðla börn og ungmenni eru að nota og hvaða áhrif notkunin hefur.
 
Fjölmiðlanefnd birti á árinu rannsókn í sjö hlutum undir heitinu „Börn og netmiðlar“. Þar var m.a. fjallað um öryggi á netinu, netupplifun barna og ungmenna, áhorf á klám, kynferðisleg komment og nektarmyndir og tölvuleikjanotkun. Þá var einnig á haustmánuðum lögð fyrir ítarleg rannsókn að norrænni fyrirmynd til að kanna umfang haturstjáningar, upplýsingaóreiðu, traust og skautun í samfélaginu.
 
Stuðningur til einkarekinna fjölmiðla
Fjölmiðlar eru sjaldan eins mikilvægir og á óvissutímum, þegar veirufaraldur hefur riðið yfir og stríð brotist út í álfunni. Þegar almenningur finnur fyrir hræðslu og óöryggi er mikilvægt að hafa sjálfstæða og vel fjármagnaða fjölmiðla sem geta veitt áreiðanlegar og traustar upplýsingar. En þegar stoðirnar hafa brostið undan tekjumódelum fjölmiðla hafa stjórnvöld reynt að styrkja fjárhagslegan grundvöll fjölmiðla með árlegum stuðningi til einkarekinna fjölmiðla. Á árunum 2020-2022 var slíkur stuðningur veittur til einkarekinna miðla og hefur verið tryggt með lögum að slíkur stuðningur verði áfram veittur á árunum 2023-2024.

Norrænt samstarf um tillögur til úrbóta
Á árinu hófst einnig mikilvægt samstarf með það að markmiði að vernda opna samfélagslega umræðu allra norrænu ríkjanna með því að setja á laggirnar norræna hugveitu sem sett hefur fram raunhæfar tillögur til úrbóta. Sameiginleg framtíðarsýn allra norrænu ríkjanna er að stuðla að opinni og upplýstri umræðu, enda deila Norðurlöndin svipaðri menningu og lýðræðislegum gildum. Stóru samfélagsmiðlarnir og leitarvélarnar eru nú orðnir einn meginvettvangur samfélagslegrar umræðu þar sem almenningur leitar upplýsinga, tekur þátt í umræðu og deilir efni. Þessi vettvangur var ekki til fyrir 20 árum en nú er jafnvel litið á samfélagsmiðla og leitarvélar sem mikilvæga innviði.
 
Það er áhyggjuefni að ekkert gagnsæi ríkir um það hvernig upplýsingum er komið á framfæri við almenning og hvernig algóritmar slíkra miðla virka. Ýmsar vísbendingar eru um að  algóritmar beini skaðlegu efni að börnunum okkar, hafi neikvæð áhrif á lýðræðislega umræðu og auki upplýsingaóreiðu sem grefur undan trausti í samfélaginu. Einnig að skautun í samfélaginu sé að aukast og að hatursorðræða og hótanir leiði til þess að hópar fólks veigri sér við að tjá sig og dragi sig jafnvel út úr opinberri umræðu.
 
Þar sem þjónusta tæknifyrirtækjanna er almennt ókeypis fá þau tekjur sínar af því að selja auglýsingar. Gríðarlegu magni af upplýsingum er safnað um notendur, þ. á m. um áhugamál, skoðanir og staðsetningu, og þær síðan nýttar til þess að beina klæðskerasniðnum auglýsingum að þeim (e. micro-targeting). Markmiðið er að hámarka þann tíma sem notendur verja á miðlunum, oft með því að bjóða upp á grípandi efni sem vekur sterkar tilfinningar. Afleiðingin er sú að slíkt efni fær meiri dreifingu því það fangar frekar athygli notenda en staðreyndir og hlutlægar upplýsingar. Í stað þess að styðja við opna, upplýsta og lýðræðislega umræðu og treysta lýðræðið þrífst hatur og upplýsingaóreiða inni á miðlunum.

Nýjar áskoranir með nýrri tækni
Þó að þessi áskorun sem við stöndum frammi fyrir sé alþjóðleg þá er hún sérstaklega mikil á litlum málsvæðum eins og á Íslandi. Tæknifyrirtækin treysta mjög á sjálfvirka eða hálfsjálfvirka tækni til að fylgjast með og fjarlægja efni sem brýtur í bága við skilmála sem fyrirtækin setja sér sjálf. En þar sem tæknin er fyrst og fremst þjálfuð á ensku eru önnur tungumál, sérstaklega tungumál með fáa notendur, mikil áskorun. Að auki eru skilmálarnir ákvarðaðir og mótaðir fyrir alþjóðlegan markað og lítið tillit tekið til menningar og gilda einstakra ríkja. Í þessu ljósi verður að teljast fagnaðarefni að íslensk máltækni sé komin í notkun í stærsta gervigreindarmállíkani heims, GPT-4, sem samtalsgreindin ChatGPT byggir á, eins og fréttir bárust af í marsmánuði á þessu ári.
 
Við stöndum frammi fyrir miklum tækni- og samfélagsbreytingum. Á sama tíma eru íslenskir fréttamiðlar að reiða sig á ört minnkandi auglýsingatekjur sem fara í auknum mæli til stóru tæknifyrirtækjanna erlendis. Fækkun blaða- og fréttamanna á undanförnum árum gefur sterkar vísbendingar um stöðu og þróun íslenskra fréttamiðla. Sú þróun sýnir að það er full ástæða til að hafa miklar áhyggjur af framtíð íslenskra fjölmiðla.
 
Það er einnig mikilvægt að fylgjast vel með og vekja almenning til umhugsunar um áskoranirnar sem við stöndum frammi fyrir með sífelldum tæknibreytingum. Á sama tíma og hlúa þarf sérstaklega að sjálfstæðum og faglegum fjölmiðlum svo þeir geti sinnt mikilvægu hlutverki sínu þarf að auka miðlalæsi og netöryggi allra aldurshópa hér á landi.

Árið 2022 í tölum

Samstarf við 52 evrópskar fjölmiðlaeftirlitsstofnanir

0
skráðir fjölmiðlar í árslok 2022
0
leyfi til hljóð- eða myndmiðlunar

Hlutverk

Markmið laga um fjölmiðla nr. 38/2011 er að stuðla að tjáningarfrelsi, rétti til upplýsinga, fjölbreytni og fjölræði í fjölmiðlum og að efla vernd neytenda á þeim vettvangi. Markmið laganna er jafnframt að koma á samræmdri löggjöf á vettvangi fjölmiðlunar óháð miðlunarformi.
 
Hlutverk Fjölmiðlanefndar er að stuðla að því að markmiðum og tilgangi laga um fjölmiðla verði náð. Nefndin á að vinna að því að efla fjölmiðlalæsi, fjölbreytni og fjölræði í fjölmiðlum, standa vörð um tjáningarfrelsi og rétt almennings til upplýsinga. Nefndin á sérstaklega að stuðla að því að vernd barna sé virt.
 
Fjölmiðlanefnd var stofnuð með lögum um fjölmiðla nr. 38/2011. Með lögunum var innleidd hljóð- og myndmiðlunartilskipun Evrópusambandsins og starfa sams konar eftirlitsstofnanir, ólíkar að stærð, í 47 ríkjum innan EES-svæðisins, þar á meðal á öllum Norðurlöndunum.
að fylgjast með því að fjölmiðlar fari að lögum um fjölmiðla og annast þau hlutverk sem nefndinni eru falin í lögum um Ríkisútvarpið og lögum um eftirlit með aðgangi barna að kvikmyndum og tölvuleikjum
að standa vörð um upplýsingarétt almennings með því að skrá og birta upplýsingar um eignarhald og ábyrgðarmenn fjölmiðla
að efla getu almennings til að nota, greina og meta mátt mynda, hljóðs og skilaboða í samtímamenningunni og taka upplýsta afstöðu til upplýsinga, hugmynda og skoðana sem birtast í fjölmiðlum og á samfélagsmiðlum
að afgreiða almennar og skammtíma leyfisumsóknir til hljóð- og myndmiðlunar
að birta ákvarðanir og álit í málum sem varða brot á lögum um fjölmiðla, lögum um Ríkisútvarpið eða lögum um aðgang barna að kvikmyndum og tölvuleikjum
að veita lögbundnar umsagnir og álit um lagafrumvörp og samrunamál á fjölmiðlamarkaði og vera stjórnvöldum og alþjóðastofnunum til ráðgjafar um málefni á starfssviði nefndarinnar
að gefa út leiðbeiningar fyrir fjölmiðla og miðla upplýsingum um málefni sem varða starfssvið nefndarinnar
að fylgjast með stöðu og þróun á fjölmiðlamarkaði og safna upplýsingum þar að lútandi
að eiga gott samstarf við aðrar eftirlitsstofnanir, ráðuneyti, mennta- og fræðslustofnanir, foreldrasamtök og aðra sem vinna að því að efla miðla- og upplýsingalæsi almennings og stuðla að fjölræði og fjölbreytni á fjölmiðlamarkaði.
að taka þátt í starfi erlendra sérfræðihópa um málefni á starfssviði nefndarinnar og fylgjast með þróun löggjafar á málefnasviði hennar á EES-svæðinu
árið 2022 annaðist starfsfólk á skrifstofu Fjölmiðlanefndar umsýslu fyrir úthlutunarnefnd vegna umsókna um rekstrarstuðning til einkarekinna fjölmiðla, líkt og árið 2021.

Skipan Fjölmiðlanefndar

Einar Hugi Bjarnason

hæstaréttarlögmaður, formaður, skipaður af mennta- og menningarmálaráðherra án tilnefningar.

Dr. María Rún Bjarnadóttir

doktor í internet- og mannréttindalögfræðfræði og verkefnastjóri gegn stafrænu ofbeldi hjá Ríkislögreglustjóra, varaformaður. Skipuð af mennta- og menningarmálaráðherra samkvæmt tilnefningu Hæstaréttar Íslands.

Róbert H. Haraldsson

prófessor í heimspeki og sviðsstjóri kennslusviðs Háskóla Íslands. Skipaður af mennta- og menningarmálaráðherra samkvæmt tilnefningu samstarfsnefndar háskólastigsins.

Erla Skúladóttir

héraðsdómslögmaður, skipuð af mennta- og menningarmálaráðherra samkvæmt tilnefningu Hæstaréttar Íslands. 

Einar Hugi Bjarnason hæstaréttarlögmaður, formaður, skipaður af mennta- og menningarmálaráðherra (nú menningar- og viðskiptaráðherra) án tilnefningar.
 
Dr. María Rún Bjarnadóttir, doktor í internet- og mannréttindalögfræði og verkefnastjóri gegn stafrænu ofbeldi hjá Ríkislögreglustjóra, varaformaður. Skipuð af mennta- og menningarmálaráðherra (nú menningar- og viðskiptaráðherra) samkvæmt tilnefningu Hæstaréttar Íslands.
 
Erla Skúladóttir, héraðsdómslögmaður, skipuð af mennta- og menningarmálaráðherra (nú menningar- og viðskiptaráðherra) samkvæmt tilnefningu Hæstaréttar Íslands. 
 
Róbert H. Haraldsson, prófessor í heimspeki og sviðsstjóri kennslusviðs Háskóla Íslands. Skipaður af mennta- og menningarmálaráðherra (nú menningar- og viðskiptaráðherra) samkvæmt tilnefningu samstarfsnefndar háskólastigsins.
 
Varamenn:
 
Hulda Árnadóttir héraðsdómari. Skipuð af mennta- og menningarmálaráðherra (nú menningar- og viðskiptaráðherra).
Marteinn Másson hæstaréttarlögmaður. Skipaður samkvæmt tilnefningu Hæstaréttar Íslands.
Birgir Guðmundsson, dósent í fjölmiðlafræði við Háskólann á Akureyri. Skipaður samkvæmt tilnefningu samstarfsnefndar háskólastigsins.
 
Fjölmiðlanefnd er skipuð til 30. september 2023.

 

Úthlutunarnefnd

 
Starfsfólki á skrifstofu Fjölmiðlanefndar var á árinu 2022 falin umsýsla fyrir úthlutunarnefnd vegna úthlutunar rekstrarstuðnings til einkarekinna fjölmiðla. Fór sú vinna að mestu fram í ágúst- og septembermánuði. Úthlutunarnefnd starfar samkvæmt lögum um fjölmiðla nr. 38/2011, eins og þeim var breytt með lögum nr. 58/2021, og reglugerð nr. 770/2021. Úthlutunarnefnd skipuðu árið 2022 Árni Vilhjálmsson hæstaréttarlögmaður, Stefán Svavarsson endurskoðandi og Valgerður Anna Jóhannsdóttir, lektor við Háskóla Íslands.

Starfsfólk Fjölmiðlanefndar

Elfa Ýr Gylfadóttir

framkvæmdastjóri Fjölmiðlanefndar

Heiðdís Lilja Magnúsdóttir

yfirlögfræðingur/staðgengill framkvæmdastjóra

Anton Emil Ingimarsson

lögfræðingur

Skúli Bragi Geirdal

verkefnastjóri

Um áramótin 2022-2023 voru fjórir starfsmenn á launaskrá hjá Fjölmiðlanefnd.  Framkvæmdastjóri Fjölmiðlanefndar var Elfa Ýr Gylfadóttir. Aðrir starfsmenn voru Anton Emil Ingimarsson lögfræðingur, Heiðdís Lilja Magnúsdóttir yfirlögfræðingur/staðgengill framkvæmdastjóra og Skúli Bragi Geirdal, verkefnastjóri miðlalæsis.
 
Skrifstofa Fjölmiðlanefndar er að Borgartúni 21, 105 Reykjavík. Símanúmer nefndarinnar er 415-0415 og netfangið er postur@fjolmidlanefnd.is. Á vef Fjölmiðlanefndar, www.fjolmidlanefnd.is má finna allar helstu upplýsingar um starfsemi nefndarinnar, eyðublöð fyrir leyfisumsóknir og skráningu fjölmiðla, skýrslur og fróðleik um upplýsinga- og miðlalæsi, upplýsingar um eignarhald fjölmiðla og margt fleira.
Endurskoðun ársreiknings Fjölmiðlanefndar 2021
Í september 2022 birti Ríkisendurskoðun endurskoðunarskýrslu þar sem endurskoðaður var ársreikningur Fjölmiðlanefndar 2021. Endurskoðunin tók í fyrsta lagi mið af því að kanna hvort reikningsskil gæfu glögga mynd af rekstri, fjárhagslegri stöðu og breytingu á henni á árinu, í samræmi við settar reikningsskilareglur fyrir opinbera aðila, í öðru lagi hvort innra eftirlit tryggði viðunandi árangur og í þriðja lagi hvort rekstur og umsvif væru í samræmi við heimildir fjárlaga, fjáraukalaga og annarra laga, lögmæt fyrirmæli, samninga og starfsvenjur þar sem við átti. Var þetta í fyrsta skipti sem slík endurskoðun ársreiknings Fjölmiðlanefndar fór fram. Engar athugasemdir voru gerðar við reikningsskil Fjölmiðlanefndar 2021 af hálfu Ríkisendurskoðunar.

Verkefni á sviði miðla- og upplýsingalæsis

Verkefni á sviði miðla- og upplýsingalæsis voru áfram í forgangi hjá Fjölmiðlanefnd á árinu 2022. Á meðal þess sem hæst bar var að Fjölmiðlanefnd gaf út sjö skýrslur um miðlalæsi og netnotkun barna en skýrslurnar byggðu á víðtækri spurningakönnun meðal grunn- og framhaldsskólanema sem framkvæmd var um allt land í maí 2021. Sjö fundir voru haldnir í nýstofnuðu tengslaneti um upplýsinga- og miðlalæsi (TUMI) og hafinn var undirbúningur að fyrsta stóra sameiginlega verkefni tengslanetsins: upplýsinga- og miðlalæsisviku í grunnskólum landsins 13.-17. febrúar 2023, ásamt málþingi um upplýsinga- og miðlalæsi 16. febrúar 2023 og opnun nýrrar vefsíðu, www.miðlalæsi.is.
Fjölmiðlanefnd gaf út sjö skýrslur með yfirskriftinni Börn og netmiðlar árið 2022 en skýrslurnar innihéldu niðurstöður víðtækrar spurningakönnunar sem lögð var fyrir grunn- og framhaldsskólanema á aldrinum 9-18 ára um allt land vorið 2021. Menntavísindastofnun Háskóla Íslands framkvæmdi könnunina fyrir Fjölmiðlanefnd. Um var að ræða norska rannsókn, sem var staðfærð og þýdd, en rannsóknin var upphaflega unnin af norsku fjölmiðlanefndinni Medietilsynet, í samstarfi við Sentio Research í Noregi. Niðurstöður rannsóknarinnar voru flokkaðar í sjö hluta og gefnar út í skýrslum sem báru eftirfarandi undirheiti:

1. Tækjaeign og virkni á samfélagsmiðlum.
2. Kynferðisleg komment og nektarmyndir.
3. Öryggi á netinu.
4. Áhorf á klám.
5. Tölvuleikir.
6. Fréttir og falsfréttir.
7. Upplifun og auglýsingalæsi.

Allar skýrslurnar má nálgast á vef Fjölmiðlanefndar.
Í lok ársins 2021 var að frumkvæði Fjölmiðlanefndar stofnað til nýs tengslanets hér á landi: TUMI – tengslanet um upplýsinga- og miðlalæsi. Tengslanetið var sett upp að norrænni fyrirmynd og aðilar að því starfa allir að því að efla upplýsinga- og miðlalæsi almennings með ólíkum hætti. Árið 2022 voru haldnir voru sjö fjarfundir í tengslanetinu, sem Skúli Bragi Geirdal, verkefnastjóri miðlalæsis hjá Fjölmiðlanefnd stýrði. Var upptaka af öllum fundum auk þess gerð aðgengileg eftir á fyrir aðila tengslanetsins. Fljótlega hófst undirbúningur að fyrsta stóra sameiginlega verkefni tengslanetsins: upplýsinga- og miðlalæsisviku í grunnskólum landsins 13.-17. febrúar 2023, málþingi um upplýsinga- og miðlalæsi 16. febrúar 2023 og opnun nýrrar vefsíðu, www.miðlalæsi.is. Nánar er fjallað um verkefnið hér fyrir neðan.

Tildrög að stofnun tengslanets aðila sem starfa að miðlalæsi má rekja til þess lögbundna hlutverks Fjölmiðlanefndar að efla miðlalæsi almennings en með nýrri hljóð- og myndmiðlunartilskipun Evrópusambandsins (2018/1808/ESB), sem vænta má að verði innleidd í íslensk lög á vormánuðum, fær það hlutverk nefndarinnar enn meira vægi en áður.

Tengslanetið TUMI gerir ólíkum aðilum kleift að eiga samstarf og upplýsa um stefnu og fyrirhuguð verkefni á sviði miðlalæsis. Með þær upplýsingar í farteskinu er unnt að fá yfirsýn um stöðu mála hér á landi, ná utan um þá þekkingu sem þegar er til staðar, móta heildstæða stefnu fyrir Ísland á sviði miðlalæsis, ákveða forgangsröðun verkefna í þeirri mikilvægu vinnu sem framundan er og vinna sameiginlega að verkefnum á því sviði.


Aðilar að tengslanetinu eru Fjölmiðlanefnd, SAFT – samfélag, fjölskylda og tækni, Heimili og skóli, Kvikmyndamiðstöð, Landlæknisembættið, Landsbókasafn Íslands, Bókasafn Háskólans í Reykjavík, RÚV – Ríkisútvarpið, menningar- og viðskiptaráðuneytið, samgöngu-og sveitarstjórnarráðuneytið, Menntamálastofnun, Menntavísindasvið, Listaháskóla Íslands, Háskóli þriðja æviskeiðsins, aðilar frá háskólasamfélaginu, Endurmenntun HÍ, Símenntun HA, RANNUM – Rannsóknarstofu í upplýsingatækni og miðlun, Barnaheill, Landsnefnd UNESCO, Persónuvernd, Menntasvið Kópavogsbæjar, Skóla- og frístundasvið Reykjavíkurborgar, Þjónustumiðstöð Breiðholts, AwareGO og RIFF- Reykjavík International Film Festival.

Árið 2022 hóf vinnuhópur á vegum TUMA – Tengslanets um upplýsinga- og miðlalæsi að undirbúa upplýsinga- og miðlalæsisviku sem haldin var í fyrsta skipti í grunnskólum landsins 13.-17. febrúar 2023. Samhliða hófst undirbúningur nýrrar vefsíðu um upplýsinga- og miðlalæsi, www.miðlalæsi.is, og málþings um upplýsinga- og miðlalæsi sem haldið var 16. febrúar 2023. Fordæmi eru fyrir slíkum fræðsluvikum í grunnskólum í öðrum löndum og var vinnuhópurinn sem stendur að verkefninu í góðu samstarfi við KAVI í Finnlandi og Medietilsynet í Noregi við undirbúning vikunnar.
Þann 7. apríl 2022 héldu Fjölmiðlanefnd, Persónuvernd, netöryggissveitin CERT-IS, landskjörstjórn og greiningardeild ríkislögreglustjóra sameiginlegan, rafrænan fund um stafrænar áskoranir frambjóðenda í aðdraganda sveitarstjórnarkosninga á Íslandi sem fram fóru 14. maí 2022. Framangreind stjórnvöld eiga fulltrúa í samráðshópi um vernd einstaklinga í aðdraganda kosninga, sem stofnaður var fyrir alþingiskosningar 25. september 2021.

Á fundinum fjallaði Ástríður Jóhannesdóttir, framkvæmdastjóri Landskjörstjórnar, um Landskjörstjórn og ný kosningalög. Gyða Ragnheiður Bergsdóttir, lögfræðingur hjá Persónuvernd, fjallaði um notkun frambjóðenda á samfélagsmiðlum fyrir sveitarstjórnarkosningar 2022. Skúli Bragi Geirdal, verkefnastjóra miðlalæsis hjá Fjölmiðlanefnd hélt erindið Upplýsingaóreiða og Ad Library. Arnar Stefánsson, lögfræðingur hjá Fjarskiptastofu, fjallaði um óumbeðin fjarskipti í aðdraganda kosninga. María Rún Bjarnadóttir, verkefnastjóri hjá ríkislögreglustjóra talaði um stafræn brot og Bryndís Bjarnadóttir, sérfræðingur í netöryggissveit CERT-IS, fór yfir það hvernig halda á samfélagsmiðlum öruggum. Fundarstjóri var Helga Þórisdóttir, forstjóri Persónuverndar.

Nálgast má upptöku frá fundinum í frétt á vef Fjölmiðlanefndar.

Málefni barna voru í forgrunni hjá Fjölmiðlanefnd árið 2022 líkt og fyrri ár og nefndin átti gott samstarf við umboðsmann barna og Persónuvernd á því sviði. Helsta samstarfsverkefni þessara stofnana árið 2022 var útgáfa nýrra leiðbeininga um réttindi barna í stafrænu umhverfi, sem birtar voru á stafrænu formi á vef umboðsmanns barna 29. apríl og eru einnig aðgengilegar á vef Fjölmiðlanefndar. Um er að ræða leiðbeiningar í þremur hlutum fyrir forelda, ábyrgðaraðila og starfsfólk í skóla- og frístundastarfi. Leiðbeiningarnar „Netið, samfélagsmiðlar og börn“ eru ætlaðar foreldrum, leiðbeiningarnar „Vernd barna í stafrænu umhverfi“ eru ætlaðar ábyrgðaraðilum (aðilum sem bera ábyrgð á vinnslu persónuupplýsinga) og leiðbeiningarnar „Skóla-, frístunda-, íþrótta- og tómstundastarf barna“ eru hugsaðar fyrir starfsfólk í skóla- og frístundastarfi.
Leiðbeiningar umboðsmanns barna, Persónuverndar og Fjölmiðlanefndar um réttindi barna í stafrænu umhverfi voru kynntar á málþinginu Réttindi barna í stafrænu umhverfi á Grand hótel föstudaginn 29. apríl 2022 en málþinginu var einnig streymt á netinu. Salvör Nordal, umboðsmaður barna, hóf málþingið með því að kynna leiðbeiningarnar til sögunnar. Skúli B. Geirdal, verkefnastjóri hjá Fjölmiðlanefnd, fjallaði um niðurstöður könnunar Menntavísindastofnunar HÍ fyrir Fjölmiðlanefnd um börn og netmiðla. Unnur Sif Hjartardóttir, lögfræðingur og persónuverndarfulltrúi, hélt erindi um friðhelgi einkalífs barna í nútímasamfélagi og Steinunn Birna Magnúsdóttir, lögfræðingur hjá Persónuvernd, fór yfir hvernig tryggja má persónuvernd barna. Að því loknu fóru fram pallborðsumræður með fulltrúum úr ráðgjafahópi umboðsmanns barna..
Auk framangreinds hófst undirbúningur að samstarfsverkefnum af ýmsu tagi á árinu 2022.
 
Fyrirhuguð fræðsluhringferð með Persónuvernd
Undirbúningur hófst að hringferð um landið, í samstarfi við Persónuvernd, þar sem fyrirhugað er að fulltrúar beggja stofnana haldi sameiginlega fræðsluerindi í grunnskólum um allt land.
 
Fyrirhugað samstarf við Geðheilsumiðstöð barna
Geðheilsumiðstöð barna og Fjölmiðlanefnd sóttu saman um styrk úr Lýðheilsusjóði til þess að útbúa fræðsluefni um skjátíma barna. Efninu er ætlað að vekja foreldra til vitundar um að huga vel að skjátíma barna sinna og verður foreldrum í vanda boðið upp á frekari aðstoð með samtali við starfsfólk Geðheilsumiðstöðvar. Tilgangurinn er að bregðast við því lýðheilsuvandamáli sem óhófleg notkun snjalltækja og óheftur aðgangur að neti og samfélagsmiðlum getur haft í för með sér en mikil notkun þessara tækja og miðla getur haft neikvæð áhrif á líðan barna og valdið kvíða, depurðareinkennum, sjálfsmyndarvanda og óreglu á svefni.
 
Samnýting fræðsluefnis
Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu óskaði eftir því að fá að nýta niðurstöður rannsókna Fjölmiðlanefndar á sviði miðlalæsis en efnið tengist fræðsluerindum sem lögreglan sinnir í skólum. Einnig óskaði lögreglan eftir því að fá að nýta efni úr fræðsluerindum á vegum Fjölmiðlanefndar á sviði miðlalæsis, til þess m.a. að tengja eigið fræðsluefni betur við íslenskan raunveruleika.
Starfsmenn Fjölmiðlanefndar tóku þátt í starfi alþjóðlegra vinnuhópa  um miðlalæsi á vegum ERGA annars vegar (European Regulators Group for Audiovisual Media Services) og EPRA hins vegar (European Platform for Regulatory Authorities).

  • EPRA er samstarfsvettvangur 53 fjölmiðlanefnda frá 47 ríkjum og á vegum EPRA er starfrækt tengslanet um miðlalæsi (EMIL, The EPRA Media and Information Literacy Taskforce).

  • ERGA er evrópskur hópur eftirlitsaðila með hljóð- og myndmiðlunarþjónustu innan EES-svæðisins. Árið 2022 var starfræktur sérfræðingahópur á vegum ERGA með það að markmiði að vinna gegn upplýsingaóreiðu og efla lýðræði í stafrænu umhverfi.
Vorið 2022 var settur saman hópur norrænna sérfræðinga um tækni og lýðræði (e. Nordic think tank for Tech and Democracy) til að vinna að því að kanna áhrif stórra, alþjóðlegra tæknifyrirtækja á lýðræðislega umræðu á Norðurlöndum og koma með markvissar tillögur að úrbótum. Norræni hópurinn eða „norræna hugveitan“, eins og hópurinn hefur verið kallaður, var fjármagnaður af Norrænu ráðherranefndinni og starfar á vegum danska menningarmálaráðuneytisins. Starf norrænu hugveitunnar hófst með málþingi og vinnuhópum þann 8.-9. september 2022 í Kaupmannahöfn. Þann 11. nóvember 2022 var annar fundur hópsins í Kaupmannahöfn þar sem mótuð var framtíðarsýn fyrir Norðurlöndin í málaflokknum. Sérfræðingarnir í norrænu hugveitunni voru frá Íslandi, Noregi, Svíþjóð, Danmörku, Finnlandi, Álandseyjum, Færeyjum og Grænlandi. Elfa Ýr Gylfadóttir framkvæmdastjóri Fjölmiðlanefndar og Þorgeir Ólafsson sérfræðingur tóku þátt í starfi norrænu hugveitunnar fyrir hönd Íslands. Tillögum hópsins var skilað til Norrænu ráðherranefndarinnar vorið 2023.

Verkefni á sviði aðhalds og eftirlits

Fjölmiðlanefnd sinnti áfram lögbundu eftirliti með þeim lögum sem um fjölmiðla gilda, tók við kvörtunum og ábendingum, veitti umsagnir og svaraði fyrirspurnum um þann lagaramma sem hérlendir fjölmiðlar starfa eftir.
Meginmarkmiðið með skráningarskyldu fjölmiðla á grundvelli laga um fjölmiðla nr. 38/2011 er að auka yfirsýn stjórnvalda yfir fjölmiðlamarkaðinn á hverjum tíma og tryggja að fyrir liggi upplýsingar um þá sem eru eigendur og bera ritstjórnarlega ábyrgð á efni fjölmiðla. Eftirlit Fjölmiðlanefndar með skráningarskyldu fjölmiðla miðar einnig að því að styrkja upplýsingarétt almennings en gagnsæi eignarhalds fjölmiðla er ein meginforsenda þess að almenningur geti tekið upplýsta afstöðu til þeirra upplýsinga, hugmynda og skoðana sem birtast í fjölmiðlum. Þá er skráning fjölmiðla til þess fallin að stjórnendum fjölmiðla megi ljóst vera hvaða lagareglur gilda um starfsemina. Má þar nefna reglur um viðskiptaboð, vernd barna og bann við hatursáróðri og hvatningu til refsiverðrar háttsemi. Fjölmiðlanefnd birtir upplýsingar um eignarhald og ábyrgðarmenn fjölmiðla á vef sínum www.fjolmidlanefnd.is.

Skráðir fjölmiðlar voru 209 í árslok 2022. Fimm fjölmiðlar voru nýskráðir hjá Fjölmiðlanefnd 2022 en sautján fjölmiðlar afskráðir þar sem þeir voru ekki lengur með starfsemi eða uppfylltu ekki lengur skilyrði þess að teljast fjölmiðlar í skilningi laga.
 
Þær breytingar urðu helstar á eignarhaldi starfandi fjölmiðla að Birtíngur útgáfufélag ehf. tilkynnti í janúar um kaup á vefmiðlunum Nútímanum og Menn.is og Ske.is, sem áður höfðu verið í eigu Gebo ehf. Í sama mánuði tilkynnti 101 Productions ehf. að félagið hefði tekið við rekstri Útvarps 101 sem áður hafði verið í eigu Sýnar hf. Í desember 2022 upplýstu aðstandendur Kjarnans og Stundarinnar að til stæði að sameina fjölmiðlana og stofna nýjan fjölmiðil en formleg sameining hafði ekki átt sér stað í árslok.
 
Á meðal helstu breytinga á fréttaritstjórnum fjölmiðla árið 2022 var að Heiðar Örn Sigurfinnsson var í febrúar ráðinn nýr fréttastjóri Ríkisútvarpsins. Einnig var tilkynnt um nýja ritstjóra prentútgáfu Eyjafrétta í Vestmannaeyjum, Ómar Garðarsson, og nýjan ritstjóra vefútgáfu Eyjafrétta, Eygló Egilsdóttur.

Nýskráningar fjölmiðla 2022
  1. 70 mínútur – hlaðvarp sem Gandalf Media ehf. starfrækir.
  2. Lífið er lag – hlaðvarp sem Niko ehf. starfrækir.
  3. Matland.is – vefmiðill sem Matfélagið ehf. starfrækir.
  4. Norðurslóð – tímarit sem Spássía ehf. gefur út.
  5. Samlestur Leikhúsvarp – hlaðvarp sem Viktor Ingi Jónsson starfrækir.
Afskráningar fjölmiðla 2022
  1. 24 – þínar fréttir – vefmiðill á vegum 24 miðla ehf.
  2. 641.is – svæðisbundinn vefmiðill sem Marteinssynir ehf. starfrækti.
  3. Fitness.is – prentmiðill sem Einar Guðmann gaf út (samnefndur vefmiðill er ennþá starfræktur).
  4. Golf á Íslandi og Golf.is – tímarit og vefmiðill á vegum Golfsambands Íslands.
  5. Hafnfirðingur – svæðisbundinn prent- og vefmiðill sem Björt útgáfa ehf. gaf út.
  6. Hvítir skuggar – vefmiðill á vegum Huldu Margrétar Óladóttur.
  7. Í boði náttúrunnar og ibn.is – fjölmiðlar sem Í boði náttúrunnar ehf. starfrækti.
  8. Íbúinn – tímarit sem Olgeir Helgi Ragnarsson gaf út.
  9. Krumminn – vefmiðill sem Klettagjá ehf. starfrækti.
  10. Reykjavík Media – vefmiðill á vegum Reykjavík Media ehf.
  11. Siglfirðingur – staðbundinn vefmiðill sem Sigurður Ægisson starfrækti.
  12. SportTV og Sporttv.is – fjölmiðlar á vegum Media Sport ehf.
  13. Víkari.is – staðbundinn vefmiðill sem Vesturtindar ehf. starfrækti.
  14. Víkurblaðið – svæðisbundinn fjölmiðill sem Víkurblaðið ehf. starfrækti.
 
Eingöngu starfsemi hljóð- og myndmiðla sem þarfnast tíðniúthlutunar er leyfisskyld samkvæmt lögum um fjölmiðla en önnur starfsemi fjölmiðla er skráningarskyld. Fjölmiðlar með almennt leyfi til hljóð- eða myndmiðlunar voru 32 í árslok 2022 en auk þess var Alþingi með leyfi vegna sjónvarpsútsendinga frá störfum þingsins og Ríkisútvarpið ohf. með leyfi samkvæmt lögum um Ríkisútvarpið fjölmiðil í almannaþágu nr. 23/2013. Gildistími almennra leyfa til hljóð- eða myndmiðlunar er allt frá einu ári upp í sjö ár.
 
Sex leyfishafar endurnýjuðu almenn leyfi fyrir alls átta hljóð- og myndmiðla árið 2022: Hringbraut, Hljóðsmárinn, Suðurland FM, Flashback, 80‘s Flashback, Kiss FM, Omega, og N4 sjónvarp. Nánari upplýsingar um skráða fjölmiðla og leyfishafa er að finna aftast í skýrslu þessari.
Veitt voru sextán skammtímaleyfi til hljóðmiðlunar árið 2022. Umsækjendur um skammtímaleyfi árið 2022 voru þrír grunnskólar, sjö framhaldsskólar og eitt sveitarfélag. Skammtímaleyfi gilda í allt að þrjá mánuði.
 
Gjald fyrir almennt leyfi til hljóðmiðlunar árið 2022 var 40.000 kr. fyrir hvert ár. Gjald fyrir almennt leyfi til myndmiðlunar var 60.000 kr. fyrir hvert ár. Gjald fyrir skammtímaleyfi til myndmiðlunar var 17.000 kr. og gjald fyrir skammtímaleyfi til hljóðmiðlunar var 10.000 kr. Öll gjöld sem Fjölmiðlanefnd innheimtir renna í ríkissjóð.
 
Veitt skammtímaleyfi 2022, í tímaröð
 
Leyfishafi og gildistími leyfis                                                                      
1. Nemendafélag Fjölbrautaskólans í Garðabæ, 24.-28. janúar 2022
2. Nemendafélag Kvennaskólans, 28. janúar – 4. febrúar 2022  
3. Nemendafélag Fjölbrautaskóla Suðurnesja, 31. janúar – 4. febrúar 2022
4. Nemendasamband Tækniskólans, 21.-26. mars 2022
5. Skólafélag Menntaskólans við Sund, 14.-17. mars 2022
6. Nemendafélag Menntaskólans við Hamrahlíð, 4.-8. apríl 2022
7. Nemendafélag Fjölbrautaskólans í Garðabæ, 25.-29. apríl 2022
8. Nemendafélag Verzlunarskóla Íslands, 25.-29. apríl 2022
9. Skólafélag Menntaskólans við Sund, 31. október – 4. nóvember 2022
10. Nemendafélag Fjölbrautaskólans í Garðabæ, 21.-25. nóvember 2022
11. Nemendafélag Verzlunarskóla Íslands, 7.-11. nóvember 2022
12. Nemendafélag Menntaskólans við Hamrahlíð, 14.-18. nóvember 2022
13. Akraneskaupstaður, 25.-27. nóvember 2022
14. Grunnskólinn Hellu, 1.-20. desember 2022
15. Nemendafélag Grunnskólans í Borgarnesi, 3.-10. desember 2022
16. Nemendaráð Grunnskóla Snæfellsbæjar, 12.-16. desember 2022
Fjölmiðlanefnd gaf í apríl út einfaldar leiðbeiningar um skammtímaleyfi fyrir útvarp. Leiðbeiningunum er ætlað að svara helstu spurningum sem gætu vaknað hjá þeim sem hyggjast sækja um skammtímaleyfi fyrir útvarp hjá nefndinni. Þær eru sérstaklega gerðar með nemendur grunn- og framhaldsskóla í huga en meirihluti þeirra sem sækja um skammtímaleyfi fyrir útvarp hjá Fjölmiðlanefnd eru nemendafélög grunn- og framhaldsskóla. Í leiðbeiningum um skammtímaleyfi fyrir útvarp er m.a. að finna svör við eftirfarandi spurningum „Hvar er hægt að sækja um útvarpsleyfi?“, „Má segja hvað sem er í útvarpi?, „Má auglýsa hvað sem er í útvarpi?“,  „Þarf að segja frá því ef einhver borgar fyrir að tala um vörur eða þjónustu?“ og „Hvað kostar útvarpsleyfi?“. 
Aldursmerkingar efnis á Netflix
Um miðjan febrúar lauk Netflix við að uppfæra aldursmerkingar á efni sem er aðgengilegt íslenskum notendum streymisveitunnar, ásamt því að bæta við það svokölluðum myndtáknum. Breytingarnar mátti rekja til fjarfunda Fjölmiðlanefndar með Netflix en nefndin hafði veitt því athygli að aldursmerkingar á efni streymisveitunnar voru ekki í samræmi við aldursmatskerfið sem er notað á Íslandi. Kom í ljós að þær aldursmerkingar sem Netflix notaði fyrir Ísland voru byggðar á þeirra eigin kerfi í stað Kijkwijzer-aldursmatskerfisins sem hérlendir fjölmiðlar og kvikmyndahús styðjast við.
 
Kijkwijzer-aldursmatskerfið byggir á stöðlum frá NICAM (Netherlands Institute for the Classification of Audiovisual Media) í Hollandi. Verður efni Netflix sem er aðgengilegt íslenskum notendum framvegis merkt í samræmi við Kijkwijzer-aldursmatskerfið og aldursmerkingar á myndefni í sjónvarpi hér á landi þannig samræmdar.
 
Skoðunarkerfið sem er notað af ábyrgðaraðilum hérlendis vegna aldurs- og innihaldsmerkinga á kvikmyndum og tölvuleikjum er í umsjá FRÍSK, Félags rétthafa í sjónvarps- og kvikmyndaiðnaði. Félagið samræmir verklagsreglur á þessu sviði og heldur úti vefnum kvikmyndaskodun.is fyrir hönd félagsmanna sinna. Þar er hægt að slá inn nöfn kvikmynda og sjónvarpsþátta og birtast þá aldursviðmið viðkomandi myndefnis og upplýsingar um þau sjónarmið sem liggja þar að baki. Félagsmenn FRÍSK eru flest kvikmyndahús, dreifingaraðilar og sjónvarpsstöðvar landsins.
Í júlí 2022 tók gildi almennt auglýsingabann á nikótínvörum, þar á meðal í fjölmiðlum, með breytingum sem gerðar voru á 4. mgr. 37. gr. laga um fjölmiðla nr. 38/2011, sbr. breytingar á lögum nr. 87/2018 um nikótínvörur, rafrettur og áfyllingar fyrir rafrettur. Nikótínvörur eru vörur sem innihalda nikótín, hvort sem nikótínið er unnið úr tóbaki eða ekki, og varan inniheldur að öðru leyti ekki efni sem unnin eru úr tóbaki en er ekki til innöndunar. Dæmi um slíkar vörur eru nikótínpúðar en mikil aukning hefur orðið í innflutningi þeirra á síðustu fimm árum.
 
Eftir framangreindar lagabreytingar hefur Fjölmiðlanefnd eftirlit með banni við auglýsingum á nikótínvörum í fjölmiðlum, ásamt banni við öðrum ólögmætum auglýsingum í fjölmiðlum; auglýsingum á áfengi og tóbaki, rafrettum og áfyllingum fyrir þær, veðmálastarfsemi sem ekki hefur leyfi hér á landi og lyfseðilsskyldum lyfjum. Neytendastofa fer með almennt eftirlit með auglýsingabanni á nikótínvörum, þar með talið auglýsingum á samfélagsmiðlum.
Fjölmiðlanefnd hefur samráð við aðrar stofnanir og embætti sem koma að eftirliti með viðskiptaboðum, fyrst og fremst Neytendastofu og Lögreglustjórann á höfuðborgarsvæðinu. Á þeim sviðum þar sem eftirlitshlutverk þessara aðila getur skarast hefur á undanförnum árum verið unnið eftir ákveðinni verkaskiptingu sem leiða má af lögum. Þannig hefur Fjölmiðlanefnd eingöngu eftirlit með auglýsingum sem birtast í fjölmiðlum í íslenskri lögsögu, bæði duldum auglýsingum og auglýsingum á vörum sem óheimilt er að auglýsa í fjölmiðlum samkvæmt íslenskum lögum. Neytendastofa hefur almennt eftirlit með auglýsingum á nikótínvörum og rafrettum og duldum viðskiptaboðum, þar á meðal auglýsingum hérlendra aðila sem birtast á samfélagsmiðlum. Sýslumenn hafa almennt eftirlit með veðmálaauglýsingum á grundvelli laga um happdrætti nr. 38/2005. Þá er eftirlit með áfengisauglýsingum hérlendra aðila á samfélagsmiðlum í höndum lögreglu, á grundvelli 20. gr. áfengislaga nr. 75/1998.

Engar kvartanir eða ábendingar vegna auglýsinga á nikótínvörum í fjölmiðlum bárust Fjölmiðlanefnd árið 2022. Nokkuð var um nafnlausar og óformlegar ábendingar vegna ætlaðra auglýsinga í fjölmiðlum á áfengi og á veðmálastarfsemi sem ekki hefur leyfi hér á landi, eins og rakið verður í texta undir næsta flipa.

Kvartanir

 
Fjölmiðlanefnd tekur við kvörtunum, vegna meintra brota á lögum um fjölmiðla, lögum um Ríkisútvarpið og lögum um eftirlit með aðgangi barna að kvikmyndum og tölvuleikjum. Taki Fjölmiðlanefnd kvörtun til meðferðar gilda ákvæði stjórnsýslulaga nr. 37/1993 um málsmeðferðina.

Árið 2022 bárust Fjölmiðlanefnd 11 formlegar kvartanir vegna meintra brota á lögum um fjölmiðla nr. 38/2011. Engar formlegar kvartanir bárust vegna ætlaðra brota á lögum um Ríkisútvarpið og lögum um eftirlit með aðgangi barna að kvikmyndum og tölvuleikjum. Fjölmiðlanefnd barst ein beiðni um endurupptöku máls en beiðninni var hafnað. Tíu kvartanir bárust frá einstaklingum og ein frá ríkisstofnun. Í þeim málum þar sem kvartandi var einstaklingur var viðkomandi kvenkyns í fjórum tilvikum en karlkyns í sex tilvikum, þar af var sami einstaklingur málshefjandi í fjórum tilvikum.
 

Tafla 1. Flokkun kvartana eftir málshefjendum.

Formlegar kvartanir

Mál

Einstaklingur

10

Ríkisstofnun

1

Samtals

11

 

Formlegar kvartanir, einstaklingar

Mál

Kona

4

Karl

6

Annað

0

Samtals

10

Sex kvörtunum var vísað frá með því að senda kvartanda rökstutt bréf þess efnis. Beiðni um endurupptöku máls var hafnað með bréfi til málshefjanda. Þremur beiðnum um andsvar á grundvelli 36. gr. laga um fjölmiðla var hafnað með ákvörðunum Fjölmiðlanefndar nr. 1/2022, 2/2022 og 3/2022, sem aðgengilegar eru á vef nefndarinnar. Tvær kvartanir voru enn til meðferðar hjá nefndinni í árslok 2022.
 
Efni formlegra kvartana til Fjölmiðlanefndar 2022 var eftirfarandi:

  • Brot á friðhelgi einkalífs með umfjöllun um kvartendur (4)
  • Brot á reglum um hlutlægni og nákvæmni í fréttaflutningi (3)
  • Beiðni um andsvar (3)
  • Hatursáróður (2)
  • Duldar auglýsingar (3)
  • Tal og texti á íslensku (1)
  • Meint skuggastjórnun og greiðslur fyrir neikvæða umfjöllun (1)

Ábendingar

 
Fjölmiðlanefnd bárust alls 26 ábendingar um ætluð brot fjölmiðla og annarra aðila á lögum um fjölmiðla og lögum um Ríkisútvarpið árið 2022. Kjósi kvartandi að njóta nafnleyndar er litið á erindi hans sem óformlega ábendingu samkvæmt málsmeðferðarreglum Fjölmiðlanefndar. Eru mál þá tekin til meðferðar á grundvelli 1. mgr. 11. gr. laga um fjölmiðla sem þýðir að nefndin tekur málið upp að eigin frumkvæði ef efni ábendinga þykir gefa tilefni til þess. Tvær ábendingar voru teknar til efnislegrar meðferðar árið 2022 og lauk öðru málinu með ákvörðun Fjölmiðlanefndar nr. 6/2022 um tal og textun á sjónvarpsstöðinni Omega en hitt málið var enn til meðferðar hjá nefndinni í árslok.
 
Ábendingarnar vörðuðu eftirfarandi málaflokka:
 
  • Duldar auglýsingar (8)
  • Áfengisauglýsingar (5)
  • Veðmálaauglýsingar (4)
  • Skráningarskylda fjölmiðla (3)
  • Tal og texti á íslensku (2)
  • Friðhelgi einkalífs (1)
  • Annað (3)
1. Kvörtun vegna niðurstöðu Fjölmiðlanefndar um frávísun máls í febrúar 2022
Kvartað var til umboðsmanns Alþingis yfir ákvörðun Fjölmiðlanefndar um frávísun kvörtunar. Hafði sú niðurstaða verið tilkynnt með bréfi til lögmanns kvartanda 1. febrúar 2022. Kvartað hafði verið til Fjölmiðlanefndar vegna ætlaðra brota fjögurra fjölmiðla, Mbl.is, DV.is, Fréttablaðsins og RÚV.is, í júlí og nóvember 2021, á 26. gr. laga um fjölmiðla um hlutlægni og nákvæmni í fréttaflutningi og 27. gr. sömu laga um bann við hatursáróðri. Nánar tiltekið laut kvörtun að umfjöllun um óbólusetta einstaklinga í fréttaumfjöllun og annarri ritstjórnarumfjöllun í viðkomandi fjölmiðlum. Var það niðurstaða Fjölmiðlanefndar að ekki væru forsendur til að taka kvörtunina til efnislegrar meðferðar og var sú niðurstaða tilkynnt kvartanda með rökstuðningi, þar sem greint var frá þeim réttarreglum og meginsjónarmiðum sem niðurstaða Fjölmiðlanefndar var byggð á.

Í mars barst Fjölmiðlanefnd fyrirspurnarbréf frá umboðsmanni Alþingis með beiðni um afrit af gögnum í málinu. Fram kom að embættinu hefði borist kvörtun vegna framangreindrar niðurstöðu Fjölmiðlanefndar en umboðsmaður hefði ekki tekið ákvörðun um hvort tilefni væri til að taka kvörtunina til efnislegrar meðferðar.

Málinu lauk með bréfi til kvartanda dags. 8. apríl 2022 þar sem fram kom sú niðurstaða umboðsmanns Alþingis að eftir að hafa kynnt sér gögn málsins og í ljósi þess svigrúms sem Fjölmiðlanefnd hefur á grundvelli 1. mgr. 11. gr. laga nr. 38/2011, til að taka ákvörðun um hvort erindi sem berst henni gefi nægar ástæður til meðferðar, teldi hann sig ekki hafa forsendur til að fullyrða að nefndin hefði ekki kynnt sér kvörtunina nægjanlega, að byggt hefði verið á ófullnægjandi upplýsingum eða að nefndin hefði dregið óforsvaranlegar ályktanir við meðferð málsins. Með tilliti til lögbundinna verkefna Fjölmiðlanefndar teldi umboðsmaður sig því ekki hafa forsendur til að gera athugasemdir við afstöðu nefndarinnar til erindisins. Hefði  umboðsmaður lokið athugun á málinu.

Eftir að niðurstaða umboðsmanns Alþingis lá fyrir kvartaði lögmaður f.h. kvartanda yfir afgreiðslu umboðsmanns Alþingis til forsætisnefndar Alþingis f.h. kvartanda. Þetta kemur fram í umsögn Málfrelsis – Samtaka um frjálsa og opna umræðu, lýðræði og mannréttindi í samráðsgátt stjórnvalda dags. 24. janúar 2023, um tillögu til þingsályktunar um aðgerðaáætlun gegn hatursorðræðu 2023-2026. Í bréfi forseta Alþingis dags. 8. desember 2022 til kvartanda var á það bent að samkvæmt lögum nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, sé embætti umboðsmanna Alþingis sjálfstætt og óháð fyrirmælum frá öðrum. Ekki standi skilyrði til þess að forseti Alþingis eða forsætisnefnd geti haft afskipti af umræddu máli.
 
2. Kvörtun vegna tafa við afgreiðslu mála hjá Fjölmiðlanefnd
Kvartað var til umboðsmanns Alþingis yfir starfsháttum Fjölmiðlanefndar og óeðlilegum drætti á afgreiðslu hennar vegna ábendinga í gegnum tíðina. Samkvæmt upplýsingum á vef umboðsmanns Alþingis lauk málinu með bréfi til kvartanda, dags. 15. september 2022, þar sem fram kom að, að virtum svörum nefndarinnar og að teknu tilliti til tengsla viðkomandi við málið teldi umboðsmaður ekki tilefni til að gera athugasemdir við viðbrögð hennar eða svör.
 
3. Kvörtun vegna meints vanhæfis nefndarmanns
Kvartað var til umboðsmanns Alþingis yfir ákvörðun Fjölmiðlanefndar um frávísun máls 30. september 2021. Í kvörtun var vísað til meints vanhæfis formanns nefndarinnar. Samkvæmt upplýsingum á vef umboðsmanns Alþingis lauk málinu með bréfi til kvartanda, dags. 2. nóvember 2022, þar sem fram kom það mat umboðsmanns að þótt nefndarmaðurinn starfaði á sömu lögmannsstofu og tveir lögmenn sem gætt hefðu hagsmuna B í deilum við A væri það ekki nægjanlegt til vanhæfis. Eftirlit og möguleg úrræði Fjölmiðlanefndar í málinu hefðu ekki lotið að neinu leyti að störfum lögmannanna, heldur því hvort fjölmiðill hefði hagað umfjöllun sinni í samræmi við lög.

Úrlausnir 2022

 
Árið 2022 birti Fjölmiðlanefnd sex ákvarðanir, þar af þrjár ákvarðanir sem vörðuðu beiðni um andsvar á grundvelli 36. gr. laga um fjölmiðla og þrjár sem vörðuðu brot fjölmiðla á öðrum ákvæðum laga um fjölmiðla. Ein ákvörðun fjallaði um óheimila kostun dagskrárefnis á RÚV, önnur um óheimil viðskiptaboð fyrir áfengi og veðmálastarfsemi í hlaðvarpi og sú þriðja um miðlun efnis án íslensks tals eða texta á sjónvarpsstöð. Mál sem vörðuðu beiðni um andsvar voru tekin til meðferðar á grundvelli formlegra kvartana en önnur mál hófust með óformlegum ábendingum til nefndarinnar. Litið er á kvartanir sem óformlegar ábendingar ef kvartandi kýs að njóta nafnleyndar.
 
Allar ákvarðanir og álit Fjölmiðlanefndar eru aðgengileg á vefsíðu nefndarinnar.
Í ákvörðun nr. 1/2011 kemur fram sú niðurstaða Fjölmiðlanefndar að tiltekinn einstaklingur hafi ekki átt frekari rétt til andsvara í Mannlífi, á grundvelli 36. gr. laga um fjölmiðla. Tildrög málsins voru þau að Fjölmiðlanefnd barst kvörtun fyrir hönd viðkomandi einstaklings, þar sem krafist var íhlutunar Fjölmiðlanefndar gagnvart Sólartúni ehf., útgefanda Mannlífs, og Reyni Traustasyni, ritstjóra Mannlífs, vegna synjunar Mannlífs um að birta andsvör við greinaskrifum um kvartanda í janúar og febrúar 2022. Á meðal þess sem vísað var til voru fullyrðingar á vef Mannlífs um að kvartandi eða einhver á hans vegum hefði verið viðriðinn innbrot á skrifstofur Mannlífs. Fjölmiðlanefnd óskaði eftir sjónarmiðum Sólartúns ehf. vegna málsins og komst í kjölfarið að þeirri niðurstöðu að lágmarkskröfur um andsvör teldust uppfylltar af hálfu Sólartúns ehf. vegna fyrirvara sem gerðir hafi verið í umfjöllun Mannlífs. Hafi athugasemdum kvartanda og, eftir atvikum, lögmanna hans, þess efnis að hann hafni aðkomu að innbrotum á ritstjórnarskrifstofur Sólartúns ehf., verið komið á framfæri í umfjöllun Mannlífs um málið.
Í ákvörðun nr. 2/2022 kemur fram sú niðurstaða Fjölmiðlanefndar að Sólartúni ehf., útgefanda Mannlífs, verði ekki gert að birta andsvör einstaklings vegna umfjöllunar sem varðaði viðkomandi einstakling og birt var á vef Mannlífs í febrúar 2022. Málið var tekið til efnislegrar meðferðar á grundvelli kvörtunar þar sem vísað var til 36. gr. laga um fjölmiðla. Krafist var íhlutunar Fjölmiðlanefndar á hendur Sólartúni ehf. og Reyni Traustasyni vegna synjunar Mannlífs um að birta andsvör við umfjölluninni. Fram kom að kvartandi hefði óskað eftir leiðréttingu og viljað koma andsvörum á framfæri, án árangurs. Var það mat Fjölmiðlanefndar að lágmarkskröfur um andsvör teldust uppfylltar af hálfu Sólartúns ehf. hvað varðar hluta athugasemda kvartanda, vegna fyrirvara sem gerður hafi verið í umfjöllun Mannlífs. Þá var það mat nefndarinnar að hluti þeirra athugasemda sem beiðni um andsvar tók til fæli í sér annað og meira en að leiðrétta staðreyndir. Yrði Sólartúni ehf. því ekki gert að birta þau andsvör sem tilgreind voru í kvörtun, með vísan til b-liðar 2. mgr. 36. gr. laga um fjölmiðla.
Í ákvörðun nr. 3/2022 kemur fram sú niðurstaða Fjölmiðlanefndar að Sólartúni ehf., útgefanda Mannlífs, hafi verið heimilt að synja beiðni einstaklings um andsvör vegna umfjöllunar á vef Mannlífs í maí 2022. Málið var tekið til meðferðar á grundvelli kvörtunar þar sem vísað var til 36. gr. laga um fjölmiðla. Fram kom í kvörtun að umfjöllun Mannlífs bæri þess merki að kvartandi hefði haft aðkomu að innbroti á skrifstofur Mannlífs. Þá væri fullyrt í Mannlífi að lögreglan ætti eftir að yfirheyra kvartanda vegna málsins. Hafi sama umfjöllun jafnframt verið birt á ensku. Kvartandi hafi krafist þess við Mannlíf að fjölmiðillinn myndi birta nánar tiltekin andsvör, bæði á íslensku og ensku, vegna umfjöllunarinnar en hafi því verið synjað af hálfu útgáfufélagsins. Að fengnum sjónarmiðum Sólartúns ehf. var það niðurstaða nefndarinnar að Sólartúni ehf. hefði verið heimilt að synja kvartanda um birtingu andsvara í Mannlífi, með vísan til b-liðar 2. mgr. 36. gr. laga um fjölmiðla. Í þeim andsvörum sem kvartandi hafi viljað koma á framfæri hafi falist annað og meira en að leiðrétta staðreyndir.
Fjölmiðlanefnd komst að þeirri niðurstöðu að Ríkisútvarpinu ohf. hefði verið óheimilt að kosta sjónvarpsþættina Tónaflóð sem sýndir voru á RÚV sumrin 2020 og 2021 og að kostun þeirra hefði brotið gegn 2. mgr. 7. gr. laga um Ríkisútvarpið. Málið var tekið til meðferðar á grundvelli ábendingar. Samkvæmt lögum um Ríkisútvarpið er einungis heimilt að kosta íburðarmikla dagskrárliði annars vegar og innlenda íþróttaviðburði og umfjöllun um þá hins vegar. Að fengnum sjónarmiðum Ríkisútvarpsins var það niðurstaða Fjölmiðlanefndar að ekki væri unnt að fella þættina Tónaflóð 2020 og 2021 undir hugtakið íburðarmikill dagskrárliður og að Ríkisútvarpið hefði þar með brotið 2. mgr. 7. gr. laga um Ríkisútvarpið um bann við kostun dagskrárefnis. Taldi nefndin hæfilegt að stjórnvaldssekt vegna brotsins næmi 1.500.000 kr.
Fjölmiðlanefnd komst að þeirri niðurstöðu að Sýn hf. hafi brotið gegn 4. mgr. 37. gr. laga um fjölmiðla með miðlun viðskiptaboða í hlaðvarpinu Þungavigtin, fyrir annars vegar áfengi og hins vegar happdrættis- og veðmálastarfsemi sem ekki hefur leyfi hér á landi. Málið var tekið til efnislegrar meðferðar á grundvelli ábendinga. Í ákvörðun Fjölmiðlanefndar kemur fram að með miðlun viðskiptaboða fyrir þrjár áfengar vörutegundir frá innlendum áfengisframleiðanda hafi Sýn hf. brotið gegn 4. mgr. 37. gr. um bann við viðskiptaboðum fyrir áfengi. Þá hafi Sýn hf. brotið gegn 4. mgr. 37. gr. um bann við viðskiptaboðum fyrir veðmálastarfsemi sem ekki hefur leyfi hér á landi, með umfjöllun um fatalínu tiltekinnar veðmálasíðu en umfjöllunin hafi verið til þess fallin að vekja, beint eða óbeint, athygli á vörum, þjónustu eða ímynd veðmálasíðunnar. Var Sýn hf. gert að greiða 1.000.000 kr. í stjórnvaldssekt.

 

Í ákvörðun nr. 6/2022 var það niðurstaða Fjölmiðlanefndar að með því að miðla nokkru magni af erlendu dagskrárefni á sjónvarpsstöðinni Omega, án íslensks tals eða texta, hafi Kristniboðskirkjan Omega brotið gegn 29. gr. laga um fjölmiðla nr. 38/2011. Málið var tekið til efnislegrar meðferðar á grundvelli ábendinga sem bárust Fjölmiðlanefnd í ágúst 2022.  Samkvæmt 29. gr. skal hljóð- og myndefni á erlendu máli jafnan fylgja íslenskt tal eða texti á íslensku eftir því sem við á hverju sinni. Í niðurstöðu nefndarinnar kom fram að undanþágur 29. gr. frá textun hljóð- og myndefnis á erlendu máli eigi ekki við um sjónvarpsstöðina Omega.  Hafi Kristniboðskirkjan Omega því brotið gegn 29. gr. laga um fjölmiðla. Var Kristniboðskirkjunni gert að greiða 350.000 kr. í stjórnvaldssekt.

Umsagnir Fjölmiðlanefndar 2022

 
Fjölmiðlanefnd veitti eina formlega umsögn um lagafrumvarp árið 2022, að beiðni Alþingis.
Allar umsagnir Fjölmiðlanefndar eru aðgengilegar á vefsíðu nefndarinnar.

Mat á almannaþjónustuhlutverki Ríkisútvarpsins skv. 15. gr. laga um Ríkisútvarpið

 
Samkvæmt 15. gr. laga um Ríkisútvarpið nr. 23/2013 á Fjölmiðlanefnd að leggja sjálfstætt mat á það hvort Ríkisútvarpið hafi uppfyllt almannaþjónustuhlutverk sitt samkvæmt 3. gr. laga um Ríkisútvarpið. Matið á Fjölmiðlanefnd að afhenda stjórn Ríkisútvarpsins og mennta- og menningarmálaráðherra (nú menningar- og viðskiptaráðherra) eigi síðar en fjórum mánuðum eftir að ársskýrsla Ríkisútvarpsins hefur verið birt ár hvert. Í samningi mennta- og menningarmálaráðherra og Ríkisútvarpsins um fjölmiðlaþjónustu í almannaþágu 2020-2023 segir að Ríkisútvarpið skuli árlega útbúa greinargerð til Fjölmiðlanefndar um það hvernig Ríkisútvarpið stendur að fjölmiðlaþjónustu í almannaþágu.
 
Árið 2022 afhenti Fjölmiðlanefnd menningar- og viðskiptaráðherra og stjórn Ríkisútvarpsins ohf. tvær skýrslur með mati á almannaþjónustuhlutverki Ríkisútvarpsins, annars vegar fyrir árið 2020 og hins vegar árið 2021, en miklar tafir urðu á gagnaskilum Ríkisútvarpsins til Fjölmiðlanefndar vegna beggja rekstrarára.
Vinna við mat Fjölmiðlanefndar á almannaþjónustuhlutverki Ríkisútvarpsins fyrir árið 2020 hófst í febrúarbyrjun 2022, eftir að greinargerð Ríkisútvarpsins um fjölmiðlun í almannaþágu hafði borist Fjölmiðlanefnd 31. janúar 2022. Fjölmiðlanefnd afhenti ráðherra og stjórn Ríkisútvarpsins mat sitt á almannaþjónustuhlutverki Ríkisútvarpsins 2020 rúmum þremur mánuðum síðar eða þann 5. maí 2022. Þar komst nefndin að þeirri niðurstöðu að Ríkisútvarpið hefði uppfyllt almannaþjónustuhlutverk sitt á rekstrarárinu 2020 með því að framleiða og miðla vönduðu og fjölbreyttu efni til allra landsmanna.
Í mati nefndarinnar kom meðal annars fram að mikið hafi reynt á öryggis- og almannavarnahlutverk RÚV vegna heimsfaraldurs COVID-19 og gerðar hafi verið gagngerar breytingar á starfsemi Ríkisútvarpsins til að mæta breyttum aðstæðum og tryggja áframhaldandi þjónustu.

Aðrar helstu niðurstöður vegna mats á almannaþjónustuhlutverki RÚV 2020 voru eftirfarandi:
  • Ríkisútvarpið gegndi mikilvægu upplýsinga- og fræðsluhlutverki í kórónuveirufaraldrinum með miðlun upplýsinga, frétta og fræðsluefnis af ýmsu tagi. Þar á meðal var öllum upplýsingafundum almannavarna árið 2020 miðlað beint til allra landsmanna í gegnum útvarp, sjónvarp og vef og aðgengi allra tryggt, meðal annars með táknmálstúlkun, rittúlkun í textavarpi og upplýsingamiðlun á ensku og pólsku.
  • RÚV jók þjónustu við yngstu aldurshópana þegar samkomutakmarkanir voru settar á með vefsvæðinu MenntaRÚV, sem var þróað með hraði í samstarfi við menntamálayfirvöld.
  • Fréttastofa RÚV veitti víðtæka, áreiðanlega, almenna og hlutlæga frétta- og fréttaskýringarþjónustu um innlend og erlend málefni í útvarpi, sjónvarpi og á vef.
  • Ríkisútvarpið uppfyllti kröfur um aðgengi sjón- og heyrnarskertra að fjölmiðlaþjónustu í almannaþágu og sérstök áhersla var lögð á að tryggja aðgengi sjón- og heyrnarskertra að upplýsingum sem vörðuðu COVID-19, sóttvarnartakmarkanir og önnur viðbrögð við heimsfaraldrinum árið 2020.
  • Ríkisútvarpið jók þjónustu við íbúa landsins sem hafa annað tungumál en íslensku í kórónuveirufaraldrinum. Birtar voru fréttir á ensku og pólsku af upplýsingafundum og upplýsingum fylgt vel eftir. RÚV English hélt áfram úti fréttaþjónustu á ensku og vikulegum spjallþætti á ensku á RUV.is. Verkefnastjóri RÚV English hélt utan um þýðingar á pólsku og túlkun á borgarafundum og upplýsingafundum á pólsku. Settar voru upp undirsíður á vef RÚV, RUV.is/audskilid með auðlesnum texta og RUV.is/polski með frétta- og upplýsingamiðlun á pólsku.
  • Ríkisútvarpið flutti fréttir og framleiddi efni utan höfuðborgarsvæðisins með fastri starfsemi á Akureyri, Egilsstöðum, í Borgarnesi og á Ísafirði.
  • Hlutfall kynjanna í dagskrá RÚV árið 2020, utan frétta, var jafnt, 50% karlar og 50% konur. Hlutfall viðmælenda í fréttatímum og fréttatengdum þáttum var 63% karlar og 37% konur sem Ríkisútvarpið telur endurspegla hlutfall kynjanna í valdastöðum í samfélaginu. Kynjahlutföll starfsmanna Ríkisútvarpsins árið 2020 voru 42% konur og 58% karlar.
  • Ríkisútvarpið uppfyllti þær kröfur sem gerðar eru í 5. gr. laga um Ríkisútvarpið um fjárhagslegan aðskilnað reksturs vegna fjölmiðlaþjónustu í almannaþágu frá fjárreiðum annars reksturs á vegum Ríkisútvarpsins eða dótturfélaga þess.
Tafir urðu á vinnu við greinargerð Ríkisútvarpsins um fjölmiðlun í almannaþágu fyrir árið 2021. Barst hún nefndinni 17. nóvember 2022 en síðustu umbeðnu gögn bárust 21. desember 2022. Vinna við matið stóð enn yfir í árslok 2022 en Fjölmiðlanefnd afhenti menningar- og viðskiptaráðherra og stjórn Ríkisútvarpsins mat sitt á almannaþjónustuhlutverki Ríkisútvarpsins 2021 þann 17. janúar 2023 eða um tveimur mánuðum eftir viðtöku greinargerðar Ríkisútvarpsins. Þar komst nefndin að þeirri niðurstöðu að Ríkisútvarpið hefði uppfyllt almannaþjónustuhlutverk sitt á rekstrarárinu 2021 með því að framleiða og miðla vönduðu og fjölbreyttu efni fyrir alla aldurshópa til allra landsmanna.

Fram kom að áfram hafi reynt á öryggis- og almannavarnahlutverk RÚV vegna heimsfaraldurs COVID-19 en einnig vegna eldgoss í Geldingadölum. Frétta- og dagskrárefni hafi verið aðgengilegt í gegnum sjónvarp og útvarp, í línulegri og ólínulegri dagskrá, á vef og í appi fyrir snjalltæki. Fréttum hafi einnig verið miðlað á samfélagsmiðlum. Fréttastofa RÚV hafi veitt víðtæka, almenna og hlutlæga frétta- og fréttaskýringaþjónustu og haldi áfram að njóta mikils trausts á meðal landsmanna. Samkvæmt könnunum MMR hafi 70% landsmanna borið mikið traust til fréttastofunnar í nóvember 2021. Fram kom það mat Fjölmiðlanefndar að mikilvægt væri að standa vörð um fréttastofu RÚV og gera faglegri og sjálfstæðri fréttamennsku áfram hátt undir höfði.
Þess var getið að þjónusta við heyrnarskerta hafi verið aukin til muna með táknmálstúlkun allra aðalfréttatíma sjónvarps á RÚV 2, sem og Krakkafrétta. Þá væri hægt að nálgast íslenskan skjátexta með nær öllu íslensku sjónvarpefni sem sýnt er í miðlum RÚV og kapp lagt á að hafa vef og öpp RÚV aðgengileg fyrir blint og sjónskert fólk. Jafnframt væri helstu fréttum er varði almannaheill miðlað með auðskildum texta sem henti fólki með þroskahömlun. Árið 2021 hafi táknmálstúlkun að auki verið send út með umræðum í aðdraganda kosninga, fundum Almannavarna og öðrum upplýsingafundum sem vörðuðu COVID-19.
Gerð var athugasemd við það að stöðugildum Ríkisútvarpsins á landsbyggðinni hefði fækkað frá árinu 2019. Stöðugildi á landsbyggðinni hafi verið tólf árið 2019 en 10,7 árið 2021. Samkvæmt upplýsingum frá Ríkisútvarpinu stafaði fækkunin af því að tekjufalli RÚV vegna COVID-19 faraldursins var mætt með hagræðingu og fækkun í framkvæmdastjórn, lækkun starfshlutfalls, starfslokasamningum við eldri starfsmenn og beinum uppsögnum, sem þó var reynt að halda í lágmarki. Við þessa hagræðingu hafi starfsfólki RÚV á landsbyggðinni fækkað um einn.
Um leið kom fram að gert væri ráð fyrir að umfang starfsemi utan höfuðborgarsvæðisins verði sambærilegt og það var árið 2019 með fyrirhuguðum ráðningum fréttamanna á Suðurlandi og á Vesturlandi. Fram kom það mat Fjölmiðlanefndar að mikilvægt væri að styrkja og efla starfsemi á landsbyggðinni í samræmi við 6. gr. samnings mennta- og menningarmálaráðherra og Ríkisútvarpsins um fjölmiðlaþjónustu í almannaþágu 2020-2023. Ætti það ekki síst við um fréttaþjónustu.
 
Aðrar helstu niðurstöður vegna mats Fjölmiðlanefndar á almannaþjónustuhlutverki RÚV 2021:
 
  • Ríkisútvarpið gegndi áfram mikilvægu upplýsinga- og fræðsluhlutverki í kórónuveirufaraldrinum árið 2021 með miðlun upplýsinga, frétta og fræðsluefnis af ýmsu tagi.
  • Dreifing á sjónvarps- og hljóðvarpsefni Ríkisútvarpsins náði til 99,9% heimila á landinu um opið dreifikerfi.
  • Ríkisútvarpið jók þjónustu við íbúa landsins sem hafa annað tungumál en íslensku á síðustu árum.
  • Áhersla Ríkisútvarpsins á jafnréttismál skilaði árangri og jafnréttisáætlun var uppfærð í september 2021.
  • Ríkisútvarpið fjallaði um ólík svið menningar, lista og íþrótta á Íslandi og erlendis og stuðlaði að félagslegri samheldni í íslensku samfélagi, í samræmi við lögbundið hlutverk sitt.
  • Markmið Rásar 2 um að íslensk tónlist sé um helmingur allrar tónlistar á stöðinni náðist og gott betur en hlutfall íslenskrar tónlistar árið 2021 var 60-65%. Hlutfall tónlistar með konum í aðalhlutverki fór úr 40% í rúm 45% árið 2021.
  • 90,9% af efni í línulegri dagskrá RÚV og RÚV2 árið 2021 var evrópskt efni, að íslensku efni meðtöldu.
  • RÚV keypti sjónvarpsþætti, kvikmyndir og heimildamyndir frá sjálfstæðum framleiðendum eða gerðist meðframleiðandi að slíku efni. RÚV varði til þess 12% af innheimtu útvarpsgjaldi, sem var samkvæmt tilskildu lágmarki.
  • RÚV sýndi þrjú ný, leikin, íslensk verk í sjónvarpi árið 2021 og hefur á undanförnum árum markvisst aukið framboð á leiknu, íslensku efni.
  • Ríkisútvarpið kynnti margbreytileika mannlífs, lífsviðhorfa og lífsskilyrða í landinu með ýmsum hætti og veitti innsýn í líf samfélagshópa sem alla jafna eiga ekki sterka rödd í samfélagsumræðunni.
  • Vinna við endurforritun nýs vefs RÚV hófst í lok árs 2021. Notendum RUV.is fjölgaði um 41% árið 2021 frá árinu áður og flettingum um tæp 15%.
  • Nokkuð fleiri nálguðust fréttaefni á RUV.is í gegnum samfélagsmiðla árið 2021 en árið áður og um 30% af allri umferð á vefnum kom þar í gegn, að langstærstum hluta frá Facebook. Hlutur símtækja í notkun RUV.is hélt áfram að aukast og komu tveir þriðju hlutar vefumferðar í gegnum slík tæki. Hlutfall hefðbundinna tölva stóð í stað en aukin notkun símtækja var á kostnað spjaldtölva.
  • Ríkisútvarpið uppfyllti þær kröfur sem gerðar eru í 5. gr. laga um Ríkisútvarpið um fjárhagslegan aðskilnað reksturs vegna fjölmiðlaþjónustu í almannaþágu frá fjárreiðum annars reksturs á vegum Ríkisútvarpsins eða dótturfélaga þess. Fram kom að afkoma Ríkisútvarpsins ohf. 2021 hafi reynst jákvæð og hagnaður 45 millj. kr. eftir skatt.

Erlent samstarf

Fjölmiðlanefnd er lögum samkvæmt ætlað að annast samskipti við sambærileg stjórnvöld í öðrum EES-ríkjum og alþjóðastofnanir um málefni á starfsvettvangi sínum. Starfsfólk Fjölmiðlanefndar tók þátt í norrænni samvinnu og alþjóðlegu samstarfi stofnana og vinnuhópa á vettvangi ERGA og EPRA. Hluti af þeirri vinnu fólst í að fylgjast með þróun Evrópulöggjafar á sviði fjölmiðla og stafrænna miðla. Hér á eftir er yfirlit yfir það sem hæst bar í erlendu samstarfi árið 2022 en umfjöllun um þróun Evrópulöggjafar á sviði fjölmiðla og tengdra regluverka er að finna neðar í skýrslunni, undir flipanum Þróun Evrópulöggjafar um fjölmiðla og stafræna miðla.
Haldinn var sameiginlegur fundur norrænna eftirlitsstofnana á sviði fjölmiðla í Kaupmannahöfn dagana 5.-6. september 2022. Hver stofnun greindi þar frá helstu málum og áherslum í starfi sínu og fulltrúar danska menningarmálaráðuneytisins kynntu nýja stefnu stjórnvalda á sviði fjölmiðla.

EPRA

Fjölmiðlanefnd tók þátt í starfi European Platform of Regulatory Authorities (EPRA), sem er samstarfsvettvangur 53 fjölmiðlanefnda frá 47 Evrópuríkjum en fræðslu- og samráðsfundir eru haldnir tvisvar á ári hverju. Starfsfólk Fjölmiðlanefndar sótti fyrri fund EPRA, sem haldinn var dagana 11.-13. maí í Antwerpen í Belgíu, en enginn fulltrúi Fjölmiðlanefndar sótti seinni fund EPRA, sem haldinn var í Tyrklandi. Þá átti Fjölmiðlanefnd fulltrúa í vinnuhópi um miðlalæsi á vegum EPRA sem nefnist EMIL – EPRA Media Literacy Taskforce.


ERGA

 
Fjölmiðlanefnd tók einnig þátt í starfi European Regulators Group for Audiovisual Media Services (ERGA), sem er evrópskur hópur eftirlitsaðila með hljóð- og myndmiðlunarþjónustu innan EES-svæðisins. Hópurinn tók til starfa árið 2014 en hann gegnir ráðgjafarhlutverki gagnvart framkvæmdastjórn Evrópusambandsins og stuðlar að samvinnu eftirlitsaðila á sviði hljóð- og myndmiðlunar innan EES. Samkvæmt ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 192/2014 frá 25. september 2014 taka EFTA-ríkin fullan þátt í störfum hópsins án atkvæðisréttar.
ERGA heldur flesta fundi sína í Brussel og er skipað framkvæmdastjórum fjölmiðlanefnda í aðildarríkjum EES, eða staðgenglum þeirra, auk þess sem fulltrúar frá framkvæmdastjórn ESB og Eftirlitsstofnun EFTA sitja fundina án atkvæðisréttar. Þátttaka í starfi ERGA er grundvallaratriði í að tryggja samstarf og samræmda túlkun ákvæða hljóð- og myndmiðlunartilskipunar Evrópusambandsins á EES-svæðinu og jafnframt mikilvægur þáttur í því lögbundna hlutverki Fjölmiðlanefndar að fylgjast með stöðu og þróun á fjölmiðlamarkaði.
 
Aðalfundir ERGA 2022 voru haldnir 21. júní og 1. desember í Brussel. Fundirnir voru sóttir af yfirlögfræðingi Fjölmiðlanefndar.
 
Þátttaka í sérfræðingahópum ERGA
ERGA starfrækir nokkra sérfræðingahópa sem fjalla um framkvæmd og túlkun hljóð- og myndmiðlunartilskipunar ESB, aðgerðir á sviði upplýsinga- og miðlalæsis og fleira. Starfsmenn Fjölmiðlanefndar tóku þátt í því starfi og sátu ýmsa fjarfundi á netinu á vegum sérfræðingahópanna. Á þeim vettvangi var meðal annars unnið að undirbúningi umsagna og skýrslna af ýmsu tagi sem lagðar voru fyrir á aðalfundum ERGA. Þá hefur ERGA eftirlit með framkvæmd Code of Practice on Disinformation en það eru starfsreglur tæknifyrirtækja um aðgerðir gegn upplýsingaóreiðu (sjá umfjöllun um starfsreglurnar hér fyrir neðan).
 
Tengiliðanet ERGA
ERGA starfrækir tengiliðanet á grundvelli „ERGA Memorandum of Understanding“, sem er formlegt samkomulag um milliríkjasamstarf og upplýsingaskipti milli eftirlitsstofnana ríkja sem eiga aðild að ERGA. Tengiliðir sinntu ýmsum almennum og sértækum upplýsingabeiðnum sem sendar voru á milli eftirlitsstofnana á EES-svæðinu, á grundvelli samkomulags ERGA. Níu upplýsingabeiðnir bárust í gegnum tengiliðanet ERGA á árinu 2022. Þá hélt tengiliðanetið fjarfundi þar sem farið var yfir stöðu mála.
 
Fjöldi umsagna og skýrslna voru samþykktar árið 2022. Eftirtalin eru helstu skjöl sem ERGA samþykkti á árinu:
Stýrinefnd Evrópuráðsins um fjölmiðla- og upplýsingasamfélagið
Elfa Ýr Gylfadóttir, framkvæmdastjóri Fjölmiðlanefndar, hefur tekið þátt í starfi Stýrinefndar Evrópuráðsins um fjölmiðla- og upplýsingasamfélagið fyrir hönd Íslands síðustu ár. Sat hún 21. og 22. aðalfund stýrinefndarinnar sem voru haldnir dagana 7. apríl og 3. nóvember 2022.
 
ECRI
Starfsfólk Fjölmiðlanefndar fundaði 12. október með sendinefnd ECRI (European Commission Against Racism and Intolerance) í tilefni af vinnu ECRI við sjöttu úttekt nefndarinnar á kynþáttafordómum og umburðarleysi hér á landi.
 
Fundur með Netflix
Fjölmiðlanefnd fundaði með fulltrúa Netflix 7. febrúar 2022, um foreldrastillingar og aldursmerkingar á myndefni, eins og rakið er framar í skýrslunni.
 
Aðrar upplýsingabeiðnir erlendis frá
Auk framangreinds svaraði starfsfólk Fjölmiðlanefndar fyrirspurnum og upplýsingabeiðnum af ýmsum toga frá alþjóðlegum aðilum, m.a. frá European Audiovisual Observatory, sem er evrópskt rannsóknarsetur á sviði hljóð- og myndmiðla í Strassborg og heldur meðal annars úti miðlægum gagnabanka með upplýsingum um myndmiðla í Evrópu, MAVISE.

Þróun Evrópulöggjafar um fjölmiðla og stafræna miðla

Evrópusambandið birti þann 16. júní 2022 nýjar og uppfærðar starfsreglur um aðgerðir gegn upplýsingaóreiðu: The Strengthened Code of Practice on Disinformation. Reglurnar voru unnar í samvinnu Evrópusambandsins og 34 aðila, þar á meðal stórra, alþjóðlegra tæknifyrirtækja, samtaka auglýsenda og fulltrúa staðreyndavakta. Samkvæmt þeim munu fyrirtæki, sem halda úti miðlum eins og Facebook, Google, YouTube og TikTok herða aðgerðir gegn upplýsingaóreiðu, þar á meðal upplýsingaóreiðu í auglýsingaefni, djúpfölsunum og fölskum notendareikningum. Fyrirtækin hafa einnig skuldbundið sig til að auka gagnsæi og upplýsingagjöf í tengslum við birtingu pólitískra auglýsinga og auglýsinga um samfélagsleg málefni, efla samstarf við staðreyndavaktir í ríkjum þar sem þær eru starfræktar, veita sérfræðingum og rannsakendum aðgang að gögnum og upplýsingum í ríkari mæli en áður og vinna að því að efla miðlalæsi og gagnrýna hugsun notenda.
 
Sérfræðingahópur ERGA (European Regulators Group for Audiovisual Media Services) hefur það hlutverk að fylgjast með því hvort fyrirtækin fylgja starfsreglunum. Sérstakri verkefnisstjórn var komið á fót til að hafa eftirlit með framkvæmdinni. Í henni sitja meðal annars fulltrúar þeirra sem eru aðilar að reglunum og fulltrúar ERGA, undir forystu framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins.
Þann 16. september 2022 lagði framkvæmdastjórn Evrópusambandsins fram drög að reglugerðinni European Media Freedom Act (hér eftir EMFA), nýju Evrópuregluverki um fjölmiðlafrelsi og fjölbreytni á fjölmiðlamarkaði. Hallað hefur frelsi og sjálfstæði fjölmiðla á síðustu árum, sér í lagi í Austur-Evrópu, og er reglugerðardrögunum ætlað að bregðast við þeim veruleika. Að baki búa einnig sjónarmið um þjónustufrelsi á innri markaði EES, með vísan til þess að fjölmiðlaþjónusta á EES-svæðinu fer í auknum mæli fram óháð landamærum. Ólíkar reglur um starfsemi fjölmiðla og ólík sjónarmið um fjölmiðlafrelsi kunna að vera uppi í einstökum aðildarríkjum og ósamræmi í löggjöf aðildarríkja á þessu sviði er talið geta haft neikvæð áhrif á starfsemi fjölmiðlafyrirtækja á innri markaði EES og vilja til að fjárfesta í slíkri starfsemi. Telur framkvæmdastjórn ESB af þeim ástæðum nauðsynlegt að samræma reglur um starfsemi fjölmiðla á tilteknum sviðum innan EES svæðisins, með fjölmiðlafrelsi, vernd blaðamanna og fjölbreytni á fjölmiðlamarkaði að leiðarljósi. Reglugerðardrögin taka til starfsemi allra fjölmiðla, óháð miðlunarformi; hljóð- og myndmiðla jafnt sem prent- og netmiðla.
 
Með EMFA eru m.a. lagðar til þær breytingar á reglum hljóð- og myndmiðlunartilskipunarinnar að samráðshópurinn ERGA verði lagður niður og nýr samráðshópur stofnaður í hans stað, European Board for Media Services. Gert er ráð fyrir að eftirlit með samræmdri framkvæmd ákvæða EMFA verði í höndum nýja samráðshópsins. Fjölmiðlanefnd hefur tekið þátt í starfi ERGA frá árinu 2014.
 
Vonir standa til þess að EMFA taki gildi í Evrópusambandsríkjum í lok 2023 eða á fyrri hluta árs 2024. Um er að ræða drög sem eiga eftir að fara í gegnum formlegt ferli innan Evrópusambandsins og kunna því að taka breytingum.
Þann 1. nóvember 2022 tók gildi reglugerð Evrópusambandsins um rafræn viðskipti, Digital Markets Act (hér eftir DMA-reglugerðin) í aðildarríkjum Evrópusambandsins. Stuttu síðar eða 16. nóvember tók gildi önnur reglugerð um stafræn málefni, Digital Services Act, en þessar tvær reglugerðir eru gjarnan nefndar í sömu andrá og hafa verið kallaðar „The Digital Services Package“. Þær tengjast rúmlega 20 ára gamalli tilskipun Evrópusambandsins um rafræn viðskipti, sem var lögleidd hér á landi með lögum um rafræn viðskipti og aðra rafræna þjónustu frá 2002. Fjallað er um Digital Services Act undir flipanum hér fyrir neðan.

DMA-reglugerðin inniheldur reglur um gagnsæi og viðskiptahætti stórra alþjóðlegra tæknifyrirtækja sem teljast til svokallaðra „hliðvarða“ á netinu og tengja þar saman stóran hóp fyrirtækja og stóran hóp viðskiptavina á netinu. Dæmi um slíka aðila eru Amazon, Apple, Airbnb, Booking.com, Google, Facebook, Microsoft iOS App Store og Google Playstore.  Reglugerðin tekur þannig á starfsemi og viðskiptaháttum stærstu netmarkaðstorga, samfélagsmiðla og netleitarvéla samtímans en fjallar ekki um efnislegt innihald upplýsinga sem birtast á slíkum miðlum.
Þann 16. nóvember 2022 tók gildi reglugerð Evrópusambandsins um stafræn málefni, Digital Services Act (hér eftir DSA-reglugerðin) í aðildarríkjum Evrópusambandsins. DSA-reglugerðin miðar að því að auka öryggi og tryggja mannréttindi og neytendavernd á stafrænum miðlum. Hún gildir m.a. um alþjóðleg tæknifyrirtæki sem halda úti stærstu samfélagsmiðlum, mynddeiliþjónustum og leitarvélum samtímans, á borð við Facebook, YouTube, Tik Tok og Google, óháð því hvort höfuðstöðvar slíkra fyrirtækja eru innan eða utan Evrópu. Eina skilyrðið er að starfsemi þeirra beinist að neytendum í aðildarríkjum EES.
 
Samkvæmt DSA-reglugerðinni eiga m.a. samfélagsmiðlar, mynddeiliþjónustur og leitarvélar að fjarlægja með hraði efni sem er ólögmætt samkvæmt landslögum í hverju ríki. Þá eiga stærstu „platformarnir“ og leitarvélarnar að framkvæma reglubundið áhættumat til að meta líkurnar á því að hönnun þeirra, algóritmar og þjónusta geti stefnt grundvallarréttindum notenda í hættu. Fyrirtækin verða líka að sporna við kerfisbundinni dreifingu á upplýsingaóreiðu, netofbeldi og falsfréttum um lýðheilsumál. Þá getur framkvæmdastjórn ESB lagt fyrir stærstu tæknifyrirtækin að grípa þegar í stað til aðgerða gegn hugsanlegum upplýsingaóreiðuherferðum ef hryðjuverkaárás, náttúruhamfarir, stríð eða heimsfaraldur ríða yfir Evrópu
 
Engin undanþága er í DSA-reglugerðinni fyrir fjölmiðla þótt um starfsemi þeirra gildi skýr lagarammi og þeir starfi samkvæmt siðareglum blaðamanna. Með vísan til sjónarmiða um fjölmiðlafrelsi var því ákveðið að bæta við ákvæði um fjölmiðlaundanþágu í European Media Freedom Act, sem fjallað var um hér að ofan. Þar er í 17. og 18. gr. kveðið á um sérmeðferð fjölmiðla á grundvelli Digital Services Act og þannig má segja að þessar tvær reglugerðir kallist á, verði European Media Freedom Act samþykkt óbreytt.
 
Eftirlit með stærstu fyrirtækjunum verður í höndum framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins. Einnig verður komið á fót eftirlitsaðilum með smærri fyrirtækjum í hverju ríki, „Digital Services Coordinators“. Eiga þeir m.a. að samhæfa aðgerðir innanlands, vera í samstarfi við European Board for Digital Services, útnefna viðurkennda tilkynnendur, koma á fót sjálfstæðri úrskurðarnefnd og taka við kvörtunum frá notendum í sinni lögsögu og áframsenda þær á réttan stað, þegar við á. Viðurkenndir tilkynnendur geta verið aðilar eins og Ríkislögreglustjóri, Barnaheill og höfundaréttarsamtök og fá tilkynningar frá slíkum aðilum flýtimeðferð.
 
DSA-reglugerðin kemur almennt til framkvæmda 17. febrúar 2024 í aðildarríkjum ESB en reglurnar um allra stærstu samfélagsmiðlana og leitarvélarnar taka gildi vorið 2023. Gert er ráð fyrir því að DSA-og DMA-reglugerðirnar verði teknar upp í EES-samninginn með ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar og að þær verði í framhaldinu innleidd í landslög hér á landi eftir þeim lögformlegu reglum sem um slíka innleiðingu gilda.
Þann 10. desember 2022 voru samþykkt ný írsk lög um netöryggi og fjölmiðla (the Online Safety and Media Regulation Act) en með þeim var komið á fót nýrri fjölmiðla- og netöryggisstofnun, sem fengið hefur heitið Coimisiún na Meán. Starfsemi írsku fjölmiðlanefndarinnar flyst yfir í hina nýju stofnun og myndar eina af fjórum deildum stofnunarinnar.
 
Ástæða þess að þetta er nefnt í sama mund og fjallað er um helstu breytingar á Evrópulöggjöf á sviði fjölmiðla og stafrænna miðla er sú er að flestir stærstu, alþjóðlegu samfélagsmiðlarnir, mynddeiliþjónusturnar og leitarvélarnar eru staðsettar í írskri lögsögu. Má þar nefna Meta, sem starfrækir Facebook og Instagram, og Alphabet, eiganda YouTube og Google. Gera má ráð fyrir að írsku netöryggis- og fjölmiðlalögin muni hafa mikil áhrif á starfsemi fjölmiðla og tæknifyrirtækja sem eru staðsett í írskri lögsögu en miðla efni yfir landamæri, þar á meðal til Íslands.
 
Nýja fjölmiðla- og netöryggisstofnunin mun meðal annars sinna eftirliti með nýjum lögum um netöryggi og fjölmiðla, (Online Safety and Media Regulation Bill), eftirliti með lögum um stafrænt efni sem hvetur til hryðjuverka (Terrorist Content Online Regulation) og hafa umsjón með úthlutun fjölmiðlastyrkja og umsýslu vegna menningarframlags streymisveitna. Þá verður skipaður sérstakur framkvæmdastjóri um stafrænar þjónustur (Commissioner for Digital Services) sem fær það hlutverk að sinna verkefnum á grundvelli Digital Services Act á Írlandi.
Árið 2018 voru gerðar breytingar á hljóð- og myndmiðlunartilskipun Evrópusambandsins sem miða að því að uppfæra og samræma lagareglur um myndmiðla í takt við þær breytingar sem orðið hafa á fjölmiðlanotkun og tækniþróun, til að auka öryggi notenda fjölmiðla í víðum skilningi og styrkja rekstrarumhverfi fjölmiðla. Tilskipunin var tekin upp í EES samninginn með ákvörðun sameiginlegu EES nefndarinnar 9. desember 2022. Frumvarp um innleiðingu tilskipunarinnar var á þingmálaskrá ríkisstjórnarinnar vorið 2023 en hlaut ekki afgreiðslu. Þegar þetta er ritað er gert ráð fyrir að frumvarpið verði aftur lagt fyrir þingið haustið 2023.
 
Innleiðing tilskipunarinnar í landslög felur m.a. í sér að gildissvið fjölmiðlalaga verður víkkað og nýjum kafla, sem tekur til svokallaðra mynddeiliþjónusta (e. video sharing platforms), bætt við lögin. Um er að ræða samræmdar reglur sem gilda á öllu EES-svæðinu. YouTube er dæmi um mynddeiliþjónustur sem þannig verða að bregðast við nýjum kröfum til að auka vernd notenda sinna. Gerðar verða kröfur um að slíkar þjónustur komi upp tæknilegum úrræðum til að tryggja vernd barna gegn skaðlegu efni og jafnframt tæknilegum úrræðum til að notendur geti tilkynnt efni sem hvetur til haturs, ofbeldis og hryðjuverka. Auk þess verða gerðar kröfur um skýrar merkingar auglýsingaefnis á mynddeiliþjónustum og úrræði fyrir notendur til að tilkynna duldar auglýsingar.  
 
Á meðal annarra nýmæla er krafa um að fjölmiðlaveitur sem miðla efni eftir pöntun (streymisveitur) tryggi að a.m.k. 30% efnis sé evrópskt efni. Þessar kröfur eru gerðar til allra streymisveitna með starfsemi á EES-svæðinu, þar á meðal Netflix, sem er í hollenskri lögsögu.
  
Þá verður slakað á reglum um auglýsingahlutfall innan klukkustundar í sjónvarpi, sem í dag er 20% eða 12 mínútur. Þess í stað kemur regla um að auglýsingahlutfall megi ekki fara yfir 20% á tilteknu tímabili eða frá kl. 6 síðdegis til kl. 24 á miðnætti og frá kl. 6 á morgnana til kl. 18 síðdegis. Þessum breytingum og fleirum er ætlað að styrkja hefðbundið sjónvarp í samkeppni við streymisveitur og samfélagsmiðla.

 

Önnur verkefni

Starfsfólki á skrifstofu Fjölmiðlanefndar var á árinu 2022 falin umsýsla fyrir úthlutunarnefnd svo og að veita nefndinni sérfræðiaðstoð, vegna úthlutunar rekstrarstuðnings til einkarekinna fjölmiðla. Fór sú vinna að mestu leyti fram í ágúst- og septembermánuði.
Úthlutunarnefnd starfar samkvæmt lögum um fjölmiðla nr. 38/2011, eins og þeim var breytt með lögum nr. 58/2021, og reglugerð nr. 770/2021. Úthlutunarnefnd skipa Árni Vilhjálmsson hæstaréttarlögmaður, Stefán Svavarsson endurskoðandi og Valgerður Anna Jóhannsdóttir, lektor við Háskóla Íslands.
 
Úthlutunarnefnd auglýsti eftir umsóknum í Morgunblaðinu, Fréttablaðinu, Lögbirtingablaðinu og með tilkynningu á vef Fjölmiðlanefndar en í reglugerð um rekstrarstuðning til einkarekinna fjölmiðla nr. 770/2021 kemur fram að umsókn um rekstrarstuðning, ásamt fylgigögnum, skuli berast úthlutunarnefnd eigi síðar en 1. ágúst 2022.
Alls bárust 28 umsóknir um rekstrarstuðning til einkarekinna fjölmiðla, þar sem samtals var sótt um 917,5 milljónir kr. Þremur umsóknum var synjað þar sem að þær uppfylltu ekki öll skilyrði fyrir rekstrarstuðningi skv. lögum um fjölmiðla. Til úthlutunar voru 384,3 milljónir kr. að frádreginni þóknun fyrir störf úthlutunarnefndar, auk auglýsingakostnaðar og annars kostnaðar við umsýslu, sem var um 0,87% af heildarfjárhæð eða 3.337.804 kr. Alls voru því 380.962.196 kr. til úthlutunar og skiptust þær á milli þeirra 25 fjölmiðlaveitna sem hlutu stuðning.
 
Úthlutunarnefnd afhenti menningar- og viðskiptaráðherra úthlutunargerð með niðurstöðu sinni þann 13. september 2022.
Árið 2022 svöruðu starfsmenn Fjölmiðlanefndar á fimmta tug fyrirspurna og upplýsingabeiðna sem stöfuðu aðallega frá alþjóðastofnunum, tengiliðaneti ERGA, fjölmiðlum, einstaklingum, samtökum, fræðimönnum, ráðuneytum, námsmönnum og lögmönnum.
 
Fyrirspurnirnar voru af ólíkum toga. Flestar vörðuðu fjölmiðlalöggjöf, framkvæmd hennar og starfsaðstæður Fjölmiðlanefndar. Nokkuð var um fyrirspurnir frá stjórnendum fjölmiðla og blaðamönnum sem vörðuðu lagareglur um starfsemi fjölmiðla, aðallega auglýsingar og merkingar þeirra. Jafnframt veitti Fjölmiðlanefnd ráðuneytum, námsmönnum, fræðimönnum og lögmönnum upplýsingar og ráðgjöf sem varðaði málefnasvið nefndarinnar þegar leitað var eftir því.
 
Margar fyrirspurnir bárust úthlutunarnefnd í júlí, ágúst og september vegna úthlutunar rekstrarstuðnings til einkarekinna fjölmiðla, bæði frá umsækjendum og blaðamönnum sem fjölluðu um málið í fjölmiðlum. Starfsmenn á skrifstofu Fjölmiðlanefndar sáu um umsýslu vegna umsókna fjölmiðla, önnuðust upplýsingagjöf og veittu úthlutunarnefnd sérfræðiaðstoð í tengslum við þær. Fjölmiðlanefnd hafði að öðru leyti enga aðkomu að umsóknarferlinu.
Starfsmenn Fjölmiðlanefndar urðu við fjölda beiðna um að halda erindi hérlendis og erlendis á málþingum, fræðslufundum, vefráðstefnum, fjarfundum, samráðsfundum, endurmenntunarnámskeiðum og í skólum á grunn-, framhalds- og háskólastigi. Umfjöllunarefnin tengdust málefnasviði Fjölmiðlanefndar: fjölmiðlum, tjáningarfrelsi, upplýsinga- og miðlalæsi og netöryggi.
 
10. janúar 2022
Fundur Rótarýklúbbs Breiðholts í Reykjavík. Elfa Ýr Gylfadóttir framkvæmdastjóri hélt erindið „Falsfréttir, samfélagsmiðlar og gervigreind“. 
 
7. apríl 2022
Rafrænn fundur um stafrænar áskoranir frambjóðenda í aðdraganda sveitarstjórnarkosninga. Skúli Bragi Geirdal, verkefnastjóri miðlalæsis, flutti erindið „Upplýsingaóreiða og Ad Library“. Persónuvernd, Fjölmiðlanefnd, Landskjörstjórn, Fjarskiptastofa, Ríkislögreglustjóri og CERT-IS stóðu að fundinum.
 
20.apríl 2022
Ráðstefna Alþjóðamálastofnunar Háskóla Íslands, Alþjóðasamvinna á krossgötum – Hvert stefnir Ísland? Elfa Ýr Gylfadóttir, framkvæmdastjóri Fjölmiðlanefndar, tók þátt í umræðum í pallborði.
 
29. apríl 2022
Málþing um réttindi barna í stafrænu umhverfi, á vegum Fjölmiðlanefndar, Persónuverndar og umboðsmanns barna. Skúli Bragi Geirdal, verkefnastjóri miðlalæsis, kynnti niðurstöður könnunar Fjölmiðlanefndar um börn og netmiðla.
 
18. maí 2022
Hádegismálþingið „Upplýsingaóreiða á ófriðartímum“, sem haldið var á vegum Háskólans á Bifröst, Blaðamannafélags Íslands og Fjölmiðlanefndar. Elfa Ýr Gylfadóttir framkvæmdastjóri flutti erindið „Áróður sem mikilvægt vopn í stríði”.
 
8. júní 2022
Ríkisútvarpið, Efstaleiti í Reykjavík. Skúli Bragi Geirdal, verkefnastjóri miðlalæsis,  hélt fyrirlestur fyrir starfsmenn KrakkaRÚV.
 
5.-6. september 2022
Fundur norrænna fjölmiðlanefnda í Kaupmannahöfn. Skúli Bragi Geirdal, verkefnastjóri miðlalæsis, flutti erindið „Media Use and Media Literacy“.  
9. september 2022
Fundur norrænnar hugveitu, „Polarisation and algorithms. A challenge to democracy“,
í danska menningarmálaráðuneytinu í Kaupmannahöfn. Elfa Ýr Gylfadóttir framkvæmdastjóri hélt erindi um tæknifyrirtæki og lýðræði.
 
17. september 2022
Alþjóðlegur dagur Rotary-hreyfingarinnar á Grand Hótel í Reykjavík. Elfa Ýr Gylfadóttir, framkvæmdastjóri Fjölmiðlanefndar, hélt erindið „Significance of „Fake News“ in an interconnected world“.
 
20. september 2022
Ráðstefnan „En styrket demokratisk samtale – Tek-gigantenes innlytelse og nordiske løsninger“ í Osló í Noregi. Elfa Ýr Gylfadóttir, framkvæmdastjóri Fjölmiðlanefndar, tók þátt í pallborðsumræðum um áskoranir ungra notenda á samfélagsmiðlum.
 
5. október 2022
Forvarnardagur Kópavogsbæjar. Skúla Bragi Geirdal, verkefnastjóri miðlalæsis, hélt fyrirlestur fyrir kennara og fyrirlestur á upptöku fyrir foreldra. Forvarnardagurinn er haldinn að frumkvæði forseta Íslands. Aðrir samstarfsaðilar að Forvarnardeginum eru Embætti landlæknis, sem sér um verkefnisstjórn dagsins, Samband íslenskra sveitarfélaga, Reykjavíkurborg, Samfés, Heimili og skóli – landssamtök foreldra, Ungmennafélag Íslands, Íþrótta- og Ólympíusamband Íslands, Skátar, Rannsóknir og greining og SAFF – Samstarf félagasamtaka í forvörnum.
 
11. október 2022
Málþing um nikótín og heilsu á vegum Krabbameinsfélags höfuðborgarsvæðisins, UMFÍ og Fræðslu og forvarna. Skúli Bragi Geirdal, verkefnastjóri miðlalæsis, tók þátt í pallborðsumræðum.
 
14. október 2022
Ráðstefna Alþjóðamálastofnunar Háskóla Íslands í tilefni styrkveitingar frá Evrópusambandinu fyrir verkefnið RECLAIM, í Veröld, húsi Vigdísar Finnbogadóttur í Reykjavík. Elfa Ýr Gylfadóttir, framkvæmdastjóri Fjölmiðlanefndar, tók þátt í pallborðsumræðum með yfirskriftinni „Trust in and demand for quality journalism”.
 
27. október 2022
Þrjúbíó á nýjum tímum: Ráðstefna um þróun barnaefnis og kvikmyndalæsi, haldin á vegum Kvikmyndamiðstöðvar. Skúli Bragi Geirdal, verkefnastjóri miðlalæsis,  flutti erindið „Börn og netmiðlar: Ný rannsókn Fjölmiðlanefndar á miðlanotkun barna og ungmenna“.
 
1. nóvember 2022
Fjarfundur Lögfræðingafélags Íslands. Heiðdís Lilja Magnúsdóttir yfirlögfræðingur flutti erindið „Væntanlegar breytingar á fjölmiðlalöggjöf“. Dr. María Rún Bjarnadóttir, varaformaður Fjölmiðlanefndar, var fundarstjóri.
 
9. nóvember 2022
Landsamráðsfundur gegn ofbeldi á vegum Ríkislögreglustjóra. Skúli Bragi Geirdal, verkefnastjóri miðlalæsis, flutti erindi og tók þátt í pallborðsumræðum. 

10. nóvember 2022
Málþingið „Grípum inn í! Hatursorðræða og ofbeldi meðal barna og ungmenna“ í Hofi á Akureyri. Skúli Bragi Geirdal, verkefnastjóri miðlalæsis, flutti erindið „Ýta samfélagsmiðlar undir hatursorðræðu?“ og tók þátt í pallborðsumræðum.
 
10. nóvember 2022
Grunnskólar í Akureyrarbæ. Skúli Bragi Geirdal, verkefnastjóri miðlalæsis, flutti fræðsluerindi fyrir elsta stig grunnskóla.
 
10. nóvember 2022
Þelamerkurskóli í Hörgárdal. Skúli Bragi Geirdal, verkefnastjóri miðlalæsis, flutti fræðsluerindi fyrir foreldra.
 
23. nóvember 2022
Hveragerðisskóli. Skúli Bragi Geirdal, verkefnastjóri miðlalæsis, flutti fræðsluerindi fyrir kennara.
 
23. nóvember 2022
Stafrænn foreldrafundur um netöryggi barna á vegum Ríkislögreglustjóra, í samvinnu við Barnaheill, 112, SAFT, Heimili og skóla, Inhope Ins@fe og Fjölmiðlanefnd. Skúli Bragi Geirdal, verkefnastjóri miðlalæsis, flutti erindi og tók þátt í pallborðsumræðum.
Fulltrúar Fjölmiðlanefndar sinntu viðtalsbeiðnum fjölmiðla um ýmis mál sem tengjast málefnasviði nefndarinnar, rituðu greinar sem rötuðu í samfélagsumræðuna og veittu auk þess almennar bakgrunnsupplýsingar vegna fréttaumfjöllunar af ýmsu tagi. Umfjöllunarefnin voru allt frá netöryggi og samfélagsmiðlanotkun barna yfir í Evrópulöggjöf og ábyrgð alþjóðlegra tæknifyrirtækja. Fróðleik og greinaskrif af ýmsu tagi má auk þess finna á vef Fjölmiðlanefndar.
 
Greinaskrif
 
3. mars 2022
Vísir: „Í stríði er sannleikurinn það fyrsta sem deyr“ eftir Elfu Ýri Gylfadóttur framkvæmdastjóra Fjölmiðlanefndar.
 
31. maí 2022
Vísir: „Ég er bara 5 ára og kenna á því fæ“ eftir Skúla Braga Geirdal verkefnastjóra miðlalæsis. Greinin birtist einnig á Kaffid.is.
 
7. október 2022
Veftímaritið Farsælir.is: „Fyrsta skref barnanna okkar er stafrænt fótspor“ eftir Skúla Braga Geirdal verkefnastjóra miðlalæsis.
 
20. október 2022
Vísir: „Þrjár ástæður fyrir því að börn yngri en 13 ára ættu ekki að vera á samfélagsmiðlum“ eftir Skúla Braga Geirdal verkefnastjóra miðlalæsis. Greinin birtist einnig á vef Vikublaðsins og á Kaffid.is.
 
1. nóvember 2022
Vísir: „Nei, ekki barnið mitt“ eftir Skúla Braga Geirdal verkefnastjóra miðlalæsis. Greinin birtist einnig á vef Vikublaðsins og Kaffid.is
 
16. nóvember 2022
Vísir: „Svona er algóritminn á samfélagsmiðlum að skemma mannleg samskipti“ eftir Skúla Braga Geirdal verkefnastjóra miðlalæsis. Greinin birtist einnig á vef Vikublaðsins og á Kaffid.is.
 
21. nóvember 2022
Kjarninn: „Mega Facebook og Google ekkert lengur?“ eftir Heiðdísi Lilju Magnúsdóttur yfirlögfræðing. Greinin fjallaði um nýja löggjöf um stafræn málefni, Digital Services Act, sem tók gildi í aðildarríkjum Evrópusambandsins 16. nóvember 2022.
 
12. desember 2022
Vísir: „Hvenær leiddist þér síðast?“ eftir Skúla Braga Geirdal verkefnastjóra miðlalæsis. Greinin birtist einnig á vef Vikublaðsins, á Akureyri.net og á Kaffid.is.
 
Desember 2022
Blaðamaðurinn, félagstíðindi Blaðamannafélags Íslands, 1. tbl. 2022, bls. 32: „Nýtt regluverk um frelsi fjölmiðla“ eftir Heiðdísi Lilju Magnúsdóttur yfirlögfræðing.
 
Umfjöllun um skýrsluna Börn og netmiðlar – Hluti 1. Tækjaeign og virkni á samfélagsmiðlum
 
25. janúar 2022
RÚV: Þriðjungur barna sér eftir færslum á samfélagsmiðlum.
 
25. janúar 2022
Fréttatíminn: YouTube vinsælasti samfélagsmiðillinn 9-18 ára.
 
26. janúar 2022
N4: YouTube vinsælasti samfélagsmiðillinn meðal 9-18 ára.
 
27. janúar 2022
MBL: Mörg grunnskólabörn vita ekki hvort aðgangur þeirra sé lokaður.
 
28. janúar 2022
MBL: Nær öll með farsíma og virk á samfélagsmiðlum.
 
31. janúar 2022
RÚV: Vörubílstjórar mótmæla í Kanada og netnotkun ungmenna.
 
Umfjöllun um skýrsluna Börn og netmiðlar – Hluti 2. Kynferðisleg komment og nektarmyndir
 
4. febrúar 2022
MBL.is: „70% unglingsstelpna fengið nektarmynd.
 
4. febrúar 2022
Vísir: „Flestar beiðnir um nektarmyndir koma frá ókunnugum.
 
4. febrúar 2022
RÚV: „Oftast ókunnugir sem senda „typpamyndir.
 
4. febrúar 2022
RÚV: Viðtal við Skúla Braga Geirdal verkefnastjóra í hádegisfréttum: „Ókunnugir senda og biðja um nektarmyndir.
 
4. febrúar 2022
RÚV: Viðtal við Skúla Braga Geirdal í Speglinum: „Skýrsla um nektarmyndir.
 
4. febrúar 2022
Fréttatíminn: „Ókunnugir biðja börn um nektarmyndir.
 
5. febrúar 2022
Fréttablaðið: „Flestar stúlkur verið beðnar um nektarmynd.
 
7. febrúar 2022
RÚV – Viðtal í Hádeginu: „Helmingur barna fær sendar nektarmyndir.
 
Umfjöllun um skýrsluna Börn og netmiðlar – Hluti 3. Öryggi á netinu
 
8. febrúar 2022
Fréttablaðið: „Fleiri stelpur en strákar hafa þurft að blokka einhvern.“ 
 
9. febrúar 2022
Fréttatíminn: „Fjórðungur á unglinga- og framhaldsskólastigi er með eða hefur átt falskan aðgang að samfélagsmiðlum.
 
Umfjöllun um skýrsluna Börn og netmiðlar – Hluti 4. Áhorf á klám
 
4. apríl 2022
Vísir: „Tvisvar til þrisvar sinnum fleiri strákar en stelpur horft á klám.
 
4. apríl 2022
MBL.is: „Meirihluti horft á klám í 10. bekk.
 
4. apríl 2022
DV.is: „Strákum líkar klámáhorf betur en stelpum samkvæmt nýrri skýrslu.
 
4. apríl 2022
Fréttablaðið: „Meirihluti 10. bekkinga horft á klám.
 
4. apríl 2022
RÚV: „Klámáhorf allt að þrefalt meira hjá strákum en stelpum.
 
Umfjöllun um skýrsluna Börn og netmiðlar – Hluti 5. Tölvuleikir
 
24. maí 2022
Morgunblaðið: „Fleiri stelpur hætta að spila eftir 7. bekk.
 
24. maí 2022
MBL.is: „20% hafa eytt fé í tölvuleik í blindni.
 
Umfjöllun um skýrsluna Börn og netmiðlar – Hluti 6. Fréttir og falsfréttir
 
9. júlí 2022
Morgunblaðið: „Fjölmiðlanotkun ungmenna kortlögð.
 
8. júlí 2022
Morgunblaðið: „Fjórðungur barna séð ráð til að grennast.
 
11. júlí 2022
Bítið á Bylgjunni: „Fjölmiðlanotkun ungmenna kortlögð.
 
13. júlí 2022
RÚV: „Þurfum að kenna börnum að nota snjalltækin rétt.
 
13. júlí 2022
RÚV: Viðtal í Morgunvaktinni á Rás 1 hjá Amöndu Guðrúnu Bjarnadóttur á RÚVAK.
 
Umfjöllun um skýrsluna Börn og netmiðlar – Hluti 7. Upplifun og auglýsingalæsi
 
26. október 2022
Fréttablaðið: „Fjórðungur barna upplifað einelti á netinu eða í símanum.“
 
27. október 2022
DV: „Fjórðungur barna og ungmenna upplifað einelti á netinu, í símanum eða tölvuleikjum.“
 
14. nóvember 2022
RÚV, Spegillinn: „Börn og auglýsingar á samfélagsmiðlum.
 
15. nóvember 2022
RÚV: „Áfengi haldið að drengjum en bótoxi að stúlkum.“
 
Umfjöllun um samfélagið og samfélagsmiðla

1. desember 2022
RÚV: „Samfélag og samfélagsmiðlar: Börn og netmiðlar.
 
1. desember 2022
RÚV: „Samfélag og samfélagsmiðlar: Hvernig aflar fólk sér upplýsinga?
 
Almenn umfjöllun
 
24. janúar 2022
MBL.is: „Nýtt tengslanet um upplýsinga- og miðlalæsi.
 
25. janúar 2022
RÚV, Hádegið á Rás 1. Rætt við Heiðdísi Lilju Magnúsdóttur um nýja Evrópulöggjöf, Digital Services Act.
 
11. mars 2022
RÚV, Spegillinn á Rás 1 og 2. Rætt við Elfu Ýri Gylfadóttur um áróðursstríðið sem geysar samhliða vopnuðum átökum í Úkraínu.
 
27. mars 2022
RÚV, Silfrið. Rætt við Elfu Ýri Gylfadóttur um áróðursstríðið sem geysar samhliða vopnuðum átökum í Úkraínu.
 
15. október 2022
RÚV, Heimskviður á Rás 1. Rætt við Elfu Ýri Gylfadóttur um stríðið í Úkraínu og um upplýsingaóreiðuna sem því fylgir.
 
2. nóvember 2022
RÚV: „Ný fjölmiðlalög taka á skuggahliðum netheima.
 
9. nóvember 2022
MBL.is: „Ofbeldi ekki aukist hjá börnum og ungmennum.“
 
Fjölmiðlaumfjöllun tengd greinaskrifum um netnotkun og vernd barna
Greinaskrif Skúla Braga Geirdal, verkefnastjóra miðlalæsis, um netnotkun og vernd barna vöktu athygli fjölmiðla á árinu. Hér á eftir eru hlekkir á umfjöllun fjölmiðla um efni greinanna.

3. júní 2022
Bítið á Bylgjunni: „Aldurstakmörk ekki virt á samfélagsmiðlum?
 
14. júní 2022
Reykjavík síðdegis á Bylgjunni: „Þarf að upplýsa foreldra ekki síður en börnin um hætturnar á samfélagsmiðlunum.“
 
20. október 2022
Reykjavík síðdegis á Bylgjunni: „Þrjár ástæður fyrir því að ung börn eiga ekki að vera á samfélagsmiðlum.“
 
20. október 2022
Síðdegisútvarpið á Rás 2: „Þrjár ástæður fyrir því að börn yngri en 13 ára ættu ekki að vera á samfélagsmiðlum.“
 
20. október 2022
DV: „Þessa reikninga geta þau notað til þess að taka þátt í eineltinu, ofbeldinu og hatrinu, án þess að koma fram undir nafni.“
 
23. október 2022
MBL: „Menning innan skólabekkja skoðuð vegna eineltis.“
 
23. október 2022
Sprengisandur, viðtal: „Einelti, Úkraína, samfélagsvegir og formannsár Loga.“
 
23. október 2022
Vísir: „Einelti hafi tilhneigingu til að fara úr sviðsljósinu.“
 
23. október 2022
MBL: „Menning innan skólabekkja skoðuð vegna eineltis.“
 
16. nóvember 2022
Reykjavík síðdegis: „Tölum saman eins og fólk, en ekki eins og einhver algóritmi.“
 
12. desember 2022
DV: „Biðja foreldra að líta í eigin barm – „Daglega erum við að setja þau í aðstæður sem þau ráða ekki við og hafa ekki þroska í“.“
 
13. desember 2022
RÚV Morgunútvarpið: „Leiðist börnunum okkar einhvern tímann?
 
15. desember 2022
RÚV: Mannlegi þátturinn: „Hvenær leiddist þér síðast?
 
15. desember 2022
Bítið á Bylgjunni: „Hvenær leiddist þér síðast?

 

Skráðir fjölmiðlar og leyfishafar í árslok 2022

Eingöngu útvarpsstöðvar sem miðla efni á FM-tíðnisviði og sjónvarpsstöðvar sem miðla efni á UHF-tíðnisviði (í lofti) þurfa að sækja um sérstakt leyfi til Fjölmiðlanefndar og jafnframt að sækja um úthlutun á senditíðni til Fjarskiptastofu. Skammtímaleyfi eru veitt til allt að þriggja mánaða en almenn leyfi í allt að sjö ár í senn. Eftirfarandi aðilar höfðu almenn leyfi til hljóð- og myndmiðlunar í árslok 2022.

Leyfishafi

Miðill

Tegund miðils

Leyfi gildir til:

 
     

Sýn hf.

Stöð 2

Myndmiðill

30. apr. 2028

(Vodafone)

Stöð 2 Fjölskylda

Myndmiðill

30. apr. 2028

 

Stöð 2 Bíó

Myndmiðill

30. apr. 2028

 

Stöð 2 Sport

Myndmiðill

30. apr. 2028

 

Stöð 2 Sport 2

Myndmiðill

30. apr. 2028

 

Stöð 2 Sport 3

Myndmiðill

30. apr. 2028

 

Stöð 2 Sport 4

Myndmiðill

30. apr. 2028

 

Stöð 2 eSport

Myndmiðill

30. apr. 2028

 

Stöð 2 Golf

Myndmiðill

30. apr. 2028

 

Stöð 2 Vísir

Myndmiðill

30. apr. 2028

 

Bylgjan

Hljóðmiðill

30. apr. 2028

 

Gullbylgjan

Hljóðmiðill

30. apr. 2028

 

Léttbylgjan

Hljóðmiðill

30. apr. 2028

 

FM 957

Hljóðmiðill

30. apr. 2028

 

Íslenska Bylgjan

Hljóðmiðill

30. apr. 2028

 

X-977

Hljóðmiðill

30. apr. 2028

    
     

Alþingi

Alþingisrásin

Útsending frá Alþingi

30. apr. 2023*

 
     

Kristniboðskirkjan Omega

Omega

Myndmiðill

30. apr. 2023

 
     

N4 ehf.

101 Productions ehf.

Árvakur hf.

N4

Útvarp 101

K-100

Myndmiðill

Hljóðmiðill

Hljóðmiðill

20. sept. 2023

15. okt. 2024

30. apr. 2028

 
 

Retró 89,5

Hljóðmiðill

30. apr. 2028

 
     

Frequency ehf.

Flashback

Hljóðmiðill

30. apr. 2023

 
 

80’s Flashback

Hljóðmiðill

30. apr. 2023

 
 

Kiss FM

Hljóðmiðill

30. apr. 2023

 
     

Boðunarkirkjan

Útvarp Boðun

Hljóðmiðill

30. apr. 2027

 
     

Hans K. Kristjánsson

Útvarp Ás 98,3

Hljóðmiðill

30. apr. 2023

 
     

Hljóðsmárinn ehf.

FM Trölli 103,7

Hljóðmiðill

30. apr. 2023

 
     
     

Léttur ehf.

Suðurland FM

Hljóðmiðill

30. apr. 2025

 
     

Lindin fjölmiðlun

Lindin útvarp

Hljóðmiðill

30. apr. 2028

 
     

Saganet ehf.

Útvarp Saga

Hljóðmiðill

30. apr. 2023

 
     

XA Radíó áhugamannafélag

XA-Radíó

Hljóðmiðill

30. apr. 2024

 
     

Ríkisútvarpið ohf.

RÚV

Myndmiðill

**

 
 

RÚV2 (RÚV Íþróttir)

Myndmiðill

  
 

Rás 1

Hljóðmiðill

  
 

Rás 2

Hljóðmiðill

  
 

Rondó

Hljóðmiðill

  

Torg ehf.

Hringbraut

Myndmiðill

5. sept. 2023

* Alþingi hefur almennt leyfi til hljóð- og myndmiðlunar vegna beinna útsendinga frá störfum þingsins en Alþingi er ekki fjölmiðlaveita í skilningi laga.

** Ríkisútvarpið starfar skv. lögum um Ríkisútvarpið, fjölmiðil í almannaþágu, nr. 23/2013 og hefur ótímabundið leyfi samkvæmt þeim lögum.

 

Fjölmiðlaveita

Fjölmiðill

Tegund fjölmiðils

     
   

Albert Guðmundsson

Eystrahorn

Prentmiðill

 

Eystrahorn.is

Vefmiðill

     

Aldur er bara tala ehf.

Aldur er bara tala

 

Vefmiðill

     

Arcdata ehf.

Arcticportal.org

 

Vefmiðill

   

Austurfrétt ehf.

Austurfrett.is

Vefmiðill

     

Árvakur hf.

Morgunblaðið

 

Prentmiðill

 

Mbl.is

Vefmiðill

     

Ásdís Haraldsdóttir

Hestamennska

 

Vefmiðill

     

Ásgrímur Sverrisson

Klapptré

Vefmiðill

   

Birtíngur útgáfufélag ehf.

Gestgjafinn

Prentmiðill

 

Vikan

Prentmiðill

 

Hús og híbýli

Prentmiðill

   

Borgarblöð ehf.

Vesturbæjarblaðið

Prentmiðill

 

Breiðholtsblaðið

Prentmiðill

 

Nesfréttir

Prentmiðill

   

Bændasamtök Íslands

Bændablaðið

Prentmiðill

 

Bbl.is

Vefmiðill

    

Caty Capital ehf.

Heilsutorg.is

Vefmiðill

   

Davíð Eldur Baldursson

Karfan

Vefmiðill

     

Doc Media slf.

Dr. Football

 

Hlaðvarp

     

Eiðfaxi ehf.

Eiðfaxi

  

Prentmiðill

 

Eidfaxi.is

Vefmiðill

     

Eigin herra ehf.

Akureyri.net

 

Vefmiðill

     

Einar Guðmann

Fitness.is

Vefmiðill

     

Eiríkur Jónsson ehf.

Eirikurjonsson.is

Vefmiðill

   

Elísa Guðrún ehf.

Lifandi vísindi

Prentmiðill

 

Visindi.is

Vefmiðill

   

ET miðlar ehf.

Eyjar.net

Vefmiðill

   

Eyjasýn ehf.

Eyjafréttir

Prentmiðill

 

Eyjafrettir.is

Vefmiðill

   

Flóra útgáfa ehf.

Vía

  

Vefmiðill

   

Flugufréttir ehf.

Flugufréttir

Vefmiðill

   

Fótbolti ehf.

Fotbolti.net

Vefmiðill

   

Fótspor ehf.

Vestri

Prentmiðill

 

Vestfirðingur

Prentmiðill

 

Norðurland

Prentmiðill

 

Austri

Prentmiðill

 

Suður

Prentmiðill

 

Suðurnesjablaðið

Prentmiðill

 

Báran

Prentmiðill

 

Hamar

Prentmiðill

   

Frequency ehf.

60’s Flashback

Netútvarp

 

70’s Flashback

Netútvarp

 

80’s Flashback

Netútvarp

 

90’s Flashback

Netútvarp

 

Kiss FM-Xtra

Netútvarp

 

Kiss FM

Netútvarp

 

Flashback

  

Netútvarp

 

 

 

 

 

Fréttin ehf.

Fréttin.is

  

Vefmiðill

   

Fröken ehf.

Reykjavík Grapevine

Prentmiðill

 

Grapevine.is

Vefmiðill

     

Gandalf Media ehf.

70 mínútur

Hlaðvarp

 

 

 

G. Hermannsson ehf.

Fréttatíminn.is

Vefmiðill

     

Gebo ehf.

Menn.is

Vefmiðill

Nútíminn

Vefmiðill

SKE

Prentmiðill

 

Ske.is

Vefmiðill

     

Ghost Network ehf.

Draugasögur Podcast

Hlaðvarp

     

Gospel Channel Evrópa ehf.

Gospel Ch. Scandinavia

Myndmiðill

 

Gospel Channel UK

Myndmiðill

   

Hafþór Hreiðarsson

640.is

Vefmiðill

     

Helgi Helgason

Skinna.is

  

Vefmiðill

     

Hestafréttir ehf.

Hestafréttir

 

Vefmiðill

     

Hringbraut-Fjölmiðlar ehf.

Hringbraut

 

Myndmiðill

 

Hringbraut.is

 

Vefmiðill

   

Hönnunarhúsið ehf.

Fjarðarfréttir.is

Vefmiðill

   

Íslenska sjónvarpsfélagið ehf.

Filmflex.is

 

Myndmiðill

     

Jón G. Hauksson

Fjármál og ávöxtun

 

Prentmiðill

   

Jón Guðbjörn Guðbjörnsson

Litlihjalli.is

Vefmiðill

     

Kaffið fjölmiðill ehf.

Kaffið.is

Vefmiðill

   

Kjarninn miðlar ehf.

Kjarninn

Vefmiðill

 

Vísbending

Prentmiðill

     

Kópavogsblaðið slf.

Kópavogsblaðið

 

Prentmiðill

 

Kopavogsbladid.is

Vefmiðill

     

Kópavogspósturinn ehf.

Kópavogspósturinn

Prentmiðill

   

Kristján Sigurjónsson

Túristi

Vefmiðill

   

Krosseyri ehf.

Midjan.is

Vefmiðill

 

Heima er bezt

Prentmiðill

     

Leturstofan sf.

Tígull

Vefmiðill

   

Lifðu núna ehf.

Lifðu núna

Vefmiðill

   

Matfélagið ehf.

Matland.is

Vefmiðill

 

 

 

MD Reykjavík ehf.                        

Iceland Review  

Prentmiðill

 

Icelandreview.com

Vefmiðill

 

What’s on

Prentmiðill

 

Whatson.is

Vefmiðill

   

Mosfellingur ehf.

Mosfellingur

Prentmiðill

 

Mosfellingur.is

Vefmiðill

   

Myllusetur ehf.

Viðskiptablaðið

Prentmiðill

 

Vb.is

Vefmiðill

 

Fiskifréttir

Prentmiðill

 

Fiskifrettir.is

Vefmiðill

 

Frjáls verslun

 

Prentmiðill

     

N4 ehf.

N4 Sjónvarp

 

Myndmiðill

 

N4 blaðið

Prentmiðill

   

Niko ehf.

Lífið er lag

Hlaðvarp

 

 

 

Nordic Media ehf.

Local Suðurnes

Vefmiðill

     

Nordic Times Media ehf.

Land og saga

 

Prentmiðil

 

Nordic Times

 

Prentmiðill

 

Icelandic Times

 

Prentmiðill

   

Nova hf.

Nova TV

Myndmiðill

   

Nýprent ehf.

Feykir

Prentmiðill

 

Feykir.is

Vefmiðill

   

Nýtt land ehf.

Tímaritið Herðubreið

Vefmiðill

   

Okkar allra ehf.

Spegill.is

Vefmiðill

   

 

 

 

Prentmet Oddi ehf.

Dagskráin

Prentmiðiill

 

Dfs.is

Vefmiðill

 

Fréttablað Suðurlands

Prentmiðill

   

Prentmet Vesturlands

Pósturinn

Prentmiðill

   

Ragnar Z. Guðjónsson

Húnahornið

Vefmiðill

 

Huni.is

Vefmiðill

   

Ritsýn sf.

Kvótinn.is

Vefmiðill

   

Ríkisútvarpið ohf.

Ruv.is

Vefmiðill

   

Saganet ehf.

Utvarpsaga.is

Vefmiðill

   

Skagafréttir ehf.

Skagafréttir

Vefmiðill

   

Síminn hf.

Sjónvarp Símans

 

Myndmiðill

 

Síminn Sport

 

Myndmiðill

 

Síminn Sport 2

 

Myndmiðill

 

Síminn Sport 3

 

Myndmiðill

 

Síminn Sport 4

 

Myndmiðill

 

Sjónvarp Símans Premium

Myndmiðlun e. pöntun (VOD)

 

Síminn Bíó

Myndmiðlun e. pöntun (VOD)

   

Skessuhorn ehf.

Skessuhorn

Prentmiðill

 

Skessuhorn.is

Vefmiðill

     

Skrautás

Grafarvogsblaðið

Prentmiðill

 

Árbæjarblaðið

Prentmiðill

     

Snasabrún ehf.

Handbolti.is

Vefmiðill

     

Sólartún ehf.

Mannlíf

  

Prentmiðill

 

Mannlif.is

  

Vefmiðill

     

Spássía ehf.

Norðurslóð

Prentmiðill

 

 

 

Steig ehf.

Bæjarins besta

Prentmiðill

 

Bb.is

Vefmiðill

   

Steinprent ehf.

Bæjarblaðið Jökull

Prentmiðill

     

Steve Dagskrá ehf.

Steve Dagskrá

 

Hlaðvarp

   

Sumarhúsið og garðurinn ehf.

Sumarhúsið og garðurinn

Prentmiðill

 

Rit.is

Vefmiðill

   

Sunnlenska fréttaveitan ehf.

Sunnlenska fréttablaðið

Prentmiðill

   

Sýn hf. (Vodafone)

80’s Bylgjan

Vefútvarp

 

Apparatið

Vefútvarp

 

FM Extra

Vefútvarp

 

Visir.is

Vefmiðill

 

Stöð 2+

Myndmiðlun e. pöntun (VOD)

   

Sýslið verkstöð ehf.

Strandir.is

 

Vefmiðill

   

Torg ehf.

Fréttablaðið

Prentmiðill

 

Frettabladid.is

Vefmiðill

 

Markaðurinn

Prentmiðill

 

Markadurinn.is

DV

Vefmiðill

Prentmiðill (í útgáfuhléi)

 

DV.is

Vefmiðill

 

Pressan.is

Vefmiðill

 

Eyjan.is

Vefmiðill

 

Bleikt.is

Vefmiðill

 

433.is

Vefmiðill

 

Icelandmag.is

Vefmiðill

   

Tunnan prentþjónusta ehf.

DB blaðið

Prentmiðill

 

Dbl.is

Vefmiðill

 

Tunnan

Prentmiðill

 

Tunnan.is

Vefmiðill

 

Hellan

Prentmiðill

     

Tvær stjörnur ehf.

Sunnlenska.is

Vefmiðill

     

Úr vör ehf.

Úr vör

  

Vefmiðill

     

Útgáfufélag Austurlands ehf.

Austurglugginn

 

Prentmiðill

     

Útgáfufélag Viljans ehf.

Viljinn

Vefmiðill

     

Útgáfufélagið ehf.

Vikublaðið

 

Prentmiðill

 

Vikubladid.is

Vefmiðill

     

Útgáfufélagið Stundin ehf.

Stundin

  

Prentmiðill

 

Stundin.is

Vefmiðill

   

Valdimar Tryggvi Kristófersson

Garðapósturinn

Prentmiðill

   

Viktor Ingi Jónsson

Samlestur – Leikhúsvarp

Hlaðvarp

 

 

 

Víkurfréttir ehf.

Víkurfréttir

Prentmiðill

 

Vf.is

Vefmiðill

   

Þjóðmál ehf.

Þjóðmál

Prentmiðill

Útgefandi: Fjölmiðlanefnd, Borgartúni 21, 105 Reykjavík
Umsjón: Heiðdís Lilja Magnúsdóttir
Grafísk hönnun: Skúli Bragi Geirdal
Prófarkalestur: Anton Emil Ingimarsson og Heiðdís Lilja Magnúsdóttir