Börn og netmiðlar

Á árinu 2021 var fyrsta rannsókn Fjölmiðlanefndar gerð í samstarfi við Menntavísindastofnun Háskóla Íslands. Það samstarf hefur reynst afar farsælt. Þá var ákveðið að leggja fyrir víðtæka spurningakönnun meðal grunn- og framhaldsskólanema á aldrinum 9-18 ára um allt land. 

Spurningalistinn var í upphafi byggður á rannsókn norsku fjölmiðlanefndarinnar Medietilsynet, í samstarfi við Sentio Research í Noregi. Spurningar voru þýddar og staðfærðar. Örar tækniframfarir og síbreytilegt umhverfi netmiðla kalla á að spurningalistinn sé reglulega yfirfarinn og spurningar uppfærðar og þróaðar í samræmi.

Framkvæmd – 2023

Könnunin náði til nemenda í grunn- og framhaldsskólum um land allt. Í fyrstu fyrirlögn 2021 var grunnur spurningalistans byggður á rannsókn norsku fjölmiðlanefndarinnar Barn og media, en var að hluta til endurbættur í þessari umferð. Spurningalistinn var sendur til umsagnar Siðanefndar háskólanna um vísindarannsóknir.

 

Fyrirlögn könnunarinnar var rafræn með úrtaki skólanema á aldrinum 9 – 18 ára um land allt. Alls tóku 6.489 nemendur þátt, þar af voru 4.562 grunnskólanemar í 4. – 10. bekk og 1.927 framhaldsskólanemar. Könnunin var framkvæmd með nokkuð mismunandi hætti á skólastigunum tveimur.

 

Í þeim hluta könnunarinnar sem framkvæmdur var meðal grunnskólanema voru skólar slembivaldir í öllum landshlutum. Heimild var fengin hjá skólaskrifstofum viðkomandi sveitarfélaga til að hafa samband við skólastjóra innan umdæma þeirra. Grunnskólar sem tóku þátt voru 53 af 60 boðuðum skólum. Skólarnir sendu forsjáraðilum nemenda upplýsingabréf frá rannsakendum um fyrirhugaða könnun og þeim gefinn kostur á að hafna þátttöku. Könnunin var lögð fyrir grunnskólanemendur í kennslustund eftir settum verklagsreglum.

 

Fyrirlögn meðal nemenda framhaldsskóla var að nokkru leyti frábrugðin. Haft var samband við 32 framhaldsskóla á landinu öllu og samþykktu 25 þeirra þátttöku. Starfsmenn skóla sendu upplýsingar um fyrirhugaða könnun til forsjáraðila allra nemenda sem ekki höfðu náð 18 ára aldri. Netpóstur með fræðslu um könnunina og þátttökuhlekk var síðan sendur til allra nemenda sem voru 18 ára eða yngri og þátttöku í könnuninni hafði ekki verið hafnað. Skólarnir sendu út tvær ítrekanir til mögulegra þátttakenda.

 

Allir þátttakendur voru upplýstir um að þeim bæri engin skylda til að taka þátt í könnuninni, þeir mættu sleppa spurningum og/eða hætta þátttöku hvenær sem þeir vildu. Einnig var þeim greint frá því að ekki væri verið að afla neinna persónuupplýsinga.

 

Spurningalistar voru að meginstofni til þeir sömu, stysta útgáfan var fyrir nemendur í 4. bekk, en lengri listi var ætlaður nemendum í 5. – 7. bekk. Nemendur á unglingastigi (8. – 10. bekk) og í framhaldsskólum fengu lengri spurningalista með fleiri efnisflokkum.

 

Tímabil fyrirlagnar var frá lokum október og fram í miðjan nóvember 2023. Niðurstöður fyrir grunnskólanema voru vigtaðar fyrir bekk og landssvæði, en fyrir framhaldskólanema var vigtað eftir kyni og landssvæði.

Framkvæmd 2021

Fyrirlögn könnunarinnar var rafræn með slembivöldu úrtaki skólanema á aldrinum 9 – 18 ára. Alls tóku 5.911 nemendur þátt, þar af voru 4.802 grunnskólanemendur í 4.–10. bekk og 1.109 framhaldsskólanemendur. Könnunin var framkvæmd með nokkuð mismunandi hætti í grunnskólum annars vegar og framhaldsskólum hins vegar.

 

Í þeim hluta könnunarinnar sem framkvæmdur var á meðal grunnskólanema voru skólar slembivaldir á öllum landsvæðum. Heimild var fengin hjá fræðslustjórum eða skólaskrifstofum viðkomandi svæða til að hafa samband við skólastjóra innan viðkomandi fræðslusvæðis. 23 af 25 boðuðum skólum samþykktu þátttöku. Úrlausnir bárust frá öllum skólum nema tveimur. Skólarnir sendu forsjáraðilum nemenda upplýsingabréf frá rannsakendum um fyrirhugaða könnun og gefinn var kostur á að hafna þátttöku. Könnunin var lögð fyrir grunnskólanemendur í kennslustund eftir settum verklagsreglum og notaðar voru tölvur í eigu skólanna.

 

Fyrirlögn meðal nemenda framhaldsskólanna var að nokkru leyti frábrugðin þó að þátttakendur hafi fengið sama spurningalista og nemendur á unglingastigi grunnskóla. Haft var samband við um 30 framhaldsskóla og 23 þeirra samþykktu þátttöku. Starfsmenn skóla sendu upplýsingar um fyrirhugaða könnun til forsjáraðila allra nemenda sem ekki höfðu náð 18 ára aldri, að auki fylgdu með upplýsingar fyrir þá sem vildu hafna þátttöku barna sinna. Netpóstur með upplýsingum um könnunina og þátttökuhlekk var síðan sendur í netpósti til allra nemenda sem voru 18 ára eða yngri og höfðu ekki hafnað þátttöku. Allir skólar nema einn sendu út eina ítrekun til nemenda.

 

Þátttakendum var gerð grein fyrir að þeim bæri engin skylda til að taka þátt í könnuninni, þeir mættu sleppa spurningum og/eða hætta þátttöku hvenær sem þeir vildu. Einnig var þeim greint frá því að ekki væri verið að afla neinna persónuupplýsinga. Útsendir spurningalistar voru að meginstofni til þeir sömu, styttri útgáfa var fyrir nemendur í 4.‐7. bekk, en lengri listi með viðbættum efnisflokkum var ætlaður nemendum í 8. bekk og eldri. Þátttakendur í framhaldsskólum fengu sama spurningalista og lagður var fyrir nemendur í 8.‐10. bekk grunnskóla.

 

Tímabil fyrirlagnar var frá miðjum mars og fram til fyrstu viku maímánaðar 2021. Niðurstöður fyrir grunnskólanema voru vigtaðar fyrir bekk og landssvæði. Niðurstöður fyrir framhaldsskólanema voru vigtaðar eftir kyni og landssvæði. 

 

Niðurstöður þessarar víðtæku spurningakönnunar meðal íslenskra barna og ungmenna verða kynntar í nokkrum hlutum. Í fyrsta hluta er fjallað um tækjaeign og miðlanotkun barna og ungmenna. Í öðrum hluta er fjallað um kynferðisleg komment og nektarmyndir. Í þriðja hluta er sjónum beint að öryggi barna og ungmenna á netinu og í fjórða hluta er viðfangsefnið klám. Fimmta skýrslan fjallar um notkun barna og ungmenna á tölvuleikjum og sú sjötta um fjölmiðlanotkun þeirra og hvort þau verði vör við falsfréttir. Síðasta hlutanum er síðan ætlað að lýsa upplifun barna og ungmenna á netinu.