Eftirlit

Fjölmiðlanefnd ber að fylgjast með því að fjölmiðlaveitur fari að fyrirmælum fjölmiðlalaga, taka ákvarðanir í málum samkvæmt þeim og beita viðurlögum þegar við á. Hún á jafnframt að fylgjast með stöðu og þróun á fjölmiðlamarkaði og safna upplýsingum þar að lútandi.

Fjölmiðlanefnd annast samskipti við sambærileg stjórnvöld í öðrum EES-ríkjum og alþjóðastofnanir um málefni á starfsvettvangi sínum, annast eftirlit með skráningarskyldu og veitingu leyfa til hljóð- og myndmiðlunar og tryggir að lögboðnar upplýsingar um allar fjölmiðlaveitur séu til staðar.

Fjölmiðlanefnd annast eftirlit með innihaldi og framsetningu hljóð- og myndsendinga í viðskiptaskyni sem og viðskiptaboða í prentmiðlum og rafrænum ritmiðlum. 

Þá hefur Fjölmiðlanefnd eftirlit með því að Ríkisútvarpið fari að þeim reglum sem gilda um viðskiptaboð í miðlum þess og leggur árlega mat á það hvort Ríkisútvarpið hafi uppfyllt almannaþjónustuhlutverk sitt.

Viðskiptaboð og fjarkaup

Viðskiptaboð og fjarkaup

Með hljóð- og myndmiðlunartilskipun Evrópusambandsins var gerð mikil breyting á hugtakanotkun til samræmis við breytt umhverfi á þeim vettvangi. Þess vegna eru ýmis ný hugtök í fjölmiðlalögum sem koma í stað þeirra hugtaka sem notuð voru í útvarpslögum nr. 53/2000. Hugtakið viðskiptaboð er nýtt yfirhugtak sem er ætlað er að ná yfir allar tegundir auglýsinga, kostun og vöruinnsetningu.

Í fjölmiðlalögum er að finna almennar meginreglur sem gilda um alla fjölmiðla. Þær reglur eru sambærilegar þeim reglum sem gilda um auglýsingar almennt samkvæmt öðrum lögum. Hins vegar eru reglur sem lúta einungis að hljóð- og myndmiðlum og leiðir af sérstöku eðli þeirrar tegundar fjölmiðlunar sem og þeim kröfum sem gerðar eru samkvæmt hljóð- og myndmiðlunartilskipuninni, enda löng hefð fyrir því að að ítarlegri reglur gildi um auglýsingar og annað sambærilegt efni í slíkum miðlum.

Auglýsingar

Auglýsing er viðskiptaboð sem í felst hvers konar tilkynning sem er miðlað gegn endurgjaldi eða í þágu fjölmiðlaveitu og felur í sér kynningu á ímynd, vöru eða þjónustu. Hugtakið tekur til auglýsinga í hljóð- og myndmiðlum, prentmiðlum eða rafrænum ritmiðlum.

Auglýsing skal þannig úr garði gerð að ekki leiki vafi á að um auglýsingu er að ræða auk þess sem hún skal vera skýrt aðgreind frá öðru efni fjölmiðilsins. Auðkenningarskylda nær jafnt til allra tegunda fjölmiðla. Auðkenning getur t.d. verið myndskilti eða hljóðmerki í hljóð- og myndmiðlum og í prentmiðlum og rafrænum ritmiðlum getur auglýsing t.d. verið í ramma. Fjölmiðlar skulu í öllum tilvikum tryggja að einhverskonar auðkenning eigi sér stað enda er aðgreining auglýsinga frá ritstjórnarefni í viðkomandi fjölmiðli grundvallarþáttur í neytendavernd á þessum vettvangi. Auðkenning er forsenda þess að áhorfendur/hlustendur/lesendur viti hvaða umfjöllunarefni lýtur ritstjórnarlegri ákvörðun og hvaða efni birtist í fjölmiðlum vegna þess að greitt hefur verið fyrir umfjöllun.

Kostun

Kostun er samkvæmt lögum um fjölmiðla nr. 38/2011 viðskiptaboð sem tekur til hvers konar framlaga opinbers fyrirtækis, einkafyrirtækis eða einstaklings til fjármögnunar einstakra dagskrárliða með það fyrir augum að vekja athygli á heiti viðkomandi, vörumerki, ímynd, starfsemi eða vörum, enda fáist viðkomandi hvorki við hljóð- né myndmiðlun né framleiðslu hljóð- og myndverka.

Með kostun er átt við það þegar fyrirtæki eða einstaklingar fjármagna einstaka dagskrárliði, án þess að hafa áhrif á innihald þeirra, efnistök eða tímasetningu, sbr. 1. mgr. 42. gr. laga um fjölmiðla. Kostun má ekki raska ábyrgð og ritstjórnarlegu sjálfstæði fjölmiðlaveitunnar. Kostað efni má ekki fela í sér hvatningu til kaupa eða leigu á vörum eða þjónustu kostanda eða annars aðila, t.d. með því að auglýsa slíka vöru eða þjónustu sérstaklega.

Heimilt er að kosta alla einstaka dagskrárliði, með þeirri undantekningu að óheimilt er að kosta fréttaútsendingar og fréttatengt efni.

Kostunartilkynningar eru eðli máls samkvæmt ólíkar auglýsingum. Kostun gefur fyrirtækjum færi á að kynna ímynd sína um leið og þau leggja fé af mörkum til dagskrárgerðar. Kostun felst í því að fyrirtæki tengi ímynd sína, vöru, vörumerki eða þjónustu við það sem kostað er í skiptum fyrir að hagnýta þau tengsl sem við það skapast í hugum neytenda. Kostaðir dagskrárliðir þurfa að vera auðkenndir sem slíkir þannig að nafn, vörumerki eða annað auðkenni kostanda komi fram í upphafi viðkomandi dagskrárliðar, á meðan honum stendur og/eða við lok hans. Kostunartilkynningar eiga að vera skýrt afmarkaðar frá hefðbundnum auglýsingum. Þær eiga ekki að hafa að geyma atburði eða atburðarás eða líkjast uppbyggingu auglýsinga að öðru leyti.

Kostunartilkynningum er ætlað það hlutverk annars vegar að gera áhorfendum og/hlustendum ljóst að aðrir en fjölmiðillinn hafi tekið þátt í fjármögnun á tilteknu efni og hins vegar að minna á kostanda sem slíkan.

Vöruinnsetning

Samkvæmt 42. tölul. 1. mgr. 2. gr. laga um fjölmiðla nr. 38/2011 er vöruinnsetning viðskiptaboð sem taka til allra gerða hljóð- og myndsendinga í viðskiptaskyni sem taka til eða vísa til vöru, þjónustu eða vörumerkis hennar með þeim hætti að þær komi fram í dagskrárlið gegn greiðslu eða öðru endurgjaldi.

Vöruinnsetning er þegar vöru, þjónustu eða vörumerki bregður fyrir í dagskrárlið, eða vísað er vöru/þjónustu/vörumerkis í hljóð- og myndefni, gegn greiðslu eða öðru endurgjaldi. Tilgangur vöruinnsetningar er að kynna viðkomandi vörur, þjónustu eða ímynd með beinum eða óbeinum hætti.

Samkvæmt 39. gr. laga um fjölmiðla eru vöruinnsetningar gegn greiðslu eða öðru endurgjaldi eingöngu heimilar í:
-kvikmyndaverkum
-myndum og þáttaröðum gerðum fyrir fjölmiðlaþjónustu
-íþróttaþáttum
-léttum skemmtidagskrám

Vöruinnsetningar gegn greiðslu eða öðru endurgjaldi eru óheimilar í:
-Fréttum og fréttatengdu efni
-Barnaefni. Eingöngu er heimilt að veita vörur eða þjónustu sem verðlaun eða gjafir í barnaefni að því tilskildu að þær séu veittar án endurgjalds og séu hluti af dagskrárlið.

Skilyrði þess að vöruinnsetning í hljóð- og myndefni sé heimil er að ekki sé vakin sérstök athygli á vörunni, þjónustunni eða þeim sem veitir hana og ekki hvatt beinlínis til kaupa eða leigu á henni.
Ekki skiptir máli í þessu sambandi hver þiggur greiðslu eða annað endurgjald fyrir vöruinnsetninguna; hvort það er fjölmiðlaveitan, framleiðandi efnisins eða einstaklingar sem koma að framleiðslu þess.
Þá eru vöruinnsetningar heimilar í öðru hljóð- og myndefni, þar sem greiðsla kemur ekki fyrir, heldur eru tilteknar vörur aðeins afhentar (eða þjónusta veitt) án endurgjalds, svo sem leikmunir eða verðlaun, í því skyni að þær verði hluti af dagskrárlið.

Vöruinnsetningu verður að tilkynna eða merkja með skýrum hætti þannig að áhorfendum sé ljóst að greitt hafi verið fyrir vöruinnsetningu í viðkomandi dagskrárlið. Auðkenning þarf að eiga sér stað við upphaf og lok dagskrárliðar sem inniheldur vöruinnsetningu og einnig þegar slíkir dagskrárliðir hefjast aftur eftir auglýsingahlé. Þetta má til dæmis leysa með því að birta sérstakt merki á skjánum þar sem bókstafurinn „V“ er í forgrunni, auk þess að birta eða lesa tilkynningu um vöruinnsetningu við upphaf dagskrárliðar. Dæmi um hugsanlegt orðalag slíkrar tilkynningar gæti verið: „Þessi dagskrárliður inniheldur vöruinnsetningu“ eða „vöruinnsetningu bregður fyrir í þessum þætti“.

Vöruinnsetning má ekki snerta innihald hljóð- og myndefnis að öðru leyti, þ.e. ekki má kynna viðkomandi vöru eða þjónustu með öðrum hætti en þeim að hún sjáist eða að vísað sé til hennar í dagskrárliðnum. Auðkenningarskyldan gildir bara um hljóð- og myndefni sem fjölmiðlaveitan hefur sjálf framleitt, aðili í umboði hennar eða fyrirtæki tengt henni.

Vöruinnsetning má ekki hafa áhrif á ábyrgð og ritstjórnarlegt sjálfstæði fjölmiðlaveitunnar og má ekki fela í sér beina hvatningu til kaupa eða leigu á vörum og þjónustu. Ekki má setja vöruna eða þjónustuna sem um ræðir fram á óþarflega áberandi hátt, heldur verður hún að falla inn í dagskrána með eðlilegum hætti.

Almennar reglur laga um fjölmiðla um viðskiptaboð gilda einnig um vöruinnsetningar. Vöruinnsetningar, sem lúta að vörum sem óheimilt er að auglýsa í fjölmiðlum, t.d. áfengi og tóbaki, eru að sjálfsögðu óheimilar.

Dulin auglýsing

Duldar auglýsingar (viðskiptaboð) eru óheimilar samkvæmt 2. mgr. 37. gr. laga um fjölmiðla nr. 38/2011. Í viðskiptaboðum er jafnframt óheimilt að beita tækni til að hafa áhrif á fólk neðan marka meðvitaðrar skynjunar. Duldar auglýsingar eru kynning í máli eða myndum á vörum, þjónustu, heiti, vörumerki eða starfsemi aðila sem framleiðir vöru eða veitir þjónustu í dagskrárliðum þegar slík kynning er til þess ætluð af hálfu fjölmiðilsins að þjóna auglýsingamarkmiðum og gæti villt um fyrir neytendum að því er eðli hennar varðar.

Hvað bann við duldum viðskiptaboðum varðar, tekur umrætt bann jafnt til allra fjölmiðla. Slíkt bann var sett í ljósi sjónarmiða um aukna neytendavernd á þessum vettvangi, enda verður að gera þá fortakslausu kröfu til fjölmiðla að þeir tryggi að neytendum sé ljóst hvenær um auglýsingar sé að ræða. Hvað hið síðarnefnda varðar tekur umrætt bann einungis eðli máls samkvæmt til hljóð- og myndmiðla enda.

Vernd barna

Vernd barna

Í Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna segir að öll börn eigi rétt á því að vera fullgildir þátttakendur í samfélaginu og hafa aðgang að upplýsingum og efni af ýmsum uppruna í fjölmiðlum. Einnig kemur fram í Barnasáttmálanum að ríki eigi að móta reglur um vernd barna fyrir upplýsingum og fjölmiðlaefni sem skaðað getur velferð þeirra. Í lögum um fjölmiðla er að finna nokkrar reglur um vernd barna gegn fjölmiðlaefni sem ekki er talið við þeirra hæfi. Annars vegar reglur um vernd barna gegn efni sem haft getur skaðleg áhrif á líkamlegan, andlegan eða siðferðilegan þroska þeirra. Hins vegar eru reglur um auglýsingar sem beint er að börnum. Þá eru reglur um aldursmat og -merkingar og annað eftirlit með aðgangi barna að kvikmyndum og tölvuleikjum að finna í lögum nr. 62/2006, sem Fjölmiðlanefnd hefur eftirlit með. Fjölmiðlanefnd er auk þess ætlað að vinna að því að efla miðlalæsi almennings, barna jafnt sem fullorðinna.

Auglýsingar og kostun

Í fjölmiðlalögunum eru ákvæði um takmarkanir á auglýsingum sem beint er að börnum, m.a. bann við auglýsingum í kringum barnatíma. 

Ein meginástæða þess að takmarkanir eða bann hefur verið sett við markaðssetningu gagnvart börnum í fjölmiðlum í flestum löndum er að ung börn hafa almennt ekki þroska til að skilja muninn á auglýsingum og öðru efni. Rannsóknir sýna að börn öðlast þekkingu á vörumerkjum við tveggja ára aldur en talið er að þau séu hins vegar u.þ.b. fimm ára þegar þau gera sér grein fyrir því að munur sé á dagskrárefni og auglýsingum. Það er aftur á móti ekki fyrr en við átta ára aldur talið að þau hafi þroska til að skilja að auglýsingar eru hlutdrægar og að þeim sé ætlað að sannfæra neytendann um ágæti vöru eða þjónustu. Enn fremur hafa viðtökurannsóknir sýnt að auglýsingar þar sem þekktar persónur koma fram, t.d. dægurstjörnur, leikbrúður eða teiknimyndapersónur höfði sérstaklega vel til barna. Því hafa slíkar auglýsingar verið bannaðar í ýmsum löndum, þó að auglýsingar sem beint er að börnum séu leyfðar með takmörkunum (til dæmis í Danmörku og Bretlandi).

Í hljóð- og myndmiðlunartilskipuninni sem var innleidd með fjölmiðlalögum var jafnframt komið til móts við sjónarmið margra aðildarríkja ESB um að takmarka verði viðskiptaorðsendingar um óholl matvæli sem beint er að börnum. Ástæðan er m.a. sú hversu móttækileg börn eru fyrir ýmiss konar viðskiptaboðum auk þess sem rannsóknir sýna vaxandi offitu meðal þeirra. Þá hafa bæði erlendir og innlendir fræðimenn bent á að offita sé dæmi um það þegar kostnaður er að hluta til borinn af öðrum en neytandanum sjálfum þar sem hún eykur hættu á ýmsum sjúkdómum og almennum heilsubresti.

Í fjölmiðlalögum er bannað að hvetja börn til þess að kaupa vöru eða þjónustu með því að notfæra sér reynsluleysi þeirra eða trúgirni og hvetja börn til að telja foreldra sína eða aðra á að kaupa vöru eða þjónustu sem auglýst er. Jafnframt er óheimilt að hvetja börn til neyslu á matvörum og drykkjarvörum sem innihalda næringarefni og efni sem hafa lífeðlisfræðileg áhrif og ekki er mælt með að séu í óhóflegum mæli hluti af mataræði barna. Hér er einkum átt við fitu, transfitusýrur, salt og sykur. Þá er óheimilt að sýna börn að tilefnislausu við hættulegar aðstæður.

Auglýsingar, vöruinnsetningar og fjarkaupainnskot eru óheimil í dagskrá sem er ætluð börnum yngri en 12 ára og hefst bannið 5 mínútum áður en dagskrá hefst og stendur þar til 5 mínútum eftir að útsendingu slíkrar dagskrár lýkur. Kostun barnaefnis er hins vegar heimil, með þeim takmörkunum og skilyrðum sem kveðið er á um í 38. og 42. gr. laga um fjölmiðla.

Vernd barna gegn skaðlegu efni

Samkvæmt fjölmiðlalögum er fjölmiðlum óheimilt að miðla hljóð- og myndefni sem getur haft skaðvænleg áhrif á líkamlegan, andlegan eða siðferðilegan þroska barna, einkum og sér í lagi efni sem felur í sér klám eða tilefnislaust ofbeldi. Reglurnar byggja á tveggja þrepa kerfi hljóð- og myndmiðlunartilskipunar Evrópusambandsins og eru misstrangar eftir því með hvaða hætti efninu er miðlað. 

Bannað er að sýna dagskrárefni sem haft getur alvarleg, skaðvænleg áhrif á börn í línulegri dagskrá í sjónvarpi. Þegar talað er um línulega dagskrá er átt við hefðbundna sjónvarpsdagskrá, sem sýnd er í rauntíma en er ekki pöntuð eftir á. Bannið á fyrst og fremst við um grófasta efnið, klám og tilefnislaust ofbeldi, en einnig annað efni sem talið er geta haft sérlega neikvæð og/eða ógnvekjandi áhrif á hugarheim barna og ungmenna, hugmyndir þeirra og skoðanir til lengri tíma.

Þótt bannað sé að sýna grófasta efnið í línulegri dagskrá er fjölmiðlum er heimilt að miðla því eftir pöntun ef tryggt er með tæknilegum ráðstöfunum að börn hafi ekki aðgang að því.

Aldursmat: Til viðmiðunar má segja að efni sem haft getur alvarleg, skaðvænleg áhrif á börn og bannað er að sýna í hefðbundinni sjónvarpsdagskrá sé efni með aldursmatið 18+.

Vatnaskilaákvæðið
Ekki gilda eins strangar reglur um efni sem haft getur skaðvænleg áhrif á börn en það er efni sem valdið getur börnum á ýmsum aldri ótta, kvíða eða raskað hugarró þeirra. Það sama gildir um efni sem haft getur truflandi áhrif á börn eða komið þeim í uppnám, t.d. vegna orðfæris, siðferðisboðskapar eða athafna sem myndefnið sýnir. Dæmi um það síðastnefnda er myndefni sem sýnir ofbeldi, vímuefnanotkun eða kynferðislegar athafnir af einhverju tagi.
Bannað er að sýna efni sem haft getur skaðvænleg áhrif á börn í línulegri dagskrá, á þeim tíma sem ætla má að börn sé að horfa. Frá þessu banni eru þær undantekningar að efninu má miðla eftir kl. 22 á föstudags- og laugardagskvöldum og eftir kl. 21 önnur kvöld vikunnar og til 5 á morgnana. Lagaákvæðið, þar sem þessa reglu er að finna, hefur verið kallað vatnaskilaákvæðið. Þá er fjölmiðlum einnig heimilt að miðla þessu efni eftir pöntun, t.d. í VOD-þjónustu, ef tryggt er með tæknilegum ráðstöfunum að börn hafi ekki aðgang að því.

Aldursmat: Efni sem haft getur skaðvænleg áhrif á börn fær mismunandi aldursmat, sem ræðst af eðli þess og innihaldi, raunveruleikastigi, andrúmslofti og fleiri sjónarmiðum. Kvikmyndir og DVD-myndir eru flokkaðar í aldursflokkana 18, 16, 14, 12, 9 og 6 ára. Efni merkt L er leyft öllum aldurshópum. Í sjónvarpi eru kvikmyndir og sjónvarpsþættir merktir með auðkenni sjónvarpsstöðvarinnar sem ýmist er hvítt, gult eða rautt að lit. Hvítt merki þýðir að efnið er leyft öllum aldurshópum, gult merki táknar að efnið er ekki við hæfi barna yngri en 12 ára en rautt merki þýðir að efnið er ekki við hæfi barna yngri en 16 ára.

Hafa ber í huga að ógnvekjandi eða óþægilegir hlutir í sjónvarpinu geta haldið áfram að trufla börnin eftir að þau eru hætt að horfa. Áhrif fjölmiðlaefnis á börn eru einstaklingsbundin og jafnvel sjónvarpsþáttur sem börnum er heimilt að horfa á út frá aldursviðmiðum getur valdið þeim ótta eða kvíða.

Fjölmiðlanefnd hefur túlkað vatnaskilaákvæði fjölmiðlalaga svo að það taki til efnis sem er ekki við hæfi barna yngri en 12 ára. Efni með aldursmatið 12+ og hærra er því óheimilt að sýna fyrir vatnaskil.

Nánari upplýsingar um aldursmerkingar kvikmynda og sjónvarpsþátta er að finna á vefsíðunni www.kvikmyndaskodun.is og á heimasíðu NICAM í Hollandi, sem heldur úti Kijkwijzer-aldursmatskerfinu en ábyrgðaraðilar skv. lögum nr. 62/2006, um eftirlit með aðgangi barna að kvikmyndum og tölvuleikjum, byggja á því kerfi við aldursmat kvikmynda og tölvuleikja hér á landi.

Rétt er að geta þess að sambærilegt ákvæði er að finna í löggjöf ýmissa nágrannaríkja Íslands, svo sem í Noregi, Svíþjóð, Finnlandi og Bretlandi, og þykir það hafa gefist vel í framkvæmd. Jafnframt er slíkt vatnaskilaákvæði að finna í leiðbeinandi reglum hjá Sambandi evrópskra sjónvarpsstöðva (EBU).

Í júní 2015 gaf Fjölmiðlanefnd út leiðbeiningar fyrir fjölmiðla um vernd barna gegn skaðlegu efni. Leiðbeiningarnar má finna hér.

Tölvuleikir og kvikmyndir

Fjölmiðlanefnd hefur eftirlit með lögum nr. 62/2006 um eftirlit með aðgangi barna að kvikmyndum og tölvuleikjum sem áður var í höndum Barnaverndarstofu. Samkvæmt lögunum er bannað að sýna börnum undir lögræðisaldri ofbeldiskvikmyndir og -tölvuleiki, sem og kvikmyndir eða tölvuleiki sem ógna velferð þeirra. Þá er bönnuð sýning, sala og önnur dreifing á slíku efni til barna sem hafa ekki náð lögræðisaldri.

Samkvæmt lögunum skal meta allar kvikmyndir og tölvuleiki sem ætlaðir eru til sýningar, sölu eða annarrar dreifingar hér á landi fyrir börn undir lögræðisaldri með tilliti til hvort leyfa beri eða takmarka sýningu, notkun eða afhendingu á slíku efni við tiltekið aldursskeið innan lögræðisaldurs. Sama gildir um ítarefni sem dreift er með kvikmyndum og tölvuleikjum og kynningarefni fyrir kvikmyndir og tölvuleiki.
Þessi skylda hvílir á þeim aðilum sem framleiða kvikmyndir eða tölvuleiki til sýningar eða sölu hér á landi, eða hafa kvikmyndir eða tölvuleiki til sýningar, leigu, sölu eða annarrar dreifingar, í atvinnuskyni hér á landi. Sömu aðilar skulu gæta þess að aðgangur að sýningum og afhending á kvikmyndum og tölvuleikjum sé í samræmi við ákvæði þessarar greinar.

Samkvæmt lögum skal ábyrgðaraðili setja sér verklagsreglur um framkvæmd mats og aldurstakmörkunar sem styðjast við alþjóðlega viðurkennd skoðunarkerfi fyrir kvikmyndir og tölvuleiki. Í verklagsreglunum á að taka mið af barnaverndarsjónarmiðum og þá skal einkum líta til eftirtalinna atriða og hvernig með þau er farið hverju sinni: söguefnis, orðfæris, beitingar ofbeldis, sýningar nektar og kynlífs og neyslu fíkniefna. Skal gera heildarmat á framangreindum atriðum og öðrum sem talið er að kunni að skipta máli.

Ábyrgðaraðili þarf samkvæmt lögum að birta verklagsreglurnar opinberlega, m.a. á vefsíðu sem almenningur hefur aðgang að og sölustöðum kvikmynda og tölvuleikja. Þar skal og tilgreina nafn matsstjóra ábyrgðaraðila og veita almenningi leiðbeiningar um móttöku erinda sem lúta að framkvæmd reglnanna og afgreiðslu slíkra erinda. Samkvæmt lögum á ábyrgðaraðili að færa niðurstöður um mat á sýningarhæfni kvikmynda og tölvuleikja í gagnagrunn sem almenningur hefur aðgang að.

Vakin er athygli á því að önnur aldurstakmörk gilda fyrir kvikmyndir og sjónvarpsþætti en tölvuleiki. Við aldursmat á kvikmyndum og sjónvarpsþáttum hafa ábyrgðaraðilar (kvikmyndahús og myndmiðlar) ákveðið að miða við aldursflokkana L, 6, 9, 12, 14, 16 og 18 ára, sem eru sömu aldursflokkar og byggt er á í hinu alþjóðlega Kijkwijzer-aldursmatskerfi.

Hér á vef Kvikmyndaskoðunar er að finna nánari upplýsingar um aldursmat kvikmynda og sjónvarpsþátta hér á landi.

Hér á vef Kijkwijzer/NICAM í Hollandi eru einnig upplýsingar um aldursmat kvikmynda og sjónvarpsþátta, ásamt upplýsingum um þau sjónarmið sem liggja því aldursmati að baki. Kvikmyndahús og myndmiðlar nota Kijkwijzer-kerfið við aldursmat hér á landi.

Hér er að finna upplýsingar um eftirlit með kvikmyndum og tölvuleikjum í Danmörku.

Hér er að finna upplýsingar um eftirlit með kvikmyndum í Noregi.

Hér er að finna upplýsingar um eftirlit með kvikmyndum í Svíþjóð.

Miðlalæsi

Fjölmiðlanefnd er samkvæmt lögum ætlað að stuðla að auknu miðlalæsi á meðal almennings. Hugtakið miðlalæsi vísar til færni, þekkingar og skilnings sem gerir notendum kleift að nýta sér ólíka miðla á öruggan og skilvirkan hátt.

Markmið miðlalæsis er að auka skilning á ólíkum skilaboðum í ólíkum miðlum. Það á að hjálpa notendum að bera kennsl á hvernig skilaboðum er komið áleiðis í gegnum ólíka miðla, hvernig fréttir og upplýsingar eru skoðanamyndandi og hvernig þeir hafa áhrif á val fólks. Miðlalæsi á að auka gagnrýna hugsun neytenda og auðvelda þeim að draga skynsamar ályktanir af þeim skilaboðum í ólíkum miðlum sem þeir hafa aðgang að. Þá er miðlalæsi talið nauðsynlegt til að borgarar geti nýtt tjáningarfrelsið og haft aðgang að upplýsingum.

Fólk sem læst er á ólíka miðla getur valið efni á mun upplýstari hátt en aðrir, skilið eðli þess og markmið og fært sér í nyt öll þau tækifæri sem ný tækni hefur upp á að bjóða. Það er að sama skapi betur fært um að vernda sig og fjölskyldu sína gegn skaðlegu og særandi efni. Það má segja að miðlalæsi sé í raun grunnurinn að virku lýðræði.

Hjá þeim alþjóðastofnunum sem Ísland er aðili að er lögð mikil áhersla á miðlalæsi enda er talið að miðlalæsi nú sé hugsanlega jafnmikilvægt fyrir þátttöku borgara í lýðræðissamfélagi eins og læsi var í upphafi 19. aldar. Í ljósi þessa er með ákvæðum laganna stefnt að því að auka miðlalæsi á meðal almennings, t.d. með því að gera upplýsingar um eigendur fjölmiðla aðgengilegar almenningi og með skýrari aðgreiningu dagskrárefnis annars vegar og auglýsinga og annarra viðskiptaorðsendinga auk fjarkaupa hins vegar. Einnig að almenningur átti sig á muninum á fréttum og skilaboðum sem dreifast á samfélagsmiðlum og fréttum í faglegum fjölmiðlum er lúta ritstjórn.

Fjölmiðlanefnd er m.a. ætlað að stuðla að auknu miðlalæsi á meðal almennings og standa vörð um þau gildi sem liggja til grundvallar ákvæðum fjölmiðlalaga. En miðlalæsi er lykill að því að fólk geti bætt þekkingu sína og verið gagnrýnir og virkir þegnar í lýðræðisþjóðfélagi. Í greinargerð með frumvarpi til fjölmiðlalaga er Fjölmiðlanefnd ætlað að standa með virkum hætti og í samstarfi við félagasamtök, menntamálayfirvöld o.fl. að fræðslu um miðlalæsi, t.d. með málþingum, birtingu upplýsinga á heimasíðu og fleiru sem getur nýst í þessum efnum.

Hér er að finna bækling um börn og miðlanotkun sem Fjölmiðlanefnd, SAFT og Heimili og skóli gáfu út í apríl 2015, með styrk frá Mennta- og menningarmálaráðuneytinu. Í bæklingnum er meðal annars umfjöllun um miðlalæsi.

Tal og texti á íslensku

Tal og texti á íslensku

Í fjölmiðlalögum er að finna ákvæði þess eðlis að allir fjölmiðlar skuli eftir fremsta megni stuðla að menningarþróun og eflingu íslenskrar tungu. Enn fremur er tekið fram að engu síður sé heimilt að starfrækja fjölmiðla hér á landi á öðrum tungumálum en íslensku.

Ákvæðið á sér fyrirmynd í útvarpslögum en í fjölmiðlalögum er því ætlað að gilda jafnt um alla þá fjölmiðla hér á landi sem miðla efni sínu til íslenskra notenda. Þeim ber því öllum að stuðla að framgangi nefndra gilda og gæta að því að það efni sem miðlað er á íslensku sé á vönduðu máli.

Sérstök ástæða er til að vekja á því athygli að íslensk málstefna var samþykkt á Alþingi vorið 2009 og menntamálaráðherra falið að fylgja henni eftir (198. mál 136. löggjafarþings). Í íslensku málstefnunni er sérstaklega fjallað um málstefnu í fjölmiðlum. Þar er lagt til að fjölmiðlar (og auglýsingastofur) setji sér málstefnu, standi vörð um íslenskt mál, vandi til verka við þýðingar og yfirlestur skjátexta, hvetji til íslenskrar dagskrárgerðar, vandi talsetningu á efni fyrir börn o.fl. Mennta- og menningarmálaráðherra skipaði nefnd til að útfæra tillögur um þetta. Niðurstaða nefndarinnar var sú að rétt væri að beina því til fjölmiðla sem miðla hljóði og texta á íslensku að setja sér málstefnu. Fjölmiðlum er nú samkvæmt lögum ætlað að marka sér málstefnu.

Í ákvæðinu er þó sérstaklega tekið fram að heimilt sé að starfrækja fjölmiðla hér á landi á öðrum tungumálum en íslensku. Undanfarin ár hefur átt sér stað mikil fjölgun á erlendum ríkisborgurum sem sesta hafa að hér á landi í lengri eða skemmri tíma. Ekki er litið svo á að heimild til miðlunar efnis á öðrum tungumálum en íslensku sé talin andstæð málverndunarsjónarmiðum enda lúti þau fyrst og fremst að því að efni sem miðlað er á íslensku sé á vönduðu máli.

Hér er að finna þingsályktun um íslenska málstefnu.

Ríkisútvarpið

Ríkisútvarpið

Um Ríkisútvarpið, fjölmiðil í almannaþágu gilda lög nr. 23/2013. Fjölmiðlanefnd hefur eftirlit með 7. gr. laganna sem fjallar um viðskiptaboð. Þá leggur Fjölmiðlanefnd árlega mat á það hvort Ríkisútvarpið hafi uppfyllt almannaþjónustuhlutverk sitt samkvæmt 3. gr. laganna.

Mat Fjölmiðlanefndar á almannaþjónustuhlutverki Ríkisútvarpsins

Fjölmiðlanefnd hefur eftirlit með því hvort Ríkisútvarpið uppfylli þær kröfur sem gerðar eru til fjölmiðlunar í almannaþágu, annars vegar í lögum um Ríkisútvarpið og hins vegar í samningi mennta- og menningarmálaráðherra og Ríkisútvarpsins, um fjölmiðlaþjónustu í almannaþágu.

Árlega afhendir Ríkisútvarpið Fjölmiðlanefnd greinargerð, þar sem farið er yfir það hvernig fjölmiðlun í almannaþágu var sinnt á fyrra ári. Þessi greinargerð er grundvöllur árlegs mats Fjölmiðlanefndar á almannaþjónustuhlutverki Ríkisútvarpsins, ásamt ársskýrslu og ársreikningi Ríkisútvarpsins. Mat Fjölmiðlanefndar á að afhenda mennta- og menningarmálaráðherra og stjórn Ríkisútvarpsins eigi síðar en fjórum mánuðum eftir að ársskýrsla Ríkisútvarpsins hefur verið birt.

Einn tilgangur með hinu árlega mati Fjölmiðlanefndar er að uppfylla kröfur Eftirlitsstofnunar EFTA um ríkisstyrki til útvarpsþjónustu. Opinberir styrkir til fyrirtækja í samkeppnisrekstri eru almennt óheimilir á EES-svæðinu, nema þeir falli undir undanþágur sem tilgreindar eru í EES-samningnum. Heimilt er að veita undanþágu vegna útvarpsþjónustu í almannaþágu þegar uppfylltar eru lýðræðislegar, menningarlegar og samfélagslegar þarfir samfélagsins, sbr. 2. mgr. 59. gr. EES-samningsins. Fjölmiðlanefnd leggur mat á það hvort þessar kröfur séu uppfylltar en þær eru nánar tilgreindar í 3. gr. laga um Ríkisútvarpið.

Annar tilgangur með mati Fjölmiðlanefndar er að veita almenningi innsýn í hlutverk fjölmiðla sem sinna almannaþjónustu og hvernig Ríkisútvarpið uppfyllir þær kröfur sem gerðar eru til slíkra miðla.

Hér geturðu nálgast mat Fjölmiðlanefndar á almannaþjónustuhlutverki Ríkisútvarpsins frá síðastliðnum árum:

Mat Fjölmiðlanefndar á almannaþjónustuhlutverki Ríkisútvarpsins 2020

Mat Fjölmiðlanefndar á almannaþjónustuhlutverki Ríkisútvarpsins 2019

Mat Fjölmiðlanefndar á almannaþjónustuhlutverki Ríkisútvarpsins 2018

Mat Fjölmiðlanefndar á almannaþjónustuhlutverki Ríkisútvarpsins 2017

Mat Fjölmiðlanefndar á almannaþjónustuhlutverki Ríkisútvarpsins 2016

Hvað er fjölmiðlun í almannaþágu?

Hlutverk og skyldur Ríkisútvarpsins

Í lögum um Ríkisútvarpið, fjölmiðil í almannaþágu nr. 23/2013 er kveðið á um hlutverk og skyldur félagsins. Er um nokkuð ítarlega upptalningu að ræða, m.a. í 3. gr. laganna. Þannig segir m.a. að fjölmiðlaþjónusta Ríkisútvarpsins hafi það markmið að mæta lýðræðislegum, menningarlegum og samfélagslegum þörfum í íslensku samfélagi með miðlun texta, hljóðs og mynda. Þá á Ríkisútvarpið að framleiða og miðla vönduðu og fjölbreyttu efni með mismunandi tæknilegum aðferðum til allra landsmanna óháð búsetu. Fjölmiðlaefnið skal hið minnsta vera fréttir og fréttaskýringar, fræðsluþættir, íþróttaþættir, afþreying af ýmsum toga, lista- og menningarþættir og sérstakt efni fyrir börn og ungmenni.

Ríkisútvarpið skal dreifa efni til alls landsins og næstu miða a.m.k. tveimur hljóðvarpsdagskrám og einni sjónvarpsdagskrá árið um kring. Þá skal Ríkisútvarpið í samvinnu við til þess bær stjórnvöld tryggja nauðsynlega öryggisþjónustu með upplýsingamiðlun um útvarp og þegar við á eftir öðrum boðleiðum.

Ríkisútvarpið skal varðveita hljóðritanir og aðrar sögulegar minjar sem ætla má að hafi menningarlegt og sögulegt gildi fyrir íslensku þjóðina.

Það skal jafnframt skapa vettvang fyrir aðkomu almennings að stefnumótun fjölmiðlunar í almannaþágu með fyrirkomulagi sem nánar er kveðið á um í samþykktum Ríkisútvarpsins.

Ríkisútvarpinu er ætlað að sinna lýðræðislegu hlutverki sínu m.a. með því að:
1. Hafa í heiðri lýðræðislegar grundvallarreglur, þ.m.t. um mannréttindi og frelsi til orðs og skoðana.
2. Veita víðtæka, áreiðanlega, almenna og hlutlæga frétta- og fréttaskýringarþjónustu um innlend og erlend málefni líðandi stundar.
3. Vera vettvangur fyrir mismunandi skoðanir á málum sem efst eru á baugi hverju sinni og almenning varða.
4. Kynna margbreytileika mannlífs, lífsviðhorfa og lífsskilyrða í landinu.
5. Miðla upplýsingum og veita landsmönnum innsýn í alþjóðamál, mismunandi menningarheima og ólík sjónarmið.
6. Hafa hlut karla og kvenna sem jafnastan í starfsemi Ríkisútvarpsins og í dagskrá þess.
7. Kynna framboð til almennra kosninga, helstu stefnumál framboða, frambjóðenda og fylkinga eftir atvikum og greina ítarlega frá niðurstöðum kosninga. Þá skal það veita öllum gildum framboðum til Alþingis og forsetakosninga, sem og fylkingum í þjóðaratkvæðagreiðslum, jafnt tækifæri til að kynna stefnumál sín á hefðbundnum dagskrártíma í sjónvarpi. Ríkisútvarpið skal birta reglur þar að lútandi. Í alþingiskosningum er heimilt að takmarka útsendingartíma þeirra framboða sem ekki bjóða fram í öllum kjördæmum þannig að þau fái hlutfall af heildarútsendingartíma til samræmis við það hlutfall kjördæma sem þau bjóða fram í.

Ríkisútvarpinu er ætlað að sinna menningarlegu hlutverki sínu m.a. með því að:
1. Leggja rækt við íslenska tungu.
2. Kynna sögu þjóðarinnar, menningararfleifð og náttúru.
3. Bjóða fjölbreytt og vandað menningarefni og fjalla um ólík svið menningar, lista og íþrótta á Íslandi og erlendis, auk þess að vera vettvangur umræðna og skoðanaskipta um íslenska menningu og samfélag.
4. Framleiða sjálft og í samstarfi við aðra lista- og menningarefni, með sérstakri áherslu á leikið efni, auk þess að endurspegla samtímamenningu þjóðarinnar. Ríkisútvarpið skal vera virkur þátttakandi í íslenskri kvikmyndagerð, m.a. með kaupum frá sjálfstæðum framleiðendum. Í samningi sem ráðherra gerir við Ríkisútvarpið skv. 4. mgr. 2. gr. skal mælt fyrir um lágmarkshlutfall dagskrárefnis sem keypt er af sjálfstæðum framleiðendum.
5. Framleiða og miðla fjölbreyttu efni við hæfi barna og ungmenna.
6. Miðla afþreyingar- og menningarefni við hæfi fólks á öllum aldri. Erlent efni skal vera frá mismunandi menningarheimum og áhersla lögð á norrænt og annað evrópskt efni.

Í starfsháttum sínum skal Ríkisútvarpið:
1. Vera til fyrirmyndar um gæði og fagleg vinnubrögð.
2. Ábyrgjast að sanngirni og hlutlægni sé gætt í frásögn, túlkun og dagskrárgerð, leitað sé upplýsinga frá báðum eða öllum aðilum og sjónarmið þeirra kynnt sem jafnast.
3. Sannreyna að heimildir séu réttar og að sanngirni sé gætt í framsetningu og efnistökum.
4. Virða friðhelgi einkalífsins í fréttum og dagskrárefni nema lýðræðishlutverk Ríkisútvarpsins og upplýsingaréttur almennings krefjist annars.
5. Vera óháð stjórnmálalegum, hugmyndafræðilegum og efnahagslegum hagsmunum í efnismeðferð og ritstjórnarákvörðunum.
6. Stunda vandaða og gagnrýna fréttamennsku og rýna m.a. störf yfirvalda, félaga og fyrirtækja sem hafa áhrif á hag almennings.
7. Taka dagskrárákvarðanir á faglegum forsendum.

Önnur starfsemi

Í lögum um Ríkisútvarpið er sérstaklega fjallað um aðra starfsemi félagsins. Þannig er Ríkisútvarpinu heimilt að reka aðra starfsemi en sem kveðið er á um í 3. gr. Tilgangur slíkrar starfsemi er að styðja við þá starfsemi sem fellur undir almannaþjónustu með því að nýta tæknibúnað, dreifikerfi, sérþekkingu starfsmanna og aðstöðu Ríkisútvarpsins. Slík starfsemi felur m.a. í sér að selja birtingarétt að efni Ríkisútvarpsins og framleiða og selja vörur sem tengjast framleiðslu Ríkisútvarpsins. Slík starfsemi lýtur sömu löggjöf og starfsemi félaga í samkeppnisrekstri. Þá er kveðið á um að tryggja skuli ritstjórnarlegan aðskilnað milli Ríkisútvarpsins og dótturfélaga þess.

Aðgengi að þjónustu RÚV

Ríkisútvarpinu ber að tryggja aðgengi að þjónustu sinni og eru gerðar ríkari kröfur til RÚV en einkarekinna sjónvarpsstöðva hvað það varðar. Samkvæmt þjónustusamningi Ríkisútvarpsins og mennta- og menningarmálaráðuneytisins á RÚV að móta stefnu í aðgengismálum og tryggja aðgengi þeirra sem ekki geta nýtt sér þjónustu þess með hefðbundnum hætti. Þá eru gerðar kröfur um textun og táknmálstúlkun í 6. gr. laga um Ríkisútvarpið.

RÚV á að:

  • Texta eða talsetja allt forunnið sjónvarpsefni á erlendu máli, hvort sem það er sýnt í línulegri útsendingu eða því miðlað eftir pöntun í sjónvarpi eða á vef (gildir ekki um erlenda söngtexta og beinar útsendingar).
  • Texta forunna innlenda dagskrá eftir því sem unnt er. Texta innlenda þætti, sem ekki næst að texta fyrir frumsýningu, fyrir endursýningu ef því verður við komið.
  • Senda út fréttir á táknmáli eða með táknmálstúlkun alla daga ársins.
  • Láta fylgja endursögn, textun eða kynningu á íslensku með beinum útsendingum á fréttum eða fréttatengdu efni og texta slíkt efni fyrir endursýningu.
  • Gera mikilvæg skilaboð og fréttir aðgengilegar heyrnarskertum með táknmálstúlkun og/eða textun. Rittúlka í textavarpi, ef því verður við komið, beinar útsendingar frá borgarafundum og stóratburðum er varða alla, svo sem náttúruhamförum, hryðjuverkum eða stórtíðindum í stjórnmálum.
  • Koma til móts við sjónskerta með tæknilegum lausnum (á vef Ríkisútvarpsins er vefþula sem les upp texta).
  • Halda áfram að þróa tæknilegar lausnir til að auka aðgengi Íslendinga sem eru búsettir erlendis að dagskrárefni og þjónustu.
  • Veita þjónustu fyrir íbúa landsins sem hafa annað móðurmál en íslensku, þar á meðal með miðlun frétta á fleiri tungumálum en íslensku og fræðslu um samfélagsleg málefni.
  • Láta rittúlkun og táknmálstúlkun fylgja umræðuþáttum með fulltrúum framboða í aðdraganda kosninga.
  • Fylgjast með og taka virkan þátt í þróun máltækni sem leitt getur til framfara í aðgengismálum.

Viðskiptaboð

Samkvæmt 7. gr. laga um Ríkisútvarpið, fjölmiðil í almannaþágu nr. 23/2013, skulu viðskiptaboð skýrt afmörkuð frá öðru dagskrárefni félagsins og gæta skal hófsemi í birtingu.

Þá segir að Ríkisútvarpinu sé óheimilt að afla tekna með kostun dagskrárefnis en þó má víkja frá því í eftirfarandi tilvikum:
a. við útsendingu íburðarmikilla dagskrárliða til að mæta útgjöldum við framleiðslu eða kaup á sýningarrétti,
b. við útsendingu innlendra íþróttaviðburða og umfjöllun um þá.

Samkvæmt lögum er Ríkisútvarpinu óheimilt að slíta í sundur dagskrárliði með viðskiptaboðum í sjónvarpi en þó má víkja frá því við útsendingu íburðarmikilla dagskrárliða eða eigin framleiðslu sem er a.m.k. 60 mínútur að lengd. Ríkisútvarpið setur reglur um þau undanþágutilvik sem getið er í 1. málsl.

Hlutfall viðskiptaboða og fjarkaupainnskota innan hverrar klukkustundar í sjónvarpi er takmarkað við átta mínútur. Í því samhengi telst eftirfarandi ekki til viðskiptaboða:
a. Tilkynningar frá Ríkisútvarpinu um myndmiðlunarefni þess og stoðframleiðslu sem leiðir beint af því efni, kostunartilkynningar og tilkynningar um vöruinnsetningu og sýndarauglýsingar.
b. Tilkynningar um opinbera þjónustu og hjálparbeiðnir líknarstofnana sem birtar eru endurgjaldslaust.

Jafnframt skal Ríkisútvarpið setja og birta gjaldskrá fyrir viðskiptaboð. Við sölu viðskiptaboða skal gætt jafnræðis gagnvart viðskiptamönnum Ríkisútvarpsins. Einnig skulu afsláttarkjör fyrir kostunaraðila og auglýsendur vera gagnsæ og standa öllum viðskiptamönnum til boða fyrir sambærilegt umfang viðskipta.

Ríkisútvarpinu er óheimilt samkvæmt lögum að selja viðskiptaboð til birtingar á veraldarvefnum. Heimilt er þó að láta þau viðskiptaboð og kostunartilkynningar sem eru hluti af útsendingu dagskrár Ríkisútvarpsins birtast á vef þess. Þá er Ríkisútvarpinu heimilt að birta á vef sínum viðskiptaboð og kostunartilkynningar sem tengjast vefútsendingum sérstaklega og kynna þar dagskrá Ríkisútvarpsins, ásamt þjónustu og hlutum sem tengjast henni.

Vöruinnsetning er óheimil í efni sem Ríkisútvarpið framleiðir sjálft og/eða framleiðir í samstarfi við aðra innlenda aðila og er sérstaklega framleitt fyrir Ríkisútvarpið. Ríkisútvarpinu er þó heimilt að nota upptökustaði og leikmuni eða vísa til ákveðinnar þjónustu vegna notagildis og/eða í listrænum tilgangi og skal það gert með látlausum hætti.

Fjölmiðlanefnd er ætlað að hafa eftirlit með því að Ríkisútvarpið fari að ákvæðum laga um viðskiptaboð.

Mat á nýrri fjölmiðlaþjónustu í almannaþágu

Fjölmiðlanefnd er einnig ætlað að leggja mat á nýja fjölmiðlaþjónustu í almannaþágu. Í lögum um Ríkisútvarpið er kveðið á um að Ríkisútvarpið skuli óska eftir heimild ráðherra fyrir nýrri fjölmiðlaþjónustu í almannaþágu, skv. 3. gr. ef áætlað er að hún muni kosta meira en sem nemur 10% af innheimtu útvarpsgjaldi. Jafnframt skal óska eftir mati Fjölmiðlanefndar á nýrri fjölmiðlaþjónustu í almannaþágu og skal liggja fyrir ítarlegur rökstuðningur og fjárhagsáætlun. Fjölmiðlanefnd skal meta fyrirhugaða þjónustu og hvort hún uppfyllir lýðræðislegar, menningarlegar og samfélagslegar þarfir í íslensku samfélagi og gera tillögu til ráðherra um hvort hún skuli heimiluð. Þá skal gefa hagsmunaaðilum og almenningi þriggja vikna frest til að koma athugasemdum sínum á framfæri við Fjölmiðlanefnd. Skal ráðherra innan 12 vikna frá því að ósk Ríkisútvarpsins berst kynna ákvörðun sína sem byggð er á tillögu Fjölmiðlanefndar.

Réttur til andsvara

Réttur til andsvara

Samkvæmt fjölmiðlalögum hefur sá sem telur að lögmætir hagsmunir sínir, einkum æra eða orðspor, hafi beðið tjón af því að rangt hafi verið farið með staðreyndir í fjölmiðli rétt til andsvara í viðkomandi miðli eða til annarra jafngildra úrræða.

Andsvör skulu birt eða þeim miðlað eftir að rök hafa verið færð fyrir beiðni þar um. Þegar um prentmiðil eða vefmiðil er að ræða skal birta andsvör með sama hætti og annað efni viðkomandi miðils og á þeim stað að eftir verði tekið og þegar um hljóð- eða myndmiðil er að ræða skal andsvörum miðlað á þeim tíma þegar hlustun eða áhorf er mest og með þeim hætti sem best hæfir miðlun þess efnis sem beiðnin tekur til. Fjölmiðli er óheimilt að óska eftir greiðslu fyrir birtingu eða miðlun andsvars.

Fjölmiðill getur synjað beiðni um andsvar við eftirfarandi aðstæður:
– ef andsvarið fer yfir þau mörk í tíma eða lengd sem talin eru nauðsynleg til að leiðrétta staðreyndir málsins.
– ef í andsvarinu felst annað og/eða meira en að leiðrétta staðreyndir sem fram hafa komið hjá fjölmiðlinum.
– ef andsvarið felur í sér efni sem brýtur í bága við almenn hegningarlög og er til þess fallið að gera fjölmiðilinn skaðabótaskyldan eða er andstætt almennu siðferði.
– ef andsvarið brýtur gegn lögvörðum hagsmunum þriðja aðila.
– ef aðili getur ekki sýnt fram á að hann eigi einstaklingsbundinna lögvarinna hagsmuna að gæta.
– ef upplýsingarnar sem fjölmiðillinn miðlaði eru beinar tilvitnanir í gögn sem stafa frá stjórnvöldum eða dómstólum.

Fjölmiðill skal tilkynna hlutaðeigandi aðila um synjun innan þriggja sólarhringa frá því að beiðni um andsvar er sett fram.

Synji fjölmiðill beiðni um andsvar eða bregðist ekki við beiðni innan fyrrgreindra tímamarka getur hlutaðeigandi beint erindi þar að lútandi til Fjölmiðlanefndar sem tekur ákvörðun um hvort aðili eigi rétt á að koma andsvörum á framfæri. Ákvörðun skal tekin innan viku frá því að Fjölmiðlanefnd berst erindi þar um og skal nefndin leggja fyrir viðkomandi fjölmiðil að miðla andsvari án tafar þegar við á.

Fjölmiðlar skulu hafa aðgengilegt á heimasíðu sinni, eða með öðrum opinberum hætti, hvert aðili geti leitað telji hann að lögmætir hagsmunir sínir hafi beðið tjón. Gefa skal upp nafn, símanúmer og/eða netfang þess sem leita skal til hjá viðkomandi fjölmiðli.

Leiðbeiningar um kvartanir til Fjölmiðlanefnda og rétt til andsvara

Lýðræðislegar grundvallarreglur

Lýðræðislegar grundvallarreglur

Í 26. gr. laga um fjölmiðla er mælt fyrir um að fjölmiðlar skuli í starfsemi sinni halda í heiðri lýðræðislegar grundvallarreglur og standa vörð um tjáningarfrelsi. Þeim ber að virða mannréttindi og jafnrétti, auk þess að hafa í huga friðhelgi einkalífs, nema lýðræðishlutverk fjölmiðla og upplýsingaréttur almennings krefjist annars. Þá ber fjölmiðlum að uppfylla kröfur um hlutlægni og nákvæmni í fréttum og fréttatengdu efni. Vísar ákvæðið til þeirra hugmynda sem liggja til grundvallar upplýstri umræðu og ákvarðanatöku í lýðræðissamfélagi. Slíkar lýðræðishugmyndir byggja á að upplýst umræða, tjáningarfrelsi og réttur til upplýsinga, að teknu tilliti til friðhelgi einkalífs, sé grundvöllur lýðræðisins.

Fyrirmynd framangreinds ákvæðis er m.a. fengin úr norrænum, breskum, þýskum og írskum fjölmiðlalögum þar sem þessi skylda hefur verið nefnd sannleikskrafan (s. saklighet och opartiskhet / e. accuracy and impartiality). Til þess að borgarar geti myndað sér skoðanir og tekið upplýstar ákvarðanir þurfa þeir að hafa aðgang að ólíkum sjónarmiðum og hlutlægum upplýsingum og gegna fjölmiðlar veigamiklu hlutverki í þessu sambandi.

Krafan um hlutlægni felur m.a. í sér að staðhæfingar sem settar eru fram skulu vera réttar og að allar nauðsynlegar upplýsingar komi fram. Rangfærslur ber því að leiðrétta. En í þessu sambandi er m.a. vísað til faglegrar blaða- og fréttamennsku þar sem leitað er ólíkra heimilda og heimildarmanna til að sannreyna staðreyndir áður en upplýsingar eru birtar. Líta verður til félagslegra gilda frétta og upplýsinga þar sem blaða- og fréttamenn þurfa með ábyrgum hætti að miðla upplýsingum og fréttum til notenda. Blaða- og fréttamenn bera ábyrgð á því efni sem miðlað er og bera fyrst og fremst ábyrgð gagnvart notendum fjölmiðlanna.

Í ákvæðinu er friðhelgi einkalífs getið sérstaklega þar sem ákveðin mörk eru milli tjáningarfrelsis og friðhelgi einkalífs. Rétturinn til friðhelgi einkalífsins stafar af réttinum til frelsis og sjálfsákvörðunar, svo lengi sem sá réttur hefur ekki áhrif á frelsi og réttindi annarra. Er litið svo á að þessi sjálfsagði réttur sé meðal mikilvægustu grundvallarmannréttinda og ein mikilvægasta stoð lýðræðis. Fjölmiðlar eru ekki undanþegnir því að þurfa að taka tillit til grundvallarreglunnar um friðhelgi einkalífs við meðferð á persónuupplýsingum.

Í ljósi þess mikilvæga lýðræðishlutverks sem fjölmiðlar gegna njóta þeir mikils frelsis til að þeir geti sem best upplýst almenning um atburði líðandi stundar og eðli þjóðfélagsins. Frelsi fylgir ábyrgð og því þarf að gæta varúðar í þessum efnum.

Ákvæði um lýðræðislegar grundvallarreglur er að finna í 26. gr. laga um fjölmiðla nr. 38/2011.

Hér er að finna samsvarandi reglur í Bretlandi, sem Ofcom hefur eftirlit með.

Hér er að finna samsvarandi reglur í Svíþjóð, sem Myndigheten för press radio och tv hefur eftirlit með.

Hér er að finna samsvarandi reglur á Írlandi, sem The Broadcasting Authority of Ireland (BAI) hefur eftirlit með.

Leiðbeiningar um kvartanir til Fjölmiðlanefndar og rétt til andsvara.

Ritstjórnarlegt sjálfstæði

Ritstjórnarlegt sjálfstæði

Samkvæmt 24. gr. laga um fjölmiðla nr. 38/2011 skal fjölmiðill setja sér reglur um ritstjórnarlegt sjálfstæði þeirra starfsmanna sem sinna fréttum og fréttatengdu efni. Slíkar reglur skulu mótaðar í samræmi við viðkomandi starfsmenn og fagfélög þeirra.

Í reglum um ritstjórnarlegt sjálfstæði skal m.a. fjallað um:
– Starfsskilyrði viðkomandi efnisstjóra, blaða- og fréttamanna ritmiðla og hljóð- og myndmiðla við að framfylgja ritstjórnar- eða dagskrárstefnu fjölmiðilsins.
– Starfshætti sem ætlað er að tryggja ritstjórnarlegt sjálfstæði viðkomandi efnisstjóra, blaða- og fréttamanna gagnvart eigendum fjölmiðilsins.
– Skilyrði áminningar og uppsagnar viðkomandi efnisstjóra og blaða- og fréttamanna.

Skulu reglurnar sendar Fjölmiðlanefnd til staðfestingar fyrir 20. apríl ár hvert. Þá skulu reglurnar endurskoðaðar árlega og tilkynna skal Fjölmiðlanefnd þegar endurskoðun hefur farið fram og senda henni nýja útgáfu af reglunum til staðfestingar hafi breytingar verið gerðar.

Ákvæði um að fjölmiðlar skuli setja sér reglur um ritstjórnarlegt sjálfstæði eru í samræmi við tillögur hinnar þverpólitísku Fjölmiðlanefndar Alþingis frá árinu 2005 sem lagði til að fjölmiðlar myndu setja sér slíkar reglur.

Fjölmiðlar eiga samkvæmt lögum að senda reglurnar í apríl og verða þær þá aðgengilegar á vef Fjölmiðlanefndar.

Reglur um ritstjórnarlegt sjálfstæði hverrar fjölmiðlaveitu eru aðgengilegar á undir flipanum “leyfi og skráning” á heimasíðu Fjölmiðlanefndar.