Fyrir foreldra
Börn eiga rétt á því að njóta öryggis og verndar gegn skaðlegu efni í fjölmiðlum. Fjallað er um þann rétt í 1. mgr. 28. gr. laga um fjölmiðla nr. 38/2011.
Leiðbeiningar
Netið, samfélagsmiðlar og börn
Samstarfsverkefni umboðsmanns barna, Persónuverndar og Fjölmiðlanefndar um leiðbeiningar til foreldra, ábyrgðaraðila og starfsfólks í skóla- og frístundastarfi sem varða netið, samfélagsmiðla og börn.
Leiðbeiningar:
Aldursmerkingar
Kvikmyndir og sjónvarpsefni
Aldursmatið á Íslandi byggir á hollenska kerfinu Kijkwijzer. Kerfið byggir á ýmsum rannsóknum og skiptist í sjö aldursflokka og 6 efnisvísa sem eiga að hjálpa áhorfendum að taka ákvörðun um hvort horfa eigi á efni eða ekki. Kijkwijzer snýst ekki um að meta hversu hentug kvikmynd eða þáttaröð er, heldur segja okkur hversu skaðlegt efnið er.

Mynd þessi er leyfð öllum aldurshópum
Efnið inniheldur ekki skaðlega þætti og er því leyfilegt fyrir alla aldurshópa

Mynd þessi er ekki við hæfi yngri en 6 ára
Tilgangur þessarar aldursmerkingar er að vernda börn yngri en 6 ára fyrir efni sem vekur upp hræðslu og inniheldur ofbeldi. Rannsóknir sýna að börn á þessum aldri eru sérstaklega viðkvæm gagnvart efni af þessum toga.
Hvað tilheyrir þessum aldri?
- Miklir erfiðleikar við að greina skilmerkilega á milli þess sem er raunverulegt og þess sem er skáldað.
- Mikil áhersla á allt sjónrænt (visually oriented).
Hvaða efni getur verið skaðlegt?
- Bæði teiknimyndir og leikið efni þar sem raunverulegt fólk lendir í ofbeldisfullum aðstæðum. Slíkar aðstæður geta verið kvíðavaldandi og ýtt undir árásargjarna hegðun.
- Efni þar sem persónur eða dýr hegða sér á ógnandi hátt.
- Efni þar sem persónur, dýr eða fólk sem breytir um ham kemur fyrir þar sem slíkt getur skapað hræðslu meðal barna á þessum aldri.
- Efni þar sem líkami barna verður fyrir skaða. Myndir og skot af slíkum toga geta skapað hræðslu meðal barna á þessum aldri.

Mynd þessi er ekki við hæfi yngri en 9 ára
Við 9 ára aldur eru börn komin með betri skiling til þess að greina á milli efnis sem er skáldað og raunverulegt.
Hvað tilheyrir þessum aldri?
- Að geta gert greinarmun á teiknimyndum, fréttum og heimildarmyndum, en eiga þó í erfiðleikum með að greina hvað sé falskt í ævintýramyndum og seríum.
- Hafa ekki öðlast nægjanlegan skilning til þess að setja sig í spor annarra. Fyrir vikið eiga börn á þessum aldri erfiðara með að skilja afhverju einhver gerir eitthvað og hvaða afleiðingar það getur haft fyrir viðkomandi.
- Hafa ekki öðlast nægjanlega stjórn á eigin hegðun og eru móttækileg fyrir því að herma eftir hegðun sem þau sjá í sjónvarpi og bíómyndum.
Hvaða efni getur verið skaðlegt?
- Myndir og þættir sem vekja upp hræðslu
- Ofbeldisfullt efni
- Auglýsingar

Mynd þessi er ekki við hæfi yngri en 12 ára
Á aldursbilinu 10-12 ára byrja börn að horfa á heiminn með öðrum augum. Börn á þessum aldri eru þó áhrifagjarnari en unglingar og því mikilvægt að merkja efni sérstaklega fyrir 12 ára og eldri.
Hvað tilheyrir þessum aldri?
- Að geta komið auga á og skilið mismunandi hlutverk sem fólk hefur í lífinu. Ásamt því að geta lagt mat á hegðun í samræmi við samfélagslega stöðu.
- Að geta túlkað og lagt mat á það sem þau sjá, heyra og skynja.
- Að geta tengt saman atburði í atburðarás.
- Þroskaðri kímnigáfa og skilningur á t.d. kaldhæðni, ádeilum og skopstælingum.
- Almenn þekking á heiminum og færni til þess að móta sér heimsmynd útfrá þeim upplýsingum sem á vegi þeirra verða.
- Að finnast raunverulegar tilfinningar og sambönd vera mikilvægur þáttur. Það fer því að skipta máli að efni sé vel leikið og aðstæður raunverulegar.
- Hafa öðlast hæfni til að draga úr eigin ótta með því t.d. að velta fyrir sér því sem veldur þeim ótta, með því að meta hættur og skapa fjarlægð milli sín og hættulegra aðstæðna.
Hvaða efni getur verið skaðlegt?
- Myndir af harkalegu ofbeldi.
- Atriði þar sem fólk eða dýr eru mjög kvíðin eða þjást.
- Blóðug sár eða lík.
- Áfengi, fíkniefni, mismunun eða kynlíf. Þar sem börn á þessum aldri hafa ekki enn sína eigin reynslu af þessum viðfangsefnum eiga þau erfitt með að leggja rétt mat á þau og það getur haft áhrif á hegðun þeirra.

Mynd þessi er ekki við hæfi yngri en 14 ára
Á þessum aldri nota börn í auknum mæli kvikmyndir og sjónvarp til að læra „félagslegar“ lexíur, eins og hvernig þau eigi að vera þau sjálf eða hvernig best sé að tengjast öðrum. Þess vegna getur það valdið vandamálum að horfa á hættulega hegðun á þessum aldri.
Hvað tilheyrir þessum aldri?
- Að geta borið kennsl á sjálfan sig í raunverulegu fólki í sjónvarpi eða kvikmyndum eins og t.d. leikurum, íþróttahetjum, tónlistargoðum eða öðrum þekktu fjölmiðlafólki.
- Eiga í erfiðleikum með að ákveða hvað þeim finnist sjálfum vera þeirra eigin skoðun og hvað þau telji „eðlilegt“ óháð því hvað öðrum finnist um það.
- Hlusta minna á það sem kemur frá foreldrum.
- Hafa mikinn áhuga á hættulegri hegðun, sérstaklega ef jafnaldrar telja hana „eðlilega“ hegðun.
- Nota sjónvarp og kvikmyndir til þess að læra félagslegar lexíur.
Hvaða efni getur verið skaðlegt?
- Kvikmyndir og þættir þar sem einstaklingar með mikil áhrif hegða sér hættulega, andfélagslega eða gegn gildum samfélagsins.
- Kvikmyndir og þættir sem sýna kynlíf samhliða neyslu áfengis eða fíkniefna án þess að gera það ljóst að slíkt sambland geti verið hættulegt. Hættan er annars sú að ungmenni á þessum aldri telji þetta sambland vera „eðlilega“ hegðun og búast jafnvel við að öðrum finnist það einnig.

Mynd þessi er ekki við hæfi yngri en 16 ára
Þótt ungmenni í kringum 16 ára aldur skilji betur muninn á góðu og slæmu er ekki þar með sagt að þau geti fylgst með öllum kvikmyndum og þáttaröðum án vandræða.
Hvað tilheyrir þessum aldri?
- Leitin að því hver þú ert og hvaða takmörk þín liggja.
- Mikil þörf fyrir spennu og útrás.
- Viðurkenning jafningja er sú sem skiptir mestu máli.
- Hættuleg glæpsamleg hegðun virðist aðlaðandi og afleiðingarnar virðast minna alvarlegar. Minni ábyrgð fylgir því að vera ungmenni á þessum aldri heldur en fullorðinn og því finnst þeim þau ekki hafa eins miklu að tapa.
Hvaða efni getur verið skaðlegt?
- Kvikmyndir og þættir þar sem „söguhetjurnar“ sýna af sér hættulega hegðun. Samkvæmt rannsóknum eru drengir á þessum aldri sérlega móttækilegir gagnvart áhættusamri hegðun sem þeir sjá t.d. hjá „söguhetjum“ í kvikmyndum og þáttum.
- Harkalegt ofbeldi og hryllingsmyndir. Sérstaklega ef ungmenni hafa ekki enn áttað sig á sínum eigin takmörkum.
- Kvikmyndir og þættir sem innihalda kynlíf og sambönd (fyrstu skrefin). Þegar að lítil reynsla er til staðar á þessu sviði þá getur slíkt efni gefið ranga mynd af því hvað þyki „eðlilegt“ í kynlífi og hvernig það sé nálgast á fyrstu skrefum í samböndum. Áhrifin af því að horfa á efni af þessu tagi geta orðið meiri ef viðkomandi ungmenni upplifir þær sem raunverulegar og ef engin fullorðinn er til staðar meðan á áhorfinu stendur.

Mynd þessi er ekki við hæfi yngri en 18 ára
Tilgangur þessarar aldursmerkingar er að gefa til kynna hvaða kvikmyndir og þættir eru í raun eingöngu fyrir fullorðna.
Hvað tilheyrir þessum aldri?
- Rannsóknir sýna að átakanlegar kvikmyndir og þættir geta haft neikvæð áhrif á ungmenni á bilinu 16-18 ára. Slíkt getur orðið til þess að ýta undir árásargirni og t.d. þess að ofbeldi gagnvart konum sé talið „eðlilegt.“
Hvaða efni getur verið skaðlegt?
- Ógeðfellt ofbeldi
- Gróft klám
Efnisvísar í myndum og tölvuleikjum - Kijkwijzer

Efnið inniheldur ofbeldi
Efni sem inniheldur ofbeldi getur bæði gert börn hrædd og ýtt undir árásargirni hjá þeim. Þá getur áhorf á ofbeldisfullt efni gert börn ónæmari fyrir orsökum og afleiðingum ofbeldis. Það eru nokkrir þættir sem geta haft áhrif á hversu skaðlegt áhorf á ofbeldi getur verið fyrir börn t.d. hversu raunverulegt ofbeldið er, hvort blóð sé sýnilegt eða hvort ofbeldið sé verðlaunað.

Efnið getur valdið ótta eða óhug
Ógnvekjandi efni getur orðið til þess að börn verða hrædd, óttaslegin og eirðarlaus. Þá er einnig hætta á að þau þrói með sér langvarandi áhrif eins og martraðir. Alvarleikinn er þó mismunandi eftir einstaklingum og aldri.

Efnið inniheldur nekt, kynferðislega hegðun eða tilvísanir
Börn og ungmenni sem eru að ganga gegnum kynþroska eru viðkvæm fyrir efni sem inniheldur kynlíf. Þau eiga erfitt með að meðtaka það sem er að eiga sér stað þar sem þau hafa ekki þroska til þess að hafa upplifað það sjálf. Það hefur síðan áhrif á aldursmatið hversu mikið og skýrt kynferðislegar athafnir og hegðun birtast í efninu.

Efnið inniheldur ljótt orðbragð
Dónalegt orðbragð, blótsyrði, blót og fúkyrði eru allt dæmi um ljótt orðbragð sem getur ollið því að börn tileinki sér þau og hafi eftir.

Efnið inniheldur mismunun eða felur í sér hvatningu til mismununar
Hér er um að ræða hvers kyns fullyrðingar eða tjáningu sem gerir lítið úr ákveðnum hópum innan samfélags t.d. á grundvelli kynþáttar, trúarbragða, kynhneigðar, kyns eða þjóðernis. Ef slíkt kemur fyrir í efni án þess að því sé samstundis hafnað eða refsað þá fær efnið þessa merkingu.

Efnið inniheldur notkun vímuefna
Þessi merking er notuð á efni þar sem hörð vímuefni, mikið magn áfengis, tóbak eða ýmsir vægari vímugjafar eru notaðir. Hættan er að börn og ungmenni sem horfa á efni með þessari merkingu finnist notkun þessara efna „eðlileg“ og jafnvel aðlaðandi.