Miðlalæsi

Fjölmiðlanefnd er ætlað að efla fjölmiðlalæsi, fjölbreytni og fjölræði í fjölmiðlum, standa vörð um tjáningarfrelsi og rétt almennings til upplýsinga.

Hatursorðræða, skautun, upplýsingaóreiða og traust

Könnunin var lögð fyrir Þjóðgátt Maskínu, sem er þjóðhópur fólks (e. panel) sem dreginn er með tilviljun úr Þjóðskrá. Könnunin fór fram á netinu. Svarendur eru af öllu landinu og á aldrinum 18 ára og eldri. Við úrvinnslu voru gögnin vegin til samræmis við tölur Hagstofunnar þannig að hópurinn sem svarar endurspeglar þjóðina út frá kyni, aldri og búsetu. Við vigtun gagna getur birst örlítið misræmi í fjöldatölum og hlutföllum sem orsakast af námundun. Gagnaöflun fór fram dagana 4. – 11. nóvember 2022 og voru svarendur 983 talsins.

Börn og netmiðlar

Fjölmiðlanefnd í samstarfi við Menntavísindastofnun Háskóla Íslands framkvæmir víðtæka spurningakönnun meðal grunn- og framhaldsskólanema á aldrinum 9-18 ára um allt land sem nefnist „Börn og netmiðlar.“ Um er að ræða norska rannsókn, sem var staðfærð og þýdd, en rannsóknin var upphaflega unnin af norsku fjölmiðlanefndinni Medietilsynet, í samstarfi við Sentio Research í Noregi. 

2023:

2021:

Fyrir foreldra

Netið, samfélagsmiðlar og börn

Samstarfsverkefni umboðsmanns barna, Persónuverndar og Fjölmiðlanefndar um leiðbeiningar til foreldra, ábyrgðaraðila og starfsfólks í skóla- og frístundastarfi sem varða netið, samfélagsmiðla og börn.

Leiðbeiningar:

Miðlalæsi á Íslandi

Könnunin um fjölmiðla- og netnotkun og færni almennings var framkvæmd af Maskínu fyrir Fjölmiðlanefnd. Könnunin var lögð fyrir Þjóðgátt Maskínu, þjóðhóp (e. panel) sem dreginn er með tilviljun úr Þjóðskrá, á netinu. Svarendur eru alls staðar að af landinu og á aldrinum 18 ára og eldri. Könnunin var einnig lögð fyrir úrtak ungmenna á aldrinum 15-17 ára sem dregið var með tilviljun úr Þjóðskrá. Við úrvinnslu voru gögnin vegin til samræmis við tölur Hagstofunnar þannig að hópurinn sem svarar endurspegli þjóðina á þessum aldri út frá kyni og búsetu. Við vigtun gagna getur birst örlítið misræmi í fjöldatölum og hlutföllum sem orsakast af námundun. Könnunin fór fram í febrúar og mars 2021 og voru svarendur 1.442 talsins.
 
Meginmarkmið könnunarinnar er að búa til ramma sem hægt er að þróa í takti við breytta notkun á ólíkum miðlum. Einnig að kanna færni og þekkingu almennings með reglubundnum hætti þannig að hægt verði að greina hvernig hún breytist með tímanum.
 
Niðurstöður þessarar víðtæku spurningakönnunar verða gerðar aðgengilegar í nokkrum hlutum sem hægt er að nálgast hér:
 

Stoppa – hugsa – athuga

„Falsfréttir“ er hugtak sem er oft notað um efni sem hefur á sér yfirbragð fréttar en er að hluta eða í heild uppspuni. Stundum er líka mikilvægum upplýsingum sleppt til að sýna einhliða mynd af viðfangsefninu.
 
Oft er röngum og misvísandi upplýsingum dreift af ásetningi. Tilgangurinn getur verið að græða peninga, svindla á þér, hafa áhrif á pólitískar skoðanir þínar eða skapa ósætti í samfélaginu.
 
Frekari fróðleik og upplýsingar um falsfréttir má finna hér á vefsíðu fjölmiðlanefndar
  • 1

    Er þetta einum of ótrúlegt?

    Horfðu gagnrýnum augum á sláandi og ótrúlegar fyrirsagnir. Falsfréttir hafa oft grípandi og sláandi fyrirsagnir sem gjarnan eru settar fram í HÁSTÖFUM og með upphrópunarmerkjum! Ef fyrirsögn fréttarinnar hljómar ótrúlega getur verið að hún sé einfaldlega ósönn.

  • 2

    Hvaðan kemur þetta?

    Ef þú ert í vafa skaltu athuga hvaðan fréttin kemur. Er þetta frétta- veita sem hægt er að treysta? Ef þú ert ekki viss skaltu skoða vefslóðina í slóðarstikunni ofarlega á vefsíðunni. Falsfréttaveitur eru oft með vefslóð (URL) sem líkist vefslóðum þekktra fréttamiðla en er ekki nákvæmlega eins. Þú getur líka athugað hvort þú finnir upplýsingar um fréttamiðilinn í „Um okkur“ eða „Um [nafn vefmiðils]“ flipanum sem finna má á flestum vefmiðlum.

  • 3

    Hver skrifar?

    Athugaðu hver er skrifaður fyrir fréttinni. Ef fréttin er ekki merkt nafngreindum einstaklingi ættirðu að kanna sannleiksgildi hennar betur. Fréttir á faglegum fréttamiðlum eru oftast merktar þeim blaðamönnum sem skrifa þær, þótt það sé ekki algilt hér á landi.

  • 4

    Hafa aðrir fréttamiðlar birt fréttina?

    Kannaðu hvort fleiri fréttamiðlar hafi birt fréttina. Alvöru fréttir birtast sjaldnast bara á einum fréttamiðli. Kannaðu hvort aðrir, t.d. stórir og rótgrónir fjölmiðlar, hafi fjallað um málið. Prófaðu að slá fyrirsögnina eða aðrar upplýsingar inn í leitargluggann á Google eða annarri leitarvél. Ef ekkert kemur upp, þótt efni fréttarinnar sé sláandi, hefurðu góða ástæðu til að efast.

  • 5

    Finnurðu fyrir reiði?

    Vertu á verði ef fréttin vekur sterkar tilfinningar. Falsfréttum er oft ætlað að vekja sterk, tilfinningaleg viðbrögð, eins og reiði. Ástæðan er sú að slíkar fréttir eru meira lesnar og dreifast hraðar á netinu en aðrar fréttir. Því reiðari sem við verðum, þeim mun meiri líkur eru á að við smellum á fyrirsögnina, skrifum athugasemd við fréttina og deilum henni á samfélagsmiðlum. Gættu sérstakrar varkárni ef fréttin virðist vera sniðin að þér, skoðunum þínum og gildismati. Tæknin gerir fyrirtækjum kleift að safna margs konar upplýsingum um þig og netvenjur þínar. Þessar upplýsingar eru svo notaðar til að senda þér sérsniðnar auglýsingar og skilaboð í gegnum samfélagsmiðla.

  • 6

    Er myndin trúverðug?

    Myndir geta blekkt – myndaleit á netinu getur hjálpað. Þeir sem skrifa falsfréttir nota oft myndir sem þeir nálgast annars staðar á netinu, t.d. úr öðrum fréttum. Ef þú notar myndaleitina á Google eða annarri leitarvél geturðu fundið út hvaðan myndin kemur og gert þér betur grein fyrir því hvort fréttin er sönn eða ósönn. Á Google er þetta gert með því að hægri-smella með músinni á myndina og velja „Search Google for image“ („Leitaðu að mynd- inni á Google“). Þá birtist listi yfir fréttir ólíkra miðla þar sem viðkomandi mynd hefur verið notuð.

Hlaðvarp – Fjórða valdið

Þáttunum sem unnir eru af Fjölmiðlanefnd er ætlað að efla umræðu um miðlalæsi á Íslandi og kafa nánar í rannsóknir og skýrslur á því sviði sem nefndin gefur út. Þá verða málefni fjölmiðla og fjölmiðlunar rædd útfrá ýmsum sjónarhornum með viðtölum við fjölmiðlafólk, sérfræðinga og rannsakendur á sviði fjölmiðlunar.

Falsfréttir í aðdraganda alþingiskosninga

Almennt er litið svo á að í opnu lýðræðissamfélagi móti almenningur sér skoðun með því að vera þátttakandi í upplýstri og opinni umræðu. Þar gegna fjölmiðlar mikilvægu hlutverki. Lýðræðið byggist á þeirri hugmynd að ákvarðanir séu teknar á upplýstum grundvelli. Í því sambandi skipti mestu máli staðreyndir, rannsóknir, rök og skynsemi. Hefur svo verið allt frá dögum upplýsingarinnar. Í aðdraganda kosninga setja frambjóðendur og flokkar því fram stefnumál sín sem almenningur getur tekið afstöðu til og þannig gert upp hug sinn.

 

Með tilkomu falsfrétta og auglýsinga á samfélagsmiðlum sem sniðnar eru að gildum og lífsviðhorfum einstaklinga hættir lýðræðisumræðan að vera opin. Fólk byggir afstöðu sína í auknum mæli á upplýsingum sem beint er að því. Hætta er á því að viðhorf manna til málefna fari að byggjast á tilfinningalegri afstöðu fremur en staðreyndum. Auðvelt er að koma á framfæri mismunandi skilaboðum til ólíkra hópa, skilaboðum sem ekki er víst að séu rétt eða byggð á staðreyndum. Vera kann að aðferðir sem notaðar eru í kosningabaráttu verði ekki kunnar fyrr en að loknum kosningum.
 
Liður í því að kanna hvort almenningur hafi orðið var við rangar upplýsingar eða falsfréttir í aðdraganda alþingiskosninganna þann 25. september 2021 var könnun sem Fjölmiðlanefnd lét Maskínu framkvæma. Eru niðurstöður hennar afar áhugaverðar og varpa m.a. ljósi á skilning almennings á hugtakinu falsfréttir. Hægt verður að bera niðurstöðurnar saman við sambærilegar kannanir sem fyrirhugað er að gera í aðdraganda kosninga á næstu árum.

 

Öll gögn úr könnuninni hafa nú verið gerð aðgengileg og má nálgast með því að smella hér

 

Skýrsluna í heild sinni má nálgast með því að smella hér eða á myndina af forsíðunni hér fyrir neðan

Þróun fjölmiðlamarkaðar

Fjölmiðlamál og íslenskur fjölmiðlamarkaður hefur verið töluvert til umfjöllunar á síðustu árum vegna þeirra fjölmiðlafrumvarpa sem lögð hafa verið fram á Alþingi. Nokkrar nefndir hafa verið skipaðar á síðastliðnum árum og hafa þær skilað af sér skýrslum. Þá hefur Hagstofan birt fróðlegar tölur um íslenskan fjölmiðlamarkað um árabil. Hér má finna skýrslur sem sýna þróun á íslenskum fjölmiðlamarkaði á síðustu árum og einnig skýrslur Fjölmiðlanefndar frá 2021 um miðla- og fréttanotkun og miðlalæsi almennings:

 

Greinargerð fjölmiðlanefndar til mennta- og menningarmálaráðherra um rekstrarumhverfi einkarekinna fjölmiðla. Ágúst 2018.

 

Rekstrarumhverfi fjölmiðla. Tillögur nefndar um bætt rekstrarumhverfi einkarekinna fjölmiðla. Janúar 2018.

 

Skýrsla nefndar menntamálaráðherra um íslenska fjölmiðla 2005

 

Greinargerð um eignarhald á fjölmiðlum 2004.

 

Tölfræði og skýrslur um íslenska fjölmiðla hjá Hagstofu Íslands

 

Fjölmargar erlendar skýrslur og greinargerðir eru einnig gefnar út árlega um fjölmiðla og þróun fjölmiðlamarkaðar. Hægt er að finna efni bæði um norræna og evrópska fjölmiðla á ýmsum vefsvæðum, t.d. NORDICOM, vef Evrópuráðsins, Evrópusambandsins og á vef Öryggis- og samvinnustofnunar Evrópu. Hér að neðan er t.d. að finna ýmsan fróðleik um fjölmiðla.

 

NORDICOM

Evrópuráðið, fjölmiðlar og upplýsingasamfélagið
ÖSE, fulltrúi um frelsi fjölmiðla

Vefur framkvæmdarstjórnar Evrópusambandsins