RÚV
Um Ríkisútvarpið, fjölmiðil í almannaþágu gilda lög nr. 23/2013. Fjölmiðlanefnd hefur eftirlit með 7. gr. laganna sem fjallar um viðskiptaboð. Þá leggur Fjölmiðlanefnd árlega mat á það hvort Ríkisútvarpið hafi uppfyllt almannaþjónustuhlutverk sitt samkvæmt 3. gr. laganna.
Framkvæmd laga um Ríkisútvarpið 2013-2023
Vorið 2023 afhenti Fjölmiðlanefnd menningar- og viðskiptaráðherra skýrslu um framkvæmd laga um Ríkisútvarpið, fjölmiðil í almannaþágu, 2013-2023. Skýrslan var unnin á grundvelli VII. bráðabirgðaákvæðis laga um Ríkisútvarpið nr. 23/2013.
Lög um Ríkisútvarpið tóku gildi 22. mars 2013. Í skýrslu Fjölmiðlanefndar er einkum fjallað um helstu álitaefni sem upp hafa komið við framkvæmd laganna. Skýrslan veitir góða yfirsýn yfir framkvæmd einstakra lagaákvæða, þjónustusamninga sem gerðir hafa verið á grundvelli laganna og meðferð kvartana og ábendinga til Fjölmiðlanefndar. Einnig er farið yfir helstu niðurstöður árlegs mats Fjölmiðlanefndar á almannaþjónustuhlutverki Ríkisútvarpsins. Þá hefur skýrslan að geyma umfjöllun um meginsjónarmið að baki fjölmiðlun í almannaþágu og umfjöllun um aðdraganda þess að sett voru lög um Ríkisútvarpið árið 2013 en með þeim brugðust íslensk stjórnvöld við tilteknum kröfum Eftirlitsstofnunar EFTA.
Í skýrslunni áréttar Fjölmiðlanefnd mikilvægi þess að umræða um stöðu og hlutverk Ríkisútvarpsins fari fram með hliðsjón af reynslu nágrannaríkja, fjölmiðlarannsóknum og þeim breytingum sem orðið hafa á fjölmiðlanotkun, tækniumhverfi, dreifileiðum og samkeppnisumhverfi fjölmiðla um allan heim.
Mat Fjölmiðlanefndar á almannaþjónustuhlutverki Ríkisútvarpsins
Fjölmiðlanefnd hefur eftirlit með því hvort Ríkisútvarpið uppfylli þær kröfur sem gerðar eru til fjölmiðlunar í almannaþágu, annars vegar í lögum um Ríkisútvarpið og hins vegar í samningi mennta- og menningarmálaráðherra og Ríkisútvarpsins, um fjölmiðlaþjónustu í almannaþágu.
Árlega afhendir Ríkisútvarpið Fjölmiðlanefnd greinargerð, þar sem farið er yfir það hvernig fjölmiðlun í almannaþágu var sinnt á fyrra ári. Þessi greinargerð er grundvöllur árlegs mats Fjölmiðlanefndar á almannaþjónustuhlutverki Ríkisútvarpsins, ásamt ársskýrslu og ársreikningi Ríkisútvarpsins. Mat Fjölmiðlanefndar á að afhenda mennta- og menningarmálaráðherra og stjórn Ríkisútvarpsins eigi síðar en fjórum mánuðum eftir að ársskýrsla Ríkisútvarpsins hefur verið birt.
Einn tilgangur með hinu árlega mati Fjölmiðlanefndar er að uppfylla kröfur Eftirlitsstofnunar EFTA um ríkisstyrki til útvarpsþjónustu. Opinberir styrkir til fyrirtækja í samkeppnisrekstri eru almennt óheimilir á EES-svæðinu, nema þeir falli undir undanþágur sem tilgreindar eru í EES-samningnum. Heimilt er að veita undanþágu vegna útvarpsþjónustu í almannaþágu þegar uppfylltar eru lýðræðislegar, menningarlegar og samfélagslegar þarfir samfélagsins, sbr. 2. mgr. 59. gr. EES-samningsins. Fjölmiðlanefnd leggur mat á það hvort þessar kröfur séu uppfylltar en þær eru nánar tilgreindar í 3. gr. laga um Ríkisútvarpið.
Annar tilgangur með mati Fjölmiðlanefndar er að veita almenningi innsýn í hlutverk fjölmiðla sem sinna almannaþjónustu og hvernig Ríkisútvarpið uppfyllir þær kröfur sem gerðar eru til slíkra miðla.
Hér geturðu nálgast mat Fjölmiðlanefndar á almannaþjónustuhlutverki Ríkisútvarpsins frá síðastliðnum árum:
Mat Fjölmiðlanefndar á almannaþjónustuhlutverki Ríkisútvarpsins 2022
Mat Fjölmiðlanefndar á almannaþjónustuhlutverki Ríkisútvarpsins 2021
Mat Fjölmiðlanefndar á almannaþjónustuhlutverki Ríkisútvarpsins 2020
Mat Fjölmiðlanefndar á almannaþjónustuhlutverki Ríkisútvarpsins 2019
Mat Fjölmiðlanefndar á almannaþjónustuhlutverki Ríkisútvarpsins 2018
Mat Fjölmiðlanefndar á almannaþjónustuhlutverki Ríkisútvarpsins 2017
Mat Fjölmiðlanefndar á almannaþjónustuhlutverki Ríkisútvarpsins 2016
Hvað er fjölmiðlun í almannaþágu?
Hlutverk og skyldur Ríkisútvarpsins
Í lögum um Ríkisútvarpið, fjölmiðil í almannaþágu nr. 23/2013 er kveðið á um hlutverk og skyldur félagsins. Er um nokkuð ítarlega upptalningu að ræða, m.a. í 3. gr. laganna. Þannig segir m.a. að fjölmiðlaþjónusta Ríkisútvarpsins hafi það markmið að mæta lýðræðislegum, menningarlegum og samfélagslegum þörfum í íslensku samfélagi með miðlun texta, hljóðs og mynda. Þá á Ríkisútvarpið að framleiða og miðla vönduðu og fjölbreyttu efni með mismunandi tæknilegum aðferðum til allra landsmanna óháð búsetu. Fjölmiðlaefnið skal hið minnsta vera fréttir og fréttaskýringar, fræðsluþættir, íþróttaþættir, afþreying af ýmsum toga, lista- og menningarþættir og sérstakt efni fyrir börn og ungmenni.
Ríkisútvarpið skal dreifa efni til alls landsins og næstu miða a.m.k. tveimur hljóðvarpsdagskrám og einni sjónvarpsdagskrá árið um kring. Þá skal Ríkisútvarpið í samvinnu við til þess bær stjórnvöld tryggja nauðsynlega öryggisþjónustu með upplýsingamiðlun um útvarp og þegar við á eftir öðrum boðleiðum.
Ríkisútvarpið skal varðveita hljóðritanir og aðrar sögulegar minjar sem ætla má að hafi menningarlegt og sögulegt gildi fyrir íslensku þjóðina.
Það skal jafnframt skapa vettvang fyrir aðkomu almennings að stefnumótun fjölmiðlunar í almannaþágu með fyrirkomulagi sem nánar er kveðið á um í samþykktum Ríkisútvarpsins.
Ríkisútvarpinu er ætlað að sinna lýðræðislegu hlutverki sínu m.a. með því að:
1. Hafa í heiðri lýðræðislegar grundvallarreglur, þ.m.t. um mannréttindi og frelsi til orðs og skoðana.
2. Veita víðtæka, áreiðanlega, almenna og hlutlæga frétta- og fréttaskýringarþjónustu um innlend og erlend málefni líðandi stundar.
3. Vera vettvangur fyrir mismunandi skoðanir á málum sem efst eru á baugi hverju sinni og almenning varða.
4. Kynna margbreytileika mannlífs, lífsviðhorfa og lífsskilyrða í landinu.
5. Miðla upplýsingum og veita landsmönnum innsýn í alþjóðamál, mismunandi menningarheima og ólík sjónarmið.
6. Hafa hlut karla og kvenna sem jafnastan í starfsemi Ríkisútvarpsins og í dagskrá þess.
7. Kynna framboð til almennra kosninga, helstu stefnumál framboða, frambjóðenda og fylkinga eftir atvikum og greina ítarlega frá niðurstöðum kosninga. Þá skal það veita öllum gildum framboðum til Alþingis og forsetakosninga, sem og fylkingum í þjóðaratkvæðagreiðslum, jafnt tækifæri til að kynna stefnumál sín á hefðbundnum dagskrártíma í sjónvarpi. Ríkisútvarpið skal birta reglur þar að lútandi. Í alþingiskosningum er heimilt að takmarka útsendingartíma þeirra framboða sem ekki bjóða fram í öllum kjördæmum þannig að þau fái hlutfall af heildarútsendingartíma til samræmis við það hlutfall kjördæma sem þau bjóða fram í.
Ríkisútvarpinu er ætlað að sinna menningarlegu hlutverki sínu m.a. með því að:
1. Leggja rækt við íslenska tungu.
2. Kynna sögu þjóðarinnar, menningararfleifð og náttúru.
3. Bjóða fjölbreytt og vandað menningarefni og fjalla um ólík svið menningar, lista og íþrótta á Íslandi og erlendis, auk þess að vera vettvangur umræðna og skoðanaskipta um íslenska menningu og samfélag.
4. Framleiða sjálft og í samstarfi við aðra lista- og menningarefni, með sérstakri áherslu á leikið efni, auk þess að endurspegla samtímamenningu þjóðarinnar. Ríkisútvarpið skal vera virkur þátttakandi í íslenskri kvikmyndagerð, m.a. með kaupum frá sjálfstæðum framleiðendum. Í samningi sem ráðherra gerir við Ríkisútvarpið skv. 4. mgr. 2. gr. skal mælt fyrir um lágmarkshlutfall dagskrárefnis sem keypt er af sjálfstæðum framleiðendum.
5. Framleiða og miðla fjölbreyttu efni við hæfi barna og ungmenna.
6. Miðla afþreyingar- og menningarefni við hæfi fólks á öllum aldri. Erlent efni skal vera frá mismunandi menningarheimum og áhersla lögð á norrænt og annað evrópskt efni.
Í starfsháttum sínum skal Ríkisútvarpið:
1. Vera til fyrirmyndar um gæði og fagleg vinnubrögð.
2. Ábyrgjast að sanngirni og hlutlægni sé gætt í frásögn, túlkun og dagskrárgerð, leitað sé upplýsinga frá báðum eða öllum aðilum og sjónarmið þeirra kynnt sem jafnast.
3. Sannreyna að heimildir séu réttar og að sanngirni sé gætt í framsetningu og efnistökum.
4. Virða friðhelgi einkalífsins í fréttum og dagskrárefni nema lýðræðishlutverk Ríkisútvarpsins og upplýsingaréttur almennings krefjist annars.
5. Vera óháð stjórnmálalegum, hugmyndafræðilegum og efnahagslegum hagsmunum í efnismeðferð og ritstjórnarákvörðunum.
6. Stunda vandaða og gagnrýna fréttamennsku og rýna m.a. störf yfirvalda, félaga og fyrirtækja sem hafa áhrif á hag almennings.
7. Taka dagskrárákvarðanir á faglegum forsendum.
Önnur starfsemi
Í lögum um Ríkisútvarpið er sérstaklega fjallað um aðra starfsemi félagsins. Þannig er Ríkisútvarpinu heimilt að reka aðra starfsemi en sem kveðið er á um í 3. gr. Tilgangur slíkrar starfsemi er að styðja við þá starfsemi sem fellur undir almannaþjónustu með því að nýta tæknibúnað, dreifikerfi, sérþekkingu starfsmanna og aðstöðu Ríkisútvarpsins. Slík starfsemi felur m.a. í sér að selja birtingarétt að efni Ríkisútvarpsins og framleiða og selja vörur sem tengjast framleiðslu Ríkisútvarpsins. Slík starfsemi lýtur sömu löggjöf og starfsemi félaga í samkeppnisrekstri. Þá er kveðið á um að tryggja skuli ritstjórnarlegan aðskilnað milli Ríkisútvarpsins og dótturfélaga þess.
Aðgengi að þjónustu RÚV
Ríkisútvarpinu ber að tryggja aðgengi að þjónustu sinni og eru gerðar ríkari kröfur til RÚV en einkarekinna sjónvarpsstöðva hvað það varðar. Samkvæmt þjónustusamningi Ríkisútvarpsins og mennta- og menningarmálaráðuneytisins á RÚV að móta stefnu í aðgengismálum og tryggja aðgengi þeirra sem ekki geta nýtt sér þjónustu þess með hefðbundnum hætti. Þá eru gerðar kröfur um textun og táknmálstúlkun í 6. gr. laga um Ríkisútvarpið.
RÚV á að:
- Texta eða talsetja allt forunnið sjónvarpsefni á erlendu máli, hvort sem það er sýnt í línulegri útsendingu eða því miðlað eftir pöntun í sjónvarpi eða á vef (gildir ekki um erlenda söngtexta og beinar útsendingar).
- Texta forunna innlenda dagskrá eftir því sem unnt er. Texta innlenda þætti, sem ekki næst að texta fyrir frumsýningu, fyrir endursýningu ef því verður við komið.
- Senda út fréttir á táknmáli eða með táknmálstúlkun alla daga ársins.
- Láta fylgja endursögn, textun eða kynningu á íslensku með beinum útsendingum á fréttum eða fréttatengdu efni og texta slíkt efni fyrir endursýningu.
- Gera mikilvæg skilaboð og fréttir aðgengilegar heyrnarskertum með táknmálstúlkun og/eða textun. Rittúlka í textavarpi, ef því verður við komið, beinar útsendingar frá borgarafundum og stóratburðum er varða alla, svo sem náttúruhamförum, hryðjuverkum eða stórtíðindum í stjórnmálum.
- Koma til móts við sjónskerta með tæknilegum lausnum (á vef Ríkisútvarpsins er vefþula sem les upp texta).
- Halda áfram að þróa tæknilegar lausnir til að auka aðgengi Íslendinga sem eru búsettir erlendis að dagskrárefni og þjónustu.
- Veita þjónustu fyrir íbúa landsins sem hafa annað móðurmál en íslensku, þar á meðal með miðlun frétta á fleiri tungumálum en íslensku og fræðslu um samfélagsleg málefni.
- Láta rittúlkun og táknmálstúlkun fylgja umræðuþáttum með fulltrúum framboða í aðdraganda kosninga.
- Fylgjast með og taka virkan þátt í þróun máltækni sem leitt getur til framfara í aðgengismálum.
Viðskiptaboð
Samkvæmt 7. gr. laga um Ríkisútvarpið, fjölmiðil í almannaþágu nr. 23/2013, skulu viðskiptaboð skýrt afmörkuð frá öðru dagskrárefni félagsins og gæta skal hófsemi í birtingu.
Þá segir að Ríkisútvarpinu sé óheimilt að afla tekna með kostun dagskrárefnis en þó má víkja frá því í eftirfarandi tilvikum:
a. við útsendingu íburðarmikilla dagskrárliða til að mæta útgjöldum við framleiðslu eða kaup á sýningarrétti,
b. við útsendingu innlendra íþróttaviðburða og umfjöllun um þá.
Samkvæmt lögum er Ríkisútvarpinu óheimilt að slíta í sundur dagskrárliði með viðskiptaboðum í sjónvarpi en þó má víkja frá því við útsendingu íburðarmikilla dagskrárliða eða eigin framleiðslu sem er a.m.k. 60 mínútur að lengd. Ríkisútvarpið setur reglur um þau undanþágutilvik sem getið er í 1. málsl.
Hlutfall viðskiptaboða og fjarkaupainnskota innan hverrar klukkustundar í sjónvarpi er takmarkað við átta mínútur. Í því samhengi telst eftirfarandi ekki til viðskiptaboða:
a. Tilkynningar frá Ríkisútvarpinu um myndmiðlunarefni þess og stoðframleiðslu sem leiðir beint af því efni, kostunartilkynningar og tilkynningar um vöruinnsetningu og sýndarauglýsingar.
b. Tilkynningar um opinbera þjónustu og hjálparbeiðnir líknarstofnana sem birtar eru endurgjaldslaust.
Jafnframt skal Ríkisútvarpið setja og birta gjaldskrá fyrir viðskiptaboð. Við sölu viðskiptaboða skal gætt jafnræðis gagnvart viðskiptamönnum Ríkisútvarpsins. Einnig skulu afsláttarkjör fyrir kostunaraðila og auglýsendur vera gagnsæ og standa öllum viðskiptamönnum til boða fyrir sambærilegt umfang viðskipta.
Ríkisútvarpinu er óheimilt samkvæmt lögum að selja viðskiptaboð til birtingar á veraldarvefnum. Heimilt er þó að láta þau viðskiptaboð og kostunartilkynningar sem eru hluti af útsendingu dagskrár Ríkisútvarpsins birtast á vef þess. Þá er Ríkisútvarpinu heimilt að birta á vef sínum viðskiptaboð og kostunartilkynningar sem tengjast vefútsendingum sérstaklega og kynna þar dagskrá Ríkisútvarpsins, ásamt þjónustu og hlutum sem tengjast henni.
Vöruinnsetning er óheimil í efni sem Ríkisútvarpið framleiðir sjálft og/eða framleiðir í samstarfi við aðra innlenda aðila og er sérstaklega framleitt fyrir Ríkisútvarpið. Ríkisútvarpinu er þó heimilt að nota upptökustaði og leikmuni eða vísa til ákveðinnar þjónustu vegna notagildis og/eða í listrænum tilgangi og skal það gert með látlausum hætti.
Fjölmiðlanefnd er ætlað að hafa eftirlit með því að Ríkisútvarpið fari að ákvæðum laga um viðskiptaboð.
Mat á nýrri fjölmiðlaþjónustu í almannaþágu
Fjölmiðlanefnd er einnig ætlað að leggja mat á nýja fjölmiðlaþjónustu í almannaþágu. Í lögum um Ríkisútvarpið er kveðið á um að Ríkisútvarpið skuli óska eftir heimild ráðherra fyrir nýrri fjölmiðlaþjónustu í almannaþágu, skv. 3. gr. ef áætlað er að hún muni kosta meira en sem nemur 10% af innheimtu útvarpsgjaldi. Jafnframt skal óska eftir mati Fjölmiðlanefndar á nýrri fjölmiðlaþjónustu í almannaþágu og skal liggja fyrir ítarlegur rökstuðningur og fjárhagsáætlun. Fjölmiðlanefnd skal meta fyrirhugaða þjónustu og hvort hún uppfyllir lýðræðislegar, menningarlegar og samfélagslegar þarfir í íslensku samfélagi og gera tillögu til ráðherra um hvort hún skuli heimiluð. Þá skal gefa hagsmunaaðilum og almenningi þriggja vikna frest til að koma athugasemdum sínum á framfæri við Fjölmiðlanefnd. Skal ráðherra innan 12 vikna frá því að ósk Ríkisútvarpsins berst kynna ákvörðun sína sem byggð er á tillögu Fjölmiðlanefndar.