Svona þekkir þú rangfærslur og falsfréttir
„Falsfréttir“ er hugtak sem er oft notað um efni sem hefur á sér yfirbragð fréttar en er að hluta eða í heild uppspuni. Stundum er líka mikilvægum upplýsingum sleppt til að sýna einhliða mynd af viðfangsefninu.
Oft er röngum og misvísandi upplýsingum dreift af ásetningi. Tilgangurinn getur verið að græða peninga, svindla á þér, hafa áhrif á pólitískar skoðanir þínar eða skapa ósætti í samfélaginu.
1
Svona þekkir þú falsfréttir
Er þetta einum of ótrúlegt?
Horfðu gagnrýnum augum á sláandi og ótrúlegar fyrirsagnir. Falsfréttir hafa oft grípandi og sláandi fyrirsagnir sem gjarnan eru settar fram í HÁSTÖFUM og með upphrópunarmerkjum! Ef fyrirsögn fréttarinnar hljómar ótrúlega getur verið að hún sé einfaldlega ósönn.
Hvaðan kemur þetta?
Ef þú ert í vafa skaltu athuga hvaðan fréttin kemur. Er þetta fréttaveita sem hægt er að treysta? Ef þú ert ekki viss skaltu skoða vefslóðina í slóðarstikunni ofarlega á vefsíðunni. Falsfréttaveitur eru oft með vefslóð (URL) sem líkist vefslóðum þekktra fréttamiðla en er ekki nákvæmlega eins. Þú getur líka athugað hvort þú finnir upplýsingar um fréttamiðilinn í „Um okkur“ eða „Um [nafn vefmiðils]“ flipanum sem finna má á flestum vefmiðlum.
Hver skrifar?
Athugaðu hver er skrifaður fyrir fréttinni. Ef fréttin er ekki merkt nafngreindum einstaklingi ættirðu að kanna sannleiksgildi hennar betur. Fréttir á faglegum fréttamiðlum eru oftast merktar þeim blaðamönnum sem skrifa þær, þótt það sé ekki algilt hér á landi.
Hafa aðrir fréttamiðlar birt fréttina?
Kannaðu hvort fleiri fréttamiðlar hafi birt fréttina. Alvöru fréttir birtast sjaldnast bara á einum fréttamiðli. Kannaðu hvort aðrir, t.d. stórir og rótgrónir fjölmiðlar, hafi fjallað um málið. Prófaðu að slá fyrirsögnina eða aðrar upplýsingar inn í leitargluggann á Google eða annarri leitarvél. Ef ekkert kemur upp, þótt efni fréttarinnar sé sláandi, hefurðu góða ástæðu til að efast.
Finnurðu fyrir reiði?
Vertu á verði ef fréttin vekur sterkar tilfinningar. Falsfréttum er oft ætlað að vekja sterk, tilfinningaleg viðbrögð, eins og reiði. Ástæðan er sú að slíkar fréttir eru meira lesnar og dreifast hraðar á netinu en aðrar fréttir. Því reiðari sem við verðum, þeim mun meiri líkur eru á að við smellum á fyrirsögnina, skrifum athugasemd við fréttina og deilum henni á samfélagsmiðlum. Gættu sérstakrar varkárni ef fréttin virðist vera sniðin að þér, skoðunum þínum og gildismati. Tæknin gerir fyrirtækjum kleift að safna margs konar upplýsingum um þig og netvenjur þínar. Þessar upplýsingar eru svo notaðar til að senda þér sérsniðnar auglýsingar og skilaboð í gegnum samfélagsmiðla.
Er myndin trúverðug?
Myndir geta blekkt – myndaleit á netinu getur hjálpað. Þeir sem skrifa falsfréttir nota oft myndir sem þeir nálgast annars staðar á netinu, t.d. úr öðrum fréttum. Ef þú notar myndaleitina á Google eða annarri leitarvél geturðu fundið út hvaðan myndin kemur og gert þér betur grein fyrir því hvort fréttin er sönn eða ósönn. Á Google er þetta gert með því að hægri-smella með músinni á myndina og velja „Search Google for image“ („Leitaðu að myndinni á Google“). Þá birtist listi yfir fréttir ólíkra miðla þar sem viðkomandi mynd hefur verið notuð.
2
Gagnrýnin hugsun og miðlalæsi eru lykilatriði í baráttunni við falsfréttir
Á síðustu árum hefur dreifing falsfrétta og upplýsingaóreiðu færst mjög í aukana á stafrænum miðlum. Tæknibreytingar hafa gert það að verkum að auðveldara er að dreifa upplýsingum og að sama skapi erfiðara að greina uppruna og sannleiksgildi hinna ýmsu upplýsinga. Hugtakið upplýsingaóreiða tekur m.a. til staðreyndavillna, rógburðar, netsvika og skoðanamótandi hálfsannleiks. Þá tekur hugtakið bæði til þess þegar röngum upplýsingum er miðlað með skipulögðum hætti og án ásetnings. Samskiptamátinn sem notaður er til að koma skilaboðunum áleiðis getur verið margvíslegur.
Upplýsingaóreiða getur haft neikvæð áhrif á upplýsta umræðu um samfélagsleg málefni. Afleiðingar þess að dreifa falsfréttum geta verið alvarlegar þar sem þær grafa undan trausti í samfélaginu. Slíkum upplýsingum er jafnframt dreift með það að markmiði að misnota fólk og hafa af því fé með svikum og prettum. Þess vegna skiptir miklu máli að auka þekkingu og færni almennings bæði um falsfréttir og ólík form upplýsingaóreiðu, með það að markmiði að fólk geti tekist á við krefjandi áskoranir í hinum stafræna heimi.
Gagnrýnin hugsun og miðlalæsi eykur getu fólks til að sjá í gegnum falsfréttir og upplýsingaóreiðu. Miðla- og upplýsingalæsi er þannig lykillinn að því að unnt sé að skilja og nota hina ýmsu miðla á ábyrgan og meðvitaðan hátt og taka virkan þátt í opinni lýðræðislegri umræðu.
Í skýrslu Fjölmiðlanefndar um falsfréttir og upplýsingaóreiðu sem gefin var út í júní 2021 kom fram að átta af hverjum tíu sögðust hafa rekist á upplýsingar á netinu á síðustu 12 mánuðum sem þau hafi efast um að væru sannar og sjö af hverjum tíu höfðu séð falsfréttir, fengið þær sendar eða rekist á þær með öðrum hætti á netinu á síðustu 12 mánuðum. Skýrslan byggir á niðurstöðum úr víðtækri spurningakönnun sem Maskína framkvæmdi fyrir Fjölmiðlanefnd í febrúar og mars 2021.
Könnunin byggir á norskri könnun sem var unnin í samstarfi við ráðgjafa- og könnunarfyrirtækið Kantar, prófessor Tore Slaatta í TSL Analytics og prófessor Ola Erstad við háskólann í Osló.
Málþing á netinu um falsfréttir og upplýsingaóreiðu
Fram komu:
– Elfa Ýr Gylfadóttir – Framkvæmdastjóri fjölmiðlanefndar
– Marianne Neraal – Public Policy Manager hjá Facebook
– Jón Gunnar Ólafsson – Nýdoktor við Háskóla Íslands
- Í Noregi voru 13,4% færri sem efuðust um sannleiksgildi upplýsinga heldur en á Íslandi og 25,7% færri sem höfðu rekist á eða fengið sendar falsfréttir.
- Um þriðjungur þátttakenda á Íslandi sagðist hafa myndað sér ranga skoðun á opinberri persónu (t.d. stjórnmálamanni eða frægri manneskju) vegna villandi upplýsinga um hana í ýmsum miðlum. Til samanburðar var svarhlutfallið 15% í norsku könnuninni þegar að spurt var á sambærilegan hátt
- Sjö af hverjum tíu sögðust hafa rekist á upplýsingaóreiðu/falsfréttir um kórónaveirufaraldurinn á netinu. Af þeim voru langflestir sem rákust á slíkt á Facebook, eða 83,1%. Þá voru 49,5% sem rákust á falsfréttir á vefsvæðum sem ekki eru með ritstjórn og 38,7% á öðrum samfélagsmiðlum (eins og t.d. Twitter, Snapchat, TikTok, Instagram eða WhatsApp). Aðrir staðir sem þátttakendur nefndu voru YouTube (30,9%), ritstýrð dagblöð (22,3%), Google (20,1%), blogg (8,7%) og tölvupóstur (4,3%). Í Noregi hafði helmingur þátttakenda (51%) í sambærilegri könnun rekist á falsfréttir um kórónaveirufaraldurinn og einn af hverjum þremur sagði það hafa verið á Facebook.
Efni skýrslunnar var til umfjöllunar í hlaðvarpsþætti Fjölmiðlanefndar sem nefnist „Fjórða valdið.“
Jón Gunnar Ólafsson nýdoktor í stjórnmálafræðideild Háskóla Íslands ræðir hér við Skúla B. Geirdal verkefnastjóra miðlalæsis hjá Fjölmiðlanefnd um falsfréttir og upplýsingaóreiðu:
Ef þú ert ekki viss um það hvort fréttin sem þú ert að lesa sé áreiðanleg geturðu meðal annars prófað að slá fyrirsögnina eða aðrar lykilupplýsingar inn í leitarglugga og kannað hvort þú finnir umfjöllun um málið í öðrum fréttamiðlum. Ef ekkert kemur upp í leitarniðurstöðum, þótt efni fréttarinnar sé sláandi, hefurðu góða ástæðu til að efast. Kannski finnurðu meira að segja frétt þar sem efni falsfréttarinnar er hrakið. Það er einmitt eitt af hlutverkum ritstýrðra, faglegra fjölmiðla; að sía út rangar og misvísandi upplýsingar og áróður og stunda vandaða rannsóknarblaðamennsku, svo að almenningur fái réttar og áreiðanlegar upplýsingar og geti myndað sér skoðun út frá þeim.
3
Haturstal ógn við lýðræðislega umræðu
Í skýrslu Fjölmiðlanefndar um haturstal og neikvæða upplifun á netinu kemur fram að mun meira er um haturstal, neteinelti, ögranir og háðung í athugasemdakerfum á Íslandi en í Noregi. Samkvæmt niðurstöðum norsku könnunarinnar hafði áreiti og neteinelti aukist í Noregi á aðeins tveimur árum. Árið 2019 sögðust 2% þátttakenda hafa orðið fyrir haturstali á netinu en það hlutfall var komið upp í 7% árið 2021. Í samanburði sögðust 24,1% Íslendinga hafa upplifað hatursfull ummæli á netinu á undangengnum 12 mánuðum sem er rúmlega þrisvar sinnum hærra hlutfall en í Noregi.
Þrefalt fleiri höfðu upplifað haturstal á Íslandi en í Noregi
Rúmlega helmingur þeirra sem töldu sig hafa orðið fyrir ögrun eða háðung í umræðum á netinu sagðist vera orðinn varkárari gagnvart því að lýsa skoðunum sínum í umræðum á netinu. Þá sögðust tveir af hverjum tíu í sama hópi hafa hætt að taka þátt í umræðum á netinu. Til samanburðar voru 39% þeirra sem lent hafa í ögrun og háðung í Noregi orðnir varkárari á netinu og sama hlutfall hætti að taka þátt í umræðum á netinu. Þá voru 32,8% sem sögðust frekar taka þátt í umræðum í lokuðum hópum á Íslandi, 15,5% sögðust frekar ræða við fólk sem væri sammála sér, 4,2% fóru að taka meiri þátt en áður og 2% nefndu aðrar afleiðingar. Aðeins fjórðungur þátttakenda varð ekki fyrir neinum áhrifum af ögrun eða háðung í athugasemdakerfum.
Aðeins fjórðungur varð ekki fyrir neinum áhrifum af ögrun eða háðung í athugasemdakerfum
Fjórðungur ungra kvenna undir miklum þrýstingi að senda myndir af sér á netinu
Í skýrslu Fjölmiðlanefndar um haturstal og neikvæða upplifun á netinu kom jafnfram fram að ungar konur á aldrinum 15-17 ára áttu helst á hættu að verða þvingaðar til að senda myndir af sér og aðrar persónulegar upplýsingar, ásamt því að verða fyrir myndbirtingum á netinu gegn vilja þeirra. Konur áttu þá einnig í meiri erfiðleikum með að bregðast við þvingunum til myndasendinga og myndbirtingu gegn þeirra vilja en karlar.
Konur á aldrinum 15-17 ára voru sá hópur sem var langlíklegastur til þess að hafa upplifað að vera þvingaður til að senda myndir af sér eða aðrar persónulegar upplýsingar, þar sem 23,9% sögðust hafa lent í þeim aðstæðum á síðustu 12 mánuðum. Til samanburðar höfðu 6,3% karla á aldrinum 15-17 ára upplifað þessar aðstæður og 0,6% 18 ára og eldri. Þá höfðu 17,9% kvenna á aldrinum 15-17 ára lent í því að myndir eða myndskeið af þeim hafi verið birt á netinu í óþökk þeirra. Í hópi 15-17 ára karla var hlutfallið sömuleiðis hátt þar sem 13,8% höfðu lent í þeim aðstæðum, en meðaltalið í öðrum aldurshópum (18 ára og eldri) var 2%.
Fimmtungur ungra kvenna hafði lent í myndbirtingu á netinu án þeirra samþykkis
Helmingur þátttakenda mat það sem svo að það myndi reynast þeim frekar eða mjög erfitt að höndla aðstæður ef til þess kæmi að myndir eða myndskeið af þeim yrðu birt opinberlega gegn þeirra vilja. Konur (60,9%) töldu sig líklegri en karla (43,5%) til að eiga í erfiðleikum með að bregðast við í slíkum aðstæðum. Tæpur þriðjungur þátttakenda taldi sig þá eiga frekar eða mjög erfitt með að bregðast við aðstæðum ef upp kæmi sú staða að einhver reyndi að beita þvingunum til að fá sendar myndir af þeim eða aðrar persónulegar upplýsingar um þá. Konur (33,3%) voru þar einnig líklegri en karlar (26,5%) til þess að segjast eiga frekar eða mjög erfitt með að höndla slíkar aðstæður.
Efni skýrslunnar var til umfjöllunar í hlaðvarpsþætti Fjölmiðlanefndar sem nefnist „Fjórða valdið.“
Halldóra Þorsteinsdóttir héraðsdómari og sérfræðingur í fjölmiðlarétti ræðir hér við Skúla B. Geirdal verkefnastjóra miðlalæsis hjá Fjölmiðlanefnd um haturstal og neikvæða upplifun af netinu:
Verum vakandi yfir hatursfullum ummælum á netinu. Rannsóknir sýna að hatursfull ummæli í athugasemdakerfum hafa neikvæð áhrif á þátttöku fólks í lýðræðislegri umræðu á netinu.
Ef þú telur að um hatursfull ummæli sé að ræða er hægt að tilkynna þau til miðilsins.
4
Covid -19 rangfærslur og misvísandi upplýsingar
Þegar áföll ríða yfir eykst þörfin fyrir réttar og áreiðanlegar upplýsingar. Á sama tíma og stjórnvöld vinna að því að draga úr afleiðingum faraldursins og veita almenningi traustar upplýsingar, dreifast rangfærslur, sem hafa á sér yfirbragð frétta, hratt manna á meðal, sérstaklega á samfélagsmiðlum. Hér fyrir neðan eru nokkur góð ráð svo að þú getir greint slíkar rangfærslur frá staðreyndum og forðast að deila falsfréttum.
Við getum öll látið blekkjast á netinu og trúað rangfærslum og misvísandi upplýsingum. Árvekniátakinu Stoppa, hugsa, athuga er ætlað að stuðla að því að fleiri komi auga á slíkar upplýsingar. Því miður er auðvelt að láta margskonar svindl og rangar upplýsingar virðast trúverðugar á netinu. Einnig er hægt að misnota traust fólks til þekktra einstaklinga til að auka tiltrú þess á ýmiskonar netsvindli. Skilaboð Fjölmiðlanefndar eru einföld: Stoppaðu, hugsaðu þig um og athugaðu fleiri heimildir þegar þú leitar upplýsinga.
Myndbandið á YouTube
Árvekniátak Fjölmiðlanefndar er unnið í samstarfi við Vísindavefinn, Landlæknisembættið og með stuðningi Facebook með það að markmiði að efla gagnrýna hugsun og miðlalæsi almennings og benda á mikilvægi faglegra fjölmiðla.
Í átakinu er byggt á ýmsum spurningum um COVID-19 sem svarað hefur verið á Vísindavefnum:
Árvekniátakið Stoppa, hugsa, athuga byggir á norskri fyrirmynd og er þýtt og staðfært með góðfúslegu leyfi Medietilsynet i Noregi.
Rannsókn Ofcom í Bretlandi á falsfréttum og Covid-19
Í rannsókn sem Ofcom í Bretlandi lét gera kom fram að um helmingur Breta hafði rekist á falsfréttir um kórónaveiruna á netinu. Á fyrstu fjórum vikum opinberra takmarkana vegna veirunnar sögðust 43-48% landsmanna hafa rekist á falsfréttir en hlutfallið var mismunandi eftir landshlutum, hæst var hlutfallið í Skotlandi og á Norður-Írlandi.
Helmingur Breta hafði rekist á falsfréttir um kórónaveiruna
Þegar spurt var um efni falsfréttanna kom í ljós að algengust var „frétt“ um tengsl COVID-19 og 5G fjarskiptatækni, sem um helmingur svarenda hafði séð. Einnig var algengt að fólk nefndi falsfréttir um meintar lækningaaðferðir við veirunni. Um þriðjungur breskra svarenda hafði rekist á fréttir af því að aukin vatnsdrykkja virkaði vel gegn veirunni og um fimmtungur hafði séð fréttir þess efnis að munnskolun með saltvatni gæfi góðan árangur í baráttunni við veiruna.
Almenningur deildi upplýsingum aðallega í eigin persónu og í síma (tæplega 80%) en þar á eftir var algengast að upplýsingum væri deilt skriflega í lokuðum hópum á samskiptaforritum á borð við WhatsApp, Microsoft Teams og Zoom.
Fæstir treystu upplýsingum á samfélagsmiðlum
Flestir leituðu til ríkismiðilsins BBC eftir upplýsingum um kórónaveiruna eða í kringum 80%. Fæstir treystu hins vegar upplýsingum á samfélagsmiðlum og í lokuðum hópum og naut Facebook töluvert minna trausts í þeim efnum en Twitter. Um 13-15% svarenda treystu upplýsingum um kórónaveiruna á Facebook en 24-28% treystu upplýsingum sem miðlað var á Twitter.
-
Viltu kynna þér áreiðanlegar upplýsingar um COVID-19?
Á Vísindavef Háskóla Íslands er að finna svör við ýmsum spurningum sem hjálpa þér að sjá í gegnum falsfréttir um Covid-19.
Vísindavefur Háskóla Íslands – svör úr flokknum COVID-19 -
Á upplýsingasíðu landlæknis og Almannavarnadeild ríkislögreglustjóra er að finna almennar upplýsingar um COVID-19.
-
Þá er fleiri spurningar og svör í tengslum við COVID-19 að finna á vef Embættis landlæknis.
-
Rannsókn Medietilsynet í Noregi á dreifingu falsfrétta um kórónaveiruna í Noregi, mars 2020
-
Rannsókn Ofcom í Bretlandi á notkun og viðhorfi til frétta og upplýsinga um COVID-19, 28. apríl 2020.
-
Rannsókn Reuters-stofnunarinnar við Oxford háskóla þar sem er að finna samanburð milli sex ríkja.