Um Fjölmiðlanefnd

Hlutverk Fjölmiðlanefndar

Fjölmiðlanefnd er sjálfstæð stjórnsýslunefnd sem heyrir undir mennta- og menningarmálaráðherra. Nefndin annast eftirlit samkvæmt lögum um fjölmiðla nr. 38/2011 og daglega stjórnsýslu á því sviði sem lögin ná til. Þá annast Fjölmiðlanefnd þau hlutverk sem henni eru falin í öðrum lögum.

Með starfsemi Fjölmiðlanefndar skal stuðlað að því að markmiðum og tilgangi fjölmiðlalaga verði náð. Henni er ætlað að efla fjölmiðlalæsi, fjölbreytni og fjölræði í fjölmiðlum, standa vörð um tjáningarfrelsi og rétt almennings til upplýsinga.

Markmið fjölmiðlalaga er að samræma undir einni löggjöf alla fjölmiðlun óháð því á hvaða formi miðlun fer fram. Því leysti Fjölmiðlanefnd af hólmi útvarpsréttarnefnd sem hafði það hlutverk að fylgjast með hljóðvarpi og sjónvarpi frá árinu 1986 til 1. september 2011 þegar Fjölmiðlanefnd tók til starfa.

Fjölmiðlanefnd annast samskipti við einstaklinga, fyrirtæki, fjölmiðla, stjórnvöld og dómstóla auk þess sem hún annast samskipti við erlend fjölmiðlaeftirlit og aðrar erlendar stofnanir og samtök sem fást við málefni fjölmiðla.

Stefna og starfsreglur

Stefna og starfsreglur

Fjölmiðlanefnd leitast við að tryggja að markmiðum og tilgangi fjölmiðlalaga verði náð. Henni er ætlað að efla fjölmiðlalæsi, fjölbreytni og fjölræði í fjölmiðlum, standa vörð um tjáningarfrelsi og rétt almennings til upplýsinga.

Starfsreglur Fjölmiðlanefndar

Málsmeðferðarreglur Fjölmiðlanefndar

Persónuverndarstefna Fjölmiðlanefndar

Samstarfssamningur Fjölmiðlanefndar og Neytendastofu um eftirlit með viðskiptaboðum

Samkomulag úthlutunarnefndar og Fjölmiðlanefndar um sérfræðiaðstoð og umsýslu umsókna um sérstakan rekstrarstuðning til einkarekinna fjölmiðla

Viðburðir og kynningar

Kynningar

Reykjavík 12. mars 2020
Elfa Ýr Gylfadóttir framkvæmdastjóri hélt erindi um falsfréttir, samfélagsmiðla og gervigreind fyrir norræna laganema í boði Orators, félags laganema við Háskóla Íslands. Erindið nefndist „Fake news, social media and AI – a toxic combination for the future of our democracy?“

Reykjavík 27. febrúar 2020
Elfa Ýr Gylfadottir framkvæmdastjóri tók þátt í ráðstefnunni „Samtal um þjóðaröryggi: Fjölþáttaógnir“. Á ráðstefnunni var fjallað um fjölþáttaógnir í víðum skilningi, þ.e. skipulagða beitingu ólíkra aðferða sem miða að því að grafa undan stöðugleika og trausti á stjórnvöld og stjórnskipan ríkja. Fjöldi erlendra og innlendra sérfræðinga tók þátt í ráðstefnunni.

Reykjavík 5. febrúar 2020
Elfa Ýr Gylfadóttir framkvæmdastóri hélt erindi um miðlalæsi fyrir Alfadeild Delta Kappa Gamma, alþjóðlegra samtaka kvenna í fræðslustörfum. Erindið bar heitið „Miðlalæsi. Ein mikilvægasta færni 21. aldar“. Í erindinu var fjallað um tækifæri og áskoranir nýrrar tækni og miðlunarleiða og mikilvægi þess að kenna börnum og ungmennum miðla- og upplýsingalæsi.

Reykjavík 9. desember 2019
Elfa Ýr Gylfadóttir framkvæmdastjóri hélt erindi um upplýsinga- og miðlalæsi í skólastarfi til að styrkja lýðræðið sem haldið var á málþinginu „Tökum höndum saman um að styrkja lýðræði í skólastarfi og menntun fyrir alla“. Málþingið var hluti af formennskuáætlun Íslands í norrænu samstarfi.

Reykjavík 30. október 2019
Elfa Ýr Gylfadóttir framkvæmdastjóri hélt erindi um falsfréttir og upplýsingaóreiðu fyrir starfsmenn Landsbankans með sérstakri áherslu á mikilvægi réttra upplýsinga á fjármálamörkuðum.

Reykjavík 29. október 2019
Elfa Ýr Gylfadóttir framkvæmdastjóri hélt erindi um áskoranir þeirra sem eru sextíu ára og eldri vegna dreifingu falsfrétta á internetinu og á samfélagsmiðlum. Kynntar voru niðurstöður rannsókna á tækifærum og áskorunum nýrra miðla fyrir þeim aldurshópi. Fundurinn var haldinn af U3A, Háskóla þriðja æviskeiðsins í Hæðargarði.

Reykjavík 18. október 2019
Erindi Elfu Ýrar Gylfadóttur framkvæmdastjóra á norræna málþinginu „True, false or in between – towards strengthening quality journalism and media and information literacy, empowering citizens“ sem haldið var í Reykjavík vegna formennsku Íslands í Norrænu ráðherranefndinni. Í erindinu var fjallað um minnkandi traust á fjölmiðlum og stofnunum samfélagsins, um áhrif samfélagsmiðla og þær áskoranir sem við stöndum frammi fyrir vegna tæknibreytinga og áhrif þeirra á lýðræðið.

Reykjavík 16. september 2019
Elfa Ýr Gylfadóttir framkvæmdastjóri tók þátt  í pallborði á fundinum Samtal um þjóðaröryggi: Lýðræði og fjölþátta ógnir sem haldinn var í Norræna húsinu. Frummælendur á fundinum voru Renee DiResta frá Bandaríkjunum og Sophie Roberts, frá Bretlandi.

Reykjavík 14. september 2019
Elfa Ýr Gylfadóttir framkvæmdastjóri hélt erindi fyrir framkvæmdastjórn Delta Kappa Gamma, alþjóðleg samtök kvenna í fræðslustörfum. Erindið bar heitið „Miðlalæsi. Ein mikilvægasta færni 21. aldar“. Í erindinu var fjallað um tækifæri og áskoranir nýrrar tækni og miðlunarleiða og mikilvægi þess að kenna börnum og ungmennum miðla- og upplýsingalæsi.

Belgrad, Serbía 24. maí 2019
Elfa Ýr Gylfadóttir framkvæmdastjóri hélt erindi á ráðstefnu Evrópuráðsins og serbneskra stjórnvalda um stefnumótun í fjölmiðlamálum. Í erindinu var fjallað um mikilvægi sjálfstæðra almannaþjónustumiðla og hlutverk þeirra á tímum upplýsingaóreiðu. Einnig um mikilvægi þess að byggja upp og viðhalda trausti á almannaþjónustumiðlum

Reykjavík 16. maí 2019
Elfa Ýr Gylfadóttir framkvæmdastjóri hélt erindi fyrir skólastjóra allra grunnskóla í Reykjavík. Í erindinu var fjallað um stafrænan veruleika barna og ungmenna og mikilvægi þess að kenna miðlalæsi og gagnrýna hugsun á öllum skólastigum.

Garðabær 2. maí 2019
Elfa Ýr Gylfadóttir framkvæmdastjóri hélt erindi um falsfréttir og upplýsingaóreiðu og áhrif hennar á samfélagið fyrir Rótaríklúbb Garðabæjar.

Reykjavík 15. apríl 2019
Elfa Ýr Gylfadóttir framkvæmdastjóri fjallaði um ýmis álitamál er varða samfélagsmiðla og netið í aðdraganda kosninga. Kynningin var haldin fyrir fulltrúa allra stjórnmálaflokkanna í forsætisráðuneytinu.

Reykjavík 25. mars 2019
Elfa Ýr Gylfadóttir framkvæmdastjóri hélt erindi um falsfréttir og upplýsingaóreiðu og áhrif hennar á samfélagið fyrir Rótaríklúbb Reykjavíkur.

Reykjavík 1. mars 2019
Elfa Ýr Gylfadóttir framkvæmdastjóri hélt erindi um tengsl upplýsingaóreiðu og falsfrétta við söfnun persónuupplýsinga fyrir starfsmenn Persónuverndar.

Helsinki, Finnland 28. febrúar 2019
Elfa Ýr Gylfadóttir framkvæmdastjóri hélt erindi á ráðstefnunni „Tackling gender stereotypes and sexism online“. Ráðstefnan var haldin í Helsinki og var hluti af formennskuáætlun Finna í Evrópuráðinu. Elfa Ýr  tók einnig þátt í umræðum um mikilvægi þess að gætt sé að jafnréttissjónarmiðum í fjölmiðlum.

Reykjavík 22. febrúar 2019
Elfa Ýr Gylfadóttir framkvæmdastjóri hélt erindi um falsfréttir, samfélagsmiðla og gervigreind fyrir starfsmenn mennta- og menningarmálaráðuneytisins.

Reykjavík 6. febrúar 2019
Elfa Ýr Gylfadóttir framkvæmdastjóri hélt erindi um falsfréttir, samfélagsmiðla og gervigreind fyrir starfsmenn umhverfisráðuneytisins.

Reykjavík 19. nóvember 2018
„Falsfréttir, samfélagsmiðlar og gervigreind – eitruð blanda fyrir framtíð lýðræðis?“ Erindi Elfu Ýrar Gylfadóttur framkvæmdastjóra haldið fyrir starfsmenn Póst- og fjarskiptastofnunar.

Reykjavík 14. nóvember 2018
„Falsfréttir, samfélagsmiðlar og gervigreind – eitruð blanda fyrir framtíð lýðræðis?“ Erindi Elfu Ýrar Gylfadóttur framkvæmdastjóra haldið fyrir Rótarýklúbb Reykjavíkur.

Zagreb, Króatía 6. nóvember 2018
„Hate speech, fake news and AI – The role of national regulatory authorities in a digital environment“. Erindi Elfu Ýrar Gylfadóttur framkvæmdastjóra haldið á ráðstefnu Evrópuráðsins „Addressing Hate Speech in the Media; the role of regulatory authorities and the judiciary“.

Bratislava, Slóvakía 12. október 2018
Elfa Ýr Gylfadóttir framkvæmdastjóri stýrði pallborðsumræðum um stjórnmálaumræðu, samfélagsmiðla og hlutverk eftirlitsaðila á fundi EPRA.

Reykjavík 19. september 2018
„Falsfréttir, samfélagsmiðlar og gervigreind – eitruð blanda fyrir framtíð lýðræðis?“ Erindi Elfu Ýrar Gylfadóttur haldið fyrir starfsmenn Samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytis og Dómsmálaráðuneytis.

Reykjavík 13. september 2018
Falsfréttir, fjölmiðlar og lýðræði – erindi Elfu Ýrar Gylfadóttur framkvæmdastjóra á málþingi í Norræna húsinu.

Reykjavík 31. ágúst 2018
„Falsfréttir, samfélagsmiðlar og gervigreind – eitruð blanda fyrir framtíð lýðræðis?“ Erindi Elfu Ýrar Gylfadóttur framkvæmdastjóra haldið á fræðslu- og samráðsfundi fyrir tengiliði Þjóðaröryggisráðs.

Stokkhólmur, Svíþjóð 12. júní 2018
Elfa Ýr Gylfadóttir framkvæmdastjóri hélt erindi um falsfréttir, samfélagsmiðla og gervigreind, fyrir starfsmenn sænska fjölmiðlaeftirlitsins í Stokkhólmi.

Lúxemborg 25. maí 2018
Elfa Ýr Gylfadóttir framkvæmdastjóri hélt erindi, um kosningahnapp Facebook á kjördegi á Íslandi, á fundi EPRA í Lúxemborg.

Reykjavík 10. maí 2018
„Aðför að lýðræði, falsfréttir og kosningar.“ Erindi Elfu Ýrar Gylfadóttur framkvæmdastjóra á málþingi Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs.

Garðabær 9. maí 2018
„Falsfréttir, samfélagsmiðlar og gervigreind – eitruð blanda fyrir framtíð lýðræðis?“ Erindi Elfu Ýrar Gylfadóttur framkvæmdastjóra á Bókasafni Garðabæjar.

Reykjavík 27. apríl 2018
„Dómstólar og fjölmiðlar.“ Erindi Elfu Ýrar Gylfadóttur framkvæmdastjóra á Lagadeginum í Hörpu.

Porvoo Finnlandi, 19. apríl 2018
Elfa Ýr Gylfadóttir framkvæmdastjóri hélt erindi um falsfréttir, samfélagsmiðla og gervigreind á árlegum fundi norrænna fjölmiðlaeftirlita.

Reykjavík 3. apríl 2018
„Falsfréttir, samfélagsmiðlar og gervigreind – eitruð blanda fyrir framtíð lýðræðis? Elfa Ýr Gylfadóttir framkvæmdastjóri hélt erindi fyrir fulltrúa stjórnmálaflokkanna í forsætisráðuneytinu.

Reykjavík 7. mars 2018
Elfa Ýr Gylfadóttir framkvæmdastjóri stýrði málstofu um konur, karla, fjölmiðla og lýðræði.

Reykjavík 17. janúar 2018
„Hvað er upplýsingaröskun (falsfréttir) og þurfum við að hafa áhyggjur af henni?“ Elfa Ýr Gylfadóttir framkvæmdastjóri hélt erindi fyrir öldungdeild Lögfræðingafélagsins í LMFÍ.

Reykjavík 13. janúar 2018
„Hvað er upplýsingaröskun (falsfréttir) og þurfum við að hafa áhyggjur af henni?“ Elfa Ýr Gylfadóttir framkvæmdastjóri hélt erindi fyrir fréttamenn Ríkisútvarpsins um upplýsingaóreiðu og skaðsemi hennar. 

Viðburðir

2. september 2016: Málþing fjölmiðlanefndar og Mannréttindaskrifstofu Íslands um hatursorðræðu

Rætt var um skaðsemi hatursorðræðu og ábyrgð fjölmiðla vegna ummæla í athugasemdakerfum fjölmiðla og á samfélagsmiðlum á málþingi fjölmiðlanefndar og Mannréttindaskrifstofu Íslands sem haldið var á Fundi fólksins í Norræna húsinu. Þátttakendur voru Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, þáverandi ritari Sjálfstæðisflokksins, Kolbeinn Tumi Daðason, þáverandi aðstoðarritstjóri fréttastofu 365 og umsjónarmaður Vísis, Margrét Steinarsdóttir, framkvæmdastjóri Mannréttindaskrifstofu Íslands, Ugla Stefanía Kristjönudóttir Jónsdóttir, fræðslustýra Samtakanna 78 og formaður Trans-Ísland og Unnsteinn Manúel Stefánsson, tónlistar- og fjölmiðlamaður.

Fundarstjóri var Arna Schram. Samantekt á erindum og pallborðsumræðum má má lesa hér.

12. júní 2015: Málstofa fjölmiðlanefndar um skyldur fjölmiðla í aðdraganda kosninga

Fjölmiðlanefnd skipulagði málstofu í Norræna húsinu  undir yfirskriftinni „Hverjar eru skyldur fjölmiðla í aðdraganda kosninga?“ Málstofan var haldin í tengslum við Fund fólksins í Norræna húsinu. Rætt var um skyldur fjölmiðla í aðdraganda kosninga, hvernig framkvæmdin hafi verið og hverju þurfi að breyta.

Þátttakendur voru Finnur Beck, formaður nefndar mennta- og menningarmálaráðherra um aðgang stjórnmálahreyfinga og frambjóðenda að fjölmiðlum í aðdraganda kosninga sem skilaði tillögum 2013, Heiðar Örn Sigurfinnsson, fréttamaður á Ríkisútvarpinu og Heiðdís Lilja Magnúsdóttir, lögfræðingur fjölmiðlanefndar. Katrín Jakobsdóttir var einnig á lista yfir þátttakendur en boðaði forföll. Málstofustjóri var Arna Schram.

20. janúar 2015: Hádegisfundur fjölmiðlanefndar og Siðfræðistofnunar Háskóla Íslands

Rætt var um tjáningarfrelsið á hádegisfundi fjölmiðlanefndar og Siðfræðistofnunar Háskóla Íslands, sem fram fór í Háskóla Íslands. Tilefnið var voðaverk sem framin voru á ritstjórnarskrifstofum háðritsins Charlie Hebdo í París 7. janúar 2015.

Erindi fluttu Róbert H. Haraldsson, prófessor í heimspeki, Elfa Ýr Gylfadóttir, framkvæmdastjóri fjölmiðlanefndar og Þórir Jónsson Hraundal sagnfræðingur. Fundarstjóri var Salvör Nordal.

Stutt samantekt á erindum: Róbert fjallaði um tjáningarfrelsið og mörk þess í heimspekilegu samhengi og rétt einstaklingsins til að hugsa frjálslega og tjá hugsanir sínar óþvingað og óttalaust. Róbert fjallaði sérstaklega um tjáningarfrelsið í tengslum við birtingu trúarlegra skopmynda í Jyllands-Posten og í tímaritinu Charlie Hebdo. Elfa Ýr fjallaði um hvaða áhrif voðaverkin í París geti haft á tjáningarfrelsi og borgaraleg réttindi á Vesturlöndum. Elfa Ýr fjallaði jafnframt um hvað beri að varast og lagði áherslu á að tjáningarfrelsi eru réttindi sem við höfum aflað okkur á löngum tíma og þau þurfi að verja og vernda. Þórir talaði um bakgrunn myndbirtingabanns í islam, ýmsar algengar hugmyndir Vesturlandabúa um múslima og trú þeirra, og velti upp nokkrum spurningum um mögulegar undirliggjandi ástæður voðaverkanna í París.

18. september 2014: Málþing fjölmiðlanefndar og Blaðamannafélags Íslands um ritstjórnarlegt sjálfstæði

Fjallað var um ritstjórnarlegt sjálfstæði, fréttamat, starfsöryggi blaðamanna og einsleitni stjórnenda á málþingi fjölmiðlanefndar og Blaðamannafélags Íslands um ritstjórnarlegt sjálfstæði þann 18. september 2014.

Erindi á málþinginu fluttu Þóra Kristín Ásgeirsdóttir, fyrrverandi formaður Blaðamannafélags Íslands, Þórður Snær Júlíusson, ritstjóri Kjarnans, Sævar Freyr Þráinsson, þáverandi forstjóri 365 miðla, Hallgrímur Thorsteinsson, þáverandi ritstjóri DV, og Elfa Ýr Gylfadóttir, framkvæmdastjóri fjölmiðlanefndar. Fundarstjóri var Arna Schram.

Samantekt á erindum og umræðum má lesa hér.

 

20. nóvember 2013: Málþing fjölmiðlanefndar, SAFT og Heimilis og skóla 

Fjölmiðlanefnd, SAFT og Heimili og skóli stóðu fyrir málþingi undir yfirskriftinni „Er baráttan töpuð? Er hægt að vernda börn gegn skaðlegu efni í fjölmiðlum og tölvuleikjum?“ Á málþinginu var fjallað um það hvaða sjónarmið liggja að baki því að vernda börn gegn skaðlegu efni. Fjallað var um nýjar rannsóknir á netnotkun íslenskra ungmenna, farið yfir löggjöf um vernd barna gagnvart skaðlegu efni hér á landi og hvaða leiðir verið er að fara í nágrannaríkjum Íslands til að vernda börn gegn skaðlegu efni á nýjum miðlum. Þá var fjallað um ábyrgð foreldra, skóla og samfélagsins í þessum efnum, auk þess sem kynnt voru sjónarmið stærsta fjölmiðils landsins varðandi vernd barna. Illugi Gunnarsson, mennta- og menningarmálaráðherra flutti ávarp en erindi héldu Hjördís Sigursteinsdóttir, aðjúnkt á hug- og félagsvísindasviði Háskólans á Akureyri, Elfa Ýr Gylfadóttir, framkvæmdastjóri fjölmiðlanefndar, Hrefna Sigurjónsdóttir, framkvæmdastjóri Heimilis og skóla og Ari Edwald, þáverandi forstjóri 365 miðla.

Þátttakendur í pallborðsumræðum voru: Páll Magnússon (RÚV), Snæbjörn Steingrímsson (SMÁÍS) og fulltrúi
frá Ungmennaráði SAFT. Fundarstjóri var Margrét María Sigurðardóttir, þáverandi umboðsmaður barna.

16. maí 2013: Málþing fjölmiðlanefndar um reglur um ritstjórnarlegt sjálfstæði

Fjölmiðlanefnd stóð fyrir málþingi um reglur um ritstjórnarlegt sjálfstæði sem fjölmiðlaveitum sem sinna fréttum og fréttatengdu efni er gert að setja sér samkvæmt 24. gr. laga um fjölmiðla nr. 38/2011.

Samantekt á erindum og umræðum má lesa hér.

 

 

 

 

 

Skipan Fjölmiðlanefndar

– Einar Hugi Bjarnason hæstaréttarlögmaður, formaður, skipaður af ráðherra án tilnefningar.

Einar Hugi Bjarnason, formaður Fjölmiðlanefndar, lauk embættisprófi í lögfræði frá Háskóla Íslands árið 2005, öðlaðist réttindi sem héraðsdómslögmaður 2006 og réttindi til málflutnings fyrir Hæstarétti Íslands 2012. Einar Hugi er einn af eigendum Lögfræðistofu Reykjavíkur ehf. Einar Hugi hefur setið í stjórnum fjölmargra félaga um lengri og skemmri tíma, oftast tengt lögmannsstörfum. Frá árinu 2013 hefur Einar sinnt stundakennslu við lagadeild Háskóla Íslands. Einar hefur einnig setið í ýmsum nefndum á vegum hins opinbera. Einar Hugi kom að gerð frumvarps til laga um styrki til einkarekinna fjölmiðla sem lagt verður fyrir á 150. löggjafarþingi Alþingis 2019-2020. Þá hefur Einar Hugi flutt fjölda dómsmála á sviði fjölmiðlaréttar.

– Dr. María Rún Bjarnadóttir lögfræðingur, varaformaður, tilnefnd af Hæstarétti.

Dr. María Rún Bjarnadóttir, varaformaður Fjölmiðlanefndar, lauk doktorsprófi í internet- og mannréttindalögfræði frá lagadeild Sussex háskóla í Englandi árið 2021 og starfar sem verkefnastjóri gegn stafrænu ofbeldi hjá embætti Ríkislögreglustjóra. Rannsóknir hennar varða áhrif tækniþróunar á mannréttindi, sérstaklega tjáningarfrelsi og friðhelgi einkalífs, en einnig á samfélagslega innviði á borð við fjölmiðlun og löggæslu. Hún hefur tekið þátt í alþjóðlegum og norrænum rannsóknarverkefnum sem hafa meðal annars varðað mörk samfélagsmiðla og fjölmiðla og stöðu og takmarkanir tjáningarfrelsisins á netinu. Hún starfaði um árabil hjá Stjórnarráði Íslands þar sem hún bar ábyrgð á undirbúningi lagasetningar og stefnumótun á sviði mannréttinda, persónuverndar og fjarskiptaréttar og var fulltrúi íslenskra stjórnvalda í innlendu og alþjóðlegu samstarfi. María hefur sinnt stundakennslu í lögfræði, fjölmiðlafræði og lögreglufræði við Háskóla Íslands, Sussex háskóla og Háskólann á Akureyri. Þá sinnir hún reglulega lögfræðilegri ráðgjöf fyrir innlenda aðila á sviði mannréttinda, fjölmiðlaréttar, stjórnsýsluréttar og jafnréttismála. María Rún hefur setið í fjölmiðlanefnd frá í apríl 2019.

– Erla Skúladóttir, lögfræðingur LL.M.

Erla útskrifaðist með embættispróf í lögfræði frá Háskóla Íslands árið 2001. Hún var blaðamaður á Morgunblaðinu samhliða laganámi og fjallaði lokaritgerð hennar um nafngreiningu sakborninga í fjölmiðlum. Erla hlaut réttindi til málflutnings fyrir héraðsdómstólum árið 2006 og lauk framhaldsnámi í evrópskum hugverkarétti, Master of Intellectual Property Law, við Háskólann í Stokkhólmi árið 2008. Erla starfar hjá lögfræðistofunni Málþingi og leggur í störfum sínum sérstaka áherslu á hugverkarétt og þýðingu hans fyrir atvinnulífið. Hún annast kennslu í vörumerkja- og einkaleyfarétti við lagadeild HÍ og stundar rannsóknir á réttarsviðinu við Lagastofnun. Erla starfaði áður í iðnaðarráðuneytinu og hjá embætti skattrannsóknarstjóra og kenndi auk þess fjölmiðlarétt við námsbraut HÍ í hagnýtri fjölmiðlun.

– Róbert H. Haraldsson, prófessor í heimspeki og kennslustjóri Háskóla Íslands, tilnefndur af samstarfsnefnd háskólastigsins.

Róbert H. Haraldsson, prófessor í heimspeki og kennslustjóri Háskóla Íslands, lauk BA-­prófi í heim­speki og sál­ar­fræði frá Háskóla Íslands árið 1985 og dokt­ors­prófi í heim­speki frá Háskól­anum í Pitts­burgh árið 1997. Róbert hefur kennt við Háskóla Íslands frá árinu 1992 og verið pró­fessor í heim­speki frá árinu 2007. Róbert hefur sinnt marg­vís­legum trún­að­ar- og stjórn­un­ar­störfum innan Háskóla Íslands og einnig  starfað sem ráð­gjafi með ýmsum fag­fé­lög­um, fyr­ir­tækjum og stofn­unum á Íslandi. Hann var meðrit­stjóri tíma­rits­ins Skírn­is árin 1995-2000 og nor­ræna heim­speki­tíma­rits­ins SATS árin 2001-2015. Þá hefur hann setið í siðanefnd Blaðamannafélags Íslands, með hléum, frá 1991 og starfað sem ritdómari á Morgunblaðinu. Róbert hefur setið í Fjölmiðlanefnd frá í nóvember 2017.

Varamenn:
– Hulda Árnadóttir hæstaréttarlögmaður
– Marteinn Másson hæstaréttarlögmaður

– Birgir Guðmundsson, dósent í fjölmiðlafræði við Háskólann á Akureyri

Starfsfólk

– Elfa Ýr Gylfadóttir, framkvæmdastjóri, elfa [hjá] fjolmidlanefnd.is  

Elfa Ýr er fjölmiðla- og fjarskiptafræðingur að mennt. Hún lauk B.A.-námi í bókmenntum frá Háskóla Íslands árið 1994, prófi í hagnýtri fjölmiðlun við sama skóla árið 1995 og hefur lokið tveimur meistaragráðum, í fjölmiðla- og ímyndarfræðum frá University of Kent í Bretlandi árið 1996, og fjölmiðlun og boðskiptum frá Georgetown University í Bandaríkjunum árið 2000.  Frá 2006 til 2011 starfaði Elfa Ýr sem deildarstjóri fjölmiðladeildar í mennta- og menningarmálaráðuneytinu. Elfa Ýr hefur verið stundakennari við Háskóla Íslands í 18 ár og kennt m.a. menningarfræði, fjölmiðlafræði og fjölmiðlarétt. Hún var formaður stýrinefndar Evrópuráðsins um fjölmiðla og upplýsingasamfélagið árin 2016-2017 og hefur einnig verið varaformaður nefndarinnar 2011 og 2018-2019. Elfa Ýr hefur haldið fjölmörg erindi og stýrt málþingum um tjáningarfrelsi, frelsi til upplýsinga og fjölmiðlalöggjöf í ríkjum álfunnar sem fjölmiðlasérfræðingur á vegum Evrópuráðsins á undanförnum 12 árum. Elfa hóf störf hjá Fjölmiðlanefnd 2011.

– Heiðdís Lilja Magnúsdóttir, yfirlögfræðingur/staðgengill framkvæmdastjóra, heiddis [hjá] fjolmidlanefnd.is 

Heiðdís Lilja er lögfræðingur og píanókennari að mennt. Hún starfaði við blaða- og fréttamennsku um þrettán ára skeið, á Nýju lífi sem blaðamaður og ritstjóri og sem blaða- og fréttamaður á 24 stundum, Fréttatímanum og á fréttastofu RÚV. Hún var stundakennari í áfanganum Fjölmiðlar, siðferði og lög við Háskólann á Bifröst á vorönn 2017 og 2018. Heiðdís hóf störf hjá Fjölmiðlanefnd 2014. 

– Anton Emil Ingimarsson, lögfræðingur, anton [hjá] fjolmidlanefnd.is 

Anton Emil er lögfræðingur að mennt. Hann lauk meistaraprófi í lögfræði frá Lagadeild Háskóla Íslands árið 2018. Hann hefur sérhæft sig í lögfræði og tækni, persónuvernd og mannréttindum. Lokaritgerð Antons Emils við Háskóla Íslands fjallaði um auðkennisþjófnað (e. identity theft) í samhengi íslenskra laga með áherslu á slíka háttsemi á internetinu, þá sérstaklega samfélagsmiðlum. Anton hóf störf hjá Fjölmiðlanefnd árið 2019. 

– Skúli Bragi Geirdal, verkefnastjóri, skuli [hjá] fjolmidlanefnd.is

Skúli er fjölmiðlafræðingur að mennt, ásamt því að hafa stundað nám við grafíska hönnun í Myndlistarskólanum á Akureyri. Hann hefur starfað við dagskrárgerð, ritstjórn og hönnun hjá N4 frá árinu 2018 og kom þar að gerð um 400 sjónvarpsþátta, ásamt því að taka virkan þátt í stefnumótun á miðlinum. Þá hefur hann einnig annast stundakennslu í fjölmiðlafræðideild Háskólans á Akureyri, starfað sjálfstætt við hönnun og komið að nýsköpunar- og frumkvöðlastarfi á ýmsum sviðum. Skúli hóf störf hjá Fjölmiðlanefnd árið 2021.

– Pétur Magnússon, sérfræðingur, petur [hjá] fjolmidlanefnd.is

Pétur er stjórnmálafræðingur að mennt. Hann stundar meistaranám í stjórnmála- og fjölmiðlafræði við The London School of Economics and Political Science, en meistararitgerð Péturs fjallar um gagnavæðingu og gagnahyggju í alþjóðlegu fjölmiðlaumhverfi. Hann hefur starfað sem blaðamaður hjá Morgunblaðinu og mbl.is auk þess að hafa sinnt rannsóknum á sviði stjórnmála, blaðamennsku, og gagnavísinda. Pétur hóf störf hjá Fjölmiðlanefnd árið 2021.