Mannréttindadómstóll Evrópu komst í morgun að þeirri niðurstöðu að íslenska ríkið hefði brotið gegn tjáningarfrelsi fjölmiðlamannanna Reynis Traustasonar, Jóns Trausta Reynissonar og Inga Freys Vilhjálmssonar með dómi Hæstaréttar í svokölluðu Sigurplastmáli árið 2012.

Málavextir voru þeir að Jón Snorri Snorrason höfðaði mál gegn Inga Frey, Reyni, Jóni Trausta og DV ehf. vegna umfjöllunar sem birt var annars vegar í prentaðri útgáfu DV í mars 2011 og hins vegar netútgáfu þess á www.dv.is. Ingi Freyr var þá fréttastjóri á DV, Reynir ritstjóri og Jón Trausti framkvæmdastjóri blaðsins. Jón Snorri var stjórnarformaður fyrirtækisins Sigurplast ehf. og starfaði sem lektor í viðskiptafræði. Sigurplast hafði verið úrskurðað gjaldþrota árið 2010 og snerist umfjöllun DV m.a. um niðurstöður rannsóknar endurskoðunarfyrirtækisins Ernst & Young á bókhaldi félagsins en rannsóknin  var gerð að beiðni skiptastjóra þrotabúsins. Á meðal þess sem fram kom í umfjöllun DV var að Jón Snorri sætti lögreglurannsókn. Fyrir lá að þrjár kærur sem vörðuðu málefni Sigurplasts ehf. höfðu verið sendar til lögreglu, ein til efnahagsbrotadeildar ríkislögreglustjóra en tvær til lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu.

Deilt um orðaval
DV-menn töpuðu málinu bæði í héraðsdómi og fyrir Hæstarétti. Þann 6. desember 2012 staðfesti Hæstiréttur niðurstöðu héraðsdóms um ómerkingu ummælanna „Lögreglan rannsakar lektor“ og „Lektor í viðskiptafræði flæktur í lögreglurannsókn“ sem birst höfðu sem fyrirsagnir í DV. Vísað var til þess að ummælin hefðu verið röng og meiðandi fyrir Jón Snorra. Auk þess var staðfest sú niðurstaða héraðsdóms að þremenningunum yrði gert að greiða Jóni Snorra miskabætur, málskostnað og kostnað við birtingu dóms í fjölmiðlum.

Rannsókn eða skoðun?
Dómur Hæstaréttar gekk fyrst og fremst út á það að máli skipti hvort lögreglan hefði haft málið til rannsóknar eða til skoðunar þar sem orðið „rannsakar“ hefði tiltekna lagalega þýðingu. Þótt málið hafi vissulega verið til skoðunar hjá lögreglu um það leyti sem grein DV birtist hafi formleg lögreglurannsókn ekki verið hafin. Ummælin „Lögreglan rannsakar lektor“ hafi því bæði verið röng og ærumeiðandi.

Of ríkar kröfur gerðar til blaðamanna
Niðurstaða Hæstaréttar var kærð til Mannréttindadómstólsins í Evrópu sem komst sem áður segir að þeirri niðurstöðu að með dómnum hafi verið brotið gegn rétti Reynis, Jóns Trausta og Inga Freys til tjáningarfrelsis. Í dómsniðurstöðu segir m.a. að ekki sé hægt að ætlast til þess að orðaval blaðamanna, sem skrifa greinar fyrir almenning, endurspegli fyllilega lagaleg hugtök og skilgreiningar. Þannig hefði ekki átt að gera þær kröfur til blaðamanna og ritstjóra DV að þeir gerðu skýran greinarmun á orðunum „rannsaka“ og „skoða“ 
í blaðaskrifum sínum.

Blaðamenn í góðri trú
Þá segir í dómsniðurstöðu að ekkert bendi til annars en að blaðamenn og ritstjóri DV hafi verið í góðri trú í störfum sínum. Þeir hafi ekki vanrækt faglegar skyldur sínar sem blaðamenn til að staðreyna staðreyndir. Þá hafi umfjöllunin verið til þess fallin að vekja áhuga almennings og verið hluti af stærri umræðu sem tengdist fjármálahruninu á Íslandi. 

Dómur Mannréttindadómstóls Evrópu 4. maí 2017: Traustason og aðrir gegn Íslandi