Fjölmiðlanefnd hefur komist að þeirri niðurstöðu að með miðlun kynningarþátta þriggja stjórnmálaflokka í aðdraganda Alþingiskosninganna þann 29. október 2016 hafi Hringbraut miðlun brotið gegn ákvæðum 1. mgr. 26. gr. laga um fjölmiðla um lýðræðislegar grundvallarreglur.  Að mati fjölmiðlanefndar var fyllstu hlutlægni og nákvæmni ekki gætt þegar stjórnmálaöflum, sem buðu fram í Alþingiskosningunum 2016, var boðið að gera kynningarþætti á sjónvarpsstöð Hringbrautar og um leið að kaupa auglýsingapakka af fjölmiðlaveitunni.

Málavextir voru þeir að fjölmiðlanefnd barst ábending þess efnis að öllum framboðum til Alþingiskosninganna 2016 hafi verið boðið að kaupa auglýsingapakka af Hringbraut og að auglýsingapakkanum fylgdu kynningarþættir fyrir Alþingiskosningarnar sem fram fóru þann 29. nóvember 2016. Í kjölfar ábendingarinnar barst fjölmiðlanefnd bréf Hringbrautar, dags. 17. ágúst 2016, sem stílað var á eitt þeirra tólf stjórnmálaafla sem buðu fram í kosningunum. Í bréfinu var fyrirkomulagi kynningarþáttanna lýst og kom meðal annars fram að Hringbraut hygðist framleiða kynningarþætti fyrir öll framboð til kosninganna.

Á dagskrá Hringbrautar fyrir Alþingiskosningarnar voru kynningarþættir frá þremur af þeim tólf stjórnmálaöflum sem buðu fram í kosningunum. Óskaði fjölmiðlanefnd eftir sjónarmiðum Hringbrautar varðandi það hvernig fjölmiðlaveitan teldi fyrirkomulag kynningarþátta Hringbrautar samræmast reglum um hlutlægni fjölmiðla og upplýsingarétt almennings sbr. 26. gr. laga um fjölmiðla um lýðræðislegar grundvallarreglur.

Í svörum Hringbrautar sagði að ekkert hefði orðið af þeim fyrirætlunum fjölmiðlaveitunnar að framkvæma verkefnið sem kynnt var stjórnmálaflokkunum með bréfi fjölmiðlaveitunnar til þeirra og að engin tengsl væru milli bréfsins og þáttanna sem síðar voru framleiddir. Hringbraut mótmælti því jafnframt að fjölmiðlaveitan hefði gerst brotleg við 26. gr. laga um fjölmiðla og  benti á að viðhorf Hringbrautar til flokkanna þriggja og Alþingiskosninganna hefði hvergi komið fram í kynningarþáttunum. Þá sagði í svörum Hringbrautar að kynningarþættirnir teldust ekki til frétta og fréttatengds efnis en það væri skýr efnisþáttur 2. málsl. 1. mgr. 26. gr laga um fjölmiðla.

Við rannsókn málsins sendi fjölmiðlanefnd öllum tólf stjórnmálaöflunum, sem buðu fram í kosningunum, erindi þar sem óskað var upplýsinga um það hvort framboðin hefðu fengið bréf frá Hringbraut og verið boðið að vera með kynningarþætti í aðdraganda kosninganna. Þá óskaði nefndin eftir upplýsingum um samstarf þeirra þriggja flokka, sem fjallað var um í sérstökum kynningarþáttum á Hringbraut, við fjölmiðlaveituna. Er fjallað um svör stjórnmálaflokkanna í áliti fjölmiðlanefndar.

Samkvæmt 26. gr. laga um fjölmiðla ber fjölmiðlaveitum að uppfylla kröfur um hlutlægni og nákvæmni í fréttum og fréttatengdu efni. Af því má leiða að fjölmiðlaveitum beri að gæta jafnræðis í umfjöllun í aðdraganda kosninga og að gæta þess að sjónarmið allra flokka komi fram. Að mati fjölmiðlanefndar er fagleg og vönduð umræða fjölmiðla fólgin í því að þeir leitist við að varpa ljósi á mismunandi hliðar mála. Á það ekki síst við í aðdraganda kosninga þegar fjallað er um stefnu og áherslumál þeirra stjórnmálaafla sem bjóða fram hverju sinni. Fjölmiðlar eru vettvangur umræðu og upplýsinga og hafa skoðanamyndandi áhrif. Því er mikilvægt að umfjöllun þeirra einkennist af hlutlægni og jafnræðis sé gætt milli sjónarmiða, flokka og frambjóðenda. Fjölmiðlanefnd getur ekki fallist á þau sjónarmið forsvarsmanna Hringbrautar að ekkert samhengi sé á milli bréfsins sem Hringbraut sendi a.m.k sjö stjórnmálaflokkum sem buðu fram í Alþingiskosningunum þann 29. október 2016 og kosningaþátta sem fjölmiðlaveitan miðlaði í aðdraganda kosninganna. Þá hafa engar skýringar borist fjölmiðlanefnd á því hvers vegna einungis var fjallað um þrjú af þeim tólf stjórnmálaöflum sem buðu fram í umræddum kosningum. Þó er upplýst að framboðin keyptu auglýsingar eða greiddu fyrir kosningaþættina sérstaklega. 

Niðurstaða fjölmiðlanefndar var sú að fyrirkomulag kynningarþátta fyrir framboð til Alþingiskosninga, sem sýndir voru á Hringbraut í aðdraganda kosninga til Alþingis þann 29. október 2016, hafi farið í bága við 26. gr. laga um fjölmiðla. 

Álit fjölmiðlanefndar nr. 1/2017