Nýtt vefsvæði fjölmiðlanefndar

Fjölmiðlanefnd hefur opnað nýtt vefsvæði á slóðinni www.fjolmidlanefnd.is. Samkvæmt lögum um fjölmiðla nr. 38/2011 er fjölmiðlanefnd gert að birta ýmiskonar upplýsingar um fjölmiðla og fjölmiðlamarkaðinn á vefsvæði sínu. Helstu upplýsingar sem aðgengilegar eru á vef nefndarinnar taka til þeirra þátta sem hún hefur eftirlit með á fjölmiðlamarkaði. Auk þess má nálgast yfirlit yfir skráningarskylda og leyfisskylda fjölmiðla auk upplýsinga um eignarhald þeirra. Þá má finna þau lög og reglur sem gilda um fjölmiðla, upplýsingar um þá þætti sem fjölmiðlanefnd er gert að hafa eftirlit með ásamt ýmsum fróðleik um fjölmiðlamarkaðinn.

Fjölmiðlanefnd er sjálfstæð stjórnsýslunefnd sem annast eftirlit samkvæmt fjölmiðlalögum og daglega stjórnsýslu á því sviði sem lögin ná til. Þá annast fjölmiðlanefnd þau hlutverk sem henni eru falin í öðrum lögum. Með starfsemi fjölmiðlanefndar skal stuðlað að því að markmiðum og tilgangi fjölmiðlalaga verði náð. Nefndinni er m.a. ætlað að efla fjölmiðlalæsi, fjölbreytni og fjölræði í fjölmiðlum, standa vörð um tjáningarfrelsi og rétt almennings til upplýsinga.

Nefndinni er enn fremur ætlað að tryggja neytendavernd gagnvart fjölmiðlum. Þannig skal fjölmiðlanefnd m.a. hafa eftirlit með því að ávallt séu skýr skil milli ritstjórnarefnis og auglýsinga og að sjónvarpsefni sem getur haft skaðleg áhrif á börn sé ekki aðgengilegt á þeim tíma sem börn eru að horfa. Einnig skal nefndin tryggja að almenningur hafi upplýsingar um eignarhald og reglur um ritstjórnarlegt sjálfstæði fjölmiðla. Þá skal nefndin skera úr um andsvarsrétt þeirra sem telja að rangt hafi verið farið með staðreyndir þegar þeir eiga lögmætra hagsmuna að gæta, s.s. ef þeir telja að orðspor og æra hafi beðið tjón.

Með fjölmiðlalögum er samræmd undir einni löggjöf öll fjölmiðlun óháð því á hvaða formi miðlun fer fram. Jafnframt var safnað saman ákvæðum er varða réttindi og skyldur fjölmiðla sem kveðið er á um í öðrum lögum, til að tryggja að frumvarpið gefi heildstæða mynd af réttindum og skyldum fjölmiðla. Fjölmiðlanefnd leysir af hólmi útvarpsréttarnefnd sem hafði það hlutverk að fylgjast með hljóðvarpi og sjónvarpi frá árinu 1986 til 1. september 2011 þegar fjölmiðlanefnd tók til starfa.