Árið 2007 var sú stefna mörkuð af stjórnvöldum að ríkisstofnanir og félög sem rekin eru fyrir opinbert fé ættu að leitast við að skoða kosti þess að nýta frjálsan og opinn hugbúnað. Hugsunin er sú þannig sé m.a. reynt að koma í veg fyrir að opinberir aðilar verði of háðir einstökum hugbúnaðarframleiðendum eða þjónustuaðilum með tilheyrandi kostnaði. Í samræmi við þessu stefnu stjórnvalda hefur fjölmiðlanefnd tekið í notkun frjálsan og opinn hugbúnað.
Frjáls og opinn kallast sá hugbúnaður sem byggist á forritunarkóða sem höfundar hafa
valið að gera opinberan og aðgengilegan fyrir alla. Frjálsan og opinn hugbúnað má nota og dreifa að vild, auk þess sem leyfilegt er að aðlaga og betrumbæta hann eftir þörfum hvers og eins. Þar sem notkun frjáls hugbúnaðar er í örum vexti um allan heim og hefur verið viðurkenndur sem raunhæfur kostur við val á lausnum í upplýsingatækni ákvað fjölmiðlanefnd að nota opinn og frjálsan hugbúnað í starfsemi sinni.
Frjáls og opinn hugbúnaður er notaður í stýrikerfum og forritum í tölvum starfsmanna nefndarinnar. Þá byggir vefumsjónarkerfið fyrir heimasíðu nefndarinnar einnig á opnum og frjálsum hugbúnaði. Jafnframt má nefna að bæði málaskrá og símkerfi fjölmiðlanefndar styðjast við opinn hugbúnað. Með því að fara þessa leið heldur fjölmiðlanefnd jafnframt niðri rekstrarkostnaði sínum.