Yfirlit yfir eignarhald fjölmiðla

Samkvæmt lögum um fjölmiðla nr. 38/2011 þurfa fjölmiðlar sem ekki eru leyfisskyldir að skrá sig auk þess sem allir leyfisskyldir og skráðir fjölmiðlar eiga að veita fjölmiðlanefnd upplýsingar um eignarhald. Undanfarna mánuði hefur fjölmiðlanefnd aflað upplýsinga um eignarhald fjölmiðla og er yfirlit yfir eignarhald fjölmiðla nú aðgengilegt á nýrri heimasíðu nefndarinnar.

Fjölmiðlanefnd telur mikilvægt að benda á að hvorki í lögunum sjálfum né í lögskýringargögnum er nánar kveðið á um hvaða upplýsingar um eignarhald skulu veittar. Fjölmiðlanefnd telur þó engan vafa leika á því að hún geti á grundvelli laganna krafist hlutaskrár einkahlutafélaga/hlutafélaga og knúið á um afhendingu slíkra upplýsinga sé kröfunni ekki sinnt. Fjölmiðlanefnd telur viðeigandi ákvæði hins vegar of óljós til að unnt sé að krefja fjölmiðla, sem ekki veitir frekari upplýsingar um eignarhald sitt en þær sem felast í hlutaskrá, til að skila slíkum upplýsingum. Þetta hefur til að mynda í för með sér að ef fjölmiðill er félag sem er alfarið í eigu annarra félaga og hún verður ekki að ósk um nánari upplýsingar um síðarnefndu félögin (t.d. hvaða einstaklingar standi að baki þeim) skortir fjölmiðlanefnd heimildir til að knýja á um að slíkar upplýsingar séu veittar.

Í ljósi framangreindrar stöðu ákvað fjölmiðlanefnd í nóvember 2011 að gera mennta- og menningarmálaráðherra grein fyrir framangreindu og var óskað eftir því að ráðherra beitti sér fyrir því að nefndinni verði fengnar fullnægjandi heimildir til að knýja á um upplýsingar um raunverulegt eignarhald á fjölmiðlum, þ.e. hverjir/hvaða einstaklingar standi að baki félögum sem eiga hlut í fjölmiðlum.

Yfirlit yfir eignarhald fjölmiðla sem nú hefur verið birt á heimasíðu fjölmiðlanefndar er byggt á þeim upplýsingum sem fjölmiðlar hafa veitt nefndinni. Í mörgum tilvikum voru veittar ítarlegri upplýsingar en þær sem felast í hlutaskrá en í öðrum tilvikum voru aðeins veittar þær lágmarksupplýsingar sem nefndinni er unnt að knýja á um. Því er ekki í öllum tilvikum hægt að segja til um raunverulegt eignarhald fjölmiðils samkvæmt yfirliti fjölmiðlanefndar.

Nánari upplýsingar um eignarhald fjölmiðla er að finna hér.