Að gefnu tilefni vill fjölmiðlanefnd koma því á framfæri að athugasemdir Ástþórs Magnússonar, vegna forsetakosninganna, voru teknar fyrir á fundi nefndarinnar 13. apríl sl. Fimm dögum síðar var honum sent svar þar sem m.a. er bent á að nefndin hafi ekki eftirlit með lögum um Ríkisútvarpið.
Fjölmiðlanefnd barst bréf frá forsetaframboði Ástþórs Magnússonar þann 27. mars 2012. Fjölmiðlanefnd heldur reglubundna fundi þar sem farið er yfir erindi og umsóknir og var erindi Ástþórs tekið fyrir á næsta fundi nefndarinnar sem haldinn var eftir að erindið barst, eða síðla dags þann 13. apríl s.l.
Í kjölfarið var unnið úr þeim ákvörðunum sem teknar voru á fundi nefndarinnar og sent út bréf dags. 18. apríl þar sem athugasemdum er svarað lið fyrir lið. Þar er m.a. bent á að nefndin hafi ekki eftirlit með lögum um Ríkisútvarpið nr. 6/2007. Þar segir einnig að nefndin gefi ekki út almennt álit vegna athugasemda sem ekki fela í sér kvörtun um tiltekin brot á lögunum. Þá er greint frá því að aðrar athugasemdir gefi ekki tilefni til meðferðar nefndarinnar.
Hér að neðan er að finna svarbréfið í heild:
Forsetaframboð Ástþórs Magnússonar
Vogasel 1
109 Reykjavík
Reykjavík, 18. apríl 2012
Mál: 2012-139/3.5
Efni: Fyrirspurn vegna forsetakosninga.
Fjölmiðlanefnd hefur borist bréf yðar, dags. 27. mars 2012, sem ber yfirskriftina „Fyrirspurn vegna forsetakosninga“, en þar er óskað eftir áliti fjölmiðlanefndar á nánar tilteknum atriðum, sem fyrst og fremst snerta Ríkisútvarpið.
Í upphafi er nauðsynlegt að benda á að nefndin hefur ekki eftirlit með lögum um Ríkisútvarpið nr. 6/2007. Þá er ljóst að lög um fjölmiðla nr. 38/2011, sem fjölmiðlanefnd hefur eftirlit með, gera ekki ráð fyrir því að nefndin gefi út almenn álit vegna fyrirspurna sem ótengdar eru kvörtun um tiltekin brot á lögunum. Þannig kemur fram í 1. mgr. 11. gr. að unnt sé að beina erindum „vegna ætlaðra brota á ákvæðum laga þessara“ til fjölmiðlanefndar. Samkvæmt sama ákvæði tekur fjölmiðlanefnd síðan ákvörðun um það hvort erindi sem henni berast gefi nægar ástæður til meðferðar. Að þessu gættu verður hér vikið að einstökum töluliðum í bréfi yðar:
1) Fyrsti töluliðurinn felur ekki í sér kvörtun um tiltekið brot á lögum um fjölmiðla nr. 38/2011.
2) Annar töluliðurinn felur ekki heldur í sér kvörtun um tiltekið brot á lögum um fjölmiðla nr. 38/2011. Jafnvel þótt hann yrði metinn sem kvörtun yfir því að stjórnarformaður RÚV hafi brotið gegn lögunum gæfi hann að mati nefndarinnar ekki nægar ástæður til meðferðar.
3) Sama á við um þann hluta þriðja töluliðarins sem lýtur að því að „aðal þáttastjórnandi RÚV“ hafi verið hlutdrægur. Á hinn bóginn verður þriðji töluliðurinn skilinn sem kvörtun yfir því að umræddur þáttastjórnandi RÚV hafi brotið gegn 27. gr. laga fjölmiðla nr. 38/2011. Fjölmiðlanefnd telur að erindið að því leyti gefi ekki nægar ástæður til meðferðar.
4) Fjórði töluliðurinn felur ekki í sér kvörtun um tiltekið brot á lögum um fjölmiðla nr. 38/2011. Í því sambandi skal tekið fram að hann verður ekki skilinn sem erindi til nefndarinnar á grundvelli 4. mgr. 36. gr. laganna.
5) Fimmti töluliðurinn felur ekki í sér kvörtun um tiltekið brot á lögum um fjölmiðla nr. 38/2011
6) Sjötti töluliðurinn felur ekki í sér kvörtun um tiltekið brot á lögum um fjölmiðla nr. 38/2011.
Að því marki sem erindi yðar felur í sér kvörtun vegna ætlaðra brota á lögum um fjölmiðla nr. 38/2011 gefur það samkvæmt framangreindu ekki næga ástæðu til meðferðar að mati fjölmiðlanefndar.
Að lokum skal áréttað að nefndin mun vitanlega sem endranær hafa eftirlit með efnisákvæðum laga um fjölmiðla nr. 38/2011 næstu mánuði.
Fyrir hönd fjölmiðlanefndar,
Elfa Ýr Gylfadóttir