Forsetakosningar 2012

Í ljósi umræðu í aðdraganda komandi forsetakosninga vill fjölmiðlanefnd koma eftirfarandi atriðum á framfæri:

Í 26. gr. laga um fjölmiðla nr. 38/2011 kemur m.a. fram að fjölmiðlaveitur skuli í starfi sínu halda í heiðri „lýðræðislegar grundvallarreglur“. Þá skuli þær gæta þess „að uppfylla kröfur um hlutlægni og nákvæmni í umfjöllun sinni um fréttir og fréttatengt efni og gæta þess að mismunandi sjónarmið komi fram, jafnt karla sem kvenna“. Í greinargerð með því frumvarpi sem varð að lögunum segir m.a. að greinin vísi „til þeirra hugmynda sem liggja til grundvallar upplýstri umræðu og ákvarðanatöku í lýðræðissamfélagi“, auk þess sem tekið er fram að til þess að borgarar geti myndað sér skoðanir og tekið upplýstar ákvarðanir þurfi þeir að hafa aðgang að ólíkum sjónarmiðum.

Hvað varðar eftirlit fjölmiðlanefndar er 26. gr. hins vegar sér á báti í samanburði við flest önnur ákvæði laganna um skyldur fjölmiðla, enda eiga hin hefðbundnu úrræði nefndarinnar samkvæmt lögunum ekki við um 26. gr. Þannig hefur nefndin ekki heimild til að leggja á stjórnvaldssektir vegna brota á 26. gr. Þá varða brot gegn greininni ekki refsingu og því kemur ekki til álita að kæra brot gegn 26. gr. til lögreglu. Dagsektarheimild vegna brota á 26. gr. er ekki heldur fyrir að fara. Í lögskýringargögnum er það fyrirkomulag, að „ekki verði að svo stöddu veittar heimildir til fjölmiðlanefndar að grípa til viðurlaga“ vegna brota gegn 26. gr., rökstutt með þeim hætti að „ákvæðið um lýðræðislegar grundvallarreglur beri að túlka sem stefnuyfirlýsingu um grundvallarreglur í fjölmiðlun en ekki sé með því ætlunin að setja tjáningarfrelsi íslenskra fjölmiðla auknar skorður“.

Af framangreindu er ljóst að fjölmiðlanefnd hefur ekki heimild til að grípa til viðurlaga vegna meintra brota gegn 26. gr. Ekki hefur nefndin heldur heimild til að gefa fjölmiðlaveitum fyrirmæli um hvernig umfjöllun þeirra í aðdraganda kosninga skuli háttað. Þann 14. maí 2012 tók nefndin því þá ákvörðun, eftir athugun að eigin frumkvæði á því hvort ástæða væri til almennra aðgerða í aðdraganda kosninga, að slíkt kæmi ekki til álita í ljósi valdheimilda nefndarinnar.

Rétt er þó að árétta, að hvað sem úrræðum fjölmiðlanefndar líður, stendur 26. gr. eftir sem stefnuyfirlýsing, sem fjölmiðlaveitum ber að hafa í heiðri. Hvetur fjölmiðlanefnd fjölmiðlaveitur til þess að hafa 26. gr. og þær hugmyndir sem að baki henni búa í huga á næstu vikum og gæta þess að sjónarmið allra forsetaframbjóðenda fái að koma fram.