Verkefni fjölmiðlanefndar

VERKEFNI FJÖLMIÐLANEFNDAR

Verkefni fjölmiðlanefndar eru af ýmsum toga. Hér er yfirlit yfir þau helstu:

Samkvæmt lögum um fjölmiðla nr. 38/2011

 1. Að tryggja að innan stjórnsýslunnar sé yfirsýn og þekking á íslenskum fjölmiðlum og fjölmiðlamarkaði í ljósi þess að fjölmiðlar eru taldir hornsteinn sérhvers lýðræðisríkis.
 2. Að veita almenn leyfi og skammtímaleyfi.
 3. Að birta upplýsingar um alla skráða fjölmiðla hér á landi.
 4. Að tryggja gagnsæi eignarhalds fjölmiðla.
 5. Að hafa eftirlit með fjölræði og fjölbreytni í fjölmiðlum ásamt Samkeppniseftirlitinu (samþjöppun eignarhalds).
 6. Að tryggja vernd barna gagnvart efni sem getur haft skaðleg áhrif á þau, þ.m.t. í sjónvarpsþáttum, kvikmyndum, tölvuleikjum, svo og auglýsingum og annarri markaðssetningu
 7. Að stuðla að miðlalæsi, þ.e. að notendur fjölmiðla geti notað, greint og metið mátt mynda, hljóðs og skilaboða í samtímamenningunni sem verða á vegi þeirra á degi hverjum.
 8. Að hafa eftirlit með því að skýr skil séu á milli auglýsinga og ritstjórnarefnis til að notendur hafi upplýsingar um hvort efni sem er til umfjöllunar sé birt vegna þess að það er talið áhugavert eða hvort greitt hafi verið fyrir umfjöllunina.
 9. Að gæta að því að íslenskar sjónvarpsstöðvar miðli efni sínu á íslensku eða með íslenskum texta.
 10. Að tryggja að þeir sem telja að lögmætir hagsmunir sínir, einkum æra eða orðspor hafi beðið tjón af því að rangt hafi verið farið með staðreyndir í fjölmiðli geti komið á framfæri andsvörum í fjölmiðlinum.

Samkvæmt lögum um Ríkisútvarpið, fjölmiðil í almannaþágu nr. 23/2013

 1. Að meta árlega hvort Ríkisútvarpið uppfylli almannaþjónustuhlutverk sitt skv. 3. gr. laga um Ríkisútvarpið og noti ekki ríkisstyrki í samkeppnisrekstur.
 2. Meta nýja þjónustu Ríkisútvarpsins og hvort hún falli undir það að teljast almannaþjónusta eða samkeppnisrekstur.
 3. Að hafa eftirlit með því að RÚV framfylgi strangari auglýsingareglum en aðrir fjölmiðlar.

Samkvæmt lögum nr. 62/2006 um eftirlit með aðgangi barna að kvikmyndum og tölvuleikjum:

1.   Eftirlit með því að kvikmyndahús og sjónvarpsstöðvar aldursmeti efni og styðjist þar við alþjóðlega viðurkennd skoðunarkerfi þannig að foreldrar og börn séu upplýst um það hvort efnið er við hæfi tiltekinna aldurshópa.

Starfsemi og áherslur nefndarinnar 2014-2015:

 1. Útgáfa almennra leyfa og skammtímaleyfa (rúmlega 40 almenn leyfi í gildi).
 2. Umsýsla vegna skráninga fjölmiðla (rúmlega 130 fjölmiðlar skráðir hjá fjölmiðlanefnd).
 3. Víðtæk upplýsingagjöf um íslenska fjölmiðla, m.a. um eignarhald, á heimasiðu fjölmiðlanefndar.
 4. Fylgjast með tækniþróun og breytingum á fjölmiðlamarkaði, m.a. út frá fjölbreytni og fjölræði á markaði (eignarhald fjölmiðla).
 5. Óska eftir því að fjölmiðlar setji sér reglur um ritstjórnarlegt sjálfstæði og staðfesta slíkar reglur þegar við á.
 6. Öflun upplýsinga og eftirfylgni með því að kvikmyndahús og sjónvarpsstöðvar aldursmeti efni  og styðjist þar við alþjóðlega viðurkennd skoðunarkerfi.
 7. Mótun og framkvæmd árlegrar skýrslugjafar fjölmiðla til fjölmiðlanefndar skv. lögum.
 8. Árlegt mat fjölmiðlanefndar á því hvort Ríkisútvarpið uppfylli fjölmiðlaþjónustuhlutverk sitt í almannaþágu samkvæmt lögum.
 9. Að hefja undirbúning á eftirliti með notkun ríkisstyrkja til Ríkisútvarpsins og að þeir séu ekki nýttir í samkeppnisrekstur.
 10. Að halda ýmis málþing til að skapa vettvang til umræðu, m.a. um sjálfstæði ritstjórna, um vernd barna og um lýðræðislegar grundvallarreglur
 11. Gefa út og kynna upplýsingar um börn og miðlanotkun, útbúa kennsluefni fyrir öll stig grunnskóla um miðlalæsi og búa til sjálfspróf fyrir ólíka aldurshópa um miðlalæsi í samstarfi við Heimili og skóla.
 12. Meðferð kvartana og annarra erinda auk frumkvæðismála sem varða m.a.:
 • Eftirlit með því að ekki séu auglýsingar í kringum dagskrá sem ætluð er börnum yngri en 12 ára í sjónvarpi.
 • Eftirlit með því að efni sem getur haft skaðleg áhrif á börn hafi ekki verið sýnt á þeim tímum að ætla má að börn séu að horfa.
 • Tryggja að þeir sem telja að æra og orðspor hafi beðið tjón af því að rangt hafi verið farið með staðreyndir fái rétt til andsvara.
 • Tal og texti á íslensku í útvarpi og sjónvarpi.
 • Hatursáróður í fjölmiðlum.
 • Brot á friðhelgi einkalífs og hlutlægniskyldum fjölmiðla.

Öll ríki Evrópu sinna eftirliti með fjölmiðlum líkt og fjölmiðlanefnd gerir hér á landi. Stjórnvöld hafa myndað með sér samtökin European Platform of Regulatory Authorities (EPRA). Aðilar að samtökunum eru 52 stjórnvöld í ríkjum Evrópu sem sinna eftirliti með fjölmiðlum.