Ný löggjöf um vernd barna í Noregi

Aldursmat á myndefni hefur verið til umfjöllunar í nágrannaríkjum Íslands þar sem ólíkir miðlar eru að renna saman og fjölmiðlanotkun hefur tekið miklum breytingum á skömmum tíma. Í mörgum ríkjum er enn sá háttur hafður á að aldursmat á myndefni er ólíkt eftir því hvort er um að ræða kvikmyndir og mynddiska eða sjónvarpsefni. Unnið hefur verið að stefnumótun á þessu sviði í Noregi á síðustu árum. Þann 15. desember 2014 voru samþykkt ný lög í Noregi um vernd barna gegn skaðlegu efni sem taka gildi 1. júlí 2015.

Samkvæmt eldri lögum var það hlutverk norska fjölmiðlaeftirlitsins (n. Medietilsynet) að aldursmerkja kvikmyndir og DVD myndir. Þar sem kvikmyndir eru sýndar í línulegri dagskrá í sjónvarpi og eftir pöntun og lítill  munur er á ólíku myndefni eftir dreifileiðum þótti tímabært að setja á fót samræmt kerfi sem nær til ólíkra tegunda myndmiðlunar. Gildissvið laganna nær nú til línulegs sjónvarps, sjónvarps eftir pöntun, til kvikmynda og mynddiska. Samkvæmt lögunum verður allt myndefni nú aldursmetið og upplýsa þarf almenning um aldursmatið. Þá hefur aldursflokkunum verið breytt og með nýjum lögum verður myndefni leyft öllum aldurshópum eða hópum eldri en 6, 9, 12, 15 og 18 ára. Samkvæmt lögunum er norska fjölmiðlaeftirlitinu gert að setja reglur og leiðbeiningar á grundvelli nýju laganna og hafa eftirlit með því að lögunum sé framfylgt. Jafnframt er þeim ætlað að upplýsa bæði hagsmunaaðila og almenning um hinar nýju reglur.