Um James Bond og aldursmat á myndefni sem sýnt er í sjónvarpi

Nokkuð hefur verið fjallað í fjölmiðlum um þá ákvörðun fjölmiðlanefndar að RÚV hafi verið óheimilt að sýna James Bond kvikmyndina GoldenEye fyrir svokölluð vatnaskil eða rúmum klukkutíma fyrir kl. 22:00 á laugardagskvöldi. Ýmsar spurningar hafa vaknað af þessu tilefni: Af hverju er bannað að sýna efni með aldursmatið 12+ á þessum tíma? Hvað veldur því að GoldenEye er ekki leyfð til sýningar fyrir alla aldurshópa? Af hverju er ekki bannað að sýna fréttir af stríðsátökum og öðru ofbeldi fyrir vatnaskil? Hér verður leitast við að svara þessum og fleiri spurningum.

Vatnaskilaákvæði 28. gr. laga um fjölmiðla er eitt þeirra lagaákvæða sem hvað mest hefur reynt á í ákvörðunum fjölmiðlanefndar frá því lögin tóku gildi árið 2011. Ákvæðið fjallar um vernd barna gegn skaðlegu efni í hljóð- og myndmiðlum og er byggt á sambærilegu ákvæði í hljóð- og myndmiðlunartilskipun ESB. Samskonar ákvæði er að finna í löggjöf nágrannaþjóða, eins og Noregs, Svíþjóðar, Finnlands og Bretlands.

Hver er reglan?
Vatnaskilaákvæðið gengur út á að börn eigi rétt á því að njóta öryggis og verndar gegn fjölmiðlaefni sem ekki er við þeirra hæfi. Ákvæðið byggir á tveggja þrepa kerfi:

1. Í fyrsta lagi er alfarið bannað að sýna í línulegri dagskrá efni sem getur haft alvarleg skaðvænleg áhrif á líkamlegan, andlegan eða siðferðilegan þroska barna. Í þennan flokk fellur fyrst og fremst gróft, tilefnislaust ofbeldi og klám.

2. Í öðru lagi eru gerðar undantekningar frá banni við sýningum á efni sem ekki er við hæfi barna þegar um er að ræða efni sem haft getur skaðvænleg áhrif á börn. Þar á meðal sú undantekning að heimilt er að miðla slíku efni í línulegri dagskrá eftir „vatnaskil“, þ.e. eftir kl. 22 á föstudags- og laugardagskvöldum og eftir kl. 21 önnur kvöld vikunnar og til 5 á morgnana. Skilyrði er að á undan efninu sé birt skýr viðvörun og að efnið sé auðkennt með sjónrænu merki allan tímann sem því er miðlað.

Verður efni að vera leyft til sýninga fyrir alla aldurshópa til að heimilt sé að sýna það fyrir vatnaskil?
Fjölmiðlanefnd hefur túlkað vatnaskilaákvæðið með sambærilegum hætti og eftirlitsstofnanir í nágrannalöndum og dregið mörkin við efni sem fengið hefur aldursmatið 12+. Nefndin hefur þannig ekki gert athugasemdir við að efni sem fengið hefur aldursmatið 6+ eða 9+ sé sýnt fyrir vatnaskil.

Hvaða aldurmatskerfi er notað?
Í skýringum við frumvarp það sem varð að lögum um fjölmiðla kemur fram að þegar efni er aldursmetið sé nærtækast að horfa til þeirra viðmiða sem notuð eru við aldursmat samkvæmt lögum nr. 62/2006 um eftirlit með aðgangi barna að kvikmyndum og tölvuleikjum.

Hollenska skoðunarkerfið Kijkwijzer er það aldursmatskerfi sem kvikmyndahús, sjónvarpsstöðvar og þeir sem gefa út kvikmyndir og tölvuleiki hérlendis segjast nota við aldursmat á kvikmyndum og tölvuleikjum.
Samkvæmt Kijkwijzer-kerfinu, er efni flokkað eftir því hvort það er metið við hæfi barna yngri en 16, 12, 9 eða 6 ára. Hér á landi eru aldursviðmiðin önnur eða 18, 16, 14, 12, 10 og 7 ára. Efni merkt L er leyft öllum aldurshópum. Upplýsingar um þau sjónarmið sem liggja að baki aldursmatinu er að finna á ensku á vefsíðu Kijkwijzer.

Hvað með fréttir?
Sérstaklega er tekið fram í lögum um fjölmiðla að vatnaskilaákvæðið eigi ekki við um fréttir og fréttatengt efni.

Hvað með aðrar dreifileiðir, eins og VOD þjónustu?
Vatnaskilaákvæðið á ekki við um efni sem miðlað er eftir pöntun. Heimilt er að miðla hljóð- og myndefni, sem ekki er talið við hæfi barna, eftir pöntun en skilyrði er að tryggt sé með viðeigandi ráðstöfunum að börn hafi ekki aðgang að því. Viðeigandi tæknilegar ráðstafanir geta falist í því að efnið sé eingöngu aðgengilegt með því að slá inn sérstakt aðgangsnúmar.

Af hverju fær sumt ofbeldisefni aldursmatið 12+ en annað 16+ eða 18+?
Kvikmyndin GoldenEye inniheldur m.a. myndskeið þar sem kona kremur mann til bana í samförum og hópur fólks er felldur í skotárás. Blóðugir áverkar eru hins vegar ekki sýnilegir. Hvað veldur því að þetta efni fær aldursmatið 12+?
Sé efni aldursmetið í samræmi við Kijkwijzer-kerfið veldur sýnilegt ofbeldi í myndefni því að sjónvarpsefnið fær sjálfkrafa aldursmat. Það er með öðrum orðum ekki leyft til sýninga fyrir alla aldurshópa. Það fer síðan eftir því hvort ofbeldið er verulegt eða óverulegt, í hvers konar samhengi ofbeldið er sýnt og hvort ofbeldið veldur sýnilegum áverkum, alvarlegum áverkum eða engum áverkum hvert hið endanlega aldursmat sjónvarpsefnisins er.

Skýra má sjónarmið á bak við mismunandi aldursmat á ofbeldisefni með eftirfarandi hætti. Tekið skal fram að um mikla einföldun er að ræða en ítarlegri skýringar má finna í þessu skjali á vefsíðu Kijkwijzer.

-Myndir leyfðar öllum aldurshópum innihalda ekkert ofbeldi.
-Myndir bannaðar börnum undir 6/7 ára aldri geta verið teiknimyndir sem innihalda ofbeldi í kómísku samhengi.
-Myndir bannaðar börnum yngri en 9/10 ára geta innihaldið ofbeldi með lágu raunveruleikastigi, þ.e. ofbeldi sem fer í eins konar ævintýra- eða fantasíuveröld.
-Myndefni með ofbeldi sem leiðir til sýnilegra áverka, m.a. í raunveruleikaþáttum, er bannað börnum yngri en 12 ára.

Hvað með kynlíf?
Klám veldur því sjálfkrafa að myndefni fær aldursmatið 18+ hér á landi. Neðri mörkin eru skilgreind þannig að innihaldi myndefni kynlíf og kynferðislegar athafnir, jafnvel þótt ekki sé um klám að ræða, er það ekki talið við hæfi barna undir 12 ára aldri.

Vímuefnaneysla
Samkvæmt Kijkwijzer-kerfinu leiðir sýnileg vímuefnaneysla í myndefni til aldursmatsins 16+. Undantekningar eru gerðar ef um fræðslu- og forvarnarefni er að ræða.

Áhugafólki um velferð barna er á það bent að á vefsíðu Kijkwijzer er að finna greinargóða umfjöllun á ensku m.a. um áhrif ofbeldisefnis á börn og þau sjónarmið og hlutlægu viðmið sem búa að baki ólíku aldursmati á myndefni.

Þá má nálgast upplýsingar um aldursmat velflestra kvikmynda sem sýndar eru í sjónvarpi og kvikmyndahúsum með því að slá nafn þeirra inn í leitarglugga á vefsíðu Kijkwijzer.

Að lokum skal þess getið að fjölmiðlanefnd vinnur nú að gerð leiðbeinandi reglna fyrir fjölmiðla um vatnaskilaákvæði fjölmiðlalaga, túlkun þess og beitingu. Reglurnar verða sendar hljóð- og myndmiðlum til umsagnar en verða að því búnu birtar á heimasíðu fjölmiðlanefndar.