Lúxemborg bætir ráð sitt

Stjórnvöld í Lúxemborg vinna nú að gerð nýrrar reglugerðar um vernd barna gegn skaðlegu efni í hljóð- og myndmiðlum en fyrstu drögin að henni voru lögð fram í júlí á síðastliðnu ári. Vinna við reglugerðina var sett á laggirnar til að forðast málsókn en framkvæmdastjórn ESB gaf út álitsgerð þess efnis í nóvember 2013 að ákvæði um vernd barna gegn skaðlegu efni í hljóð- og myndmiðlum hefði ekki verið innleitt með fullnægjandi hætti í landslög í Lúxemborg. Bregðist ríki ekki við slíkum álitsgerðum innan tiltekins tíma getur framkvæmdastjórnin höfðað samningsbrotamál gegn því fyrir Evrópudómstólnum.

Fimm aldursflokkar
Samkvæmt reglugerðardrögunum eiga hljóð- og myndmiðlar, sem skráðir eru í Lúxemborg, að aldursmeta dagskrárefni og skipta því í fimm aldursflokka:
1. Efni leyft öllum aldurshópum
2. Efni sem ekki er við hæfi barna undir 10 ára aldri
3. Efni sem ekki er við hæfi barna undir 12 ára aldri
4. Efni sem ekki er við hæfi barna undir 16 ára aldri
5. Efni sem ekki er við hæfi barna undir 18 ára aldri

Ekki þarf að auðkenna efni sem fellur í fyrsta flokkinn sérstaklega en efni sem fellur í aðra flokka þarf að aldursmerkja með svörtum stöfum á hvítum grunni. Einnig þarf að auðkenna efnið með viðvörun: „Efni þetta er ekki við hæfi barna yngri en 10/12/16/18 ára.“ Þá er gert ráð fyrir að aldursmerkingar og viðvaranir vegna efnis sem ekki er við hæfi barna undir 10 ára aldri verði sýnilegar í eina mínútu við upphaf dagskrárefnis og eftir auglýsingahlé. Aldursmerkingar og viðvaranir vegna efnis sem ekki er við hæfi barna undir 12 eða 16 ára verði á hinn bóginn sýnilegar allan tímann sem efnið er sent út. Þá skal læsa dagskrárefni sem ekki er við hæfi barna yngri en 18 ára og tryggja að það verði eingöngu aðgengilegt með því að slá inn sérstakt aðgangsnúmer.

Ólík vatnaskil eftir aldri
Samkvæmt hinum lúxemborgísku reglugerðardrögum má eingöngu sýna efni bannað börnum undir 12 ára aldri eftir kl. 20 á kvöldin og fyrir kl. 6 á morgnana. Efni bannað börnum undir 16 ára má eingöngu sýna eftir kl. 22 á kvöldin og fyrir kl. 6 á morgnana. Efni bannað börnum undir 18 ára má eingöngu sýna eftir miðnætti og fyrir kl. 6 á morgnana, auk þess sem skylt er að læsa því eins og fyrr segir.
Ásamt því að fjallað er um vernd barna í reglugerðardrögunum er þar að finna reglu fyrir hljóð- og myndmiðla sem senda út frá Lúxemborg en beina efni sínu aðallega að íbúum annarra ríkja í Evrópu. Þeir miðlar hafa val um það hvort reglur staðfesturíkisins, þ.e. Lúxemborg, gildi um aldursmat dagskrárefnis eða reglur í því ríki sem útsendingin beinist að. Skilyrði er að vernd barna sé tryggð með sambærilegum hætti í báðum ríkjum. Tilkynna verður viðeigandi ráðneyti með hvaða hætti fjölmiðlaveitan hyggist tryggja vernd barna og getur ráðuneytið samþykkt eða hafnað því fyrirkomulagi, að höfðu samráði við fjölmiðlaeftirlitið í Lúxemborg.

Fjöldi alþjóðlegra hljóð- og myndmiðla er með staðfestu í Lúxemborg en beinir dagskrá sinni að ríkjum um alla Evrópu. Þar á meðal er Netflix í Evrópu.*

Rétt er að taka fram að reglugerðardrögin eru enn til meðferðar hjá stjórnvöldum í Lúxemborg og geta því átt eftir að taka breytingum.

 

*Uppfært 16. apríl 2015: Höfuðstöðvar Netflix í Evrópu voru færðar frá Lúxemborg til Hollands 1. janúar 2015 og heyrir Netflix í Evrópu því undir hollenska fjölmiðlalöggjöf (Mediawet 2008).