Skiptar skoðanir um réttinn til að gleymast

Rétturinn til að gleymast og túlkun hans hefur valdið ýmsum heilabrotum síðan dómur Evrópudómstólsins í Google Spain málinu féll vorið 2014. Ráðgjafanefnd Google birti nú fyrir helgi skýrslu með niðurstöðum sérfræðifunda, sem haldnir voru um réttinn til að gleymast á síðasta ári. Í nóvember sl. gaf starfshópur á vegum ESB út leiðbeiningar sem taka á ýmsum vafaatriðum um túlkun og beitingu réttarins. Starfshópurinn og ráðgjafanefndin eru ósammála um nokkrar helstu niðurstöður.

Evrópudómstóllinn úrskurðaði síðastliðið vor að einstaklingar eigi svokallaðan rétt til að gleymast á netinu og geti þar með krafist þess að efni sem tengist þeim persónulega verði fjarlægt úr leitarniðurstöðum Google, að tilteknum skilyrðum uppfylltum. Þegar þetta er ritað, þann 12. febrúar 2015, höfðu Google borist 164 beiðnir frá Íslandi um fjarlægingu hlekkja úr leitarniðurstöðum. Dómurinn sætti strax töluverðri gagnrýni, einkum þar sem að með honum þótti einkafyrirtækið Google hafa fengið ritskoðunarvald í hendur sem leitt gæti til óeðlilegrar íhlutunar í tjáningarfrelsi. Þá var takmarkaðar leiðbeiningar að finna í dómnum um hvaða sjónarmið Google ætti að hafa til hliðsjónar þegar þessu nýtilkomna valdi væri beitt.

Fundað með Evrópu
Til að bregðast við þessu hélt  ráðgjafanefnd Google opna fundi í helstu stórborgum Evrópu á tímabilinu september-nóvember sl., þar sem sérfræðingar úr háskólasamfélaginu, fjölmiðlum og eftirlitsstofnunum voru kallaðir til skrafs og ráðagerða. Tilgangurinn var að skapa umræðu um hvernig rétt væri að túlka réttinn til að gleymast, í ljósi niðurstöðu Evrópudómstólsins í vor. Þann 6. febrúar sl. birti ráðgjafanefndin skýrslu um helstu niðurstöður fundahaldanna sem lesa má hér.
Einnig hefur 29. gr. starfshópurinn svokallaði sent frá sér leiðbeiningar um túlkun og beitingu réttarins til að gleymast. Hópinn skipa fulltrúar persónuverndarstofnana í aðildarríkjum ESB en hlutverk hans er m.a. að stuðla að samræmdri framkvæmd persónuverndarlöggjafar í Evrópu. Markmiðið með leiðbeiningunum er tvíþætt: a) að skýra og upplýsa hvernig eftirlitsstofnanir á sviði persónuverndar í Evrópu eigi að túlka Google Spain dóminn og b) að birta lista yfir helstu viðmið sem eftirlitsstofnanir geta stuðst við þegar einstaklingar kæra þá niðurstöðu Google að fjarlægja ekki efni sem þeim tengist. Af þessum tveimur skjölum má ráða að ráðgjafanefnd Google og 29. gr. hópinn greinir nokkuð á um túlkun réttarins til að gleymast.

Á að tilkynna til fjölmiðla?

Á meðal þess sem hæst ber í leiðbeiningum 29. gr. hópsins má nefna að leitarvélar eigi að meginreglu ekki að tilkynna vefmiðlum þegar hlekkir sem vísa á efni þeirra eru fjarlægðir úr leitarniðurstöðum tengdum tilteknu nafni. Eftir að dómurinn féll hafði Google nefnilega þann háttinn á að tilkynna miðlunum hvaða hlekkir á efni þeirra hefðu verið fjarlægðir. Í einhverjum tilfellum gripu fjölmiðlar boltann og brugðust við slíkum tilkynningum með því að skrifa nýjar fréttir í mótmælaskyni. Þar var iðulega fjallað um þá staðreynd að hlekkir á tiltekið efni hefðu verið fjarlægðir – og með fréttinni var birtur nýr hlekkur á efnið sem átti að „gleymast“. Þessu vill 29. greinar hópurinn breyta en ráðgjafanefnd Google er á annarri skoðun. Í skýrslu sinni frá 6. febrúar mælir hún með því að miðlum sem birta efni á netinu verði áfram tilkynnt ef hlekkir á efni þeirra eru fjarlægðir úr leitarniðurstöðum.

Gildir rétturinn líka um google.com?
Í öðru lagi segir í leiðbeiningum 29. gr. hópsins að sú túlkun Google á dómi Evrópudómstólsins, að fyrirtækinu beri eingöngu að eyða hlekkjum á evrópskum útgáfum Google, eins og google.es og google.is en ekki af google.com, standist ekki. Fyrirtækinu beri einnig að eyða hlekkjum úr leitarniðurstöðum á google.com. Með þessu bregst starfshópurinn við þeirri gagnrýni sem Google Spain dómurinn hefur fengið um að í honum sé ekki tekið á sjónarmiðum um lögsögu eða landamæri. Því hafi Google getað túlkað dóminn jafn þröngt og raun ber vitni.
Í skýrslu ráðgjafanefndar Google er niðurstöðum öfugt farið og telur nefndin eðlilegt að áfram verði miðað við landsbundnar útgáfur Google en ekki google.com.

Tjáningar- og upplýsingafrelsi vegur þungt
Í þriðja lagi segir í leiðbeiningunum að ekki megi gleyma hagsmunum netnotenda af því að hafa aðgang að upplýsingum í gegnum leitarvélar. Þannig verði ávallt að taka mið af réttinum til tjáningar- upplýsingafrelsis þegar beiðnir einstaklinga um að falla í gleymsku á netinu séu vegnar og metnar.

Google setti strax upp eyðublöð á heimasíðu sinni í vor, þar sem Evrópubúar geta óskað eftir því að hlekkir á tilteknar persónuupplýsingar verði afmáðir af netinu. Hafni Google þeirri beiðni getur fólk kært niðurstöðuna til innlendrar eftirlitsstofnunar á sviði persónuverndar sem hefur heimild til að sekta fyrirtækið. Í leiðbeiningum 29. gr. starfshópsins er birtur listi yfir helstu viðmið sem eftirlitsstofnanir geta stuðst við þegar niðurstöður Google og annarra leitarvéla eru kærðar:
1. Tengist leitarniðurstaðan tilteknum einstaklingi?
2. Er einstaklingurinn opinber persóna?
3. Er einstaklingurinn undir lögaldri?
4. Eru upplýsingarnar réttar/nákvæmar?
5. Tengjast upplýsingarnar starfi viðkomandi?
6. Vísar hlekkurinn á efni sem flokkast sem hatursáróður/rógur/meiðyrði gegn viðkomandi?
7. Eru upplýsingarnar viðkæmar í skilningi persónuverndarlöggjafar ESB?
8. Eru upplýsingarnar úreltar?
9. Hvetja/leiða upplýsingarnar til fordóma gegn viðkomandi?
10. Í hvaða samhengi voru upplýsingarnar birtar?
11. Mátti viðkomandi gera ráð fyrir að upplýsingarnar yrðu birtar opinberlega?
12. Var efnið upphaflega birt í tengslum við fréttir eða fréttamennsku? 13. Tengjast upplýsingarnar saknæmu athæfi?

Nánar er fjallað um hugmyndafræðina á bak við réttinn til að gleymast og áhrif hans á tjáningarfrelsi fjölmiðla í grein eftir lögfræðing fjölmiðlanefndar sem lesa má á pdf-formi hér. Greinin birtist í Blaðamanninum, félagstíðindum Blaðamannafélags Íslands í desember 2014.