Netflix í Evrópu með sama aldursmatskerfi og Ísland

Bandaríska myndveitan Netflix Inc. flutti snemma á árinu evrópska hluta starfsemi sinnar frá Lúxemborg til Hollands. Netflix í Evrópu heyrir því nú undir hollenska fjölmiðlalöggjöf, sem byggð er á hljóð- og myndmiðlunartilskipun Evrópusambandsins, líkt og lög um fjölmiðla nr. 38/2011.

Netflix í Evrópu var skráð með staðfestu í Lúxemborg þar til 1. janúar 2015 en 9. janúar sl. sótti fyrirtækið um skráningu myndveitunnar í Hollandi. Umsóknin var samþykkt 3. mars sl. með ákvörðun hollenska fjölmiðlaeftirlitsins, sem hefur eftirlit með framkvæmd fjölmiðlalaganna þar í landi. 

Þetta þýðir að Netflix í Evrópu þarf, eftir sem áður, að uppfylla kröfur um hlutfall evrópsks efnis í áskriftarveitu sinni og fara að evrópskum reglum um miðlun auglýsinga, kostun og vöruinnsetningar, líkt og aðrir evrópskir fjölmiðlar sem miðla efni eftir pöntun. Hið sama gildir um reglur um vernd barna gegn skaðlegu efni og hefur Netflix samið við NICAM í Hollandi (Netherlands‘ Institute for Classification of Audiovisual Media) um notkun Kijkwijzer-aldursmatskerfisins við aldursmat. Þetta er sama aldursmatskerfi og hérlendar sjónvarpsstöðvar, kvikmyndahús og myndveitur nota við aldursmat.

Kijkwijzer-táknin endurspegla innihald myndefnis og gefa til kynna hvort efnið innihaldi ofbeldi, mismunun, ljótt orðbragð, efni sem valdið getur hræðslu eða kynlíf. Þá er myndefnið aldursmetið og merkt eftir því hvort það er metið við hæfi barna yngri en 6, 9, 12 eða 16 ára en efni merkt „AL“ er leyft öllum aldurshópum. 

Þess má geta að samkvæmt upplýsingum frá FRÍSK (félagi rétthafa í sjónvarps- og kvikmyndaiðnaði) hafa hérlendir myndmiðlar, myndveitur og kvikmyndahús nýverið ákveðið að byggja á sömu aldursviðmiðum og notuð eru í Kijkwijzer-kerfinu, auk þess sem 18 ára aldursviðmið gildir einnig hér á landi. Fjórtán ára aldursviðmið verður aflagt, „6“ og „9“ kemur í stað „7“ og „10“ og efni leyft öllum aldurshópum verður eftir sem áður merkt „L“.