Ákvörðun nr. 4/2015 um óheimil viðskiptaboð fyrir áfengi í kynningarblaði DV um bjór

Fjölmiðlanefnd hefur komist að þeirri niðurstöðu að með útgáfu fylgiblaðsins Bjór, sem út kom og dreift var með DV föstudaginn 27. febrúar sl., hafi DV ehf. brotið gegn 4. mgr. 37. gr. laga um fjölmiðla nr. 38/2011 um bann við viðskiptaboðum fyrir áfengi.

Málavextir voru þeir að föstudaginn 27. febrúar 2015 kom út kynningarblað um bjór á vegum DV og var blaðinu dreift með DV sama dag Í blaðinu var umfjöllun um íslenskar og erlendar bjórtegundir, þar á meðal umfjöllun um tvo nýja bjóra frá Bruggsmiðjunni Kalda og umfjöllun um sjö ólíkar bjórtegundir sem fyrirtækið Haugen Gruppen hefur umboð fyrir. Í báðum tilfellum voru birtar myndir af umbúðum þeirra áfengistegunda sem fjallað var um og voru vörumerkin ýmist tiltekin í fyrirsögn eða undirfyrirsögn í nefndum greinum. Í blaðinu var einnig annars konar umfjöllun um bjór, þ. á m. viðtöl við eiganda Skúla Craftbar og viðtal um bjórbruggun við eiganda Ámunnar en óljóst var hvort sú umfjöllun teldist til ritstjórnar- eða kynningarefnis. Á öllum síðum kálfsins var merkt efst á síðu að um kynningarblað væri að ræða og var blaðið þannig aðgreint frá ritstjórnarefni DV.

Í 4. mgr. 37. gr. laga um fjölmiðla segir að viðskiptaboð fyrir áfengi séu óheimil. Fjölmiðlanefnd óskaði eftir upplýsingum og sjónarmiðum DV vegna meintra brota á 4. mgr. 37. gr. laga um fjölmiðla og einnig sjónarmiða vegna 1. og 2. mgr. 37. gr. laganna þar sem fram kemur að dulin viðskiptaboð séu óheimil og að viðskiptaboð skuli vera auðþekkjanleg sem slík og skýrt afmörkuð frá öðru ritstjórnarefni. Sjónarmið DV ehf. bárust fjölmiðlanefnd með bréfum dags. 23. mars og 19. maí sl. og eru þau rakin í ákvörðun fjölmiðlanefndar.

Niðurstaða fjölmiðlanefndar var að með útgáfu og dreifingu fylgiblaðsins Bjór hafi DV ehf. brotið gegn 4. mgr. 37. gr. laga um fjölmiðla nr. 38/2011. Taldi fjölmiðlanefnd hæfilegt að stjórnvaldssekt vegna brotsins næmi 750.000 kr. Við ákvörðun sektarfjárhæðar var tekið mið af því að brotið var gegn 4. mgr. 37. gr. laganna og ávinnings af því.

Ákvörðun nr. 4/2015