Ákvörðun nr. 5/2015 um óheimil viðskiptaboð fyrir áfengi og duldar auglýsingar í fylgiblaði 365 miðla um bjór

Fjölmiðlanefnd hefur komist að þeirri niðurstöðu að með útgáfu fylgiblaðsins Bjórmenning á Íslandi, sem út kom og dreift var með Fréttablaðinu þann 21. mars 2015, hafi 365 miðlar hf. brotið gegn 4. mgr. 37. gr. laga um fjölmiðla nr. 38/2011 um bann við viðskiptaboðum fyrir áfengi. Þá var það einnig niðurstaða fjölmiðlanefndar að 365 miðlar hf. hafi brotið gegn 1. mgr. 37. gr. um skyldu til aðgreiningar ritstjórnarefnis og viðskiptaboða og 2. mgr. 37. gr. um bann við duldum auglýsingum.

Málavextir voru þeir að laugardaginn 21. mars 2015 kom út kynningarblaðið Bjórmenning á Íslandi á vegum 365 miðla og var blaðinu dreift með Fréttablaðinu sama dag. Í blaðinu  var umfjöllun um 24 íslenskar og erlendar bjórtegundir. Með rituðum texta voru birtar myndir af umbúðum þeirra áfengistegunda sem fjallað var um og voru vörumerkin ýmist tiltekin í fyrirsögn eða undirfyrirsögn. Í blaðinu var einnig umfjöllun um bjórskóla Ölgerðarinnar og umfjöllun um Skúla Craft Bar en óljóst var hvort sú umfjöllun teldist til ritstjórnar- eða kynningarefnis.

Ekkert í blaðinu gaf til kynna að um kynningar- eða auglýsingablað væri að ræða, að greitt væri fyrir þessa umfjöllun eða að fyrir hana kæmi endurgjald bjórframleiðenda, umboðsaðila eða annarra hagsmunaaðila.

Í 4. mgr. 37. gr. laga um fjölmiðla kemur fram að viðskiptaboð fyrir áfengi séu óheimil. Í 1. mgr. 37. gr. laganna segir að viðskiptaboð skuli vera auðþekkjanleg sem slík og skýrt afmörkuð frá öðru ritstjórnarefni. Þá er kveðið á um bann við duldum auglýsingum í 2. mgr. 37. gr. laganna. Fjölmiðlanefnd óskaði, með bréfi dags. 25. mars sl., eftir upplýsingum og sjónarmiðum 365 miðla vegna meintra brota á 4. mgr. 37. gr. laga um fjölmiðla og einnig sjónarmiða vegna 1. og 2. mgr. 37. gr. laganna. Sjónarmið 365 miðla bárust fjölmiðlanefnd með bréfum dags. 24. apríl og 5. júní sl. og eru þau rakin í ákvörðun fjölmiðlanefndar.

Fjölmiðlanefnd óskaði einnig eftir upplýsingum og sjónarmiðum framleiðenda og umboðsaðila þeirra vörutegunda sem til umfjöllunar voru í fylgiblaði 365 miðla. Voru bréf þess efnis send til fjögurra fyrirtækja: Ölgerðarinnar, Vífilfells hf., Haugen Gruppen ehf. og Vín tríós. Svör bárust nefndinni frá Ölgerðinni, Vífilfelli og Haugen Gruppen, þar sem m.a. kom fram að fyrirtækin hefðu greitt fyrir umfjöllunina gegn reikningi frá 365 miðlum. 

Niðurstaða fjölmiðlanefndar var að með útgáfu og dreifingu fylgiblaðsins Bjórmenning á Íslandi hafi 365 miðlar hf. brotið gegn 1., 2. og 4. mgr. 37. gr. laga um fjölmiðla nr. 38/2011. Taldi fjölmiðlanefnd hæfilegt að stjórnvaldssekt vegna brotsins næmi 2.000.000 kr. Við ákvörðun sektarfjárhæðar var tekið mið af því að brotið var gegn 1., 2. og 4. mgr. 37. gr. laganna og ávinnings af því. 

Ákvörðun nr. 5/2015