Ofsóknir gegn blaðamönnum ógna frelsi fjölmiðla

Ofsóknir og árásir gegn blaðamönnum og bloggurum eru viðvarandi vandamál og grófar hótanir í garð kvenkyns blaðamanna færast í aukana á netinu. Þetta var á meðal þess sem fram kom í erindi Dunju Mijatovic, fulltrúa ÖSE  fyrir frelsi fjölmiðla, á hádegisfundi í Háskóla Íslands í gær. Hún sagði mikilvægt fyrir að viðhalda og styrkja frelsi fjölmiðla hér á landi.

Dunja Mijatovic er í tveggja daga heimsókn hér á landi til að kynna sér íslenskt fjölmiðlaumhverfi og hefur meðal annars fundað með ráðherrum, alþingismönnum, Blaðamannafélagi Íslands og fjölmiðlanefnd. Í erindi sínu kom hún inn á þær ógnir sem steðja að blaðamönnum og bloggurum víða um heim, ekki síst konum sem starfa í fjölmiðlum. Þær verði í auknum mæli fyrir grófum hótunum á netinu, þar sem þeim sé meðal annars hótað nauðgunum og lífláti.

Mijatovic hefur verið ötul við að vekja athygli á morðum og árásum gegn blaðamönnum í krafti embættis síns hjá ÖSE (Öryggis- og samvinnustofnun Evrópu). Hún hefur meðal annars sent frá sér opinberar yfirlýsingar, þar sem fangelsisdómar yfir rannsóknarblaðamönnum í Azerbajdan, Tyrklandi og víðar hafa verið fordæmdir.  Í erindi sínu í gær sagði hún ástandið sérstaklega slæmt í Tyrklandi og nefndi að fyrir þremur árum hafi meira en hundrað blaðamenn setið í fangelsi þar í landi, fyrir meinta þátttöku í hryðjuverkastarfsemi. Þannig reyni stjórnvöld að þagga niður í gagnrýnisröddum.

Mijatovic benti á að ofsóknir gegn blaðamönnum ógni ekki eingöngu öryggi einstakra blaðamanna, heldur sé framtíð blaðamennsku í húfi. Þannig kjósi til  dæmis færri og færri að læra blaðamennsku og leggja hana fyrir sig.

Hvað Ísland varðar sagði Mijatovic helstu áskorunina vera að viðhalda því frjálsa fjölmiðlaumhverfi sem nú þegar er til staðar hér á landi og styrkja það. Hún lýsti ánægju sinni með að refsingar vegna guðlasts hafi verið afnumdar úr íslenskum lögum og kvaðst styðja hugmyndir um afnám refsinga vegna ærumeiðinga. Mikilvægt væri að vernda ríkisfjölmiðilinn, líkt og í öðrum löndum. Þá fjallaði Mijatovic stuttlega um skyldu fjarskiptafyrirtækja til gagnageymdar og sagði slíkar lagareglur grafa undan vernd heimildarmanna og þar með frelsi fjölmiðla. Hér á landi er fjarskiptafyrirtækjum skylt að varðveita gögn um fjarskiptaumferð notenda í sex mánuði í þágu rannsókna sakamála og almannaöryggis.

Í lok erindis síns var Mijatovic spurð hvort hún ætti einhver ráð til handa nemum í blaðamennsku. Svar hennar var stutt og laggott:

1. Gættu að öryggi þínu (e. „stay safe“).
2. Verndaðu heimildarmenn þína með öllum ráðum.
3. Leggðu blaðamennsku eingöngu fyrir þig ef þú hefur raunverulega ástríðu fyrir starfinu.

Fréttatilkynning Dunju Mijatovic í kjölfar tveggja daga heimsóknar hennar til Íslands. 

Hér má lesa umfjöllun Ríkisútvarpsins um erindi Dunju Mijatovic á hádegisfundinum í gær.    

 

 
Dunja Mijatovic og fylgdarlið hitti fulltrúa fjölmiðlanefndar í morgun. Frá vinstri: Auðunn Atlason, sendiherra og fastafulltrúi Íslands hjá ÖSE, Ingvil Conradi Anderson, ráðgjafi hjá ÖSE, Karl Axelsson, formaður fjölmiðlanefndar, Hulda Árnadóttir, varaformaður fjölmiðlanefndar, Elfa Ýr Gylfadóttir, framkvæmdastjóri fjölmiðlanefndar, Dunja Mijatovic fulltrúi ÖSE fyrir frelsi fjölmiðla, Juan Barata ráðgjafi hjá ÖSE og Heiðdís Lilja Magnúsdóttir lögfræðingur.