Persónuvernd í Finnlandi mátti banna birtingu á skattaupplýsingum í fjölmiðlum

Persónuverndarstofnun Finnlands mátti banna finnskum fjölmiðli að birta mikið magn skattaupplýsinga um finnska skattgreiðendur. Þetta er niðurstaða Mannréttindadómstóls Evrópu frá því í sumar en málið hafði velkst í réttarkerfinu í mörg ár.

Mannréttindadómstóll Evrópu komst nýverið að niðurstöðu í áhugaverðu máli sem varðar samspil tjáningarfrelsis fjölmiðla og friðhelgi einkalífs. Málið varðaði birtingu á skattaupplýsingum einstaklinga í finnskum fjölmiðli en birting skattaupplýsinga um einstaklinga í fjölmiðlum hefur lengi tíðkast á Norðurlöndum, utan Danmerkur, þar á meðal á Íslandi.

Málavextir voru þeir að finnskt fjölmiðlafyrirtæki hafði árið 2002 nálgast opinberar upplýsingar um skattgreiðslur 1,2 milljón einstaklinga hjá finnskum skattayfirvöldum og birt þær í svæðisbundnum útgáfum af tímariti sínu, Veropörssi. Þess má geta að íbúafjöldi í Finnlandi er rúmlega 5 milljónir. Fjarskiptafyrirtæki í eigu sömu aðila fékk einnig aðgang að upplýsingunum og bauð farsímaeigendum að fá þær sendar í sms-skilaboðum.

Umboðsmaður persónuverndar í Finnlandi taldi það brot á persónuverndarlögum að miðla slíku magni af skattaupplýsingum með þessum hætti og beindi þeim tilmælum til fyrirtækjanna að því yrði hætt. Þegar þeim tilmælum var hafnað vísaði umboðsmaðurinn málinu til Persónuverndarstofnun Finnlands, sem fellst ekki á rök hans. Stofnunin taldi persónuverndarlög ekki eiga við í málinu þar sem gögnin hefðu verið birt í fjölmiðli áður en þau voru send með sms-skilaboðum. Blaða- og fréttamennska er undanþegin gildissviði persónuverndarlaga í Finnlandi líkt og hér á landi.

Eru sms-skilaboð blaðamennska?
Umboðsmaðurinn áfrýjaði til finnskra dómstóla sem höfnuðu áfrýjunarbeiðninni með vísan til þess að fjölmiðillinn hefði sinnt blaðamennsku í þágu almannahagsmuna, auk þess sem upplýsingarnar væru opinberar hvort sem er. Umboðsmaður áfrýjaði þeirri niðurstöðu til æðra dómstigs og var þá leitað forúrskurðar Evrópudómstólsins í málinu. Í niðurstöðu hans frá 16. desember 2008 segir að þær athafnir fyrirtækjanna að birta opinberar skattaupplýsingar og dreifa þeim til viðskiptavina með sms-skilaboðum geti talist fréttamennska í þágu almennings, þótt fjölmiðlarnir séu óhefðbundnir og miðli upplýsingunum í gróðaskyni. Dómstóllinn lét finnskum dómstólum hins vegar eftir að meta hvort sú niðurstaða ætti við í þessu tilviki.

Finnski áfrýjunardómstóllinn blés á niðurstöðu Evrópudómstólsins, vísaði málinu aftur til finnsku persónuverndarstofnunarinnar og fór fram á að hún bannaði vinnslu, birtingu og miðlun skattaupplýsinga, í því magni og með þeim hætti sem finnsku fyrirtækin höfðu gert. Það sem vó þyngst í þeirri niðurstöðu var það mat dómstólsins að með því að birta slíkt magn upplýsinga um skattgreiðendur og miðla þeim með sms-skilaboðum væri ekki verið að þjóna almannahagsmunum, heldur einungis að seðja forvitni almennings. Þann 26. nóvember 2009 bannaði finnska persónuverndarstofnunin fjölmiðlinum að vinna skattaupplýsingar með þeim hætti og í því magni sem gert hafði verið og að miðla þeim áfram til fjarskiptafyrirtækisins. Fjarskiptafyrirtækinu var sömuleiðis bannað að safna, vista eða miðla skattaupplýsingum sem fjölmiðlafyrirtækið hafði aflað sér og miðla þeim áfram með sms-skilaboðum.

Þar með var málinu þó ekki lokið, heldur velktist það í réttarkerfinu í nokkur ár til viðbótar. Fyrirtækin áfrýjuðu ákvörðun finnsku persónuverndarstofnunarinnar til dómstóla og báru því við að birting og miðlun skattaupplýsinga með sms-sendingum teldist til gagnablaðamennsku (e. data journalism). Þetta væri ekki brot á persónuverndarlögum, þar sem blaðamennska væri undanþegin gildissviði þeirra laga. Var það mat fyrirtækjanna að Persónuverndarstofnunin hefði brotið gegn rétti fjölmiðla til tjáningarfrelsis sem varinn er í 10. gr. Mannréttindasáttmála Evrópu.

Mættu birta – en í minna magni
Eftir að málið hafði verið til meðferðar hjá finnskum dómstólum í meira en átta ár var því vísað til Mannréttindadómstóls Evrópu sem birti niðurstöðu sína 21. júlí sl. Niðurstaða hans féll Persónuverndarstofnun Finnlands í hag. Dómstóllinn taldi að þótt blaðamennska væri undanþegin gildissviði persónuverndarlaga bæri að túlka þá undanþágu þröngt: Birting á skattaupplýsingum í því magni og með þeim hætti sem gert hefði verið 2002 teldist ekki til blaðamennsku. Réttur fjölmiðilsins til tjáningarfrelsis hefði verið takmarkaður með lögmætum hætti og hefði sú takmörkun verið nauðsynleg með hliðsjón af magni upplýsinganna og rétti skattgreiðenda til friðhelgi einkalífs. Í dómnum segir að ekkert standi almennt vegi fyrir því  að fjölmiðillinn birti áfram upplýsingar um skattgreiðslur almennings, svo lengi sem magn upplýsinganna sé minna en raunin var í tímaritinu Veropörssi árið 2002.

Einn dómari af sjö komst að andstæðri niðurstöðu og taldi að fjölmiðlinum hefði verið heimilt að birta upplýsingarnar, óháð magni og aðferð, og að gagnaöflun og úrvinnsla væri óumdeilanlega hluti af starfi blaðamannsins. Því hefði ekki átt að takmarka tjáningarfrelsi fjölmiðilsins. 

Dóminn í heild sinni má lesa hér:

Mannréttindadómstóll Evrópu, Satakunnan Markkinapörssin Oy og Satamedia Oy g. Finnlandi App. No. 931/13 (ECtHR 21. júlí 2015).