Ákvörðun nr. 6/2015 um óheimil viðskiptaboð fyrir áfengi í 10. tölublaði Gestgjafans

Fjölmiðlanefnd tók þann 28. ágúst 2015 til skoðunar áfengiskynningar sem birtar voru í 10. tbl. Gestgjafans, sem út kom í ágústlok 2015. Taldi nefndin tiltekna áfengisumfjöllun í 10. tölublaði Gestgjafans falla undir skilgreiningu laga um fjölmiðla nr. 38/2011 um viðskiptaboð fyrir áfengi.

Meðferð málsins og viðræður fjölmiðlanefndar við Útgáfufélagið Birtíng ehf. leiddu til sáttar í málinu sem undirrituð var 22. október 2015. Sáttin felur það í sér að Birtíngur útgáfufélag skuldbindur sig til að virða bannákvæði 4. mgr. 37. gr. laga um fjölmiðla og tryggja að engum auglýsingum, kynningum eða öðrum viðskiptaboðum fyrir áfengi verði miðlað í fjölmiðlum útgáfunnar. Birtíngur útgáfufélag skuldbindur sig til að greina ritstjórum og auglýsingastjórum Birtíngs útgáfufélags og öðrum hlutaðeigandi aðilum frá þeirri stefnu sem stjórn félagsins hefur markað í samræmi við 4. mgr. 37. gr. laga um fjölmiðla, svo tryggt sé að starfsemi og útgáfa Birtíngs samræmist ákvæðum laga um fjölmiðla um bann við viðskiptaboðum fyrir áfengi í fjölmiðlum. Sáttin felur það jafnframt í sér að fjölmiðlanefnd gerir ekki athugasemdir við að faglegri ritstjórnarumfjöllun um áfengi verði áfram miðlað í Gestgjafanum, á svokölluðum Vínsíðum, enda lúti sá efnisþáttur ritstjórnarlegum lögmálum og sé ekki miðlað gegn greiðslu af neinu tagi.

Ákvörðun nr. 6/2015 dags. 27. október 2015