Leiðbeiningar fjölmiðlanefndar um bann við duldum auglýsingum og kostun og vöruinnsetningu í hljóð- og myndefni

Hvaða reglur gilda um kostað efni? Má kosta fréttir? Hvað er vöruinnsetning? Mega auglýsendur kaupa viðtöl og umfjöllun í fjölmiðlum, án þess að fram komi að greitt hafi verið fyrir umfjöllunina? Hvað er bannað að auglýsa í fjölmiðlum? Um þetta og fleira er fjallað í leiðbeiningum fjölmiðlanefndar um bann við duldum viðskiptaboðum og kostun og vöruinnsetningu í hljóð- og myndefni.

Fjölmiðlum er skylt að merkja viðskiptaboð sem slík og aðgreina þau frá ritstjórnarefni. Þessi regla kemur fram í 1. mgr. 37. gr. laga um fjölmiðla. Engu að síður eru dæmi um að viðskiptaboð í fjölmiðlum séu ekki alltaf nægilega vel aðgreind frá ritstjórnarefni. Því telur fjölmiðlanefnd þörf á að árétta og skýra gildandi réttarreglur á þessu sviði með leiðbeiningum fyrir fjölmiðla um bann við duldum auglýsingum og kostun og vöruinnsetningu í hljóð- og myndefni.

Leiðbeiningunum er fyrst og fremst ætlað að upplýsa starfsfólk og stjórnendur fjölmiðla um gildandi reglur og túlkun fjölmiðlanefndar á þeim. Tilgangurinn er að meðferð fjölmiðlanefndar á málum, er varða brot á lögum um fjölmiðla, verði eins gagnsæ og fyrirsjáanleg og mögulegt er og að gætt verði jafnræðis milli fjölmiðla við meðferð slíkra mála.

Reglur um auglýsingar og önnur viðskiptaboð í lögum um fjölmiðla byggja að stærstum hluta á samsvarandi reglum í hljóð- og myndmiðlunartilskipun Evrópusambandsins 2010/13/ESB. Reynt er að samræma með sem bestum hætti túlkun og eftirlit með því að farið sé að ákvæðunum í einstökum ríkjum á EES-svæðinu. Við gerð leiðbeininga fjölmiðlanefndar var því litið til túlkunar nokkurra eftirlitsstofnana í nágrannaríkjum Íslands á samsvarandi reglum.

Leiðbeiningarnar voru sendar öllum fjölmiðlum til umsagnar í ágúst 2015. Svör bárust frá þremur fjölmiðlaveitum: 365 miðlum, Ríkisútvarpinu og Símanum. 365 miðlar og Ríkisútvarpið gerðu athugasemdir við leiðbeiningarnar og hefur fjölmiðlanefnd tekið rökstudda afstöðu til þeirra. Aðrar fjölmiðlaveitur gerðu ekki athugasemdir við efni skjalsins.