Hvernig er fjölmiðlaumhverfið á Norðurlöndum? Árlegur fundur norrænna fjölmiðlanefnda á Íslandi 13.-14 maí 2019

Kvartanir vegna #metoo frétta, ríkisstyrkir til fjölmiðla og miðlalæsi eldri borgara. Þetta var á meðal þess sem hæst bar á árlegum fundi norrænna fjölmiðlanefnda, sem að þessu sinni fór fram í Reykjavík 13.-14. maí 2019.

Á fundinum var mikið rætt um fyrirhugaðar breytingar á fjölmiðlalöggjöf en á öllum Norðurlöndunum stendur fyrir dyrum endurskoðun laga um fjölmiðla, vegna nýrrar hljóð- og myndmiðlunartilskipunar, sem tók gildi 19. desember 2018 og verður innleidd á næsta ári. Fjármögnun einkarekinna fjölmiðla og almannaþjónustumiðla var líka ofarlega á baugi og greindu fulltrúar Íslands frá fyrirhuguðu frumvarpi um stuðning við einkarekna fjölmiðla. Þá héldu fulltrúar Ríkisútvarpsins fyrirlestra um annars vegar efni fyrir börn og unglinga og hins vegar jafnréttisstefnu RÚV. Hér á eftir er stiklað á stóru um það markverðasta sem fram kom að öðru leyti. 

 

 

 

 

 

 

Frá fyrirlestri um KrakkaRÚV á fundi norrænna fjölmiðlanefnda í Reykjavík.

EINKAREKNIR FJÖLMIÐLAR

Svíþjóð: Nýtt styrkjakerfi

Svíar hafa um árabil veitt beina ríkisstyrki til sænskra dagblaða og hafa nú hækkað bæði dreifingarstyrki og styrki til dagblaða sem út koma þrisvar til sjö sinnum í viku. Dreifingarstyrkir hækkuðu um 50% en rekstrarstyrkir um 10%.

Þann 1. febrúar 2019 var auk þess kynnt nýtt styrkjakerfi sem allir fréttamiðlar geta nýtt sér, óháð miðlunarleiðum, tækni eða formi. Styrkirnir verða veittir til staðbundinna miðla, á svæðum þar sem dekkun fjölmiðla er lítil, og einnig til að styðja við nýsköpun og þróun fjölmiðla almennt. Hingað til hafa stærstu fjölmiðlarnir í Svíþjóð staðið utan styrkjakerfisins, þar sem reglur kveða á um að fjölmiðlar með yfir 30% markaðshlutdeild eigi ekki rétt á styrkjum. Hins vegar fer markaðshlutdeild stóru miðlanna ört minnkandi og því eru þeir sumir hverjir komnir undir 30 prósenta markið. Búist er við að sú þróun haldi áfram vegna örra tæknibreytinga og minnkandi auglýsingatekna.

Noregur: Stuðningur við nýsköpun og þróun

Beinir ríkisstyrkir til dagblaða hafa verið veittir í Noregi frá árinu 1960. Í júlí 2018 hóf norska ríkið að styrkja nýsköpun og þróun í fréttum og fréttatengdu efni sérstaklega. Árið 2018 veitti norska fjölmiðlanefndin Medietilsynet samtals 7 milljónum norskra kr., eða um 98 milljónum íslenskra kr., til átján nýsköpunarverkefna fjölmiðla en alls bárust 71 umsóknir um slíka styrki.

Í mars 2019 kynnti norska ríkisstjórnin svo hvítbók um framtíðarstefnu vegna styrkja til fjölmiðla og fjármögnunar NRK. Í hvítbókinni er m.a. lagt til að stofnað verði sérstakt fjölmiðlastyrkjaráð sem útdeili styrkjum til fjölmiðla en skrifstofuhald verði þó áfram hjá Medietilsynet.

Danmörk: Danir hækka styrki til héraðsfréttablaða

Beinir ríkisstyrkir til danskra prent- og vefmiðla hafa að mestu verið óbreyttir frá 2014. Breytingar eru þó í vændum, m.a. vegna þess að samkvæmt nýrri þverpólitískri samþykkt, um stefnu stjórnvalda á sviði fjölmiðla fyrir 2019-2023, er gert ráð fyrir að einkareknir prent- og vefmiðlar þurfi að uppfylla strangari kröfur um að efni þeirra hafi breiða skírskotun og höfði til almennings.

Þá verða styrkir til nýsköpunar hjá fjölmiðlum hækkaðir og einnig styrkir til staðbundinna prentmiðla. Verða 25 milljónir danskra kr. eða 459 milljónir ísl. kr. eyrnamerktar staðbundnum miðlum árlega, til og með 2023.

FJÖLMIÐLUN Í ALMANNAÞJÓNUSTU

Svíþjóð og Noregur: Frá afnotagjaldi til nefskatts

Afnotagjöld vegna almannaþjónustumiðla heyra sögunni til í Svíþjóð. Nú greiða Svíar útvarpsgjald sem nemur 1% af tekjum þeirra, þó aldrei hærri upphæð en 16.500 ísl. kr. (m.v. árið 2019). Þá er í hvítbók norsku ríkisstjórnarinnar lagt til að horfið verði frá afnotagjaldi vegna fjölmiðla í almannaþjónustu. Þess í stað verði nefskattur tekinn upp í janúar 2020.

Danmörk: Hlutverk DR skilgreint upp á nýtt

Í Danmörku hefur ný þverpólitísk samþykkt, um stefnu stjórnvalda á sviði fjölmiðla fyrir 2019-2023, tekið gildi en hún var samþykkt í júní á síðasta ári. Samþykktinni er ætlað að ýta undir fjölbreytni á dönskum fjölmiðlamarkaði og auka vægi menningarumfjöllunar. Eins og fram hefur komið í fjölmiðlum verða fjárframlög til almannaþjónustumiðilsins DR skert um 20% og verður hlutverk DR fyrst og fremst menningarlegt, með áherslu á fréttir, menningu, fræðsluefni og efni fyrir börn og ungmenni. Meira verður lagt í miðlun efnis á netinu og verður sjónvarpsstöðvum á vegum DR fækkað úr sex í fjórar. Í staðinn fá Danir sjónvarps- og útvarpsstöð sem leggja áherslu á menningar- og fræðsluefni.


 

 

 

 

 

 

Sindri Bergmann Þórarinsson, KrakkaRÚVstjóri, hélt fyrirlestur á norræna fundinum í Reykjavík.

EFTIRLIT OG MIÐLALÆSI

Svíþjóð: Holskefla kvartana vegna frétta um #metoo

Árið 2018 fjölgaði kvörtunum til sænsku fjölmiðlaeftirlitsstofnunarinnar, Myndigheten för press, radio och tv, gríðarlega en alls bárust stofnuninni 6506 kvartanir það ár, mestmegnis vegna umfjallana sem tengdust #metoo í fjölmiðlum. Þar bar hæst umfjöllun um #metoo í sænska fréttaskýringarþættinum Uppdrag granskning en 2000 kvartanir bárust vegna tiltekins innslags í þeim þætti. Gert er ráð fyrir að málið verði tekið fyrir hjá stofnuninni síðar í vor.

Fram til þessa hefur stofnunin birt tvær ákvarðanir vegna umfjöllunar um #metoo í sænskum fjölmiðlum. Í báðum tilvikum voru nokkrir fjölmiðlar taldir hafa brotið gegn friðhelgi einkalífs karlmanns sem um var fjallað en maðurinn er þekktur fjölmiðlamaður í Svíþjóð. Kvartaði hann til sænska fjölmiðlaeftirlitsins, sem komst að þeirri niðurstöðu að sænskir fjölmiðlar hefðu gengið of langt með nafngreiningu hans og yrði hún ekki réttlætt með vísan til almannahagsmuna.

Noregur: Fjölbreytni í fjölmiðlum kortlögð

Norska fjölmiðlaeftirlitsstofnunin, Medietilsynet, hleypti nýverið af stokkunum verkefni sem gengur út á að kortleggja fjölbreytni í fjölmiðlum, greina hvað í því hugtaki felst og marka stefnu um það hvernig auka megi fjölbreytni í norskum fjölmiðlum til framtíðar.


SKIPULAG OG ÁHERSLUR

Finnland: Fjölmiðla- og fjarskiptaeftirlitið sameinað Samgöngustofu

Í upphafi ársins 2019 var FICORA, finnska fjölmiðla- og fjarskiptaeftirlitið, sameinað finnsku samgöngustofunni, undir merkinu TRAFICOM. Að sögn finnskra fulltrúa stofnunarinnar hefur áhersla á stjórnsýslu vegna fjölmiðla minnkað til muna með nýju fyrirkomulagi.

Noregur: Miðlalæsi sett á oddinn

Norska fjölmiðlaeftirlitið Medietilsynet fór nýverið í gegnum gagngera endurskipulagningu og stefnumótun og er miðlalæsi einn af hornsteinum nýrrar stefnu. Niðurstöður viðamikillar könnunar á miðlalæsi Norðmanna voru kynntar óformlega í fyrsta sinn á norræna fundinum á Íslandi en af þeim mátti m.a. ráða að brýnt væri að huga betur að fræðslu um miðlalæsi í eldri aldurshópum, ekki síður en í þeim yngri. Niðurstöðurnar verða birtar opinberlega síðar á árinu.


FJÖLMIÐLARANNSÓKNIR

Danmörk og Svíþjóð: Skýrslur um fjölmiðlaumhverfið 2018

Fjölmiðladeild dönsku menningarstofnunarinnar Slots- og kulturstyrelsen birtir árlega ítarlega skýrslu um þróun fjölmiðlaumhverfisins þar í landi. Skýrsluna fyrir árið 2018 er að finna hér.

Þá hafa Svíar sömuleiðis birt vandaða skýrslu um þróun og stöðu fjölmiðlaumhverfis þar í landi en hana er að finna hér.