Álit fjölmiðlanefndar nr. 4/2019 vegna hlutfalls viðskiptaboða innan hverrar klukkustundar á úrslitakvöldi Söngvakeppninnar 2019 á RÚV

Fjölmiðlanefnd hefur komist að þeirri niðurstöðu að Ríkisútvarpið ohf. hafi brotið gegn 4. mgr. 7. gr. laga um Ríkisútvarpið nr. 23/2013 með birtingu viðskiptaboða umfram leyfilegt hámark innan hverrar klukkustundar í úrslitaþætti Söngvakeppninnar 2019.

Málið var tekið til efnislegrar meðferðar á grundvelli kvörtunar fyrir hönd Símans hf. þar sem kvartað var yfir ætluðu broti Ríkisútvarpsins ohf. á reglum um hámarksauglýsingahlutfall innan hverrar klukkustundar milli klukkan 21:00 og 22:00 í úrslitaþætti Söngvakeppninnar 2019 sem sýndur var í beinni útsendingu á RÚV þann 2. mars 2019. Í áliti fjölmiðlanefndar kemur fram að samkvæmt upplýsingum Ríkisútvarpsins ohf. hafi samanlögð lengd auglýsinga farið 28 sekúndur yfir leyfileg mörk 4. mgr. 7. gr. laga um Ríkisútvarpið nr. 23/2013. Um hafi verið að ræða mannleg mistök vegna misskilnings sem varð við útsendingu þáttarins.

Með vísan til 3. mgr. 17. gr. laga um Ríkisútvarpið nr. 23/2013, þess málatilbúnaðar Ríkisútvarpsins að um mannleg og tæknileg mistök hafi verið að ræða sem allir sem að því komu harmi, að til úrræða hafi verið gripið sem tryggja eigi að samskonar mistök endurtaki sig ekki, og hversu smávægilegt brot Ríkisútvarpsins var, ákvað fjölmiðlanefnd að falla frá sektarákvörðun í málinu.

Álit fjölmiðlanefndar nr. 4/2019