Ákvörðun fjölmiðlanefndar nr. 4/2019 vegna viðskiptaboða fyrir áfengi í kynningarblaðinu Brugghús 1. mars 2019

Fjölmiðlanefnd hefur komist að þeirri niðurstöðu að Torg ehf. hafi brotið gegn 4. mgr. 37. gr. laga um fjölmiðla nr. 38/2011, um bann við viðskiptaboðum fyrir áfengi, með viðskiptaboðum fyrir áfengi í kynningarblaðinu Brugghús, sem fylgdi Fréttablaðinu 1. mars 2019.

Málið var tekið til efnislegrar meðferðar á grundvelli kvörtunar frá Foreldrasamtökum gegn áfengisauglýsingum. Í ákvörðun fjölmiðlanefndar segir að áfengisauglýsingu frá Bryggjunni brugghúsi og kynningarumfjöllun, um Bruggsmiðjuna Kalda, Viking brugghús og Ölgerðina, hafi verið ætlað að þjóna auglýsingamarkmiðum fyrir áfengar vörutegundir með yfir 2,25% áfengisinnihaldi og teljist til viðskiptaboða fyrir áfengi í skilningi 4. mgr. 37. gr. laga um fjölmiðla.

Taldi fjölmiðlanefnd hæfilegt að stjórnvaldssekt vegna brotsins næmi 1.000.000 kr. Við ákvörðun sektarfjárhæðar tók nefndin mið af framangreindri niðurstöðu, alvarleika brots og þess að um ítrekað brot var að ræða. Nefndin leit ennfremur til þess að Torg hafði við meðferð málsins hvorki veitt umbeðnar upplýsingar um tekjur útgáfufélagsins vegna viðskiptaboða í kynningarblaðinu né staðfestingu endurskoðanda á því að engar tekjur eða annað endurgjald hefði komið fyrir umrædda kynningarumfjöllun.

Ákvörðun fjölmiðlanefndar nr. 4/2019