Framkvæmdastjóri fjölmiðlanefndar stýrði fundi stýrinefndar Evrópuráðsins í Strassborg

Í gær stýrði framkvæmdastjóri fjölmiðlanefndar, Elfa Ýr Gylfadóttir, fundi stýrinefndar Evrópuráðsins um fjölmiðla og upplýsingasamfélagið (Steering Committee of Media and Information Society, CDMSI) í Strassborg en fulltrúar allra 47 aðildarríkja Evrópuráðsins sitja í nefndinni.

Elfa Ýr er varaformaður nefndarinnar en gegndi áður stöðu formanns um tveggja ára skeið, frá 2016-2018. Á fundinum var meðal annars fjallað um það hvernig styrkja megi gæðablaðamennsku og álitaefni um mannréttindi vegna vaxandi notkunar á gervigreind.

Þá hélt Elfa Ýr erindi og tók þátt í umræðum á alþjóðlegri ráðstefnu í Belgrad í Serbíu þann 24. maí sl.
Ráðstefnan var haldin í tilefni af 70 ára afmæli Evrópuráðsins á þessu ári og var þar m.a. fjallað um hvernig Evrópuráðið og CDMSI-nefndin hefur unnið að því að styrkja fjölmiðla- og tjáningarfrelsi og áhrif þeirrar vinnu í ólíkjum ríkjum.

Á meðal þátttakenda á ráðstefnunni í Belgrad voru fulltrúar ráðuneyta og eftirlitsaðila, blaða- og fréttamenn og sérfræðingar á sviði tjáningarfrelsis, fjölmiðla og internets.