Skipting auglýsingafjár 2018: Hlutur prentmiðla og sjónvarps nánast jafn

Flestir auglýstu í prentmiðlum og sjónvarpi á Íslandi árið 2018 en rúmur fjórðungur auglýsingafjár rann til vefmiðla. Þetta kemur fram í samantekt fjölmiðlanefndar á skiptingu auglýsingafjár árið 2018.

Framangreindar niðurstöður byggjast eingöngu á upplýsingum um auglýsingakaup sem gerð voru fyrir milligöngu birtingahúsa 2018 en ekki á auglýsingakaupum sem fram fóru milliliðalaust af fjölmiðlunum sjálfum. Talið er að birtingahús ráðstafi um helmingi þess fjár sem fyrirtæki hér á landi verja til auglýsinga í fjölmiðlum og öðrum miðlum.

Hlutur prentmiðla og sjónvarps af birtingafé, þ.e. því auglýsingafé sem birtingahúsin ráðstöfuðu, var nánast jafn árið 2018 en prentmiðlar hafa trónað á toppnum sem vinsælasti auglýsingamiðillinn hér á landi síðustu ár. Hlutur vefmiðla fór áfram stækkandi og nam rúmum fjórðungi þess auglýsingafjár sem ráðstafað var fyrir milligöngu birtingahúsa árið 2018.

Árið 2018 keyptu stærstu birtingahúsin á Íslandi auglýsingar fyrir samtals rúma fimm milljarða króna (5.101.549.364 kr.) sem er lægri upphæð en árið 2017 þegar þau ráðstöfuðu um fimm og hálfum milljarði kr. (5.415.658.414 kr.) til auglýsinga.

Hlutur útvarps minnkaði um tvö og hálft prósentustig frá fyrra ári en á hinn bóginn rann meira fé til auglýsinga á útiskiltum og í kvikmyndahúsum árið 2018 en árið á undan.

 

 

 

 

 

 

Eins og sést á skýringarmyndinni hér að ofan hefur hlutur prentmiðla lækkað um rúm 12 prósentustig frá árinu 2014 og hlutur sjónvarps lækkað um rúm 4 prósentutig. Á sama tímabili hefur hlutur innlendra vefmiðla hækkað um rúm 7 prósentustig og hlutur erlendra vefmiðla um 4 prósentustig. Hlutur útvarps virðist nánast hafa staðið í stað þessi fimm ár, þrátt fyrir hækkun árið 2017.

Vefmiðlar hlutu rúman fjórðung þess auglýsingafjár sem ráðstafað var í gegnum birtingahús árið 2018. Hlutur vefmiðla stækkaði frá fyrra ári og var samtals 26,8% af því auglýsingafé sem birtingahúsin ráðstöfuðu en þar af var hlutur innlendra vefmiðla 19,6%. Rétt er að árétta að ekki eru allar auglýsingar sem keyptar voru milliliðalaust af erlendum miðlum, eins og Facebook, YouTube og Google, inni í þessum niðurstöðum og því má gera ráð fyrir að hlutur erlendra miðla af heildarauglýsingafé hér á landi sé nokkuð stærri en þessar niðurstöður sýna. Hið sama á við um auglýsingar sem keyptar voru milliliðalaust af öðrum miðlum.

 

Þegar auglýsingar á vefmiðlum eru skoðaðar sérstaklega sést að innbyrðis skipting milli innlendra og erlendra vefmiðla breyttist frá fyrra ári, þegar hlutdeild erlendra vefmiðla var 20,9% en hlutdeild innlendra vefmiðla 79,1%. Erlendu netmiðlarnir virðast í talsvert meiri sókn því að árið 2018 hækkaði hlutdeild erlendra vefmiðla í 26,8% á móti 73,2% hlutdeild innlendra vefmiðla.


Samantekt fjölmiðlanefndar er byggð á tölum frá eftirfarandi birtingahúsum:
 Birtingahúsinu, MediaCom, ABS fjölmiðlahúsi, H:N Markaðssamskiptum og Ratsjá Media. Undir merkjum Ratsjár Media starfa Ratsjá og Pipar-TBWA en Pipar-TBWA sameinaðist The Engine árið 2018.

Upplýsingar um skiptingu birtingafjár milli fjölmiðla geta gefið mikilvægar vísbendingar um stöðu og þróun á fjölmiðlamarkaði. Þetta er í fimmta sinn sem fjölmiðlanefnd birtir samantekt um skiptingu birtingafjár milli miðla. Fyrri niðurstöður eru m.a. aðgengilegar í ársskýrslum fjölmiðlanefndar.