Verða alþjóðlegar sjónvarpsstöðvar heimilislausar eftir Brexit?

Brexit gæti haft áhrif á endurvarp tæplega fjörutíu alþjóðlegra sjónvarpsstöðva, sem Íslendingar hafa aðgang að hér á landi. Gangi Bretar úr ESB án samnings 31. október næstkomandi verður sjónvarpsstöðvum í breskri lögsögu ekki lengur heimilt að miðla efni sínu yfir landamæri EES-ríkja, þar á meðal til Íslands. Þar á meðal eru stöðvar, eins og CNN International, BBC World, Sky News og Discovery Channel. Flestar stærri sjónvarpsstöðvanna hafa þó þegar gert ráðstafanir til að færa sig yfir í lögsögu annars EES-ríkis ef til útgöngu án samnings kemur.

Þann 31. október næstkomandi gætu Bretar gengið úr Evrópusambandinu án samnings, þótt fyrir liggi að sú útganga gæti frestast. Brexit án samnings þýðir að hljóð- og myndmiðlunartilskipun ESB tekur ekki lengur til myndmiðla í breskri lögsögu og verður þeim þá ekki lengur heimilt að miðla efni sínu yfir landamæri EES-ríkja á grundvelli hennar.

Þetta mun hafa víðtæk áhrif á starfsemi yfir fimm hundruð alþjóðlegra sjónvarpsstöðva sem starfa í Bretlandi og jafnframt verða mikil blóðtaka fyrir breskt atvinnulíf. Margar þessara stöðva eru bandarískar eða eiga uppruna sinn í Asíu og starfa í Bretlandi samkvæmt leyfum sem Ofcom, breska fjölmiðla- og fjarskiptaeftirlitið, veitir. Samkvæmt meginreglunni um upprunaríki í hljóð- og myndmiðlunartilskipun Evópusambandsins gilda slík leyfi á öllu EES-svæðinu á meðan Bretland er í Evrópusambandinu. Fjölmiðlaveita með gilt leyfi í EES-ríki þarf því einungis að hlíta lögum og reglum í einu ríki þótt efni hennar sé aðgengilegt í fjölda annarra ríkja.

Um fjörutíu breskum stöðvum endurvarpað hér á landi

Síminn, Vodafone og fleiri aðilar endurvarpa fjölda erlendra sjónvarpsstöðva hér á landi en þar af eru tæplega fjörutíu stöðvar í breskri lögsögu. Eftir Brexit án samnings verður litið á Bretland sem þriðja ríki, þ.e. ríki utan EES, og gildir meginregla hljóð- og myndmiðlunartilskipunarinnar um upprunaríki þá ekki lengur um þessar sjónvarpsstöðvar.

Af því leiðir að leyfi Ofcom í Bretlandi gilda ekki lengur á EES-svæðinu öllu, þar á meðal á Íslandi. Færi stöðvarnar sig hins vegar í lögsögu annar EES-ríkis og fái þar leyfi til myndmiðlunar gildir slíkt leyfi innan EES, þar á meðal á Íslandi. Þá mun Sáttmáli Evrópuráðsins um sjónvarp yfir landamæri gilda áfram í þeim rúmlega 20 EES-ríkjum sem eru aðilar að honum en Ísland er ekki eitt af þeim.

Brexit hefur ekki bara áhrif á endurvarp alþjóðlegra sjónvarpsstöðva frá Bretlandi, heldur líka á þær sem eru í lögsögu annarra EES-ríkja og beina efni sínu að Bretlandi. Þessar sjónvarpsstöðvar verða að finna sér nýtt „heimili“ eftir Brexit. Ein íslensk sjónvarpsstöð stendur í þessum sporum: Gospel Channel Europe, í eigu Kristniboðskirkjunnar Omega, er í íslenskri lögsögu en aðgengileg í bresku sjónvarpi.

Sáttmáli Evrópuráðsins um sjónvarp yfir landamæri

Sáttmáli Evrópuráðsins um sjónvarp yfir landamæri tók gildi 1993 og  felur í sér að aðildarríkjum er óheimilt að takmarka móttöku og endurvarp sjónvarpsdagskrár sem uppfyllir skilmála hans.

Yfir 20 EES-ríki eru aðilar að sáttmálanum en Ísland, Belgía, Lúxemborg, Grikkland, Holland, Svíþjóð og Danmörk eru ekki þar á meðal. Væri Ísland aðili að sáttmálanum væru sjónvarpsstöðvar í breskri lögsögu sjálfkrafa með gilt leyfi fyrir sjónvarpsútsendingum hér á landi á grundvelli hans. Hið sama myndi eiga við um íslenskar stöðvar sem beina sjónvarpsútsendingum að Bretlandi.

Sá hængur er þó á sáttmála Evrópuráðsins um sjónvarp yfir landamæri að hann hefur ekki verið uppfærður frá því árið 1998 og endurspeglar því hvorki þær tækniframfarir sem orðið hafa á fjölmiðlamarkaði né þær breytingar sem urðu með hljóð- og myndmiðlunartilskipun ESB 2007. Hann tekur t.d. ekki á vernd barna og viðskiptaboðum með sama hætti og hljóð- og myndmiðlunartilskipun ESB. Þá tekur hann ekki til fjölmiðla sem miðla myndefni eftir pöntun.

Tvær gerðir myndmiðlunarleyfa eftir Brexit

Breska fjölmiðla- og fjarskiptaeftirlitið Ofcom birti nýverið leiðbeiningar þar sem fjallað er um drög bresku ríkisstjórnarinnar að breytingum á reglum um leyfisveitingar til myndmiðla, miðað við Brexit án samnings. Samkvæmt þeim verða leyfisveitingar tvenns konar: Leyfi móttökuríkis annars vegar og leyfi á grundvelli Sáttmála Evrópuráðsins um sjónvarp yfir landamæri hins vegar:

Leyfi móttökuríkis: Allar sjónvarpsstöðvar sem birtast á rafrænum dagskrárvísi í bresku sjónvarpi þurfa að hafa leyfi frá Ofcom í Bretlandi. Undantekningar frá þeirri reglu eru:

  • sjónvarpsstöðvar í lögsögu ríkja sem eru aðilar að Sáttmála Evrópuráðsins um sjónvarp yfir landamæri.
  • írsku sjónvarpsstöðvarnar TG4, RTÉ1 og RTÉ2.
  • sjónvarpsstöðvar sem eingöngu miðla efni sínu á netinu.

Leyfi á grundvelli Sáttmála Evrópuráðsins um sjónvarp yfir landamæri:

  • Sjónvarpsstöðvar sem eru í breskri lögsögu og sjónvarpa til EES-ríkja sem eru aðilar að Sáttmála Evrópuráðsins þurfa einungis leyfi frá Ofcom í Bretlandi, þar sem Bretland er aðili að sáttmálanum.
  • Sjónvarpsstöðvar sem sjónvarpa til EES-ríkja sem ekki eru aðilar að Sáttmála Evrópuráðsins verða annað hvort að staðsetja sig í móttökuríkinu eða í öðru aðildarríki EES og sækja um leyfi þar.

Þýskaland og Holland keppa um stóru stöðvarnar

Sjónvarpsstöðvar í breskri lögsögu hafa haft drjúgan tíma til undirbúnings og eiga að vera tilbúnar með plan B ef til þess kemur að Bretland gangi úr ESB án samnings. Svo virðist sem Þýskaland og Holland séu að vinna kapphlaupið um það í hvaða ríki flestar stóru alþjóðlegu stöðvarnar kjósa þá að staðsetja sig, þar sem stöðvarnar eru nú þegar með einhverja starfsemi í þessum löndum en framfærslukostnaður er einnig talinn hafa áhrif.

Fjölmiðillinn The Irish Times greindi frá því í mars á þessu ári að BBC hefði hætt við að færa sig í írska lögsögu, eins og áður hafði komið til greina. Þess í stað er talið að BBC hyggist flytja alþjóðlega hluta starfsemi sinnar (BBC World, BBC Entertainment, BBC First, and BBC Earth) til Amsterdam eða Brussel. Tvö stór fjölmiðlafyrirtæki hafa orðið sér úti um leyfi frá bæverska fjölmiðlaeftirlitinu í Þýskalandi: Turner Broadcasting System Europe, sem er hluti af AT&T Warner Media, og á Boomerang og Cartoon Network sjónvarpsstöðvarnar, og NBC Universal, sem á sjónvarpsstöðina E! Bandaríski risinn Discovery gaf til kynna í janúar að fyrirtækið myndi sækja um leyfi í Hollandi, þar sem það er nú þegar með skrifstofu í Amsterdam. Jafnframt hefur Viacom, eigandi MTV, orðið sér úti um leyfi vegna stöðva sem beint er að frönskum og dönskum áhorfendum.

Nokkrar sjónvarpsstöðvar eru með sín mál í biðstöðu, þar til vitað er fyrir víst hver niðurstaðan verður: Brexit, með eða án samnings. Þær stöðvar sem enn eiga eftir að tryggja sér leyfi á EES-svæðinu gætu lent í því að á útsendingum þeirra verði hreinlega slökkt í einstaka aðildarríkjum, komi til útgöngu Breta úr Evrópusambandinu án samnings. Á vef Ofcom segir þó að gera megi ráð fyrir að sjónvarpsstöðvum, sem miðla efni yfir landamæri, verði veittur aðlögunartími til desember 2020 til að afla sér tilskilinna leyfa ef til Brexit án samnings kemur. Líkur á harkalegum aðgerðum eru því ekki taldar miklar.