Fjölmiðlanefnd skipuð til næstu fjögurra ára

Mennta- og menningarmálaráðherra hefur skipað fjölmiðlanefnd til næstu fjögurra ára.

Fjölmiðlanefnd skipa:

– Einar Hugi Bjarnason hæstaréttarlögmaður, formaður, skipaður af ráðherra án tilnefningar.

Einar Hugi Bjarnason, formaður fjölmiðlanefndar, lauk embættisprófi í lögfræði frá Háskóla Íslands árið 2005, öðlaðist réttindi sem héraðsdómslögmaður 2006 og réttindi til málflutnings fyrir Hæstarétti Íslands 2012. Einar Hugi er einn af eigendum Lögfræðistofu Reykjavíkur ehf. Einar Hugi hefur setið í stjórnum fjölmargra félaga um lengri og skemmri tíma, oftast tengt lögmannsstörfum. Frá árinu 2013 hefur Einar sinnt stundakennslu við lagadeild Háskóla Íslands. Einar hefur einnig setið í ýmsum nefndum á vegum hins opinbera. Einar Hugi kom að gerð frumvarps til laga um styrki til einkarekinna fjölmiðla sem lagt verður fyrir á 150. löggjafarþingi Alþingis 2019-2020. Þá hefur Einar Hugi flutt fjölda dómsmála á sviði fjölmiðlaréttar.

– María Rún Bjarnadóttir lögfræðingur, varaformaður, tilnefnd af Hæstarétti.

María Rún Bjarnadóttir, varaformaður fjölmiðlanefndar, er lögfræðingur sem leggur stund á doktorsnám í lögfræði við lagadeild Sussex háskóla í Englandi. Rannsóknir hennar varða áhrif tækniþróunar á mannréttindi, sérstaklega tjáningarfrelsi og friðhelgi einkalífs, en einnig á samfélagslega innviði á borð við fjölmiðlun og löggæslu. Hún hefur tekið þátt í alþjóðlegum og norrænum rannsóknarverkefnum sem hafa meðal annars varðað mörk samfélagsmiðla og fjölmiðla og stöðu og takmarkanir tjáningarfrelsisins á netinu. Hún starfaði um árabil hjá Stjórnarráði Íslands þar sem hún bar ábyrgð á undirbúningi lagasetningar og stefnumótun á sviði mannréttinda, persónuverndar og fjarskiptaréttar og var fulltrúi íslenskra stjórnvalda í innlendu og alþjóðlegu samstarfi. María hefur sinnt stundakennslu í lögfræði, fjölmiðlafræði og lögreglufræði við Háskóla Íslands, Sussex háskóla og Háskólann á Akureyri. Þá sinnir hún reglulega lögfræðilegri ráðgjöf fyrir innlenda aðila á sviði mannréttinda, fjölmiðlaréttar, stjórnsýsluréttar og jafnréttismála. María Rún hefur setið í fjölmiðlanefnd frá í apríl 2019.

– Finnur Beck héraðsdómslögmaður, tilnefndur af Hæstarétti.

Finnur Beck lauk B.A. prófi í stjórnmálafræði árið 2002 og fullnaðarprófi í lögfræði frá Háskólanum í Reykjavík árið 2010. Hann öðlaðist réttindi sem héraðsdómslögmaður árið 2010. Finnur hefur verið lögfræðingur HS Orku hf. frá árinu 2015, auk þess að vera settur forstjóri fyrirtækisins um þessar mundir en starfaði áður hjá Landslögum 2009-2015. Finnur var fréttamaður á fréttastofu Sjónvarps hjá Ríkisútvarpinu 2000-2007 og gegndi stöðu vaktstjóra síðustu árin. Hann hefur gegnt ýmsum trúnaðarstörfum, sat þar á meðal í stjórn Félags fréttamanna 2002-2003 og var formaður þverpólitískrar nefndar á vegum mennta- og menningarmálaráðherra um aðgang stjórnmálahreyfinga og frambjóðenda að fjölmiðlum í aðdraganda kosninga, 2012-2013. Þá sinnti Finnur stundakennslu í stjórnskipunarrétti við Háskólann í Reykjavík 2011-2016. Finnur hefur setið í fjölmiðlanefnd frá í janúar 2018.

– Róbert H. Haraldsson, prófessor í heimspeki og kennslustjóri Háskóla Íslands, tilnefndur af samstarfsnefnd háskólastigsins.

Róbert H. Haraldsson, prófessor í heimspeki og kennslustjóri Háskóla Íslands, lauk BA-­prófi í heim­speki og sál­ar­fræði frá Háskóla Íslands árið 1985 og dokt­ors­prófi í heim­speki frá Háskól­anum í Pitts­burgh árið 1997. Róbert hefur kennt við Háskóla Íslands frá árinu 1992 og verið pró­fessor í heim­speki frá árinu 2007. Róbert hefur sinnt marg­vís­legum trún­að­ar- og stjórn­un­ar­störfum innan Háskóla Íslands og einnig  starfað sem ráð­gjafi með ýmsum fag­fé­lög­um, fyr­ir­tækjum og stofn­unum á Íslandi. Hann var meðrit­stjóri tíma­rits­ins Skírn­is árin 1995-2000 og nor­ræna heim­speki­tíma­rits­ins SATS árin 2001-2015. Þá hefur hann setið í siðanefnd Blaðamannafélags Íslands, með hléum, frá 1991 og starfað sem ritdómari á Morgunblaðinu. Róbert hefur setið í fjölmiðlanefnd frá í nóvember 2017.

Varamenn:
– Hulda Árnadóttir hæstaréttarlögmaður

– Marteinn Másson hæstaréttarlögmaður
– Erla Skúladóttir héraðsdómslögmaður
– Birgir Guðmundsson, dósent í fjölmiðlafræði við Háskólann á Akureyri

Skipunartímabil nefndarinnar er frá 1. september 2019 til 31. ágúst 2023

Uppfært 30.10. 2019 með frekari upplýsingum um nefndarmenn.