Facebook býður upp á áfengisauglýsingar fyrir börn og ungmenni

Sænska dagblaðið Dagens Nyheter birti í lok árs 2019 grein þar sem bent var á að áfengisauglýsendum væri nú boðinn sá valmöguleiki af hálfu Facebook að höfða sérstaklega til barna á aldrinum 13 – 17 ára.  Facebook hefur safnað gríðarlegu magni upplýsinga um notendur sína í gegnum forritin Facebook og Instagram, auk þess sem miðillinn á bæði Messenger og WhatsApp. Byggt á þessum persónuupplýsingum býður Facebook auglýsendum að beina auglýsingum til barna sem talin eru hafa áhuga á áfengi og áfengisneyslu.

Blaðamenn Dagens Nyheter ákváðu að rannsaka hvernig hægt væri að ná til þessa aldurshóps í gegnum Facebook og bjuggu til fyrirtækjasíðu á Facebook þar kannaðir voru möguleikar á að höfða til tiltekinna markhópa. Með því að beina sjónum sínum að 13  – 17 ára gömlum börnum sem talin voru hafa áhuga á „áfengum drykkjum“ „víni“, „bjór“ og „að verða drukkinn“ bauð miðillinn upp markhóp sem innihélt 82.000 ungmenni í Svíþjóð.

Með sama hætti var hægt að finna markhóp barna sem hafði áhuga á peningaspilum. Þannig var hægt að höfða til 28.000 sænskra ungmenna með sambærilegum hætti með því að auglýsa á Facebook.

Í greininni var rætt við sérfræðinga í markaðsmálum sem lýstu furðu sinni á því að Facebook bjóði upp á auglýsingar fyrir börn og ungmenni sem hafi áhuga á áfengi. Bent var á að hver sem er geti þó ekki keypt slíkar auglýsingar því Facebook reyni að hafa ákveðið eftirlit með auglýsingum á miðlum sínum. Ákveðnar glufur væru í eftirlitinu þar sem börn sem hefðu áhuga á peningaspilum gætu verið móttækileg fyrir ýmsu öðru sem væri ávanabindandi, t.d. smálánum.

Sýnt hefur verið fram á að vandamálið er ekki aðeins bundið við Svíþjóð, rannsóknir í Danmörku og Bretlandi hafa sýnt sambærilegar niðurstöður.