Áhrif upplýsingaóreiðu á opin lýðræðissamfélög

Í tæknivæddu nútímasamfélagi, þar sem unnt er að dreifa miklu magni upplýsinga á ljóshraða á netinu, reynist oft erfitt að greina muninn á réttum og röngum upplýsingum. Annars vegar upplýsingum sem ætlað er að upplýsa og fræða almenning og hins vegar röngum upplýsingum sem dreift er í þeim tilgangi að valda skaða og sundrungu og grafa undan lýðræðinu. Slíkar upplýsingar hafa stundum verið kallaðar „falsfréttir“. Hugtakið falsfréttir nær þó ekki að lýsa fyrirbærinu fullkomlega og er því nú oftar talað um „upplýsingaóreiðu“ (e. disinformation) sem er víðtækara hugtak.

Ástæða þess að notast er við hugtakið „upplýsingaóreiða“ í stað „falsfrétta“ er einnig sú að fjölmiðlar hafa í auknum mæli þurfa að þola að stjórnmálamenn misnoti hugtakið „falsfréttir“ til að draga athyglina frá þeirri réttmætu gagnrýni sem í fréttunum kann að felast. Aðferðafræðin er ekki ný af nálinni því nasistar í Þýskalandi notuðu hugtakið „Lügenpresse“ (lygamiðlar) yfir þá fjölmiðla sem voguðu sér að gagnrýna þá.

Fjölmiðlar eru oft nefndir hliðverðir upplýsinga. Þeirra hlutverk er að tryggja að almenningur fái réttar og áreiðanlegar upplýsingar og geti myndað sér skoðun út frá þeim. Lengi vel stýrðu hefðbundnir fjölmiðlar upplýsingaflæðinu til almennings en sú heimsmynd gjörbreyttist með tilkomu samfélagsmiðla og gervigreindar. Netið hefur ekki aðeins aukið magn og fjölbreytni frétta og upplýsinga, heldur hefur það einnig breytt því hvernig almenningur aflar sér upplýsinga og miðlar þeim áfram. Sífellt fleiri nálgast fréttir á samfélagsmiðlum, á borð við Facebook og Twitter, auk þess sem margir nýta leitarvélar eins og Google til að leita að fréttum og upplýsingum. Á sama tíma hefur upplýsingaóreiða færst í aukana á slíkum miðlum, þar sem ný tækni, sem byggir á gervigreind og umfangsmikilli söfnun persónuupplýsinga, er nýtt til að dreifa röngum upplýsingum á ógnarhraða og hafa þannig áhrif á skoðanir almennings.

Eflaust sáu fæstir fyrir þær miklu samfélagsbreytingar sem hröð þróun upplýsingatækni síðustu ára hefur haft í för með sér. Hefðbundin landamæri gilda ekki um netið þar sem myndir, texti og myndbönd flæða á milli fjölmargra tölvuneta sem tengd eru saman á heimsvísu. Samfélagsmiðlar og gervigreind eru nú grundvöllur þess að unnt sé að sníða upplýsingar að einstaklingum eða hópum fólks og miðla efni af meiri hraða og nákvæmni en áður hefur þekkst. Þrátt fyrir þessar miklu breytingar hafa hefðbundnir fjölmiðlar ennþá ríku hlutverki að gegna og segja má að hlutverk þeirra hafi sjaldan verið mikilvægara en á tímum samfélagsmiðla og upplýsingaóreiðu.

Rangar upplýsingar dreifast hraðar

Í fræðilegri umfjöllun hefur hugtakið upplýsingaóreiða verið flokkað í þrennt. Í fyrsta lagi tekur hugtakið til þess þegar röngum upplýsingum er deilt en er ekki ætlað að valda skaða (e. mis-information). Í öðru lagi á það við um rangar upplýsingar sem deilt er og ætlað er að valda skaða (e. dis-information). Í þriðja lagi getur upplýsingaóreiða tekið til þess að réttum upplýsingum sé deilt og ætlað er að valda skaða (e. mal-information). Dæmi um hið síðastnefnda er þegar persónulegum tölvupóstum, sem ekki eru ætlaðir til opinberrar birtingar, er miðlað til almennings.

Upplýsingaóreiða skýtur helst upp kollinum þegar um umdeild samfélagsleg málefni er að ræða. Það sem einkennir hana eru stutt og hnitmiðuð skilaboð sem hreyfa tilfinningalega við fólki, höfða til almennings með sjónrænum hætti og fela í sér áhrifamikla frásögn. Slík skilaboð og frásagnir dreifast hraðar á samfélagsmiðlum en hlutlaus og lágstemmd skilaboð.

Markmiðið með upplýsingaóreiðu er að dreifa áróðri eða hafa villandi áhrif á samfélagslega umræðu. Hún hefur áhrif á möguleika fólks til að afla sér réttra upplýsinga t.a.m. um stefnu og ákvarðanir stjórnvalda og annað sem varðar hagsmuni almennings. Upplýsingaóreiða hefur þannig neikvæð áhrif á upplýsta umræðu um samfélagsleg málefni. Þá stuðlar hún að sundrungu í samfélagslegri umræðu og getur aukið spennu á milli ólíkra þjóðfélagshópa. Síðast en ekki síst grefur upplýsingaóreiða undan kosningakerfum og getur haft alvarleg áhrif á þjóðaröryggi.

Vandasamt getur verið að bregðast við ógnunum af slíku tagi þar sem yfirleitt er lögð áhersla á að fela hvaðan upplýsingarnar koma. Upplýsingaóreiða er þannig skýrt dæmi um það þegar tækniframfarir eru skrefi á undan aðgerðum stjórnvalda til að bregðast við áskorunum.

Skýrar reglur um fjölmiðla – ekki um samfélagsmiðla

Í stjórnarskrá íslenska lýðveldisins er kveðið á um grundvallarréttindi borgaranna. Í henni eru að finna þau gildi sem liggja opnu lýðræðissamfélagi til grundvallar. Ein mikilvægasta reglan sem þar er að finna er rétturinn til að taka við og miðla upplýsingum, hugmyndum og skoðunum. Heimilt er að takmarka tjáningarfrelsið með lögum ef slíkt er talið nauðsynlegt í lýðræðissamfélögum, að tilteknum skilyrðum uppfylltum, til dæmis ef dreifing upplýsinga er talin ógna þjóðaröryggi eða lýðheilsu þjóðarinnar.

Hefðbundnum fjölmiðlum, þ.e. fréttamiðlum sem miðlað er í sjónvarpi, útvarpi, í dagblöðum og vefmiðlum, er ætlað að gæta að reglum um hlutlægni og nákvæmni í samræmi við vinnubrögð í faglegri blaða- og fréttamennsku.  Hér á landi er slíkar reglur að finna í 26. gr. laga um fjölmiðla nr. 38/2011 og í 4. mgr. 3. gr. laga um Ríkisútvarpið nr. 23/2013. Störf blaðamanna hér á landi taka einnig mið af siðareglum Blaðamannafélags Íslands, auk þess sem algengt er að ritstjórnir fjölmiðla setji sér eigin siða- og vinnureglur.

Á meðan skýrar reglur gilda um störf hefðbundinna fjölmiðla gilda engin sérlög um samfélagsmiðla hér á landi. Í ljósi skaðlegra áhrifa upplýsingaóreiðu á lýðræði og upplýsingarétt almennings hafa nágrannaríki okkar mörg hver tekið þessi mál til gagngerrar skoðunar á síðustu árum og gert tilraunir til að stemma stigu við dreifingu falskra og rangra upplýsinga á samfélagsmiðlum.

Aðgerðir Evrópusambandsins

Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins hvatti til aðgerða í ríkjum sambandsins fyrir þingkosningarnar árið 2019. Þá setti hún fram verkáætlun til að draga úr áhrifum upplýsingaóreiðu í álfunni og vernda grundvallargildi lýðræðissamfélaga. Í henni er lögð megináhersla á fjóra þætti. Í fyrsta lagi að finna leiðir til að greina og upplýsa um upplýsingaóreiðu, í öðru lagi að styrkja samvinnu ríkja EES og samhæfa aðgerðir, í þriðja lagi að auka samstarf milli stjórnvalda og samfélagsmiðla til að vinna gegn upplýsingaóreiðu og upplýsa almenning um hættuna sem stafar af upplýsingaóreiðu og í fjórða lagi að stuðla að auknu viðnámi þjóða við upplýsingaóreiðu. 

Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins beitti sér einnig fyrir því að Facebook, Google og Twitter gerðu ráðstafanir vegna upplýsingaóreiðu í aðdraganda kosninga til Evrópuþingsins 2019 og væru reiðubúin að grípa til aðgerða ef á þyrfti að halda. Framkvæmdastjórnin hefur á síðustu mánuðum metið hvernig tekist hefur til í aðildarríkjum sambandsins eftir Evrópuþingskosningarnar og er upplýsinga að vænta innan tíðar.

Evrópusambandið hefur einnig sett reglur til að draga úr upplýsingaóreiðu, sem stærstu samfélagsmiðlarnir, auglýsendur og samtök auglýsenda hafa skuldbundið sig til að fylgja. Reglurnar taka til eftirfarandi fimm sviða; a) að koma í veg fyrir fjárhagslegan hvata til að miðla röngum og misvísandi skilaboðum, b) stuðla að auknu gagnsæi varðandi kaupendur auglýsinga á samfélagsmiðlum, c) vinna gegn falsnotendum og yrkjum, d) upplýsa notendur og gera þeim kleift að kvarta undan röngum og misvísandi skilaboðum, e) hvetja rannsakendur til að fylgjast með dreifingu slíkra skilaboða.

Ýmis ríki Evrópu hafa talið of mikið í húfi til að unnt sé bíða eftir samræmdum aðgerðum Evrópusambandsins á þessu sviði. Árið 2017 tóku gildi lög í Þýskalandi sem ætlað var að vinna gegn haturstali og upplýsingaóreiðu og síðla árs 2018 var samþykkt löggjöf gegn dreifingu falsfrétta í Frakklandi. 

Þýsk löggjöf um haturstal og upplýsingaóreiðu

Í Þýskalandi hafa verið sett lög um samfélagsmiðla (þ. Gesetz zur Verbesserung der Rechtsdurchsetzung in sozialen Netzwerken, NetzDG), sem gilda um samfélagsmiðla sem hafa fleiri en tvær milljónir notenda í Þýskalandi. Undir lögin falla því allir stærstu samfélagsmiðlarnir líkt og Facebook, YouTube og Instagram.

Samkvæmt lögunum þurfa samfélagsmiðlar, sem fá yfir 100 kvartanir á ári vegna ólögmæts efnis, að gefa út skýrslur á hálfs árs fresti varðandi afgreiðslu þeirra. Með ólögmætu efni er átt við efni sem nánar er skilgreint í tilgreindum ákvæðum þýsku hegningarlaganna. Þar á meðal eru móðganir, ærumeiðingar og fullyrðingar sem ekki er hægt að færa sönnur á, þ.m.t. falsfréttir, efni sem sýnir ofbeldi, barnaklám o.fl.

Í skýrslunum þarf m.a. að koma fram til hvaða ráðstafana samfélagsmiðlarnir hafa gripið til að fjarlægja ólögmætt efni, við hvaða mælikvarða er stuðst við mat því á hvort efni telst ólögmætt og nákvæm útlistun á fjölda kvartana og innihaldi þeirra. Þá þurfa miðlarnir að upplýsa um hversu mikið efni hafi verið fjarlægt og af hverju, hversu langan tíma hafi tekið að bregðast við o.fl. Lögin gera ráð fyrir að ferlið í kringum afgreiðslu kvartana sé skilvirkt og gagnsætt. Þannig þarf að vera auðvelt fyrir notendur að leggja fram kvörtun og tilkynna þarf um afdrif kvörtunar með rökstuddum hætti innan þröngra tímamarka, allt frá 24 klukkustundum til sjö sólarhringa eftir eðli mála.

Brot gegn ákvæðum laganna, svo sem ófullnægjandi skýrslugjöf, varða sektum, allt að fimm milljónum evra. Í dæmaskyni má nefna að Facebook hefur nú þegar verið sektað um nokkrar milljónir evra vegna brota á þeim. Rétt er að láta þess getið að fyrirtækið hefur borið því við að lögin standist ekki stjórnarskrá og að það muni láta reyna á rétt sinn fyrir dómstólum.

Frönsk löggjöf um falsfréttir

Í Frakklandi eru í gildi ýmis lög sem ætlað er að stemma stigu við  falsfréttum. Samkvæmt frönsku lögunum um prentfrelsi frá 1881 má banna dreifingu falsfrétta sem geta ógnað almannafriði. Auk þess er að finna í frönsku kosningalögunum ákvæði sem bannar dreifingu falsfrétta er geta haft áhrif á úrslit kosninga. Nýlega voru svo samþykkt lög í Frakklandi sem gilda sérstaklega um útbreiðslu falsfrétta á netinu í miklu magni fyrir kosningar (f. Les enjeux de la loi contre la manipulation de l’information). Lögin skylda stærri netmiðla til að fylgja ákveðnum reglum þremur mánuðum fyrir kosningar til að koma í veg fyrir útbreiðslu falsfrétta. Reglurnar kveða m.a. á um að upplýsa verði hverjir standi að baki kostuðu efni og hversu mikið þeir hafi greitt. Í lögunum er einnig að finna heimild til sérstaks lögbanns sem dómari má grípa til innan þriggja mánaða fyrir kosningar til að hindra útbreiðslu falskra eða misvísandi upplýsinga á netinu. Hver sem á hagsmuna að gæta getur farið fram á lögbann og þarf dómari að taka afstöðu til þess innan 48 klukkustunda frá því að beiðni kemur fram. Franska fjölmiðlaeftirlitið getur einnig komið í veg fyrir útsendingar sjónvarpsstöðva, sem er stjórnað af eða eru undir áhrifum annars ríkis, þremur mánuðum fyrir kosningar ef talið er að um vísvitandi dreifingu falskra upplýsinga sé að ræða. Samkvæmt lögunum þurfa stærri netmiðlar að innleiða ráðstafanir til að koma í veg fyrir útbreiðslu falskra upplýsinga. Notendur eiga auk þess að geta tilkynnt auðveldlega um slíkar upplýsingar. Jafnframt þurfa miðlarnir að gefa árlega skýrslu til franska fjölmiðlaeftirlitsins um þær ráðstafanir sem gripið hefur verið til.

Löggjöf og úrræði á Norðurlöndum

Svíþjóð er eina Norðurlandaþjóðin sem sett hefur sérlög um samfélagsmiðla (s. Lag om ansvar för elektroniska anslagstavlor nr. 112/1998). Lögin gilda um rafræna miðlun upplýsinga af öllu tagi og skylda þjónustuaðila, sem halda úti samfélagsmiðlum á netinu, að koma í veg fyrir miðlun ólögmætra upplýsinga með því að fjarlægja þær af miðlum sínum. Til ólögmætra upplýsinga teljast m.a. hótanir, upplýsingar sem fela í sér friðhelgisbrot, hatursáróður gegn þjóðarbrotum, barnaklám og ólögmætar ofbeldislýsingar. Þá geta skilaboð sem hvetja til hryðjuverka og annarrar refsiverðrar háttsemi varðað viðurlögum samkvæmt öðrum lögum. Í dæmaskyni má nefna lög nr. 299/2010 um sakarábyrgð vegna liðssöfnunar, þjálfunar og hvatningar til hryðjuverka og annarra sérlega hættulegra glæpa (s. Lag om straff för offentlig uppmaning, rekrytering och utbildning avseende terroristbrott och annan särskilt allvarlig brottslighet).

Aðrar Norðurlandaþjóðir hafa ekki sett sérlög um samfélagsmiðla. Um miðlun upplýsinga á slíkum miðlum gilda því hin almennu ákvæði stjórnarskrár, persónuverndarlaga, hegningarlaga, höfundalaga og eftir atvikum annarra laga.  Þá er rétt að geta þess að með lögum nr. 139/2018, sem tóku gildi 1. janúar 2018, voru gerðar breytingar á lögum nr. 162/2006 um fjármál stjórnmálasamtaka og frambjóðenda um upplýsingaskyldu þeirra. Í lagabreytingunni fólst m.a. að heimilt er að sekta stjórnmálasamtök, kjörna fulltrúa þeirra og frambjóðendur, ef þeir taka þátt í að fjármagna eða birta efni eða auglýsingar í tengslum við stjórnmálabaráttu, án þess að fram komi við birtingu á efni að efni sé birt að tilstuðlan eða með þátttöku þeirra. Í greinargerð með frumvarpi því sem varð að lögum nr. 139/2018 kemur fram að um sé að ræða nýmæli í lögum sem ætlað sé að sporna við nafnlausum kosningaáróðri sem nokkuð hafi borið á í kosningum síðustu ára, einkum á samfélagsmiðlum.

Að lokum

Aðgerðir Þjóðverja og Frakka til að stemma stigu við hatursáróðri og falsfréttum hafa sætt gagnrýni og verið af sumum taldar ógna tjáningar- og upplýsingafrelsi almennings, meðal annars vegna þess að rík hætta sé á því að fleiri upplýsingum verði eytt en nauðsynlegt er sem sé  andstætt viðteknum gildum í lýðræðislegu samfélagi.

Þessi umræða er að mörgu leyti skiljanleg en á hinn bóginn er mikilvægt að hafa í huga að ef upplýsingaóreiða er látin viðgangast getur það leitt til þess að traust og tiltrú almennings á stjórnvöldum, lýðræðislegri stjórnskipan og samfélagsgildum minnki. Slík þróun er almennt talin skapa hættu fyrir opin lýðræðisríki.

Á Íslandi hafa engin sérlög um samfélagsmiðla verið sett og greinarhöfundi er ekki kunnugt um að umræða um slíka lagasetningu hafi farið fram hér á landi að nokkru marki. Æskilegt er að slík umræða fari fram, þ.m.t. um nauðsyn sérstakrar lagasetningar á þessu sviði. Í þeirri umræðu er mikilvægt að horfa til þeirra erlendu fyrirmynda sem raktar hafa verið í þessari þessari grein. Þegar metið er hversu langt á að ganga til að bregðast við upplýsingaóreiðu og falsfréttum hlýtur hið stjórnarskrárvarða tjáningarfrelsi að vera grunnstefið og ljóst að löggjöfin má ekki vera þannig úr garði gerð að unnt verði að misnota hana til allsherjar ritskoðunar á netinu.  

Einar Hugi Bjarnason, hæstaréttarlögmaður og formaður fjölmiðlanefndar

Greinin birtist fyrst í febrúar í Hátíðarriti Orators 2020.