Árvekniátakið Stoppa, hugsa, athuga

Fjölmiðlanefnd stendur að baki árvekniátakinu Stoppa, hugsa, athuga í samstarfi við Embætti landlæknis og Vísindavefinn, með stuðningi frá Facebook. Í átakinu er sjónum beint að falsfréttum og hæfni okkar til að greina þær. Átakinu hefur nú verið ýtt úr vör og er markmið þess að efla gagnrýna hugsun og miðlalæsi almennings og benda á mikilvægi faglegra fjölmiðla.  Athygli er vakin á því að röngum og misvísandi upplýsingum er oft dreift af ásetningi á samfélagsmiðlum og því mikilvægt að geta greint á milli falsfrétta og alvöru frétta. Að þessu sinni er sjónum sérstaklega beint að rangfærslum og misvísandi upplýsingum vegna COVID-19 á samfélagsmiðlum.

Árvekniátakið Stoppa, hugsa, athuga er að norskri fyrirmynd og er þýtt og staðfært með góðfúslegu leyfi Medietilsynet í Noregi. Hliðstæðum verkefnum hefur einnig verið hleypt af stokkunum í öðrum ríkjum, t.d. Stop, Think, Check á Írlandi og SHARE í Bretlandi.

Um þessar mundir flæða falsfréttir og upplýsingaóreiða um nýju kórónuveiruna um internetið. Þetta eru rangar og villandi upplýsingar, klæddar í búning alvöru frétta, sem geta haft mótandi áhrif á skoðanir, hugmyndir og heilsufar almennings.  Nýlegar rannsóknir, m.a. frá Medietilsynet í Noregi, hafa sýnt fram á að fjórir af hverjum tíu einstaklingum eiga í erfiðleikum með að greina falsfréttir frá réttum upplýsingum og að einstaklingar sem eru sextíu ára og eldri eiga erfiðara með að greina falsfréttir en aðrir aldurshópar.

Boðskapur átaksins er einfaldur: Stoppaðu, hugsaðu þig um og athugaðu fleiri heimildir þegar þú leitar upplýsinga. Í árvekniátakinu er byggt á ýmsum spurningum um COVID-19 sem svarað hefur verið á Vísindavefnum. Almenningur getur skoðað myndband og tekið þátt í spurningaleik til að læra meira um muninn á rangfærslum og fréttum í faglegum fjölmiðlum, auk þess sem hægt er að leita frekari upplýsinga um viðfangsefnið á vef fjölmiðlanefndar.

Árvekniátakið er tímabundið og fer einungis fram á Facebook og Instagram og er því ætlað að ná til allra notenda þessara samfélagsmiðla hér á landi. Facebook styður við átakið með því að birta efnið endurgjaldslaust, með sama hætti og stutt hefur verið við sambærileg árvekniátök í öðrum ríkjum Evrópu.